Menntamálaráðuneyti

881/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð um Bókasafnssjóð höfunda, nr. 203/1998. - Brottfallin

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr.:

a) 2. mgr. orðast svo:

Úthlutunarfé skal skipt í tvo hluta. Skal öðrum hluta fjárins úthlutað til einstakra höfunda í formi styrkja vegna afnota bóka þeirra á bókasöfnum, eftir nánari ákvörðun stjórnar Bókasafnssjóðs höfunda, sbr. 3. gr. laganna. Heimilt er að að meta fjölda titla og eintaka bóka hvers höfundar sem eru til afnota á lestrarsölum bókasafna sem jafngildi tiltekins fjölda útlána.

b) Í stað dagsetningarinnar 15. maí í 5. mgr. komi: 31. desember.

2. gr.

3. gr. orðast svo:

Rétthafar skv. 3. og 4. gr. laga nr. 33/1997 öðlast rétt til úthlutunar úr sjóðnum á grundvelli umsókna sem senda skal Bókasafnssjóði höfunda á þar til gerðum eyðu­blöðum. Nægilegt er að sækja um einu sinni og gildir umsókn þá ótímabundið. Litið skal á skráningu sem borist hefur á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 203/1998 sem gilda umsókn.

Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist úthlutun eftir samkomulagi skráðra rétthafa eða rétthafa samkvæmt umsókn. Ef samkomulag næst ekki um skiptingu fer um hana samkvæmt ákvörðun stjórnar Bókasafnssjóðs höfunda.

Einum mánuði fyrir úthlutun sjóðsins skal stjórnin auglýsa fyrirhugaða úthlutun og umsóknarfrest í dagblöðum.

Stjórn sjóðsins getur óskað eftir frekari upplýsingum um hvort höfundur eða rétthafi fullnægi skilyrðum laga og reglna til úthlutunar.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr.:

a) 1. mgr. 4. gr. orðast svo:

Stjórn Bókasafnssjóðs höfunda er heimilt að byggja mat sitt á bókum á stigagjöf þar sem tekið er tillit til tegunda, umfjöllunarefnis eða lengdar og leggja slíka stigagjöf til grundvallar ákvörðunum um úthlutun fjár, hvort heldur er fyrir fjölda útlána eða til styrkveitinga.

b) Á eftir lokamálslið 5. mgr. 4. gr. kemur nýr málsliður svohljóðandi:

Þó skal heimilt á grundvelli sérstakra umsókna að meta framlag höfunda að ítarlegum fræðilegum formálum eða inngangi í veigamiklum fræðibókum hvort heldur er til greiðslu á grundvelli fjölda útlána eða til styrkveitinga.

4. gr.

5. gr. orðast svo:

Stjórn Bókasafnssjóðs höfunda skal, vegna árlegrar úthlutunar úr sjóðnum, leita eftir upplýsingum á tölvutæku formi frá Landskerfi bókasafna um skráð eintök bóka og útlán á bókasöfnum, þar sem fram kemur nafn höfunda, titill bókar, fjöldi útlána, ásamt stöðluðu bóknúmeri.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 33/1997 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 24. október 2006.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica