Menntamálaráðuneyti

174/1991

Reglugerð fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík. - Brottfallin

I. KAFLI

Um markmið skólans og skipulag.

1. gr.

Markmið Stýrimannaskólans í Reykjavík er að veita þá fræðslu, er þarf til að standast fiskimannapróf, farmannapróf og próf skipherra á varðskipum ríkisins.

2. gr.

Skipstjórnarnám skal vera í 4. stigum. Að uppfylltum skilyrðum um siglingatíma veitir hvert stig tiltekin atvinnuréttindi, sem ákveðin eru í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

1. stig farmanna og fiskimanna.

2. stig farmanna og fiskimanna.

3. stig farmanna.

4. stig skipherra á varðskipum ríkisins.

Jafnframt skal skólinn halda uppi námi til 30 rúmlesta réttinda í samræmi við lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

Skólanum er heimilt ef þurfa þykir að starfrækja deild fyrir þá sem ekki fullnægja ákvæðum 3. töluliðar 4. gr. um nám í almennum greinum.

3. gr.

Skólaárið skiptist í tvær námsannir, haustönn og vorönn. Annaskil skulu vera við áramót. Náminu skal skipað í skilgreinda námsáfanga sem metnir skulu til eininga eftir umfangi námsefnis. Samsvarar hver eining að jafnaði námi sem nemur tveimur kennslustundum á viku í eina önn.

Um námsáfanga, markmið þeirra, megininntak, umfang, próf og skipan á námsannir skal kveðið á um í námsvísi skólans.

II. KAFLI

Inntökuskilyrði.

4. gr.

Almenn inntökuskilyrði í skipstjórnarnám eru:

1. Vottorð um sjón, heyrn og málfar sem skipstjórnarstaða krefst.

2. Að hafa lokið 9. stigi í sundi.

3. Að hafa lokið þeim einingafjölda í almennum greinum og faggreinum sem námsvísir kveður á um fyrir hvert skipstjórnarstig.

4. Heilbrigðis- og sakavottorð.

5. Lágmarks siglingatími til inngöngu í 1. stig er 6 mánuðir á skipi yfir 6 rúmlestir eða brúttótonn að stærð sem aflað er eftir 15 ára aldur. Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri eða vottorði frá lögskráningarstjóra.

III. KAFLI

Um kennsluna.

5. gr.

Í námsvísi skólans, sem menntamálaráðuneytið staðfestir, skal kveðið á um kennslugreinar, einingafjölda í grein og áfangaskiptingu á annir.

6. gr.

Leitast skal við að samræma námsáfanga fyrir fagmenn og fiskimenn eftir því sem kostur er. Samræmi skal vera um námsáfanga í öllum skólum, sem kenna til skipstjórnarréttinda.

7. gr.

Bókasafn Sjómannaskólans er til afnota fyrir nemendur og starfslið Stýrimannaskólans. Hlutverk þess er að vera upplýsingamiðstöð og skal safnið búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skólans.

8. gr.

Prófkröfur og tilhögun prófa fyrir hvert stig skal ákveðið í sérstakri prófreglugerð.

IV. KAFLI

Um kennslutíma og leyfi.

9. gr.

Skólaárið hefst 1. ágúst og endar 31. júlí.

10. gr.

Heimilt er að hafa lengd kennslustunda breytilega en miða skal við að hámarksfjöldi kennslustunda sé 40 stundir á viku, miðað við 40 mínútna kennslustundir. Stefnt skal að því, að nemendur geti lokið sem mestu af daglegri undirbúningsvinnu sinni í skólanum.

11. gr.

Um leyfi í skólanum fer eftir reglugerð um leyfi í skólum.

V. KAFLI

Um starfslið skólans.

12. gr.

Að fengnum tillögum skólanefndar skipar menntamálaráðuneytið skólastjóra og fasta kennara eftir því sem þurfa þykir að mati skólastjóra og ráðuneytis. Skólastjóri ræður stundakennara og gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um áfangastjóra, fagstjóra og starfslið á skrifstofu og til aðstoðar við skólastjóra.

13. gr.

Öllum kennurum skólans ber af fremsta megni að stuðla að góðri reglu og aga í skólanum og láta sér annt um, að kennslan nái tilgangi sínum.

VI. KAFLI

Um stjórn skólans.

14. gr.

Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans og greiðist kostnaður af skólahaldinu úr ríkissjóði.

Skólastjóri hefur á hendi daglega stjórn og rekstur skólans. Hann hefur yfirumsjón með húsakynnum og munum, sjóðum, framkvæmdum og fjárreiðum öllum. Skólastjóri skal leggja fyrir menntamálaráðuneytið fjárhagsáætlun um rekstur skólans, öflun kennslutækja, bóka og annars, sem að rekstri skólans lýtur.

Í lok hvers skólaárs skal skólastjóri gefa ráðuneytinu skýrslu um kennslu, próf og aðra starfsemi skólans.

15. gr.

Skólanefnd starfar við skólann. Hún er skólastjóra til ráðuneytis um mikilvæg mál er varða stjórn og rekstur skólans. Hún skal fylgjast með þróun skipstjórnarmenntunar, gera tillögur um stefnumörkun í málefnum skólans og stuðla að sem nánustum tengslum við atvinnulífið.

Skólanefnd skal fjalla um umsóknir um stöður skólastjóra og kennara annarra en stundakennara og senda menntamálaráðuneytinu umsagnir um umsækjendur.

Breyting á námsskipan eða kennsluháttum eða öðrum mikilvægum málum skal borin undir almennan kennarafund.

16. gr.

Skólastjóri skal sjá um, að í skólanum séu prófbók og dagbók og í þær ritað, eftir því sem við á.

VII. KAFLI

Um nemendur skólans.

17. gr.

Nemendur skulu fara eftir sérhverjum þeim reglum og fyrirmælum, sem með samþykki ráðuneytisins kunna að vera settar, til að styðja að reglu og aga í skólanum.

18. gr.

Brjóti nemandi gegn góðri reglu og velsæmi eða sýni ókurteisi eða óhlýðni eða sé óreglusamur og skólavera hans teljist skaðleg fyrir skólann eða gagnslaus fyrir nemandann sjálfan, að dómi skólastjóra, fagstjóra og umsjónakennara, getur skólastjóri vísað honum burt úr skólanum um stundarsakir og við ítrekað brot fyrir fullt og allt.

19. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um Stýrimannaskólann í Reykjavík, nr. 22, 3. maí 1972, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík, nr. 259, 27. ágúst 1974.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem fyrir gildistöku þessarar reglugerðar fullnægja inntökuskilyrðum reglugerðar nr. 259/1974, sem nú er felld úr gildi, skal heimilt að hefja nám haustið 1991 til 1. stigs skipstjórnarréttinda skv. eldra námsskipulagi.

Menntamálaráðuneytið, 15. mars 1991.

Svavar Gestsson.

Stefán Ól. Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica