1. gr.
Menntamálaráðherra skipar 5 menn í stjórn Bókasafnssjóðs höfunda til fjögurra ára í senn, tvo samkvæmt tilnefningu frá Rithöfundasambandi Íslands, einn samkvæmt tilnefningu frá Hagþenki - félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, einn samkvæmt tilnefningu frá Myndstefi - Myndhöfundasjóði Íslands og einn án tilnefningar sem verður jafnframt formaður stjórnarinnar.
Ekki skulu félögin tilnefna sömu menn í stjórn tvisvar í röð.
Stjórnarlaun og annar kostnaður greiðist af óskiptu fé sjóðsins.
2. gr.
Stjórn Bókasafnssjóðs höfunda úthlutar úr sjóðnum þeirri fjárhæð sem hann hefur yfir að ráða samkvæmt 2. gr. laga nr. 33/1997, að frádregnum rekstrarkostnaði sjóðsins.
Úthlutunarfé skal skipt í tvo jafna hluta. Skal öðrum helmingi fjárins úthlutað einstökum höfundum í formi styrkja í viðurkenningarskyni fyrir ritstörf og önnur framlög til bóka, sbr. 3. gr. laganna.
Hinum helmingi fjárins skal úthlutað til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka á bókasöfnum sem lögin gilda um. Fyrir hljóðrit og útgáfur á stafrænu formi er úthlutað á sama hátt. Þessi úthlutun fer fram samkvæmt 3. og 4. gr. laganna á grundvelli skýrslna frá almenningsbókasöfnum, Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni, skólasöfnum og öðrum bóka- og gagnasöfnum, að svo miklu leyti sem útlán þessara bókasafna eru tölvuskráð.
Úthlutun nær að jafnaði ekki til dagblaða, tímarita og safnrita. Myndskreytingar o.fl. í formi bókakápa veita ekki rétt til úthlutunar.
Úthlutun miðast við næstliðið almanaksár og skal lokið fyrir 15. maí ár hvert.
3. gr.
Til þess að öðlast rétt til úthlutunar úr sjóðnum þurfa höfundar að skrá sig hjá Bókasafnssjóði höfunda og skila inn þeim upplýsingum sem stjórn sjóðsins telur nauðsynlegar. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist úthlutun eftir samkomulagi skráðra rétthafa sem tilkynnt hefur verið stjórn Bókasafnssjóðs. Í þeim tilvikum þegar höfundar koma sér ekki saman um skiptingu, skal úthluta samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur og menntamálaráðherra staðfestir.
Tveimur mánuðum fyrir úthlutun sjóðsins skal stjórnin auglýsa úthlutun og úthlutunarreglur.
Stjórn sjóðsins getur óskað eftir frekari upplýsingum um hvort höfundur eða rétthafi fullnægi skilyrðum laga og reglna til úthlutunar.
4. gr.
Stjórn sjóðsins veitir styrki í viðurkenningarskyni til einstakra höfunda og rétthafa samkvæmt 3. gr. laganna.
Úthlutun miðað við fjölda útlána tekur til einstakra bóka, hljóðbóka og annarra gagna. Blönduð gögn, t.d. bók og hljóðrit, teljast eitt verk.
Bækur sem eru 36 bls. að lágmarki, að undanskildum barnabókum, veita rétt til úthlutunar enda séu þær prentaðar og bundnar eða í kiljuformi og til sölu á almennum markaði.
Þýðendum og öðrum sem 2. tl. 3. gr. laganna tekur til er greiddur þriðjungur af úthlutun miðað við útlán.
Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra. Séu meginhöfundar verks fleiri en þrír veitir verkið ekki rétt til úthlutunar miðað við fjölda útlána, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Ritstjórar, höfundar formála og kynningartexta falla utan úthlutunarreglna.
5. gr.
Skráning útlána bókasafna þar sem fram kemur nafn höfundar, titill bókar, fjöldi útlána ásamt stöðluðu bóknúmeri skal berast stjórn sjóðsins eigi síðar en 1. mars ár hvert. Í skráningarúrtaki skulu vera almenningsbókasöfn, Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn, skólasöfn og önnur bóka- og gagnasöfn þar sem útlán eru tölvuskráð. Gögnum skal skilað á tölvutæku formi.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/1997 og öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Frestir samkvæmt 2. og 5. gr. reglugerðar þessarar eiga ekki við um úthlutun ársins 1998.
Menntamálaráðuneytinu, 17. mars 1998.
Björn Bjarnason.
Guðríður Sigurðardóttir.