Tryggingastofnun ríkisins greiðir 80% af kostnaði við nauðsynlega þjálfun fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára, einstaklinga með umönnunarkort frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisþega. Þjálfunin skal fara fram á stofu þjálfara, sem starfar samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu hefur gert. Ef nauðsyn ber til að þjálfunarskipti séu fleiri en 20 á einu ári greiðir Tryggingastofnun ríkisins þjálfunina að fullu út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára, einstaklinga með umönnunarkort frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisþega sem fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrir þá sem ekki fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins greiðir stofnunin áfram 80%. Með lífeyrisþegum í reglugerð þessari er átt við sjómannalífeyrisþega, einstaklinga 67 ára og eldri og einstaklinga með örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir 40% af kostnaði við nauðsynlega þjálfun fyrstu 25 skiptin á ári fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga og ef nauðsyn ber til að þjálfunarskipti séu fleiri greiðir Tryggingastofnun ríkisins eftir það 75% kostnaðarins út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Þjálfunin skal fara fram á stofu þjálfara, sem starfar samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu hefur gert.
Ef samið er um hærri greiðslur fyrir tilskilda hópa/meðferð greiðir Tryggingastofnun ríkisins að fullu það sem er umfram almennt meðferðargjald sjúklings. Þetta á þó ekki við um sérstakt umsamið skoðunargjald.
Tilskilinn skiptafjöldi einstaklings til aukinnar hlutdeildar Tryggingastofnunar ríkisins skal staðfestur með útgáfu skírteinis (þjálfunarkorts) sem sækja þarf um til stofnunarinnar. Miðað er við samanlagðan skiptafjölda sjúkratryggðs á ári í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, samkvæmt samningi samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.
Með heimameðferð er átt við nauðsynlega sjúkraþjálfunarmeðferð fyrir sjúkratryggðan sjúkling í heimahúsi sem er þannig líkamlega á sig kominn að hann kemst ekki í meðferð á sjúkraþjálfunarstofu.
Sjúkraþjálfari þarf að sækja fyrirfram um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við heimameðferð.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir viðbótarstyrk fyrir samþykkta heimameðferð hjá sjúkraþjálfara sem starfar samkvæmt samningi samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu þannig að sjúklingur greiðir sama gjald og vegna sjúkraþjálfunar á stofu, sbr. 1. gr. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að samþykkja að stofnunin greiði að fullu fyrir heimasjúkraþjálfun í sérstökum tilvikum ef um mjög alvarlegt sjúkdómsástand (t.d. krabbamein eða sjúkdóm Parkinsons á lokastigi) eða mjög alvarlega fötlun er að ræða.
Hver tvö skipti í hópmeðferð hjá þjálfara sem starfar samkvæmt samningi samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu teljast svara til eins skiptis í annarri sjúkraþjálfun við útgáfu þjálfunarkorts. Það sama gildir um stutta meðferð.
Greiðslukvittanir þar sem fram kemur staðfesting á skiptafjölda í viðurkenndri iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og talþjálfun sem veitt er á göngudeildum opinberra sjúkrastofnana, þ.m.t. Heyrnar- og talmeinastöð, geta nýst til öflunar skírteinis fyrir þjálfun (þjálfunarkorts) enda séu greiðslufjárhæðir svipaðar og þegar um er að ræða sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu hefur gert samninga um.
Tryggingastofnun ríkisins getur þegar þurfa þykir krafist vottorðs frá þjálfara eða lækni sjúklings um nauðsyn þjálfunar, einkum vegna þjálfunarskipta umfram 25 á ári og vegna annarrar langtímameðferðar.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 33. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 33. gr., laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. maí 2005. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 841/2002 um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í þjálfun, með síðari breytingu.