1. gr.
Allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Þá er bátum sem hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki óheimilt að stunda veiðar með rauðmaganetum nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.
2. gr.
Aðeins er heimilt að veita þeim bátum leyfi til grásleppuveiða, sem rétt áttu til slíkra leyfa á vertíðinni 1997, sbr. reglugerð nr. 58/1996, enda hafi þeir leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Óheimilt er að veita bátum, sem eru stærri en 15 bt., leyfi til grásleppuveiða, hafi þeir ekki haft leyfi til veiða á grásleppu vertíðina á undan. Heimilt er að binda leyfi til hrognkelsaveiða þeim skilyrðum sem þurfa þykir, m.a. varðandi skýrsluskil um veiðarnar.
3. gr.
Flutningur grásleppuveiðileyfis milli báta er bundinn þeim skilyrðum að bátur, sem leyfi er flutt frá, hafi haft það í a.m.k. eina vertíð, að bátur sem leyfi er flutt til hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni og sé ekki meira en 2,5 brúttótonnum stærri en bátur, sem leyfi er flutt frá og að eigendur báts, sem leyfi er flutt frá, hafi undirritað beiðni um flutninginn.
4. gr.
Við sölu báts, sem hefur leyfi til grásleppuveiða, fylgir leyfið bátnum nema um annað sé samið í kaupsamningi. Hafi seljandi báts, með grásleppuveiðileyfi, tekið fram í kaupsamningi, að grásleppuveiðileyfið fylgdi ekki með við sölu bátsins, hefur seljandinn heimild til að flytja leyfið á annan bát, enda hafi sá bátur leyfi til veiða í atvinnuskyni og sé innan stærðarmarka sbr. 2. gr. Tilkynna skal til Fiskistofu fylgi leyfi til grásleppuveiða ekki báti við sölu hans. Nýti seljandi ekki ofangreinda heimild til að flytja grásleppuveiðileyfi á annan bát næstu tvær vertíðir frá sölu bátsins fellur leyfið niður. Ákvæði þessarar greinar taka eftir því sem við á einnig til þess tilviks, þegar bátur er tekinn af skipaskrá Siglingastofnunar Íslands.
5. gr.
Eingöngu er heimilt að nota við hrognkelsaveiðar þann bát, sem tilgreindur er í veiðileyfi. Ekki er heimilt að stunda á sama tíma veiðar á grásleppu og netaveiðar á þorskfiski. Um hrognkelsaveiðar krókabáta vísast til reglna um veiðar krókaaflamarksbáta. Bátum sem hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki er óheimilt að stunda í sömu veiðiferð veiðar á grásleppu eða rauðmaga og veiðar með línu og/eða handfærum.
6. gr.
Hvert leyfi til grásleppuveiða skal bundið við ákveðið veiðisvæði og veiðitíma:
A: |
Vesturland, frá línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurflögum. |
B: |
Breiðafjörður, frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurflögum að línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum. |
C: |
Vestfirðir, frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum að línu réttvísandi norður frá Horni. |
D: |
Húnaflói, frá línu réttvísandi norður frá Horni að línu réttvísandi norður frá Skagatá. |
E: |
Norðurland, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi. |
F: |
Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi að línu réttvísandi austur frá Hvítingum. |
G: |
Suðurland, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum að línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita. |
Veiðileyfi hvers báts skal gefið út til 50 samfelldra daga innan veiðitímabilsins 10. mars - 20. júlí, sbr. þó ákvæði 2. málsl. Á Breiðafirði innan línu, sem dregin er úr Krossnesvita vestan Grundarfjarðar í Lambanes vestan Vatnsfjarðar er veiðitímabil frá og með 20. maí til og með 9. ágúst og er óheimilt að stunda grásleppuveiðar á því svæði utan þess tímabils.
Umsækjandi um grásleppuveiðileyfi skal í umsókn greina hvenær hann muni hefja grásleppuveiðar með lagningu neta. Skal gildistími hvers leyfis vera 50 dagar frá þeim tíma.
Veiðileyfishöfum er óheimilt að leggja grásleppunet fyrir kl. 08.00 fyrsta dag veiðitímabils. Skylt er að draga öll grásleppunet, sbr. 8. gr. úr sjó fyrir lok leyfistímabils sbr. 2. og 3. mgr. þessarar greinar. Óheimilt er að stunda veiðar með rauðmaganetum sbr. 8. gr. frá 15. júní til 31. desember ár hvert.
Frá 1. apríl til 14. júlí má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 metra frá stórstraumsfjöruborði.
7. gr.
Sé einn maður á báti, er bannað að eiga fleiri en 100 hrognkelsanet í sjó. Séu tveir menn í áhöfn, skulu ekki fleiri en 200 net í sjó. Aldrei er heimilt að eiga fleiri en 300 net í sjó. Takmörkun þessi á netafjölda miðast við 60 faðma ófellda slöngu. Sé notuð 120 faðma ófelld slanga er heimilt að vera með helmingi færri net í sjó en að framan greinir.
8. gr.
Lágmarksmöskvastærð grásleppuneta, sem heimilt er að nota, er 10,5 þumlungar (267 mm).
Óheimilt er að nota til rauðmagaveiða net með minna en 7 þumlunga (178 mm) möskva og net dýpri en 20 möskva. Þá er óheimilt að nota til rauðmagaveiða net með stærri möskva en 8 þumlunga (203 mm).
9. gr.
Netabaujur skulu vera á báðum endum netatrossu og allar merktar með flaggi, sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Á flaggið skal mála umdæmisnúmer þess skips, sem notar netin. Auk þessa er heimilt að auðkenna flaggið með kallmerki skipsins. Auk þessa skulu allir belgir merktir með umdæmisnúmerum þess skips, sem notar þá. Merkingar á baujuflöggum og belgjum skulu vera greinilegar og skulu stafir stórir og skýrir. Verði breytingar á umdæmisnúmerum skips, ber að breyta merkingum á veiðarfæraútbúnaði í samræmi við þá breytingu.
Skylt er að númera netatrossur sem hver bátur á í sjó frá einum til þess fjölda trossa, sem hann á í sjó. Númer netatrossu skal skráð skýrum tölustöfum á baujuflagg eða belg á báðum endum trossu.
10. gr.
Allir þeir, sem hrognkelsaveiðar stunda, skulu senda Fiskistofu skýrslur um veiðarnar.
11. gr.
Auk eftirlits Landhelgisgæslu með veiðum og veiðarfærum hafa veiðieftirlitsmenn Fiskistofu eftirlit með, að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og er leyfishöfum skylt að gera þessum aðilum kleift að gera þær athuganir á veiðarfærum, sem þeir telja nauðsynlegar.
12. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum og laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta báta heimild til veiða á grásleppu eða rauðmaga í tiltekinn tíma vegna brota á reglum um hrognkelsaveiðar, sbr. ákvæði laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum.
13. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 132, 17. febrúar 2006, um hrognkelsaveiðar með síðari breytingum.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 16. febrúar 2007.
F. h. r.
Árni Múli Jónasson.
Þórður Eyþórsson.