Menntamálaráðuneyti

391/1996

Reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. - Brottfallin

1. gr.

Nemendur í grunnskóla er hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku.

2. gr.

Markmið kennslunnar er að gera nemendur færa að skilja og nota íslenskt mál, stunda nám í íslenskum grunnskólum og taka þátt í íslensku samfélagi.

Menntamálaráðherra setur náminu markmið í aðalnámskrá grunnskóla og hefur eftirlit með framkvæmd þess, sbr. 9. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995.

 

3. gr.

Skólanefnd þess skóla er nemandi stundar nám við skal sjá til þess að hann fái þá kennslu í íslensku sem skólastjóri og sérfræðiþjónusta skóla telur þörf á meðan nemandi stundar þar nám.

 

4. gr.

Miða skal við að hver nemandi með annað móðurmál en íslensku fái 2 stundir á viku í sérstakri íslenskukennslu á meðan hann er að ná tökum á íslensku máli. Samkvæmt mati skólastjóra og sérfræðiþjónustu skóla getur kennslan verið mismunandi eftir skyldleika móðurmáls nemanda við íslensku.

 

5. gr.

Í skólum þar sem því verður við komið og með samþykki viðkomandi sveitarstjórnar, skulu nemendur með annað móðurmál en íslensku fá kennslu í og á eigin móðurmáli í samráði við forráðamenn. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. Nemendur skulu hvattir til að halda móðurmáli sínu við og rækta það.

 

6. gr.

Heimilt er að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt lokapróf í íslensku og leggja fyrir þá sérstakt lokapróf í íslensku.

 

7. gr.

Um heildarfjölda kennslustunda nemenda með annað móðurmál en íslensku gilda sömu reglur og um aðra nemendur.

 

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 36. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 og öðlast gildi 1. ágúst 1996.

 

Menntamálaráðuneytinu, 4. júlí 1996.

 

Björn Bjarnason.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica