Samgönguráðuneyti

503/1979

Reglugerð um flugskóla - Brottfallin

Felld brott með:

REGLUGERÐ

um flugskóla.

 

1. gr.

Flugskóli er skóli, sem starfar í samræmi við eftirfarandi reglur og gefur nemendum sínum kost á bóklegu og verklegu einkaflugmannsnámi og annast ennfremur flugkennslu til frekari réttindaauka flugmanna.

 

2. gr.

Flugkennsla skal eingöngu fara fram við flugskóla, sem samþykktir eru af flugmálastjórn. Námsefni flugskólanna bóklegt og verklegt skal vera samþykkt af flugmálastjórn.

 

3. gr.

Flugmálastjórn gefur út leyfi til reksturs flugskóla, með þar til gerðu leyfis­bréfi. Binda má leyfi þeim takmörkunum sem flugmálastjórn telur nauðsynlegt hverju sinni. Leyfið er í fyrsta sinn gefið út til eins árs, en flugmálastjórn getur síðan framlengt það til 2ja ára i senn. Leyfið er bundið því skilyrði, að flugmála­stjórn sé tafarlaust tilkynnt, ef forsendur leyfisveitingar breytast, eða ef þær eru ekki lengur fyrir hendi.

 

4. gr.

Flugskólar skulu gera og halda við flugrekstrarbók sem flugmálastjórn samþykkir. Bók þessi skal m.a. skýra skipulag skólans og kennslunnar og hafa að geyma þær starfsreglur sem fara ber eftir.

 

5. gr.

Ekki má hefja flugkennslu, fyrr en væntanlegum nemanda hafa verið kynntar þær reglur og þau skilyrði, sem gilda munu í náminu, og eftir að væntanlegur flugnemi hefur staðist skoðun trúnaðarlæknis flugmálastjórnar.

 

6. gr.

Flugskólar skulu vátryggja þá, sem eru um borð í loftfari í kennsluflugi, ekki lægra, en væru þeir farþegar, sbr. gildandi reglugerð um vátryggingu loftfara.

 

7. gr.

E,f nemandi reynist óhæfur til flugnáms að áliti flugskólans eða þá að hann brýtur reglur flugskólans gróflega, þá skal yfirkennarinn tilkynna flugmálastjórn það.

 

8. gr.

Senda skal flugmálastjórn skýrslu um starfsemi skólans á liðnu starfsári, í síðasta lagi hinn 1. febrúar ár hvert.

 

9. gr.

Verklegri kennslu skal stjórnað af yfirkennara, sem flugmálastjórn samþykkir, enda ber hann ábyrgð gagnvart flugmálastjórn. Bóklegri kennslu skal stjórnað af aðila, sem áður hefur verið viðurkenndur af flugmálastjórn.

 

10. gr.

Yfirkennarinn ber m. a. ábyrgð á því að:

a) Verkleg þjálfun sé skipulögð og að hún fari fram í samræmi við reglur, sem flugmálastjórn setur og/eða samþykkir.

b) Nemandi sé ekki sendur í verklegt próf, fyrr en hann hefur lokið tilskilinni þjálfun með fullnægjandi árangri.

c) Sömu reglur gilda um bóklega kennslu.

 

11. gr.

Flugkennarar skulu hafa þau réttindi sem krafist er í gildandi reglugerð um skírteini sem flugmálastjórn gefur út, svo og hafa samþykki yfirkennara flugskólans til þeirrar kennslu, sem þeir annast. Þeir verða að hafa staðist hæfnispróf með yfirkennara skólans fyrir kennslu þá sem þeir annast á hverjum síðustu 12 mánuðum. Yfirkennara ber að halda skýrslur um hæfnisprófin.

 

12. gr.

Sérhver flugskóli tilnefnir tæknistjóra og flugrekstrarstjóra sem sér um og ber ábyrgð á skoðunum og viðhaldi loftfara skólans í samræmi við gildandi reglugerð um fyrirtæki sem starfa að loftflutningum. Tæknistjórinn og flugrekstrarstjórinn skulu samþykktir af flugmálastjórn. Flugmálastjórn skal einnig samþykkja viðhaldsaðstöðu skólans.

 

13. gr.

Flugskólinn skal ráða yfir húsnæði sem nothæft er og hentugt til þess að ræða við nemendur fyrir og eftir flug, fyrir stjórn á starfsemi skólans, svo og að vera afdrep eða biðstaður fyrir nemendur. Í húsnæði þessu skal eftirfarandi a. m. k. vera tiltækt

a) Sími.

b) Mappa fyrir hvern einstakan nemanda skólans, þar sem færðar eru allar upp­lýsingar um fræðilegt og verklegt nám hans og framfarir.

c) Kennsluáætlun skólans sem tryggir samhæfingu í kennslu og þjálfun.

d) Reglur þær sem eru viðkomandi starfseminni.

e) AIP/flugmálahandbók og gott Íslandskort fest á vegg.

f) Reglur um loftferðir, útg. af flugmálastjórn.

g) Gögn þau sem nauðsynleg eru til flugáætlunargerðar.

h) Kennslugögn og annað, sem nauðsynlegt má telja til útskýringa.

i) Skólatafla, eða annað sem heppilegt er til þess að gera uppdrætti á. 14. gr.

Flugskólinn eða fyrirtæki það sem hann er hluti af skal vera skráður eigandi að a.m.k. einu loftfari, sem kennslan fer aðallega fram á.

 

15. gr.

Loftförum sem notuð eru til kennsluflugs, skal viðhaldið og þau starfrækt samkvæmt þeim reglum og fyrirmælum, sem flugmálastjórn hefur sett og/eða samþykkt. Sömu reglur skulu gilda um loftför, sem flugnemar eiga sjálfir og hagnýta sér við flugnámið innan vébanda skólans.

 

16. gr.

Loftför sem notuð eru við flugkennslu, skulu eftir því sem við á, uppfylla ákvæði reglugerðar um lágmarksbúnað loftfara, eins og hún er á hverjum tíma.

 

17. gr.

Þegar nemandi er að áliti skólans tilbúinn til prófs, þá skal yfirkennari eða staðgengill hans kalla til prófdómara flugmálastjórnar.

 

18. gr.

Prófgjöld skal greiða samkvæmt gildandi gjaldskrá flugmálastjórnar.

 

19. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum eða varðhaldi, auk þess sem flugmálastjórn er heimil svipting leyfis brjóti leyfishafi í mikilvægum atriðum lagaboð, skilyrði leyfis, önnur fyrirmæli um starfsemina, eða hann reynist ófær til að reka hana.

 

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt VII. kafla laga nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir, staðfestist hér með til þess að öðlast gildi 1. janúar 1980 og birtist til eftirbreytni öllum þeim er hlut eiga að máli.

 

Samgönguráðuneytið, 13. desember 1979.

 

Magnús H. Magnússon.

Birgir Guðjónsson.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica