Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

518/2010

Reglugerð um flugsýningar.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um þær lágmarksreglur sem gilda um flugsýningar svo hægt sé að tryggja öryggi þátttakenda og áhorfenda.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til hverskonar flugsýninga sem fara fram á íslensku yfirráðasvæði með íslenskum eða erlendum loftförum í samræmi við lög um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Flugsýning (Flying display): Hvert það flug og fallhlífarstökk úr loftfari sem framkvæmt er í þeim tilgangi að bjóða upp á flugatriði á auglýstum viðburði sem opinn er almenningi, svo og flugkeppni, sem er þannig skipulögð að hún gæti dregið að sér mannfjölda. Flugkomur (Fly-in) falla hér ekki undir nema um sé að ræða auglýstan viðburð sem opinn er almenningi.

Hjáflug: Flug loftfars yfir flugbraut, venjulega í brautarstefnu, eða yfir annað fyrirfram ákvarðað sýningarsvæði.

Hlað (Apron): Skilgreint svæði á flugvelli ætlað fyrir loftför við hleðslu eða afhleðslu farþega, pósts eða farms, áfyllingu eldsneytis, stöðu eða viðhald.

Listflug: Flugbrögð, önnur en þau sem tilheyra venjulegu flugi, sem gerð eru til að sýna vald yfir loftfari á sýningu eða í keppni.

Skipuleggjandi flugsýningar (Event organiser): Sá aðili sem skipuleggur flugsýningu og heldur utan um alla þætti hennar.

Skráð loftfar: Þær tegundir loftfara sem hafa útgefið þjóðernis- og skrásetningar­skírteini sbr. 9. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Stjórnandi flugsýningar (Flying display director): Sá aðili sem er ábyrgur gagnvart Flugmálastjórn Íslands fyrir því að fyllsta öryggis sé gætt og farið sé að gildandi lögum og reglum um flugsýningar.

Umferðarsvæði (Manoeuvring area): Sá hluti flugvallar sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, að undanskildum hlöðum.

Uppkeyrslusvæði loftfara: Svæði þar sem loftför sem taka þátt í sýningu eru gerð tilbúin til þátttöku.

Þátttakendur: Þeir aðilar sem taka þátt í flugsýningu, t.a.m. flugmenn og fallhlífar­stökkvarar.

4. gr.

Umsókn um leyfi til flugsýningar.

Þeir sem hyggjast halda flugsýningu skulu sækja um leyfi til Flugmálastjórnar Íslands að minnsta kosti þremur vikum fyrir fyrirhugaða flugsýningu. Umsókn um fyrirhugaða flugsýningu skal innihalda eftirfarandi upplýsingar til að teljast tæk til meðferðar Flugmálastjórnar:

a)

nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang skipuleggjanda flugsýningar;

b)

nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang fyrirsvarsmanns ef það er félag sem stendur að flugsýningunni;

c)

nafn stjórnanda flugsýningar, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang;

d)

staður og stund flugsýningar;

e)

greinargóð lýsing á flugsýningu, lýsing á fyrirhugaðri dagskrá og hverju sýningaratriði og upplýsingar um áætlaðan fjölda áhorfenda;

f)

lýsing á neyðar- og björgunaráætlun og upplýsingar um hver sjái um neyðar- og björgunarþjónustu;

g)

skrá yfir alla þátttakendur og réttindi þeirra;

h)

skrá yfir loftför sem taka eiga þátt í flugsýningu (þjóðernis- og skrásetningarmerki);

i)

kort af sýningarsvæði og næsta nágrenni. Á þetta kort skulu helstu hindranir merktar, svo sem raflínur o.s.frv. Merkja skal skilmerkilega áhorfendasvæði, öll viðkvæm svæði sem áhorfendur mega ekki fara á, bílastæði, stæði fyrir loftför, svæði fyrir fallhlífarstökk, brottfararstaði fyrir útsýnisflug, nauðlendingarsvæði, hlið fyrir áhorfendur o.s.frv.;

j)

staðfesting umráðanda flugsýningarsvæðis um að leyfi hafi verið gefið fyrir að halda þar flugsýningu;

k)

staðfesting frá lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi um að ekki sé gerð athugasemd við fyrirhugaða flugsýningu; og

l)

staðfesting frá viðkomandi bæjar- eða sveitarfélagsyfirvöldum um að ekki sé gerð athugasemd við fyrirhugaða flugsýningu.



Flugmálastjórn Íslands gefur út leyfi til flugsýningar að fullnægðum skilyrðum reglugerðar þessarar. Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir útgefnu leyfi að mati Flugmálastjórnar.

Um gjaldtöku fyrir útgáfu leyfa til flugsýninga fer samkvæmt gjaldskrá Flugmálastjórnar Íslands.

5. gr.

Stjórnandi flugsýningar.

Tilnefna þarf fyrir hverja flugsýningu ábyrgan stjórnanda sem Flugmálastjórn Íslands metur hæfan. Stjórnandi flugsýningar skal vera ábyrgur fyrir því að:

a)

farið sé að lögum um loftferðir og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra sem og þeim fyrirmælum sem fram koma í leyfi Flugmálastjórnar til flugsýningar;

b)

kynna bæði skriflega og munnlega fyrir þátttakendum fyrirkomulag flugsýningar, öryggisatriði og þær reglur sem gilda um flugsýninguna;

c)

loftfar, sem nota á í flugsýningu, sé ekki háð rekstrartakmörkunum sem kunna að hafa áhrif á getu þess;

d)

annast samvinnu við umráðanda sýningarsvæðis og/eða veitanda flugleiðsögu­þjónustu þar sem það á við;

e)

ganga úr skugga um að ásættanleg veðurskilyrði séu til staðar og vera tilbúinn að taka tillit til veðrabreytinga í samráði við flugmenn;

f)

almenn flugumferð sé skipulögð á sýningarsvæði og í næsta nágrenni;

g)

stýra samhæfingu þeirra þátttakenda sem taka þátt í flugsýningunni og tryggja öryggi þeirra og áhorfenda;

h)

viðeigandi björgunar- og neyðarþjónusta sé til staðar; og

i)

lögboðnar ábyrgðartryggingar séu í gildi vegna þeirra loftfara sem nota á í flugsýningu og að þær nái einnig yfir tjón sem verða kann á mönnum eða hlutum utan viðkomandi loftfara og stafar af notkun þeirra.



6. gr.

Stjórnandi loftfars.

Aðeins flugmenn sem Flugmálastjórn Íslands metur hæfa skulu fá að taka þátt í flug­sýningu. Stjórnendur skráðra loftfara á flugsýningu skulu hafa skráð a.m.k. 200 klst. flugtíma.

Almennar öryggisreglur.

7. gr.

Áhorfenda- og sýningarsvæði.

Áhorfendasvæði skulu vera afgirt eða afmörkuð frá sýningarsvæði með skilmerkilegum hætti og skal áhorfendum eða faratækjum ekki leyft að vera í aðflugs- eða brottflugs­stefnu við hjáflug yfir flugbraut, flugtak eða lendingu. Fjarlægðin milli áhorfenda- og sýningarsvæðis skal ákveðin með tilliti til tegundar og hraða loftfara og gerð sýningar og skal aldrei vera minni en 50 metrar, nema ef um flugmódel undir 7 kg er að ræða sbr. 7. mgr. Fjarlægðin skal vera a.m.k. 100 metrar ef um hópflug er að ræða og a.m.k. 150 metrar ef um listflug er að ræða. Flugmálastjórn Íslands er heimilt að ákveða meiri eða minni lágmarksfjarlægð með tilliti til tegundar, þyngdar og hraða loftfarsins.

Akbrautir loftfara til sýningarsvæðis og frá því, svo og flugtaks- og lendingarstaðir, skulu vera afgirt og þess gætt að áhorfendum sé ekki hleypt inn á flugbrautar- eða akbrautaröryggissvæði eða önnur öryggissvæði hvort sem þau eru fastsett eða ákvörðuð sérstaklega vegna flugsýningar. Áhorfendur eða búnaður skulu aldrei vera á skilgreindum öryggissvæðum flugbrauta.

Loftfar skal aðeins gangsetja á umferðarsvæði flugvallar, hlaði eða flugtaksvæði. Sé flugsýning utan flugvalla er heimilt að gangsetja loftfar á sérstöku uppkeyrslusvæði loftfara sem skal vera greinilega afmarkað og í öruggri fjarlægð frá áhorfendum.

Farþegum sem fara í útsýnisflug skal fylgt á milli áhorfendasvæðis og loftfarsins fyrir og eftir flug. Gæta skal þess að farþegarnir séu í öruggri fjarlægð frá öðrum loftförum. Hafa skal sérstaka gæslu þar sem tekið er við farþegum og þeim skilað fyrir og eftir útsýnisflug.

Stæði loftfara skulu vera afgirt gagnvart áhorfendum og þau skulu vera fyrir utan flugbrautaröryggissvæði og önnur öryggissvæði eins og við á. Loftför sem eru til sýnis fyrir áhorfendur skulu vera á afgirtu svæði og undir eftirliti.

Stökksvæði fallhlífarstökkvara skal vera afgirt og þess vel gætt að hvorki séu áhorfendur á lendingar- eða öryggissvæði, sbr. reglugerð um fallhlífarstökk. Lendingarsvæði fallhlífarstökkvara skal vera a.m.k. í 15 metra fjarlægð frá áhorfendasvæði. Fallhlífar­stökkvarar skulu ekki fara neðar en 25 fet yfir áhorfendasvæði eða bílastæði. Tryggja skal að engir hreyflar, skrúfur eða þyrilblöð séu í gangi innan við 250 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum lendingarstað fallhlífarstökkvara.

Þegar flugmódel eru sýnd á flugi skal halda þeim í hæfilegri og öruggri fjarlægð frá áhorfendum. Ef þyngd flugmódels er undir 7 kg skal halda því í a.m.k. 30 metra fjarlægð frá áhorfendum annars skal fjarlægð flugmódels frá áhorfendum vera a.m.k. 50 metrar.

Reykingar skulu vera bannaðar á sýningarsvæði og þeim svæðum þar sem loftför og eldsneyti eru geymd.

8. gr.

Neyðar- og björgunarþjónusta.

Neyðar- og björgunarþjónusta skal vera í höndum viðurkennds ábyrgðaraðila í þeim efnum.

Áður en flugsýning getur hafist skal liggja fyrir neyðar- og björgunaráætlun í samræmi við stærð og umfang sýningar. Áætlun þessa skal vinna í samráði við viðkomandi lögregluyfirvöld og slökkvi- og sjúkralið eins og við á.

Tryggja skal hindrunarlausa aðkomu- og brottfararleið fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar.

Ef flugsýning fer fram í nágrenni sjávar eða stórra vatna skal hafa björgunarbát tiltækan með nauðsynlegum öryggisbúnaði, svo sem björgunarvestum, slökkvitæki, köðlum o.s.frv.

9. gr.

Sérstakar öryggisreglur.

Allt flug á flugsýningu, þ.m.t. listflug og hópflug, skal fara fram í öruggri fjarlægð frá áhorfendasvæðum, bílastæðum og byggðum svæðum. Skráð loftfar skal ekki fljúga neðar en í 300 feta hæð frá jörðu eða hæstu hindrun á sýningarsvæðum nema aflað sé sérstaks leyfis Flugmálastjórnar Íslands fyrir slíku flugi.

Sé flogið yfir flugbraut í flugbrautarstefnu skal ekki flogið neðar en 50 fet nema loftfarið sé í lendingarham. Óheimilt er að fljúga yfir eða í átt til áhorfendasvæða og bílastæða undir 1.000 fetum.

Flugmálastjórn er heimilt að ákveða hærri eða lægri lágmarkshæð með tilliti til stjórn­anda, tegundar, þyngdar og hraða loftfarsins og þess svæðis sem sýningin fer fram á.

Fallhlífarstökk á flugsýningu mega aðeins þeir framkvæma sem hafa heimild til þess frá Flugmálastjórn Íslands og uppfylla þau skilyrði sem sett eru í reglugerð um fallhlífar­stökk.

10. gr.

Eftirlit og upplýsingaskylda.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að framkvæma eftirlit á flugsýningum. Aðilar sem hyggjast halda flugsýningar skulu verða við öllum kröfum Flugmálastjórnar um upp­lýsingar vegna eftirlits í samræmi við 5. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006 með síðari breytingum.

11. gr.

Afturköllun leyfis.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla, að hluta eða öllu leyti, leyfi fyrir flugsýningu, ef brot á þessari reglugerð eða skilyrðum leyfis á sér stað, eða ef sérstakar ástæður mæla með því.

12. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. mgr. 76. gr. sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 442/1976 um flugsýningar og flugkeppni.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 1. júní 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica