Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

272/1991

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga, sem starfa á sérhæfðum rannsóknastofum heilbrigðisstofnana - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig og starfa sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

2. gr.

Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim, sem lokið hefur B.S. prófi eða sambærilegu háskólaprófi í raungreinum með höfuðáherslu á greinar heilbrigðisvísinda (medical science); frumu- og sameindalíffræði, eðlis- og efnafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, erfðafræði og líftækni, örveruog veirufræði, ónæmisfræði, blóðbankafræði, vefjafræði, meinafræði, faraldsfræði, tölfræði og kerfislíffræði, ásamt eins árs starfsþjálfun á sérhæfðum rannsóknastofum heilbrigðisstofnana, sem eru rannsóknadeildir Ríkisspítala, Borgarspítala, Landakotsspítala, rannsóknarstofa Hollustuverndar ríkisins, rannsóknastofa Krabbameinsfélagsins í frumu- og sameindalíffræði og sambærilegar stofnanir innanlands eða erlendis, eða hafa framhaldsmenntun í greinum heilbrigðisvísinda. Leita skal umsagnar Félags ísl. náttúrufræðinga og landlæknis áður en leyfi er veitt.

3. gr.

Náttúrufræðingur skv. reglugerð þessari starfar að sérhæfðum þjónustu- og/eða grunnrannsóknum, sem tengjast greiningu sjúkdóma og stuðla að auknum skilningi á orsökum og eðli þeirra.

4. gr.

Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu starfa á sérhæfðum rannsóknastofum heilbrigðisstofnana, sem taldar eru upp í 2. gr. Þeir sjá um þjónustu- og/eða grunnrannsóknir á sínu sérsviði, annast úrvinnslu gagna, fræðslu og þjálfun.

5. gr.

Óheimilt er að ráða í störf náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu aðra en þá, sem starfsleyfi hafa skv. reglugerð þessari, nema í starfsþjálfunarnám skv. 2. gr. hér að ofan.

6. gr.

Náttúrufræðingi í heilbrigðisþjónustu er skylt að gæta þagmælsku um þau atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara skv. lögum og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum. Sömu reglur gilda um aðstoðarfólk, sem náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu hafa í starfi.

7. gr.

Náttúrufræðingi í heilbrigðisþjónustu ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

8. gr.

Um náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu gilda að öðru leyti reglur læknalaga nr. 53/ 1988, svo sem um viðurlög við broti í starfi, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ráðherra er heimilt fram til 1. mars 1992 að veita þeim náttúrufræðingum, sem eru í starfi á sérhæfðum rannsóknarstofum, sbr. 2. gr., starfsleyfi, hafi þeir starfað í þrjú ár samfellt við gildistöku reglugerðarinnar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 6. júní 1991.

Sighvatur Björgvinsson.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica