Menntamálaráðuneyti

188/1999

Reglugerð um Íþróttasjóð. - Brottfallin

1. gr.

Framlög úr Íþróttasjóði má veita til eftirtalinna verkefna á sviði íþrótta:

 1. Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar.

 2. Útbreiðslu- og fræðsluverkefna og skal einkum lögð áhersla á að styrkja verkefni sem uppfylla einhver eftirtalinna skilyrða:

a) stuðla að nýsköpun og eflingu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga

b) efla þekkingu þjálfara og leiðbeinenda í íþróttastarfi

c) auka gildi íþróttastarfs í forvörnum gegn neyslu hvers kyns fíkniefna

d) auka veg og virðingu íþróttastarfs í samfélaginu.

 3. Íþróttarannsókna. Tilgangur styrkja til rannsóknar- og þróunarverkefna er að efla nýsköpun þekkingar á íþróttum. Við mat á umsóknum um styrk til slíkra verkefna skal fyrst og fremst farið eftir fræðilegu og hagnýtu gildi þeirra. Heimilt er að styrkja rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði íþróttafræði og stoðgreina íþróttafræði, s.s. líffræði, heilsufræði og samfélagsfræði, enda sé markmið þeirra að styrkja fræðilegar undirstöður íþróttastarfs í landinu.

 4. Verkefna samkvæmt 13. gr. íþróttalaga.

2. gr.

Auglýst skal árlega eftir umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði. Í auglýsingu skal koma fram hvert verksvið sjóðsins er sbr. 1. gr. Umsóknir skulu berast íþróttanefnd á þar til gerðum eyðublöðum fyrir 1. maí ár hvert. Í umsókn skulu m.a. koma fram upplýsingar um:

a) heiti verkefnis

 b) markmið 

 c) fræðilegt og hagnýtt gildi verkefnis, eftir því sem við á

 d) verk- og tímaáætlun 

 e) kostnaðar- og fjármögnunaráætlun

 f) samstarfsaðila, eftir því sem við á.

Sé sótt um frekari stuðning við verkefni, sem áður hefur hlotið styrk úr Íþróttasjóði, ber umsækjanda að láta fylgja umsókn áfangaskýrslu um stöðu verkefnisins.

3. gr.

Íþróttanefnd metur umsóknir og gerir tillögu til menntamálaráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

Við mat á umsóknum skal m.a. tekið tillit til notagildis verkefnanna í almannaþágu og til eigin fjármögnunar umsækjenda.

Íþróttanefnd er heimilt að leita álits þar til bærra sérfræðinga á umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði.

4. gr.

Styrkveiting úr Íþróttasjóði felur ekki í sér skuldbindingu um frekari styrkveitingar til sama verkefnis síðar.

5. gr.

Þeir sem hljóta styrki úr Íþróttasjóði skulu skila skýrslu um framkvæmd og fjárhagslegt uppgjör verkefnis til íþróttanefndar eigi síðar en einu ári eftir að styrkur var veittur.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. íþróttalaga nr. 64/1998 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 609/1989, um Íþróttasjóð.

Menntamálaráðuneytinu, 11. mars 1999.

Björn Bjarnason.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica