1. gr.
Yfirstjórn og gildissvið.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.
Reglugerð þessi fjallar um framkvæmd gæðamats á íslenskum æðardúni og starfsskyldur dúnmatsmanna.
2. gr.
Skilgreiningar.
Dreifing: Sala eða afhending á fullhreinsuðum eða fullhreinsuðum og þvegnum æðardúni, eða sala og afhending á fullunninni vöru sem fyllt er með æðardúni.
Dúnmatsmaður: Maður sem öðlast hefur leyfi ráðherra til að meta æðardún.
Dúnþvottur: Þegar fullhreinsaður æðardúnn er þveginn.
Fullhreinsun: Þegar æðardúnn hefur verið þurrhreinsaður á þann hátt að sem næst engir hnökrar, óhreinindi, kusk, ókunn efni, ryk eða fjaðrir finnast í dúninum.
3. gr.
Skipun dúnmatsmanna.
Ráðherra skal skipa dúnmatsmenn, með leyfisbréfum til 2-5 ára í senn. Þeir skulu uppfylla eftirgreind skilyrði:
4. gr.
Starfssvæði dúnmatsmanna.
Dúnmatsmenn skulu vera allt að 12 talsins og starfa á starfssvæðum sem tilfærð eru í viðauka A. Allt að fimm dúnmatsmenn skulu starfa á starfssvæði Norðvesturlands. Allt að þrír dúnmatsmenn skulu starfa á starfssvæði Norðausturlands. Allt að fjórir dúnmatsmenn skulu starfa á starfssvæði Suðurlands. Ráðherra heldur skrá yfir dúnmatsmenn og útgefin starfsleyfi. Ráðherra er heimilt að fjölga dúnmatsmönnum ef sérstaklega stendur á.
5. gr.
Starfsskyldur dúnmatsmanna.
Ef dúnmatsmaður flytur af starfssvæði sem hann hefur fengið starfsleyfi á eða reynist óvirkur í starfi getur ráðherra afturkallað starfsleyfi hans og gefið út leyfi til nýs aðila, enda uppfylli hann öll skilyrði 3. gr. Ráðherra er einnig heimilt að fjölga dúnmatsmönnum á tilteknu starfssvæði ef hann telur þörf á því.
Dúnmatsmenn skila starfsskýrslu til ráðherra eigi síðar en 15. janúar hvers árs. Skýrslan skal innihalda nöfn þeirra aðila sem dúnn var metinn fyrir, framleiðslustig vöru, heildarþyngd vottaðs dúns og fjölda útgefinna vottorða.
Við störf sín skulu dúnmatsmenn gæta hæfisreglna stjórnsýsluréttar, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
6. gr.
Dreifing og vottun.
Allur æðardúnn, hvort sem er til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings, skal metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun eða dúnþvott. Áður en að dreifingu á innanlandsmarkaði eða til útflutnings kemur skal liggja fyrir að æðardúnn standist gæðamat skv. 7. gr. með vottorði úr sérstakri vottorðsbók ráðuneytisins.
Dúnmatsmanni er heimilt að votta fullframleidda vöru, hvort sem er til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings, sem eingöngu er fyllt með æðardúni. Dúnmatsmaður metur þá og vegur dúninn þegar fylling á sér stað.
7. gr.
Gæðamat á dúni.
Við gæðamat á fullhreinsuðum og/eða þvegnum æðardúni skal dúnmatsmaður m.a. ganga úr skugga um að sem næst engir hnökrar, óhreinindi, kusk, ókunn efni, ryk eða fjaðrir finnist í æðardúninum. Hann skal auk þess taka tillit til eiginleika æðardúnsins, fjaðurmögnunar og litar hans.
Til að ganga úr skugga um að sem næst ekkert ryk fyrirfinnist í æðardúninum skal dúnmatsmaður taka u.þ.b. 30-50 g visk af æðardúni og hrista í 15 sek. yfir hvítu blaði.
Til að ganga úr skugga um að sem næst engir hnökrar, kusk, ókunn efni eða fjaðrir leynist í æðardúninum skal dúnmatsmaður nota sjónmat og snertiskyn. Til að kanna hreinleika dúnsins skal hann taka u.þ.b. 30-50 g visk af æðardúni og skoða vel.
Kostnaður við dúnmat greiðist af matsbeiðanda samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.
Ráðherra staðfestir og skráir tæki og einkenni þeirra, sem lögskipaður dúnmatsmaður notar við að innsigla pakkningar, enda sé um viðurkennd tæki og aðferð að ræða.
8. gr.
Viðurlög og gildistaka.
Brot á reglugerð þessari varða sektum.
Brot á starfsskyldum dúnmatsmanna varðar afturköllun starfsleyfis.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. gr. laga um gæðamat á æðardúni nr. 52/2005 og öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um gæðamat á æðardúni nr. 659/2005, sbr. reglugerð nr. 20/2006.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 23. mars 2011.
F. h. r.
Þorsteinn Tómasson.
Óskar Páll Óskarsson.
VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)