1. gr.
Gildissvið.
Í reglugerð þessari er kveðið á um þau gjöld sem sjúkratryggðir skulu greiða fyrir meðferð húðsjúkdóma, sem veitt er samkvæmt samningi sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert um veitingu heilbrigðisþjónustu skv. IV. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar og veitt er af öðrum heilbrigðisstarfsmönnum en læknum.
Þjónustuveitendum, sbr. 1. mgr., er óheimilt að innheimta hærri gjöld af sjúkratryggðum en kveðið er á um í reglugerð þessari.
Reglugerðin tekur til nauðsynlegrar meðferðar vegna húðsjúkdóma sem felst í B-geislum, B- og A-geislum, PUVA-meðferð eða húðmeðferð í Bláa lóninu og veitt er af öðrum en læknum, samkvæmt fyrirmælum læknis.
2. gr.
Sjúkratryggðir.
Sjúkratryggður er sá sem búsettur er á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn yngri en 18 ára sem búsett eru hér á landi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljast sjúkratryggðir hér á landi ákvæði 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.
Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.
3. gr.
Meðferð.
Meðferð húðsjúkdóma skal fara fram á starfsstöð rekstraraðila sem hlotið hefur staðfestingu landlæknis skv. 6. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu og starfar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. IV. kafla laga um sjúkratryggingar. Meðferð má einungis veita samkvæmt tilvísun læknis.
Meðferð skal veitt samkvæmt fyrirmælum læknis, sérfræðings í húðsjúkdómum þar sem því verður við komið. Að meðferðinni skulu starfa hjúkrunarfræðingar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem hafa nægilega kunnáttu til starfans.
4. gr.
Greiðsluþátttaka sjúkratryggðs.
Greiðslur sjúkratryggðra einstaklinga fyrir meðferð samkvæmt 1. og 3. gr. skulu vera sem hér segir:
Greiðslur aldraðra, þ.e. 67 ára og eldri, öryrkja og barna undir 18 ára aldri skulu vera 90% af almennri greiðsluþátttöku.
5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. tölul. 1. mgr. 29. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, gildir frá 1. mars 2014. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1260/2007 um styrki vegna kostnaðar við meðferð húðsjúkdóma veitta af öðrum en læknum.
Velferðarráðuneytinu, 20. febrúar 2014.
Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.
Sveinn Magnússon.