Samgönguráðuneyti

692/1999

Reglugerð um flugskóla - Brottfallin

1. gr.

Flugskóli telst skóli, sem fengið hefur heimild Flugmálastjórnar Íslands til að starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og reglum Flugöryggissamtaka Evrópu, JAR-FCL, og gefur nemendum sínum kost á almennu verklegu og/eða bóklegu flugnámi til þeirra réttinda sem tiltekin eru í starfsleyfi. Flugskóli getur einnig, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru, fengið leyfi Flugmálastjórnar til að annast flugkennslu til aukinna réttinda flugmanna.

2. gr.

Flugkennsla skal eingöngu fara fram við flugskóla sem viðurkenndir hafa verið af Flugmálastjórn. Viðurkenning er tvenns konar. Gerður er greinarmunur á samþykktum flugskólum og skráðum flugskólum. Í skráðum flugskólum getur m.a. farið fram verkleg og bókleg kennsla fyrir einkaflugmannsskírteini, næturflugsáritun og flokksáritun á einshreyfils einstjórnarloftför.

Í samþykktum flugskólum getur auk þess m.a. farið fram bókleg og verkleg kennsla fyrir atvinnuflugmannsskírteini og blindflugsréttindi, flugkennaraáritanir og tilheyrandi aukin réttindi ásamt bóklegri kennslu fyrir atvinnuflugmannsskírteini 1. flokks. Í samþykktum tegundaráritunarskólum getur farið fram kennsla fyrir tegundaráritanir og áhafnarsamstarf.

3. gr.

Sækja skal um leyfi til reksturs flugskóla til Flugmálastjórnar. Umsókn skal greina nákvæmar upplýsingar um eftirgreind atriði:

a) nafn umsækjanda, heimilisfang, kennitölu og símanúmer.

b) þjóðerni umsækjanda, viðskiptabanka hans og/eða fjármögnunaraðila. Ef um félag er að ræða skal tilgreina félagsform og skiptingu eignaraðildar. Ef eignaraðild er erlend skal sérstök grein gerð fyrir því. Hlutafé skal greina sé um slíkt félag að ræða og hver hluti þess sé innborgaður svo og nöfn stjórnarmanna. Einnig skal koma fram hvort umsækjandi hefur annan atvinnurekstur með höndum og þá hvaða.

c) skipulag og stjórn fyrirhugaðrar flugkennslustarfsemi. Gera skal grein fyrir hæfni tilnefnds skólastjóra, yfirflugkennara, yfirkennara bóklegrar kennslu, flugrekstrarstjóra og tæknistjóra til að taka þessi störf að sér.

d) greina skal þau loftför sem nota á við kennsluna og færa skal sönnur á umráðarétt yfir þeim ef umsækjandi er ekki skráður eigandi þeirra. Gera skal grein fyrir starfstöð skólans og viðhaldsstöð.

e) hversu mikið fjármagn er handbært til flugkennslustarfseminnar, ásamt gagngerum upplýsingum og útreikningum um rekstrargrundvöll næstu tvö ár, bæði með starfsáætlunum og fjárhagsáætlunum. Skal eigið fé nægja til að standa straum af kostnaði vegna undirbúnings fyrirhugaðs flugrekstrar, að viðbættum meðalkostnaði við þriggja mánaða rekstur sömu tveggja ára. Flugskóli þarf að geta hvenær sem er í 24 mánuði frá upphafi rekstrar staðið við gildandi skuldbindingar og aðrar skuldbindingar sem stofna þarf til. Skal umsækjandi leggja fram fullnægjandi upplýsingar þessu til staðfestu.

Þegar umsókn ásamt öllum þeim gögnum sem krafist er að fylgi, berst Flugmálastjórn fer stofnunin yfir hana og gerir úttekt á væntanlegri starfsemi. Ferlið frá því að öll gögn berast og þar til niðurstaða á að liggja fyrir getur tekið allt að þrjá mánuði. Binda má leyfið þeim takmörkunum sem Flugmálastjórn telur nauðsynlegt hverju sinni. Leyfið skal eigi gefið út til lengri tíma en eins árs í fyrsta sinn, en Flugmálastjórn getur síðan framlengt það til allt að þriggja ára í senn. Leyfið skal bundið því skilyrði, að Flugmálastjórn sé tafarlaust tilkynnt ef forsendur leyfisveitingar breytast, eða ef þær eru ekki lengur fyrir hendi.

4. gr.

Flugskólar skulu gera og halda við flugrekstrarhandbók og þjálfunarhandbók sem skal háð samþykki Flugmálastjórnar, ásamt öðrum þeim bókum og gögnum sem nánar er kveðið á um í JAR-FCL. Í flugrekstrarhandbók skal lýsa skipulagi skólans og skólastarfsins og hún skal hafa að geyma þær starfsreglur sem fylgja ber, þ.m.t. þær reglur um vinnutímamörk og hvíldartíma sem fylgja ber. Þjálfunarhandbók skal hafa að geyma kennsluáætlun fyrir hvert stig flugkennslunnar.

5. gr.

Verklega kennslu má ekki hefja fyrr en hlutaðeigandi nemi hefur numið með viðhlítandi hætti þær reglur sem flugið er háð og flugneminn má eigi fara í sitt fyrsta einflug fyrr en hann hefur fengið útgefið heilbrigðisvottorð samkvæmt JAR-FCL.

6. gr.

Flugskólum er skylt að kaupa og halda í gildi vátryggingum þeim sem mælt er fyrir um í loftferðalögum og reglugerð um skylduvátryggingu vegna loftferða. Vátryggingarskírteini skal bera með sér að hlutaðeigandi loftfar sé notað til flugkennslu.

7. gr.

Ef nemandi reynist óhæfur til flugnáms að áliti flugskólans, eða hann brýtur reglur flugskólans skal farið með mál það samkvæmt starfsreglum í flugrekstrarhandbók og tilkynna flugöryggissviði Flugmálastjórnar það jafnframt.

8. gr.

Flugskólar skulu árlega skila Flugmálastjórn skýrslu um starfsemi sína og skal hún berast flugöryggissviði, eigi síðar en 1. mars ár hvert, fyrir undanfarandi ár. Flugmálastjórn hefur eftirlit með starfsemi flugskóla og gerir þær úttektir á starfsemi þeirra sem stofnunin telur nauðsynlegar. Flugskóla er skylt að veita stofnuninni aðgang að öllum húsakynnum sínum og gögnum í þessu skyni og skulu þau vera til reiðu við slíkar úttektir Flugmálastjórnar.

9. gr.

Verklegri kennslu skal stjórnað af yfirflugkennara, sem Flugmálastjórn samþykkir. Bóklegri kennslu skal stjórnað af aðila, sem jafnframt er háður því að Flugmálastjórn samþykki útnefningu hans til starfans.

10. gr.

Yfirkennarar bera m.a. ábyrgð á því að:

a) Bókleg kennsla og verkleg þjálfun sé skipulögð og fari fram í samræmi við reglugerðir um flugmál og handbækur viðkomandi flugskóla.

b) Nemandi sé ekki sendur í bókleg né verkleg próf fyrr en hann hefur lokið tilskilinni undirbúningsþjálfun með fullnægjandi árangri.

11. gr.

Flugkennarar skulu hafa þau réttindi sem krafist er í gildandi reglugerðum. Þeir skulu einnig hafa samþykki yfirkennara flugskólans til þeirrar kennslu sem þeir annast. Yfirflugkennari skal með formlegum hætti á tólf mánaða fresti sannfæra sig um hæfni kennara skólans. Yfirflugkennara ber að halda staðfest yfirlit um hæfniprófin og annað það sem varðar reynslu og réttindi flugkennara, þannig að rekja megi þá stöðu eins og hún hefur verið á hverjum tíma.

12. gr.

Sérhverjum flugskóla ber að hafa í starfi hjá sér, framkvæmdastjóra (skólastjóra), tæknistjóra og flugrekstrarstjóra. Tæknistjóri sér um og ber ábyrgð á skoðunum og viðhaldi loftfara skólans í samræmi við gildandi reglur um viðhald loftfara sem rekin eru í atvinnuskyni. Flugrekstrarstjóri sér um og ber ábyrgð á að starfsreglum sé fylgt. Útnefningar framkvæmdastjóra (skólastjóra), tæknistjóra og flugrekstrarstjóra til starfa við flugskóla, skulu háðar því að Flugmálastjórn samþykki störf þeirra við skólann og skal þeim óheimilt að hefja störf fyrr en slíkt samþykki liggur fyrir. Telji Flugmálastjórn ástæðu til skulu þessir aðilar gangast undir sérstakt próf hjá stofnuninni til að sanna hæfni sína til starfans.

13. gr.

Skólinn skal ráða yfir húsnæði sem nothæft er og hentugt til þess að ræða við nemendur, fyrir og eftir flug, fyrir stjórn á starfsemi skólans, svo og að vera afdrep eða biðsalur fyrir nemendur. Í húsnæði þessu skal a.m.k. vera eftirfarandi:

a) Þjálfunarhandbók og flugrekstrarhandbók.

b) Sími, myndsími eða tölvupóstur.

c) Mappa fyrir hvern einstakan nemanda skólans, sem færðar eru í allar upplýsingar um fræðilegt og verklegt nám hans og framfarir.

d) Kennsluáætlun skólans sem tryggir samhæfingu í kennslu og þjálfun.

e) Skírteinareglugerð ásamt JAR-FCL.

f) Aðrar reglugerðir er snerta starfsemina, t.d. flutningaflugsreglugerð ásamt JAR-OPS, reglugerðir um loftferðir, reglugerð um flugskóla og lög um loftferðir.

g) Gögn sem nauðsynleg eru til flugáætlunargerðar.

h) AIP/flugmálahandbók.

i) Öll nauðsynleg kennslugögn, eins og skólatafla, sjónflugskort og allt annað sem Flugmálastjórn telur nauðsynlegt fyrir kennsluna.

Skólanum ber að tryggja að alltaf sé um að ræða nýjustu upplýsingar svo sem nýjustu útgáfu af reglugerðum og reglum, rétta AIP bók og uppfært sjónflugskort.

14. gr.

Flugskóli skal hafa yfir að ráða hæfilegum fjölda loftfara miðað við þá starfsemi sem þar er stunduð.

15. gr.

Loftförum sem notuð eru til kennsluflugs skal viðhaldið og þau starfrækt samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru um viðhald og rekstur loftfara í atvinnuskyni. Þau skulu vera rekin af flugskólanum og hafa lofthæfisskírteini sem gildir til kennsluflugs. Loftförin skulu uppfylla ákvæði reglna um búnað slíkra loftfara eins og þær eru á hverjum tíma.

16. gr.

Þegar nemandi er, að áliti skólans, tilbúinn til prófs skal yfirflugkennari eða staðgengill hans staðfesta við Flugmálastjórn að svo sé, um leið og farið er fram á verklegt flugpróf með prófdómara Flugmálastjórnar.

17. gr.

Prófgjöld, og gjöld þeim tengd, skal greiða samkvæmt gildandi gjaldskrá Flugmálastjórnar á hverjum tíma.

18. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að 5 árum, auk þess sem Flugmálastjórn er heimil svipting flugkennsluleyfis brjóti leyfishafi í mikilvægum atriðum lagaboð, skilyrði leyfis, önnur fyrirmæli um starfsemina, eða hann reynist ófær um að reka hana.

19. gr.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 145. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, sbr. ákvæði 31. gr. og IX. kafla þeirra laga, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum er hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um flugskóla nr. 503/1979.

Samgönguráðuneytinu, 4. október 1999.

Sturla Böðvarsson.

Jón Birgir Jónsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica