Allar rækjuveiðar innfjarða eru óheimilar nema að fengnum sérstökum leyfum Fiskistofu. Hvert leyfi er bundið við veiðar á einu tilteknu svæði.
Innfjarðarækjusvæðin eru þessi:
1. | Breiðafjörður, norðurfirðir. |
2. | Arnarfjörður. |
3. | Ísafjarðardjúp. |
4. | Húnaflói. |
5. | Skagafjörður. |
6. | Skjálfandaflói. |
7. | Öxarfjörður. |
8. | Eldeyjarsvæði: sem að sunnan markast af línu sem dregin er réttvísandi 245° frá Reykjanesaukavita. Að vestan markast svæðið af 23°40´00 V og að norðan af 64°05´00 N. |
Miðað er við að veiðitímabil innfjarðarækju standi frá 1. október til 1. maí. Heimilt er með tilkynningu til leyfishafa að breyta upphafi og lokum vertíðar á tilgreindum veiðisvæðum innfjarðarækju, liggi fyrir umsögn um það frá Hafrannsóknastofnuninni.
Aðeins er heimilt að veita skipi leyfi til rækjuveiða á ofangreindum svæðum að það hafi aflamark í rækju á viðkomandi svæði og sé minna en 200 brúttótonn að stærð. Við veitingu leyfa til rækjuveiða á Eldeyjarsvæði skal þó miða við að skipum sé heimilt að stunda rækjuveiðar á þeim svæðum sem þeim er heimilt að stunda veiðar með botn- og flotvörpu, samkvæmt 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Lágmarksmöskvastærð rækjuvörpu skal vera 45 mm í vængjum aftur að þaki (miðneti) og 36 mm í öðrum hlutum vörpunnar. Við veiðar á rækju innfjarða skal nota net á legg í a.m.k. fjórum öftustu metrum vörpunnar eða smárækjuskilju sbr. reglugerð nr. 739/2000, um gerð og búnað smárækjuskilju. Um gerð og búnað vörpunnar vísast til reglugerðar nr. 543/2002, um möskvastærðir og útbúnað varpna til veiða á botnfiski, rækju og humri með síðari breytingum.
Skipstjóra er skylt að halda sérstaka afladagbók sem Fiskistofa leggur til, sbr. reglugerð nr. 303/1999, um afladagbækur. Upplýsingar í afladagbókum skulu nýtast í vísindalegum tilgangi, sem eftirlitsgögn og til annarra verkefna er varða stjórn fiskveiða.
Heimilt er Fiskistofu að svipta skip leyfi til rækjuveiða innfjarða vegna brota á ákvæðum reglugerðar þessarar eða ákvæðum leyfisbréfa sem gefin eru út með stoð í reglugerð þessari. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til rækjuveiða innfjarða.
Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála og varða brot viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast gildi 1. september 2004 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.