1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um kröfur til öryggiseftirlits með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar fyrir almenna flugumferð.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar en tekur ekki til herflugs eða herþjálfunarflugs.
3. gr.
Lögbært eftirlitsyfirvald og framkvæmd.
Hið lögbæra yfirvald samkvæmt reglugerð þessari er Samgöngustofa. Samgöngustofa annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglugerðarinnar.
4. gr.
Rekstrarfyrirmæli.
Rekstrarfyrirmæli í formi tilskipunar um öryggi, samkvæmt 13. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1034/2011, skal gefa út í samræmi við 1. mgr. 84. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.
5. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1034/2011 frá 17. október 2011 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 691/2010, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230 frá 13. desember 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 4 frá 23. janúar 2014, bls. 395.
6. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 57. gr. a, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2015. Um leið fellur reglugerð nr. 354/2009, um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, úr gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 18. desember 2014.
Ólöf Nordal.
Ragnhildur Hjaltadóttir.