Mennta- og menningarmálaráðuneyti

478/2011

Reglugerð um Lánasjóð íslenskra námsmanna. - Brottfallin

1. gr.

Lánasjóður íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán. Í auglýsingu skal taka fram um hvaða lán sé að ræða, hvar umsóknareyðublöð og önnur umsóknargögn séu fáanleg, hvenær umsóknarfrestur renni út, sem og annað sem máli skiptir. Eyðublöð fyrir umsóknir og fylgiskjöl þeirra, svo og upplýsingar um námsaðstoð sjóðsins, skulu jafnan vera fáanleg í íslenskum skólum þar sem lánshæft nám fer fram, sem og í sendiráðum Íslands erlendis.

2. gr.

Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert námsár, sem miðast yfirleitt við 1. júní ár hvert. Umsóknir um námslán skulu vera á eyðublöðum sjóðsins og skal þeim skilað til hans eða þau póstlögð áður en umsóknarfresti lýkur, ásamt tilskildum fylgiskjölum. Verði breytingar á högum umsækjanda eftir að umsókn var lögð fram, ber honum þegar í stað að skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Lán skal fellt niður og innheimt með vöxtum og kostnaði ef í ljós kemur að umsækjandi hefur vísvitandi veitt sjóðnum rangar eða villandi upplýsingar.

3. gr.

Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf hér á landi:

a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft samfellda búsetu hér á landi á sama tíma eða

b. í skemmri tíma en 12 mánuði og haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili.

Með launuðu starfi er átt við að umsækjandi hafi á grundvelli gilds atvinnuleyfis annað hvort haft reglulegt launað starf í vinnuréttarsambandi eða starf sem sjálfstæður atvinnurekandi. Með starfi er ennfremur átt við starf sem er 30 vinnustundir á viku, að lágmarki. Starfsþjálfun á launum og sambærileg námstímabil á launum jafngilda ekki launuðu starfi. Skilyrði er að atvinnurekandinn sé skráður hjá fyrirtækjaskrá og skattyfirvöldum sem skilaskyldur greiðandi staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna. Áskilið er að sjálfstætt starfandi umsækjendur námsaðstoðar séu skráðir greiðendur virðisaukaskatts eða staðgreiðslu skatta.

2. Umsækjandi, sem ekki starfar sem launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi, hafi haft fimm ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag þegar búseta hefur hafist í öðru augnamiði en að stunda nám hér á landi.

3. Hafi launað starf skv. 1. tölul. 1. mgr. ekki verið samfellt eða því hefur ekki verið gegnt fram að upphafi náms, á umsækjandi þó rétt til námsláns ef umrædd tímabil hafa:

a. varað að hámarki 3 mánuði samanlagt,

b. tímabil án atvinnu hafa verið skráð á atvinnuleysisskrá,

c. tímabil allt að 6 mánuðum hafa verið nýtt til starfsnáms, tungumálanáms eða sambærilegrar menntunar eða

d. um veikindatímabil er að ræða.

Jafngild launuðu starfi skv. 1. tölul. 1. mgr. eru tímabil sem umsækjandi hefur annast barn í allt að eitt ár eftir fæðingu eða ættleiðingu samkvæmt þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði.

4. gr.

Námsmenn, sem eru ríkisborgarar EES-ríkis og fjölskyldur þeirra, eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB frá 29. apríl 2004 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsra flutninga og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sbr. 1. gr. laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Umsækjandi um námslán, sem er ríkisborgari í EES-ríki, sem er launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi skv. reglum EES-réttarins, á rétt til námsláns vegna náms hér á landi eða erlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Með launþega eða sjálfstæðum atvinnurekanda er einnig átt við EES-ríkisborgara sem hefur áður verið launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi, þegar samhengi er á milli náms og fyrra starfs hér á landi með tilliti til innihalds og tíma. Jafnframt falla hér undir þeir sem eru án atvinnu vegna heilsufars eða sem vegna skipulags á vinnumarkaði hafa þörf fyrir endurmenntun í fagi án tillits til samhengis við fyrra starf hér á landi, að því er varðar innihald og tíma. Réttur til námslána skv. þessu ákvæði er háður því skilyrði að fyrirhugað nám hafi faglega skírskotun til starfs sem umsækjandi gegnir hér á landi. Krafa um faglega skírskotun við starf umsækjanda fellur brott verði umsækjandi án atvinnu í kjölfar almennra breytinga á innlendum vinnumarkaði.

2. Umsækjandi um námslán sem er maki ríkisborgara í EES-ríki, sem er launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér landi skv. reglum EES-réttarins, á rétt til námsláns vegna náms hér á landi eða erlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar, ef viðkomandi býr hjá eða hefur búið hjá EES-ríkisborgara sem maki á sama tíma og sá er eða hefur verið launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi.

3. Umsækjandi um námslán, sem er barn ríkisborgara í EES-ríki, sem hefur verið launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi skv. reglum EES-réttarins, á rétt til námsláns vegna náms hér á landi eða erlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar, fram að 21 árs aldri, enda sé hann á framfæri viðkomandi. Áskilið er að aðstæður foreldra umsækjanda hafi aldurs og stöðu hans vegna þýðingu skv. reglum EES-réttarins. Ef umsækjandi býr ekki á Íslandi við upphaf námsins á hann aðeins rétt á námsláni ef hann var á framfæri EES-ríkisborgarans fram að þeim tíma og telst þá vera launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi skv. reglum EES-réttarins.

4. Umsækjandi um námslán, sem er foreldri ríkisborgara í EES-ríki, sem hefur verið launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi skv. reglum EES-réttarins, á rétt til námsláns vegna náms hér á landi eða erlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar, ef viðkomandi býr hjá eða hefur búið hjá EES-ríkisborgara á sama tíma og sá er eða hefur verið launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi hér á landi og hefur verið á framfæri hans.

5. gr.

Námsmenn sem eru ríkisborgarar EES-ríkis, sem starfa ekki sem launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur hér á landi og fjölskyldur þeirra eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna vegna náms hér á landi eða erlendis eftir fimm ára samfellda búsetu hér á landi, sbr. þó 2. mgr. Sama regla á við um maka, börn og foreldra ríkisborgara EES-ríkis sem leiða rétt sinn til námslána af stöðu hans.

Við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. um fimm ára samfellda búsetu á Íslandi sé uppfyllt skal litið fram hjá skammtímafjarvistum frá Íslandi sem til samans fara ekki yfir sex mánuði á ári eða fjarvistum í allt að tólf mánuði samfellt af mikilvægum ástæðum, t.d. vegna meðgöngu og fæðingar, alvarlegra sjúkdóma, náms eða starfsnáms eða starfsdvalar á Evrópska efnahagssvæðinu á vegum fyrirtækis sem hefur staðfestu hér á landi. Í kjölfar lengri en tveggja ára samfelldrar fjarvistar frá Íslandi er unnt að ávinna sér rétt til námsaðstoðar að nýju með fimm ára samfelldri búsetu hér á landi.

6. gr.

Að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu getur námsmaður að hámarki fengið námslán í aðstoðartíma sem samsvarar 600 ECTS einingum samanlagt vegna grunnháskólanáms, sérnáms og framhaldsháskólanáms. Sjóðurinn lánar hvorki fyrir undirbúningsnámi né til náms að loknu doktorsprófi. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um hámark einingafjölda í lánshæfu námi.

Stjórn sjóðsins er heimilt að setja reglur um hámark lána, t.d. vegna skólagjalda og að miða upphæð lána við námsárangur lánþega á hverri önn, misseri eða skólaári.

7. gr.

Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, undirrita skuldabréf til viðurkenningar á teknum lánum. Á skuldabréfi, sem gefið verður út skv. ákvæðum þessarar reglugerðar, skal ekki tilfærð upphæð fyrr en að námi loknu. Ef námsmaður er á vanskilaskrá skal hann leggja fram viðurkenningu eins til tíu manna sem taka að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu á höfuðstól lánsins ásamt verðtryggingu, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna þess og rita nöfn sín á skuldabréfið því til staðfestingar eða á þar til gerða yfirlýsingu í viðurvist votta. Hver ábyrgðarmaður getur takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð. Í þessum tilvikum skal miða við að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggst taka að láni til þess að ljúka námi sínu.

