Menntamálaráðuneyti

534/1989

Reglugerð um umferðarfræðslu. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur umferðarfræðslu í skólum er:

1. Að gera nemendur sem hæfasta þátttakendur í umferð og að þeir skynji umhverfi sitt og umferð út frá sjónarmiði umferðaröryggis.

2. Að gera nemendum grein fyrir nauðsyn umferðarreglna og kenna þær reglur sem gilda í umferð á hverjum tíma. Fræðslu skal hagað í samræmi við þroska og aldur nemenda, þannig að þeir öðlist sem bestan skilning á viðfangsefninu.

3. Að kenna nemendum að fara eftir settum reglum, þannig að þeir stofni hvorki sjálfum sér eða öðrum í óþarfa hættu.

 

2. gr.

Á dagvistarheimilum og forskóladeildum skal börnum leiðbeint um einföldustu reglur sem gangandi fólki ber að fylgja í umferð.

Fræðslan skal einkum beinast að því að innræta þá varúð er börnum ber að sýna þegar þau eru á ferð eða leik á almannafæri. Jafnframt skal börnum leiðbeint um öryggi farþega í bílum og efld með þeim jákvæð viðhorf til notkunar á öryggisbúnaði í umferðinni. Forráða­mönnum þeirra stofnana, sem að framan greinir, ber að fylgjast með kennslunni og gera ráðstafanir til þess að fáanleg gögn til kennslunnar séu fyrir hendi.

Umferðarfræðslan skal fara fram í samvinnu við foreldra eftir því sem við verður komið.

 

3. gr.

Í grunnskóla skal umferðarfræðsla ótvírætt vera einn þáttur skyldunámsins.

 

4. gr.

Umferðarfræðslu barna í 1. - 6. bekk grunnskóla annast umsjónakennari þeirra eða sá kennari sem skólastjóri kveður til og skal fræðslan samtals nema minnst 80 mín. á mánuði hjá hverjum árgangi meðan skóli starfar.

Fræðslan skal fara fram bæði innanhúss og utan.

Umferðarfræðslu skal einkum samtvinna námsgreinum eins og samfélagsfræði, íslensku, handmennt og skólaíþróttum, en einnig öðrum námsgreinum og námsþáttum eftir því sem hæfa þykir.

Brýna skal fyrir börnunum þá hættu sem getur stafað af umferð, bæði almennar hættur og sérstakar í byggðarlaginu. Þeim skal gerð grein fyrir þeirri skyldu að sýna varúð og taka tillit til annarra. Þá skal þeim kennt að þekkja helstu reglur um umferð gangandi fólks og hjólandi og leiðbeint um öryggisbúnað fyrir farþega í bílum. Ennfremur að þekkja helstu umferðarmerki og mikilvægustu sérákvæði um umferð í nágrenni skólans og í byggðarlaginu.

Við kennsluna skal nota myndir, áhöld og annað það er að gagni má koma og völ er á og skulu fræðsluyfirvöld sjá til þess að ætíð séu fyrir hendi heppileg námsgögn fyrir umferðarfræðslu. Leggja skal áherslu á æfingar úti við og athugun á umferð eftir því sem kostur er.

 

5. gr.

Til umferðarfræðslu utanhúss í hverjum árgangi skal verja nokkrum kennslustundum árlega og eigi færri en samtals 120 mín. á ári.

Fræðslan skal beinast að því að kynna börnunum umferðarreglur og umferðarmerki, bæði á afmörkuðum svæðum og alfaravegum, einkum í nágrenni skólans. Rifjað skal upp og æft það sem kennt hefur verið um umferðarmál.

 

6. gr.

Fræðsluyfirvöld skulu leita samvinnu við viðkomandi lögreglustjóra um aðstoð lögreglumanna við umferðarfræðslu í skólum. Hlutverk lögreglumanna er að aðstoða við umferðarfræðsluna, rifja upp og leggja áherslu á það sem þegar hefur verið kennt í skólanum.

Mikilvægt er að góð samvinna náist milli skóla og heimila um umferðarfræðslu barna, þannig að skóli og heimili geti sameinast um aðgerðir, sem auki umferðaröryggi.

Heimilt er að fela sérþjálfuðum kennurum ákveðna þætti umferðarfræðslu í skólum, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

 

7. gr.

Æskilegt er að ráða innan fræðsluumdæmis, bæjarfélags eða einstakra skóla trúnaðarkennara, sem vinni að skipulagningu og framgangi umferðarfræðslu við ákveðna skóla í samráði við menntamálaráðuneytið, Umferðarráð og aðra sem láta sig umferðarmál varða. Trúnaðarkennari starfi á vegum bæjar- eða sveitarfélags.

 

8. gr.

Í 7. - 9. bekk grunnskóla skal kennslu hagað líkt og um getur í 4. og 5. gr. , en gerðar meiri kröfur. Nemendum skulu kenndar aðalreglur um umferð vélknúinna ökutækja og hvers ber að gæta í sambandi við dýr á eða við vegi. Leitast skal við að samtvinna umferðarfræðslu öðrum námsgreinum þar sem því verður við komið. Viðfangsefnið skal rætt ítarlega og áhersla lögð á jákvæð viðhorf í umferð.

Æskilegt er að í tengslum við almenna umferðarfræðslu sé leiðbeint um meðferð og notkun gúmbáta og smábáta og helstu atriði siglingareglna og öryggisbúnaðar báta. Heimilt er að setja upp námskeið sem fornám að prófi á ýmis ökutæki. Æskilegt er að

kennsla þessi sé í umsjón kennara sem jafnframt hafi ökukennararéttindi (eða meirapróf).

 

9. gr.

Námsgagnastofnun gefur út eða gerir tillögur um náms- og kennslugögn í samráði við menntamálaráðuneytið, Umferðarráð og aðra þá aðila sem láta sig þessi mál varða.

 

10. gr.

Mat á þekkingu nemenda í umferðarreglum er samkvæmt ákvæðum um námsmat í grunnskóla. Heimilt er að láta fara fram getraunir eða kannanir með frjálsri þátttöku nemenda er sýni þekkingu þeirra í umferðarreglum. Æskilegt er að samvinna sé höfð við sjónvarp og fleiri fjölmiðla um fræðslu, getraunir og keppni.

 

11. gr.

Kennaranemar skulu sérstaklega búnir undir umferðarfræðslu. Jafnframt skal Kennaraháskóli Íslands sjá starfandi kennurum fyrir námskeiðum í umferðarfræðslu.

 

12. gr.

Menntamálaráðuneytið ræður sérfróðan mann til þess að hafa umsjón með umferðarfræðslu í skólum og skal starf hans skipulagt að höfðu samráði við Umferðarráð.

 

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 117. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 30. mars 1988, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 332 frá 1975.

 

Menntamálaráðuneytið, 9. nóvember 1989.

 

Svavar Gestsson.

Sólrún Jensdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica