Landbúnaðarráðuneyti

479/1995

Reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins og um takmörkun á innflutningi afurða dýra, sem fengið hafa vaxtaraukandi efni. - Brottfallin

Reglugerð

um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins og

um takmörkun á innflutningi afurða dýra, sem fengið hafa vaxtaraukandi efni.

I. KAFLI. 

 Tilgangur og gildissvið.

1. gr.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins með innfluttum sláturafurðum, eggjum, mjólkurafurðum og öðrum vörum sem reglugerðin tekur til. Jafnframt að koma í veg fyrir að fluttar verði til landsins afurðir dýra sem fengið hafa vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu.

2. gr.

Reglugerð þessi gildir um innflutning á hvers konar afurðum dýra og öðrum vörum sem smitefni getur borist með er valda dýrasjúkdómum. Jafnframt um afurðir dýra sem fengið hafa vaxtaraukandi efni á eldistímanum. Reglugerð þessi gildir ekki um fiskimjöl.

II. KAFLI 

 Varnir gegn dýrasjúkdómum.

3. gr.

Óheimilt er að flytja til landsins eftirtaldar afurðir dýra og vörur sem geta borið með sér smitefni er valda dýrasjúkdómum:

Hrátt kjöt, unnið sem óunnið, svo og innmat og sláturúrgang. Þó er heimilt að flytja inn saltaðar garnir frá löndum sem hafa hlotið viðurkenningu yfirdýralæknis.

Dýrafóður sem inniheldur sláturúrgang, t.d. blóðmjöl, kjöt- og/eða beinamjöl. Leyfður er innflutningur á þessum efnum hafi þau verið hituð upp í a.m.k. 130InfinityC í 20 mínútur undir 3 millibara þrýstingi.

Húðir, gærur, bein, klaufir, horn, möluð horn, óhreinsaðan dún, óhreinsaðar fjaðrir, óhreinsað dýrahár. Undanþegið er unnar húðir eða gærur sem hafa legið a.m.k. 3 mánuði í salti, blandað sótthreinsiefnum, svo og dauð dýr/fuglar, sem ætlunin er að stoppa upp, og veiðiminjar, enda fylgi vottorð sem staðfestir að varan hafi verið sótthreinsuð eða vara sótthreinsist á fullnægjandi hátt við framleiðslu.

Egg og eggjaafurðir, þ.m.t. matvæli og afurðir sem innihalda egg, þó ekki egg eða afurðir sem hafa verið hitaðar í 65InfinityC í fimm mínútur hið skemmsta og eggjaduft sem hefur verið hitað upp í a.m.k. 140InfinityC.

Ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir unnar úr ógerilsneyddri mjólk.

Alidýraáburð og rotmassa blandaðan alidýraáburði, mó, mold, hey og hálm. Ákvæði þetta gildir ekki um hey eða hálm sem notaður er til pökkunar og ekki um mó og mold sem flutt er inn frá Svíþjóð og Finnlandi, enda fylgi upprunavottorð með sendingunni.

Blóð, sermi og aðrar lífrænar vörur úr dýraríkinu, þ.m.t. sýklar, veirur, blóð-, blóðvatns-, frumu-, vefja- og dýraeggjahvítusýni, nema um sé að ræða efni til nota á rannsóknarstofum og innflytjandi gefi skriflega yfirlýsingu um að varan sé eingöngu ætluð til slíkra nota og ekki til dreifingar. Jafnframt að efnin komi ekki í snertingu við dýr, að afgangi efna, öllum úrgangi og umbúðum verði brennt eða eytt á annan tryggilegan hátt.

Notuð reiðtygi og ósótthreinsuð reiðföt, svo og búnað sem notaður hefur verið til geymslu og flutninga á dýrum og dýraafurðum.

Notaðar landbúnaðarvélar og -áhöld, sem ekki hafa verið þvegin og sótthreinsuð.

Notaðan veiðibúnað til stangaveiði, sem ekki hefur hlotið viðurkennda sótthreinsun.

4. gr.

Landbúnaðarráðherra er heimilt, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, að heimila innflutning á vörum, sem óheimilt er að flytja inn samkvæmt 3. gr. þessarar reglugerðar, sbr. 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sbr. breytingu með 26. gr. laga nr. 87/1995, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim sem valda dýrasjúkdómum.

Innflytjandi vöru skal leggja fram skriflega beiðni um innflutning þar sem fram komi upplýsingar um framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda. Innflytjandi skal leggja fram fullnægjandi sönnunargögn um tíðni plága eða sjúkdóma í viðkomandi framleiðslulandi og horfur í þeim efnum. Yfirdýralæknir skal því aðeins mæla með innflutningi að staðfest sé að um sé að ræða vöru frá landi þar sem ekki fyrirfinnast dýrasjúkdómar sem eru óþekktir hér á landi og smitefni geti ekki borist með þeim.

Þá skal innflytjandi leggja fram vottorð sem staðfestir að vara sem áformað er að flytja til landsins sé ekki af búfé sem gefið hefur verið vaxtaraukandi efni eða lyf.

Þegar vara, sem landbúnaðarráðherra heimilar innflutning á skv. 1. mgr. í fyrsta sinn, skal innflytjandi láta yfirdýralækni í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykktar áður en útskipun fer fram.

III. KAFLI 

 Innflutningsvottorð.

5. gr.

Innfluttar sláturafurðir, egg og mjólkurvörur skulu upprunnar þar sem tilkynningaskyldra dýrasjúkdóma hefur ekki orðið vart næstliðna sex mánuði áður en vinnsla eða pökkun vörunnar fór fram. Auk þess skulu vörurnar uppfylla neðangreind skilyrði, eftir því sem við á:

Vörunni skulu fylgja opinber uppruna- og heilbrigðisvottorð frá landi sem hlotið hefur staðfestingu yfirdýralæknis. Landbúnaðarráðuneytið birtir með auglýsingu skrá yfir þau lönd sem yfirdýralæknir viðurkennir.

Afurðir séu af dýrum sem reyndust heilbrigð og laus við einkenni smitsjúkdóma við slátrun og voru ekki gefin lyf svo skömmu fyrir slátrun að lyfjaleifar gætu leynst í vörunni, sbr. reglugerð nr. 252/1995 um hámark dýralyfjaleifa í sláturafurðum, eggjum og mjólk.

Varan sé ekki framleidd af búfé sem fengið hefur fóður sem inniheldur vaxtaraukandi efni eða lyf, nema um sé að ræða lyf gegn hníslasótt í alifuglum eða lyf, sem notuð hafa verið tímabundið til lækninga.

Slátrun dýra, meðferð og vinnsla afurðanna skal hafa farið fram í sláturhúsum eða vinnslustöðvum sem uppfylla sambærilegar heilbrigðiskröfur og gilda um innflutning til Evrópusambandsins eða Bandaríkja Norður-Ameríku.

Mjólkurvörur skulu hafa verið unnar úr gerilsneyddri mjólk.

Soðnum afurðum og matvælum skulu fylgja vottorð opinberra aðila, þar sem staðfest er að hún hafi hlotið hitameðferð, þannig að kjarnahiti hefur náð 72InfinityC. Sótthreinsun sláturafurða með geislameðferð er óheimil.

Slátur- og mjólkurafurðir og egg skulu uppfylla ákvæði um aðskotaefni, sbr. reglugerð nr. 518/1993 um aðskotaefni í matvælum.

Varan skal merkt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.

Innflytjandi vöru skal sjá til þess að öll nauðsynleg vottorð fylgi vörunni við innflutning og ber hann allan kostnað sem kann að leiða af öflun vottorða og þeim sóttvarnarráðstöfunum sem uppfylla þarf vegna innflutningsins, þ.m.t. nauðsynlega sýnatöku og rannsóknir sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.

Ferðamenn sem koma með soðin matvæli, þar sem staðfest er á umbúðum, að varan hafi hlotið hitameðferð, eins og áskilið er í e-lið, þurfa ekki að framvísa vottorði.

IV. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

6. gr.

Stjórnendur skipa og flugvéla sem koma til landsins með matarleifar og í eru sláturafurðir skulu sjá til þess að þær séu losaðar í sérstaka vatnshelda sorpgáma og síðan eytt samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis. Sláturafurðum sem fluttar eru inn án heimildar skal eytt á eldi eða á annan tryggilegan hátt.

Komi upp ágreiningur um túlkun gagna, sem fylgja innfluttri vöru og varðar efni þessarar reglugerðar, skal þeim ágreiningi vísað til yfirdýralæknis.

Farmenn og ferðamenn sem koma til landsins skulu hlíta sóttvarnarreglum þessarar reglugerðar að því er varðar sláturafurðir sem eru í farangri þeirra og ætlaðar eru til eigin nota.

7. gr.

Landbúnaðarráðherra er rétt að leyfa umflutning (transit) á vörum þeim sem taldar eru upp í 3. gr. þessarar reglugerðar, enda sé varan flutt úr landinu án ónauðsynlegrar tafar. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að varan sé flutt í vandlega lokuðum umbúðum, þar sem innihald er tilgreint og sendingunni fylgi nauðsynleg uppruna- og heilbrigðisvottorð. Strax og slík vara kemur til landsins skal hún innsigluð og er óheimilt að rjúfa innsiglið meðan varan er geymd hér á landi í vörslu tollgæslu.

8. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt þeim lögum sem tilgreind eru í 9. gr. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um dýralækna nr. 77/1981, með síðari breytingum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, sbr. breytingu með lögum nr. 87/1995, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins nr. 24/1994 og breyting með reglugerð nr. 409/1995.

Landbúnaðarráðuneytið, 1. september 1995.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica