Félagsmálaráðuneyti

127/1999

Reglugerð um breytingu á reglugerð um greiðslur í fæðingarorlofi, nr. 296/1998. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð um greiðslur í fæðingarorlofi, nr. 296/1998.

1. gr.

2. gr. orðist svo:

Rétt til greiðslna í fæðingarorlofi samkvæmt reglugerð þessari á foreldri sem búið hefur hér á landi undanfarna 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Uppfylli foreldri ekki búsetuskilyrðið er heimilt að taka mið af búsetutíma maka eða skráðs sambýlismanns/konu, enda hafi viðkomandi búið hér á landi undanfarna 12 mánuði.

Hafi verið gerðir samningar við önnur ríki (samningsríki) varðandi rétt til greiðslna úr almannatryggingum skal taka til greina búsetu- eða starfstímabil í þeim ríkjum, síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns að því marki sem nauðsynlegt er til að uppfylla búsetuskilyrðið, enda hafi foreldri jafnframt verið tryggt vegna meðgöngu og fæðingar í samningsríki á sama tíma.

Ef hvorugt foreldra uppfyllir skilyrði um 12 mánaða búsetu hér á landi er heimilt að taka til greina þann tíma sem eftir er af greiðslutíma fæðingarorlofs þegar 12 mánaða tímabilinu er náð.

2. gr.

9. gr. orðist svo:

Vegna heilsufars- eða öryggisástæðna.

9. gr.

Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga. Hið sama á við ef kona tefst í námi eða getur ekki hafið vinnu að námi loknu vegna veikinda á meðgöngu. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til framlengingar samkvæmt ákvæði þessu niður frá þeim tíma.

Með heilsufarsástæðum er hér átt við:

1.             Sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni.

2.             Sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni.

3.             Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Með öryggisástæðum er átt við þegar mat vinnuveitanda og Vinnueftirlits ríkisins leiðir til þess að barnshafandi konu er veitt leyfi frá störfum, sbr. reglugerð nr. 679/1998 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt þessari grein skal fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu þarf að koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður. Þegar barnshafandi kona leggur niður störf af öryggisástæðum skal að auki fylgja með umsókninni álit Vinnueftirlits ríkisins á mati atvinnurekanda.

Ef fyrir hendi er réttur til hærri greiðslna sjúkradagpeninga en fæðingardagpeninga getur viðkomandi valið að fá greidda sjúkradagpeninga auk fæðingarstyrks. Réttur til greiðslna fæðingardagpeninga fellur þá niður þann tíma.

3. gr.

Í 1. mgr. 29. gr. breytist orðið lögheimilisskilyrði í búsetuskilyrði.

4. gr.

Í 1. mgr. 33. gr. fellur orðið lífeyristryggingadeild brott og orðið Tryggingastofnunar breytist í Tryggingastofnun.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 15., 16, 16. gr. a, 54. og 66. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 12. febrúar 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.

_____________________

Guðríður Þorsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica