1. gr.
Við kaup á vörum eða þjónustu innanlands ber sendimönnum erlendra ríkja að greiða virðisaukaskatt, áfengisgjald og aðra óbeina skatta eftir þeim reglum sem almennt gilda á Íslandi um þau viðskipti.
Sendimenn erlendra ríkja, þ.m.t. erlend sendiráð og sendierindrekar, eiga rétt á því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt og áfengisgjald af kaupum á vörum innanlands, þó ekki matvælum öðrum en áfengi, enda sé því lýst yfir að viðkomandi vara sé eingöngu ætluð til notkunar fyrir erlent sendiráð eða til persónulegra nota sendierindreka og þeirra venslamanna hans er teljast til heimilisfólks, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Endurgreiða skal virðisaukaskatt vegna vinnu manna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu embættisbústaðar sendiherra eða skrifstofuhúsnæðis sendiráðs, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir á lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhús. Endurgreiðsla virðisaukaskatts tekur á sama hátt til allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald framangreinds húsnæðis. Jafnframt skal endurgreiða virðisaukaskatt af leigugjaldi sem greitt er fyrir notkun á húsnæði sem er embættisbústaður sendiherra eða skrifstofuhúsnæði sendiráðs. Þó skal ekki endurgreiða virðisaukaskatt vegna þjónustu sem tengist rekstri húseignarinnar.
2. gr.
Utanríkisráðuneytið afgreiðir beiðni um endurgreiðslu og skal beiðni vera á því formi sem utanríkisráðuneytið ákveður. Ásamt beiðni skal senda utanríkisráðuneytinu frumrit reikninga sem endurgreiðslubeiðni er byggð á. Reikningar skulu vera í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. einnig 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Utanríkisráðuneytið gengur úr skugga um að endurgreiðslubeiðni uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar og sendir frumrit samþykktrar beiðni til Fjársýslu ríkisins sem annast endurgreiðslu. Afrit samþykktrar endurgreiðslubeiðni er send til umsækjanda ásamt frumriti reikninga.
Ekki verður um endurgreiðslu að ræða nema heildarfjárhæð hvers einstaks reiknings nemi a.m.k. 10.000 kr. með virðisaukaskatti. Utanríkisráðuneytið skal heimila endurgreiðslu innsendra reikninga vegna fastra mánaðarlegra reikningsviðskipta nái heildarfjárhæð slíkra reikninga a.m.k. 10.000 kr. með virðisaukaskatti.
Utanríkisráðuneytið skal afgreiða beiðnir um endurgreiðslu 1. febrúar, 1. maí, 1. ágúst og 1. nóvember ár hvert. Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef beiðni um endurgreiðslu berst utanríkisráðuneytinu eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist, sbr. 1. mgr. 43. gr. A, laga nr. 50/1988.
Reikningar þeir sem endurgreiðslubeiðni er byggð á skulu vera greiddir. Staðfesting á greiðslu skal fylgja greiddum reikningum, svo sem greiðslukvittun eða kvittun um millifærslu úr banka.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts og áfengisgjalds samkvæmt reglugerð þessari er háð því að heimaland viðkomandi sendiráðs, eða sendierindreka, veiti gagnkvæman endurgreiðslurétt til íslenskra sendiráða eða sendierindreka.
3. gr.
Um innflutning gilda ákvæði 4. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 43. gr. og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 3. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 470/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 31. október 2017.
F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Steinar Örn Steinarsson.