Landbúnaðarráðuneyti

659/2005

Reglugerð um gæðamat á æðardúni. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um framkvæmd gæðamats á íslenskum æðardúni, starfsskyldur og hæfiskröfur dúnmatsmanna.




2. gr.

Skilgreiningar.

Dreifing: Sala eða afhending á fullhreinsuðum æðardúni.

Dúnmatsmaður: Aðili sem fengið hefur starfsleyfi frá landbúnaðarráðuneytinu.

Fullhreinsun: Þegar dúnn hefur verið þurrhreinsaður á þann hátt að engir hnökrar, óhreinindi, kusk, ókunn efni, ryk eða fjaðrir finnast í dúninum.



3. gr.

Dreifing.

Allur æðardúnn, hvort sem er til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings, skal metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun, sbr. 2. gr. Áður en að dreifingu á innanlandsmarkaði eða til útflutnings kemur skal liggja fyrir að æðardúnn standist gæðamat dúnmatsmanna með vottorði þeirra þar að lútandi. Vottorð dúnmatsmanna skal vera samkvæmt fyrirmynd í viðauka C. Þvoi dreifingaraðili æðardún eftir fullhreinsun sbr. 2. gr. og gæðamat skal hann ávallt fá dúnmatsmann aftur til að innsigla og staðfesta magn æðardúnsins eftir þvottinn.

4. gr.

Starfsleyfi dúnmatsmanna.

Þeir aðilar sem áhuga hafa á að sækja um starfsleyfi til dúnmats, skulu senda landbúnaðarráðuneytinu umsókn þess efnis. Landbúnaðarráðuneytið gefur út starfsleyfi til allt að fimm ára til handa dúnmatsmönnum til starfa á starfssvæðum sbr. viðauka B að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna.

5. gr.

Hæfniskröfur dúnmatsmanna.

Hæfniskröfur dúnmatsmanna felast m.a. í því að hafa verulega reynslu af æðardúnstekju, meðhöndlun æðardúns og þekkingu á eiginleikum hans. Auk þess skulu dúnmatsmenn sækja námskeið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem farið er yfir helstu atriði er snúa að æðarfugli, æðardúnstekju, geymslu, meðhöndlun hreinsun og eiginleikum æðardúnsins. Á námskeiðinu skal dúnmatsmönnum veitt leiðsögn um mat á æðardúni þannig að gætt sé samræmis við mat alls staðar á landinu. Dúnmatsmenn skulu sækja námskeið um dúnmat á a.m.k. fimm ára fresti eða ávallt áður en starfsleyfi fellur niður og sótt er um starfsleyfi til dúnmats.

Dúnmatsmenn skulu ávallt gæta að hæfisreglum 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og áhrifum vanhæfis sbr. 4. gr. stjórnsýslulaga.

6. gr.

Starfssvæði dúnmatsmanna.

Fjöldi dúnmatsmanna skal vera allt að 12 og koma starfssvæði þeirra fram í viðauka B. Allt að fimm dúnmatsmenn skulu starfa á starfssvæði Norðvesturlands. Allt að þrír dúnmatsmenn skulu starfa á starfssvæði Norðausturlands. Allt að þrír dúnmatsmenn skulu starfa á Suðvesturlandi þ.m.t. Reykjavík en a.m.k. einn dúnmatsmaður skal starfa á Suðurlandi.

7. gr.

Dúnmat.

Matsbeiðandi skal óska eftir mati dúnmatsmanns áður en til dreifingar kemur eftir fullhreinsun sbr. 2. gr. Ávallt skal hafa í huga hæfisreglur stjórnsýslulaga við slíka umsýslu.

Við gæðamat á fullhreinsuðum æðardúni sbr. 2. gr., skal dúnmatsmaður m.a. ganga úr skugga um að engir hnökrar, óhreinindi, kusk, ókunn efni, ryk eða fjaðrir finnist í æðardúninum. Hann skal auk þess taka tillit til eiginleika æðardúnsins fjaðurmögnunar og litar hans.

Til að ganga úr skugga um að ekkert ryk fyrirfinnist í æðardúninum skal dúnmatsmaður taka u.þ.b. 30 – 50 gr. visk af æðardúni og hrista í 15 sek. yfir hvítu blaði.

Til að ganga úr skugga um að engir hnökrar, kusk, ókunn efni eða fjaðrir leynist í æðardúninum skal dúnmatsmaður nota sjónmat og snertiskyn. Til að kanna hreinleika dúnsins skal hann taka u.þ.b. 30 - 50 gr. visk af æðardúni og skoða vel, ekkert kusk, ókunn efni eða fjaðrir mega vera í dúninum svo hann standist gæðamat.

Kostnaður við dúnmat greiðist af matsbeiðanda samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir.

8. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða sektum og sæta meðferð opinberra mála.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. gr. laga nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni. Á sama tíma fellur úr gildi erindisbréf fyrir matsmenn á æðardúni nr. 64/1972. Reglugerðin tekur gildi þegar í stað.

Bráðabirgðaákvæði.

I.

6. gr. reglugerðarinnar tekur gildi frá og með 1. ágúst nk. Fram að þeim tíma eru skipaðir tímabundnir dúnmatsmenn.

Landbúnaðarráðuneytinu, 12. júlí 2005.


F. h. r.

Guðmundur B. Helgason.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.




VIÐAUKI A

1. Í vottorði frá dúnmatsmanni sbr. fyrirmynd í viðauka C, sem fylgja skal með hverri dreifingu af fullhreinsuðum æðardúni sbr. 2. gr., skal eftirfarandi koma fram:

· að um fullhreinsaðan æðardún sé að ræða sem staðist hefur gæðamat
· að staðfest sé þyngd sendingar
· að æðardúnninn hafi verið settur í pakkningar undir eftirliti dúnmatsmanns
· að hver poki sé innsiglaður af dúnmatsmanni og að þar komi fram númer dúnmatsmanns
· undirskrift dúnmatsmanns.

Sé æðardúnn þveginn skal auk þess fylgja með vottorð frá dúnmatsmanni með hverri sendingu þar sem fram kemur:

· að staðfest sé þyngd sendingar
· að hver poki sé innsiglaður af dúnmatsmanni og þar komi fram númer dúnmatsmanns
· undirskrift dúnmatsmanns.

Landbúnaðarráðuneytið staðfestir og skráir þau tæki og einkenni þeirra, sem hver lögskipaður dúnmatsmaður notar við að innsigla pakkningar, enda sé um viðurkennd tæki og aðferð að ræða.


2. Umsókn um starfsleyfi dúnmatsmanns skal senda til landbúnaðarráðuneytisins.

3. Dúnmatsmenn sem sótt hafa námskeið skulu reglulega samræma og samhæfa vinnubrögð og aðferðir við dúnmat, eftir því sem landbúnaðarráðuneytið telur þörf á.

4. Við mat skal dúnmatsmaður taka sýni úr hverri pakkningu til þess að sannreyna að dúnninn sé fullhreinsaður. Hann ábyrgist að sýnið sé fullhreint og hafi staðist gæðamat, sbr. 7. gr. Dúnmatsmanni er heimilt að geyma sýni þar til staðfesting á greiðslu hefur borist. Sýnið er ávallt eign matsbeiðanda.

VIÐAUKI B


1. Starfssvæði dúnmatsmanna skulu vera:
· Norðvesturland. Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög:
Hvalfjarðarstrandarhreppur

Skilmannahreppur

Innri-Akraneshreppur

Leirár- og Melahreppur

Skorradalshreppur

Borgarfjarðarsveit

Hvítársíðuhreppur

Borgarbyggð

Kolbeinsstaðahreppur

Eyja- og Miklaholtshreppur

Snæfellsbær

Grundarfjarðarbær

Helgafellssveit

Stykkishólmsbær

Dalabyggð

Saurbæjarhreppur

Reykhólahreppur

Vesturbyggð

Tálknafjarðarhreppur
Bolungarvíkurkaupstaður

Ísafjarðarbær

Súðavíkurhreppur

Árneshreppur

Kaldrananeshreppur

Hólmavíkurhreppur

Broddaneshreppur

Bæjarhreppur

Húnaþing vestra

Áshreppur

Sveinsstaðahreppur

Torfalækjarhreppur

Blönduósbær

Svínavatnshreppur

Bólstaðarhlíðarhreppur

Höfðahreppur

Skagabyggð

Sveitarfélagið Skagafjörður

Akrahreppur

· Norðausturland. Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög:
Ólafsfjarðarbær

Grímseyjarhreppur

Dalvíkurbyggð

Arnarneshreppur

Hörgárbyggð

Akureyrarkaupstaður

Eyjafjarðarsveit

Svalbarðsstrandarhreppur

Grýtubakkahreppur

Þingeyjarsveit

Skútustaðahreppur

Aðaldælahreppur

Húsavíkurbær

Tjörneshreppur

Kelduneshreppur

Öxarfjarðarhreppur
Raufarhafnarhreppur

Svalbarðshreppur

Þórshafnarhreppur

Skeggjastaðahreppur

Vopnafjarðarhreppur

Fljótsdalshérað

Fljótsdalshreppur

Borgarfjarðarhreppur

Seyðisfjarðarkaupstaður

Fjarðabyggð

Mjóafjarðarhreppur

Fáskrúðsfjarðarhreppur

Austurbyggð

Breiðdalshreppur

Djúpavogshreppur

· Suðurland. Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög:
Skaftárhreppur

Mýrdalshreppur

Rangárþing eystra

Rangárþing ytra

Ásahreppur

Vestmannaeyjabær

Gaulverjabæjarhreppur

Sveitarfélagið Árborg

Hraungerðishreppur

Villingaholtshreppur

Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Hrunamannahreppur

Bláskógabyggð

Grímsnes- og Grafningshreppur

Hveragerðisbær

Sveitarfélagið Ölfus

Grindavíkurbær

Sandgerðisbær

Sveitarfélagið Garður

Reykjanesbær

Vatnsleysustrandarhreppur

· Suðvesturland og Reykjavík. Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög:
Garðabær

Sveitarfélagið Álftanes

Kópavogsbær

Seltjarnarnes
Mosfellsbær

Kjósarhreppur

Reykjavíkurborg

Verði heiti eða mörkum sveitarfélags breytt eða sameinist tvö eða fleiri þeirra skal litið svo á að sveitarfélagið, sem til verður í staðinn, heyri til þess svæðis sem það eldra eða þau eldri heyrðu til.

VIÐAUKI C Vottorð dúnmatsmanns



Þetta vefsvæði byggir á Eplica