8. gr.

Námslán skulu bera auk verðtryggingar 1% ársvexti, sem leggjast á verðtryggðan höfuðstól og reiknast frá námslokum.

9. gr.

Innheimta skal í hvert sinn sem námslán er greitt út 1,2% lántökugjald af lánsfjárhæðinni. Lántökugjaldið rennur til þess að standa straum af rekstri sjóðsins og einnig til þess að mæta afföllum af útistandandi námslánum að svo miklu leyti sem það hrekkur til.

10. gr.

Árleg endurgreiðsla af skuldabréfi ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar föst ársgreiðsla og er gjalddagi hennar að jafnaði 1. mars ár hvert. Fyrsta greiðsla af námsláni er 30. júní tveimur árum eftir námslok. Ef námslok frestast fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Seinni ársgreiðslan er í öllum tilvikum 1. september.

11. gr.

Ef lánþegi er með lögheimili erlendis og því ekki skattskyldur af öllum tekjum sínum á Íslandi ber honum að skila inn til sjóðsins staðfestum tekjuupplýsingum frá skattyfirvöldum viðkomandi lands vegna síðasta árs, hvort sem hann hefur einnig skilað skattframtali á Íslandi eða ekki. Ef viðkomandi upplýsingar berast ekki eða telja verður innsendar upplýsingar ósennilegar í ljósi annarra gagna og upplýsinga hefur sjóðurinn heimild til að áætla tekjur á viðkomandi skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni. Tekjustofn þeirra lánþega sem eru með lögheimili erlendis skal reiknaður út á sama hátt og tekjustofn er reiknaður út af skattyfirvöldum á Íslandi hverju sinni.

12. gr.

Nú gefur tekjustofn ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum gögnum, er sjóðstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum.

13. gr.

Sjóðstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Skal hann þá leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita undanþágu að hluta eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðstjórn setur nánari almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis.

14. gr.

Nú fær lánþegi ofgreitt lán skv. reglum sjóðsins vegna rangra upplýsinga eða af öðrum ástæðum og er þá sjóðsstjórn heimilt að innheimta ofgreidda upphæð með venjulegum vöxtum banka eða sparisjóðs frá þeim degi sem greiðslan fór fram.

15. gr.

Almennar upplýsingar, sem tengjast ekki einstökum lánþegum eða umsækjendum, eru öllum opnar eftir því sem tök eru á að afla þeirra hverju sinni. Aðrar upplýsingar sem sjóðurinn býr yfir teljast einstaklingsbundnar og eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál sem eru eingöngu aðgengileg starfsfólki sjóðsins og stjórn, svo og námsmanni sjálfum og umboðsmanni hans, að því er hann sjálfan varðar. Skal stjórn og starfsfólki á hverjum tíma kynnt hvað í þessu felst. Námsmaður fellst með umsókn sinni á ofangreinda meðferð upplýsinga er hann varða. Að öðru leyti er farið með upplýsingar sem sjóðurinn býr yfir í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

16. gr.

Lánþegi, sem tekið hefur lán skv. lögum nr. 21/1992 og skv. lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum, skal fyrst endurgreiða lán tekin skv. lögum nr. 21/1992. Á því ári, sem hann lýkur endurgreiðslu láns skv. lögum nr. 21/1992, hefur hann jafnframt endurgreiðslu eldri lána og skal upphæð heildarársgreiðslu miðast við hámarksgreiðslu skv. lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum en fjárhæð ársgreiðslunnar skal þó aldrei vera hærri en full ársgreiðsla hefði verið skv. lögum nr. 21/1992.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 6. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 602/1997, með áorðnum breytingum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 20. apríl 2011.

Katrín Jakobsdóttir.

Karitas H. Gunnarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica