Samgönguráðuneyti

80/2006

Reglugerð um rannsókn flugslysa. - Brottfallin

1. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð, hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Áfangaskýrsla: Skýrsla sem gefin er út áður en rannsókn máls er lokið, til þess að koma upplýsingum á framfæri við flugmálayfirvöld og málsaðila.

Lokaskýrsla (e. final report): Skýrsla rannsóknarnefndar flugslysa um niðurstöðu rannsóknar, þar sem gerð er grein fyrir orsök eða sennilegri orsök flugslyss og gerð tillaga um úrbætur í flugöryggismálum, ef við á.

Rannsókn (Investigation): Ferli athugana sem gerðar eru í því skyni að fyrirbyggja flugslys og flugatvik og felst í því að safna upplýsingum og greina þær, draga af þeim ályktanir, þar á meðal að greina orsakir og setja fram tillögur um úrbætur í flugöryggismálum þegar það á við.

Rannsóknarstjóri (Chief Inspector of Accidents): Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2004.

Ráðgjafi (Adviser): Maður sem, á grundvelli menntunar og hæfis, er skipaður af ríki til að aðstoða trúnaðarfulltrúa þess ríkis við rannsókn.

Stjórnandi rannsóknar (Investigator in Charge): Sá sem ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og stjórn einstakrar rannsóknar.

Tillögur um úrbætur í flugöryggismálum (Safety Recommendation): Tillögur í öryggisátt frá rannsóknarnefnd flugslysa, byggðar á upplýsingum úr tiltekinni rannsókn og settar fram í því skyni að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik.

Trúnaðarfulltrúi (Accredited Representative): Maður sem, á grundvelli menntunar og hæfis, er tilnefndur af ríki til að taka þátt í rannsókn sem framkvæmd er af öðru ríki.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa.

Lögsaga nefndarinnar tekur til íslensks yfirráðasvæðis, svo og þess flugstjórnarsvæðis sem Ísland veitir þjónustu á að því er varðar flugumferðaratvik. Þá skal nefndin annast aðstoð við rannsóknir á vegum erlendra rannsóknarnefnda, í samræmi við skuld­bindingar Íslands samkvæmt alþjóðasamningum.

Rannsóknarnefnd flugslysa ber að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik eins og þau eru skilgreind í liðum A-B:

A. Með flugslysi er átt við atburð sem verður í tengslum við starfrækslu loftfars frá því að maður fer um borð í loftfarið í þeim tilgangi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði þar sem:

i) maður lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl vegna þess að:

 

-

hann var um borð í loftfarinu, eða

 

-

hann var í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar á meðal hluta sem hafa losnað frá loftfarinu, eða

 

-

hann varð fyrir útblæstri þotuhreyfils; eða



ii) loftfar verður fyrir skemmdum eða bilun eða brestur verður í burðarvirki þess sem:

 

-

hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afkastagetu eða flugeiginleika og

 

-

myndi að öllu jöfnu krefjast mikillar viðgerðar eða þess að skipt væri um viðkomandi íhluta,



nema um sé að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfil, hlífar hans eða fylgibúnað eða um er að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smádældir eða göt á ytra byrði loftfarsins; eða

iii) loftfars er saknað eða engin leið er að komast að því.

Með slysi þar sem maður lætur lífið er átt við flugslys þegar einstaklingur lætur lífið innan 30 daga frá þeim degi er slysið varð, enda verði banamein hans að nokkru eða öllu leyti rakið til slyssins, nema þegar andlát á sér eðlilegar orsakir, er af völdum mannsins sjálfs eða annarra, eða þegar andlát verður á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að.

Með slysi þar sem maður hlýtur alvarleg meiðsl er átt við meiðsl sem maður hefur hlotið í flugslysi og:

 

1)

leiða til sjúkrahúsvistar sem varir lengur en 48 klukkustundir og hefst innan 7 daga frá því að maðurinn slasaðist, eða

 

2)

valda beinbroti (fyrir utan minni háttar brot á fingrum, tám eða nefi), eða

 

3)

valda skurðsárum sem af leiðir alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum, eða

 

4)

innri líffæri skaddast, eða

 

5)

valda annars eða þriðja stigs bruna eða brunasárum sem þekja meira en 5% af yfirborði líkamans, eða

 

6)

hafa sannarlega valdið því, að menn hafi komist í snertingu við smitandi efni eða skaðlega geislun,



nema þegar meiðslin eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum mannsins sjálfs eða annarra, eða þegar meiðsl verða á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að.

B. Með alvarlegu flugatviki er átt við flugatvik sem verður við aðstæður sem benda til þess að nær hafi legið við slysi. Skrá yfir dæmigerð alvarleg flugatvik er í viðauka með reglugerð þessari.

Rannsóknarnefnd flugslysa getur ákveðið að taka til rannsóknar annað en flugslys og alvarlegt flugatvik í skilningi A og B liðar, ef hún telur að það hafi þýðingu fyrir almennt flugöryggi.

3. gr.

Nánar um framkvæmd rannsókna flugslysa.

Rannsóknarnefnd flugslysa skal, að fenginni tillögu rannsóknarstjóra, setja verklags­reglur um framkvæmd rannsókna flugslysa og alvarlegra flugatvika, svo sem um miðlun upplýsinga vegna tilkynntra flugslysa og flugatvika. Skal í því efni höfð hlið­sjón af handbókum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) fyrir rannsakendur flugslysa.

Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa er rannsóknarstjóri nefndarinnar (e. Chief investigator of accidents) og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar.

Aðstoðarforstöðumaður er staðgengill rannsóknarstjóra.

Fari rannsóknarstjóri, eða staðgengill hans, ekki með stjórn rannsóknar máls skal rannsóknarstjóri tilnefna annan mann stjórnanda rannsóknar, þ.m.t. á vettvangi flugslyss (e. investigator in charge).

Við rannsókn erlends ríkis á flugslysi íslenskra flugvéla skal rannsóknarstjóri tilnefna trúnaðarfulltrúa við rannsóknina og skipa honum ráðgjafa.

Stjórnandi rannsóknar skal gera drög að lokaskýrslu til rannsóknarnefndar flugslysa, að höfðu samráði við rannsóknarstjóra nefndarinnar.

Stjórnandi rannsóknar ákvarðar umfang rannsóknar einstakra slysa og alvarlegra flugatvika sem falla undir A eða B lið 2. gr. Ef um er að ræða meiriháttar eða óvenjulegar ráðstafanir, skal hann hafa samráð við rannsóknarnefnd flugslysa.

4. gr.

Útbúnaður, tæki og þjálfun.

Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa skal afla þess búnaðar, tækja og þjálfunar sem nauðsynleg er honum, nefndarmönnum og öðru starfsliði nefndarinnar til að sinna lögboðnu hlutverki sínu. Skal í því efni höfð hliðsjón af handbókum Alþjóða­flugmála­stofnunarinnar (ICAO) fyrir rannsakendur flugslysa.

Rannsóknarstjóri rannsóknarnefndar flugslysa, staðgengill hans, nefndarmenn og annað starfslið nefndarinnar skulu sækja námskeið er lúta að rannsóknartækni flugslysa, til að viðhalda kunnáttu sinni og færni. Skal í því efni höfð hliðsjón af handbókum Alþjóða­flugmála­stofnunarinnar (ICAO) fyrir rannsakendur flugslysa.

5. gr.

Persónuskilríki nefndarmanna, forstöðumanns (rannsóknarstjóra) o.fl.

Samgönguráðherra skal láta rannsóknarstjóra og staðgengli hans í té persónuskilríki til staðfestingar á réttarstöðu þeirra og heimilda í störfum. Rannsóknarnefnd flugslysa getur óskað þess að tilteknir nefndarmenn fái sams konar skilríki til notkunar við vettvangs­rannsóknir.

Rannsóknarstjóri getur látið öðrum nefndarmönnum, starfsmönnum nefndarinnar og sérfræðingum á hennar vegum í té sérstök skilríki til staðfestingar á heimildum þeirra vegna starfa fyrir nefndina, eftir því sem þörf krefur.

6. gr.

Nefndarfundir o.fl.

Formaður rannsóknarnefndar flugslysa boðar fundi og stjórnar þeim. Hann getur þó falið forstöðumanni nefndarinnar að annast fundarboðun.

Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar á fundum. Ákvarðanir um niðurstöðu mála og ákvarðanir rannsóknarnefndarinnar samkvæmt lögum um rannsókn flugslysa skulu ekki teknar nema öllum nefndarmönnum hafi gefist kostur á að sækja fund.

Nefndin heldur fundi eftir þörfum.

Þegar nefndarmaður forfallast um stundarsakir tekur varamaður hans sæti í nefndinni.

Nefndin heldur fundargerðabók.

7. gr.

Útgáfa á skýrslum nefndarinnar.

Rannsóknarnefnd flugslysa gefur út lokaskýrslu (e. final report) að fenginni tillögu stjórnanda rannsóknar. Stjórnandi rannsóknar skal rita undir lokaskýrslu nefndarinnar, fyrir hönd nefndarinnar. Skýrslu skal að jafnaði gefa út innan árs frá upphafi rannsóknar, en ella skal árlega gefa út yfirlýsingu um stöðu rannsóknar.

Áfangaskýrslu skal gefa út ef talið er mikilvægt að vekja athygli viðkomandi aðila á atriðum sem fram hafa komið við rannsókn og koma þarf á framfæri án tafar til að tryggja öryggi í flugi.

Heimilt er, þegar fyrirliggjandi upplýsingar um mál eða gögn máls gefa ekki tilefni til frekari rannsóknar, að ljúka rannsókn með yfirlýsingu eða bókun í stað lokaskýrslu.

Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa er ritstjóri ársskýrslu nefndarinnar.

8. gr.

Birting skýrslna nefndarinnar.

Ársskýrslur rannsóknarnefndar flugslysa og skýrslur nefndarinnar um rannsóknir ein­stakra mála, þar á meðal yfirlýsinga og bókanir um lok rannsókna, skulu teljast rétti­lega birtar um leið og þær eru gerðar aðgengilegar á heimasíðu nefndarinnar og á skrifstofu nefndarinnar.

Þegar ársskýrslur eða skýrslur nefndarinnar um rannsóknir einstakra mála hafa að geyma ákveðnar tillögur um úrbætur í flugöryggismálum er nefndinni rétt að vekja sérstaka athygli viðeigandi aðila á innihaldi þeirra.

9. gr.

Varsla málsgagna.

Rannsóknarnefnd flugslysa skal varðveita í öruggum geymslum gögn sem þýðingu hafa við rannsókn máls. Hljóðritanir teknar á segulbönd skulu varðveittar í öruggri, læstri og eldvarinni geymslu. Gögn þau úr flugritum sem nefndin hefur stuðst við skulu varðveitt á sama hátt og hljóðritanir.

Meðferð og vinnsla nefndarinnar á persónuupplýsingum skal vera í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með síðari breytingum. Skal nefndin setja sér sérstakar reglur í því skyni.

10. gr.

Sérstakar skyldur forstöðumanns.

Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og hefur eftirlit með því að rannsóknargögn séu varðveitt á ábyrgan hátt í samræmi við fyrirmæli 9. gr.

Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum og bókhaldi nefndarinnar, þar á meðal að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við fjárhagsáætlun og það sem fjárveitingar til nefndarinnar leyfa. Hann skal gera fjárhagsáætlun fyrir starfsemi nefndarinnar hvert ár í samráði við formann nefndarinnar. Fjárhagsáætlun skal kynnt nefndinni áður en hún er send til samgönguráðuneytisins. Forstöðumaður ber ábyrgð á gerð ársreiknings nefndar­innar.

11. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 24. gr. laga nr. 35 7. maí 2004, um rannsókn flug­slysa.

Reglugerðin tekur gildi 1. mars 2006 og á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 852/1999 um rannsóknarnefnd flugslysa.

Samgönguráðuneytinu, 19. janúar 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica