1. gr.
Almennt.
1.1. Með flugsýningu er í reglugerð þessari m.a. átt við listflug, hjáflug og hópflug o.þ.h. yfir eða í nánd við þéttbýli eða mannsöfnuð, fallhlífarstökk úr loftfari niður á þess konar svæði, svo og flugkeppni, sem er þannig skipulögð að hún gæti dregið að sér almenna athygli. Leyfi hlutaðeigandi lögreglustjóra þarf til þess að halda flugsýningu.
2. gr.
Umsókn.
2.1. Ef nota á flugvöll sem flugmálastjórn ræður verður að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
Skipuleggjandi flugsýningar skal senda flugmálastjórn með ríflegum fyrirvara skriflega umsókn um að fá afnot af hlutaðeigandi flugvelli.
Í slíkri umsókn skal tekið fram:
a) hvenær fyrirhugað sé að halda flugsýninguna,
b) að hve miklu leyti almenningur eigi aðgang,
c) hvort aðgangseyrir verði tekinn.
2.2. Umsókn til lögregluyfirvalda.
Samtímis umsókn, skv. gr. 2.1., skal senda umsókn til hlutaðeigandi lögreglustjóra. Áður en lögreglustjóri veitir samþykki sitt skal hann leita umsagnar flugmálastjórnar. Í slíkri umsókn skulu koma fram eftirfarandi atriði:
a) nafn, heimili og símanúmer þess sem halda vill sýninguna,
b) staður og stund væntanlegrar flugsýningar,
c) stutt lýsing á flugsýningunni, fyrirhuguð dagskrá og stutt lýsing á hverju atriði. Þar að auki skulu tekin fram í umsókninni eftirfarandi atriði sem nauðsynlegt er að fram komi til þess að flugmálastjórn geti tekið afstöðu til þess hvort leyfa beri sýninguna:
d) nafn ábyrgs stjórnanda,
e) hvort heimiluð hafa verið afnot af flugvellinum (sýningarsvæðinu),
f) skrá yfir þátttakendur og réttindi þeirra,
g) skrá yfir loftför sem taka eiga þátt í sýningunni (skrásetningarmerki),
h) kort af flugvellinum (sýningarsvæðinu) og næsta nágrenni. Á þetta kort kort skulu helstu hindranir merktar, svo sem raflínur o.s.frv. Merkja skal áhorfendasvæði, girðingar sem áhorfendur mega ekki fara yfir, bilastæði, stæði fyrir loftför, svæði fyrir fallhlífarstökk, brottfararstaði fyrir hringflug, hlið fyrir áhorfendur o.s.frv.
Forsenda samþykktar flugmálastjórnar er að hún hafi fengið upplýsingar um hvort fullnægt er skilyrðum gr. 3, 4, 5 og 6 hér á eftir.
3. gr.
Stjórnandi flugsýningarinnar.
3.1. Sá aðili sem halda vill flugsýningu eða flugkeppni skal tilnefna ábyrgan stjórnanda sem flugmálastjórn samþykkir. Stjórnandi skal vera ábyrgur fyrir þvf að:
a) gildandi reglur um loftferðir svo og aðrar reglur um flugsýninguna séu virtar,
b) þau loftför, sem þátt taka í flugsýningunni, hafi gild lofthæfisskfrteini og að þau megi taka þátt í þeim sýningaratriðum, sem þau hafa skrásetningarleyfi til,
c) þeir, sem hagnýta sér réttindi skírteina sinna, hafi þau f gildi. Sama gildir um fallhlífarstökkvara,
d) útlendingum, sem taka þátt í keppni, hafi með aðstoð túlks, ef nauðsynlegt er, verið gerð grein fyrir þeim reglum sem ber að fara eftir,
e) samræmi og samvinna sé milli almennrar flugumferðar og herflugumferðar ef það á við,
f) hæfur aðili stjórni umferð um flugvöllinn fyrir og eftir flugsýninguna.
4. gr.
Almennar öryggisreglur.
4.1. Girðingar.
4.1.1. Áhorfendasvæði skulu vera afgirt frá flugbrautum og skal áhorfendum eða faratækjum ekki leyft að vera í aðflugs- eða brottflugsstefnu við flugtak eða lendingu.
4.1.2. Akbrautir loftfara til sýningarsvæðis og frá því, svo og flugtaks- og lendingarstaðir, skulu vera afgirt og þess gætt að áhorfendum sé ekki hleypt nær flugbraut en 55 metra og ekki nær akbrautum loftfara en 30 metra. Fyrir flugtök og lendingar þyrlna skal girða af svæði sem er a. m.k. 50 X 50 metrar. Hafa skal hindranalaust svæði fyrir aðflug og brottflug þyrlna þar sem áhorfendur mega ekki vera.
Svæði þetta skal vera svo stórt að þar sé hægt að nauðlenda örugglega, ef með þarf, án þess að valda skaða á fólki eða eignum.
4.1.3. Hafa skal sérstaka gæslu þar sem tekið er við farþegum og þeim skilað fyrir og eftir hringflug.
4.1.4. Stæði loftfara skulu vera afgirt og þeirra gætt og þau skulu ekki vera nær flugbraut en 55 metra.
4.1.5. Stökksvæði fallhlífarstökkvara skal vera afgirt og þess svo vel gætt að hvorki séu áhorfendur á lendingar- eða öryggissvæði, sbr. reglugerð um fallhlífarstökk.
Ath.: Flugmálastjórn getur þó leyft að áhorfendur megi vera á tilteknum litlum hluta öryggissvæðisins.
4.1.6. Þegar sýnd eru á flugi línustýrð fluglíkön skal fjarlægð frá áhorfendum vera a.m.k. 10 m miðað við hringferil þann sem líkanið ritar í loftinu. Svæðis þessa skal svo vel gætt að áhorfendur geti ekki verið þar. Þegar fjarstýrð fluglíkön eru sýnd á flugi skal stjórnendum þeirra bent á mikilvægi þess að halda þeim í hæfilegri og öruggri fjarlægð frá áhorfendum. Forðast skal að fljúga þeim í átt til áhorfenda.
4.2. Björgunarþjónusta.
4.2.1. Hafa skal sjúkra- og slökkvibifreiðar nærtækar og hindrunarlausa brottfararleið fyrir þær.
4.2.2. Ef flugsýning fer fram í nágrenni sjávar eða stórra vatna skal hafa björgunarbát tiltækan með nauðsynlegum öryggisbúnaði, svo sem björgunarvestum, slökkvitæki köðlum o.s.frv.
4.3. Annað.
4.3.1. Mesti leyfilegi hliðarvindur á sýningarsvæðinu við flugtök og lendingar er 10 hnútar.
5. gr.
Sérstakar öryggisreglur.
5.1. Listflug og loftbelgjaflug skal fara fram í öruggri fjarlægð frá áhorfendasvæðum, bílastæðum og byggðum svæðum. Það má ekki fara fram neðar en í 300 feta hæð yfir hæstu hindrun innan 600 metra frá loftfarinu. Hjáflug má ekki vera í minni hæð yfir jörðu en 150 fet og ekki má fljúga yfir áhorfendasvæði neðar en í 300 feta hæð. Ekki má fljúga í átt til áhorfendasvæða né bílastæða.
5.2. Landbúnaðarflug mega aðeins þeir aðilar sýna sem hafa leyfi flugmálastjórnar til þess að stunda slíka flugstarfsemi. Farið skal eftir reglum sem um það gilda og skulu sýningar vera hlémegin við áhorfendur. Lágflug má sýna í öruggri fjarlægð frá áhorfendum og ekki má fljúga yfir áhorfendur eða í átt til þeirra.
5.3. Við fallhlífarstökk skal farið eftir reglugerð um fallhlífarstökk.
6. gr.
Tryggingar.
6.1. Áður en flugsýning hefst skal stjórnandi ganga úr skugga um að lögboðnar ábyrgðartryggingar séu í gildi og nái einnig yfir tjón sem verða kynni af árekstri í lofti eða á jörðu. Loftför þau sem notuð eru við fallhlífarstökk skulu vera tryggð fyrir því tjóni sem af þessari notkun kynni að hljótast.
Ath.: Þetta felur í sér að tryggingar skulu vera fyrir því tjóni sem fallhlífarstökkvari gæti valdið í stökki og við lendingu.
7. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu skv. XIII. kafla laga nr. 34 21. maí 1964.
8. gr.
Gildissvið og -taka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 82., 89. og 188. gr. laga nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytið, 28. desember 1976.
Halldór E. Sigurðsson.
Birgir Guðjónsson.