Fjármálaráðuneyti

563/1989

Reglugerð um uppgjör, uppgjörstímabil og skil fiskvinnslufyrirtækja.

1. gr.

Afhending fiskafurða til aðila, sem tekur afurðir þessar í umsýslu- eða umboðssölu úr landi, telst undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skilyrði fyrir undanþágu þessari eru:

a) Afurðir séu fluttar beint frá vinnslustöð um borð í millilandafar eða þeim skipað um borð í millilandafar í framhaldi af flutningi frá vinnslustöð.

b) Umboðs- eða umsýslumaður gefi út móttökukvittun vegna afurðanna þar sem því er lýst yfir að þær séu teknar til sölu úr landi og verði ekki seldar á innanlandsmarkað. Skjöl þessi skal varðveita í bókhaldi vinnslustöðvar. Þá skal umsýslu- eða umboðsmaður við uppgjör viðskiptanna gefa út afreikning, sbr. 6. gr. reglug. nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem m.a. komi fram tilvísun í móttökukvittanir þessar.

Taki umsýslu- eða umboðsmaður afurðirnar í sínar vörslur án þess að 1. mgr. eigi við skal fiskvinnslufyrirtæki innheimta virðisaukaskatt af sölunni eða afhendingunni í samræmi við almennar reglur 1. mgr. 11. gr., sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988. Sala eða afhending frá umsýslu- eða umboðsmanni fellur í þessu tilviki undir almennar reglur 2. mgr. 11. gr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna.

2. gr.

Umsýslu- eða umboðsmaður skal við uppgjör þeirra viðskipta sem falla undir 1. mgr. 1. gr. reikna virðisaukaskatt af þóknun sinni vegna viðskiptanna þegar hann gerir upp við fiskvinnslufyrirtækið.

3. gr.

Fiskvinnslufyrirtæki sem jafnframt hefur aðra starfsemi með höndum, svo sem útgerð fiskiskipa, getur fengið heimild skattstjóra til að skila sérstakri virðisaukaskattsskýrslu vegna fiskvinnslunnar. Skilyrði er þó að rekstur fiskvinnslunnar sé í bókhaldi tryggilega aðgreindur frá öðrum rekstri, sbr. meginreglu 21. gr. reglug. nr. 501/1989.

4. gr.

Fiskvinnslufyrirtæki getur fengið heimild skattstjóra til að skila sérstakri bráðabirgðaskýrslu sem tekur til innskatts af hráefni til fiskvinnslu. Ríkisskattstjóri ákveður form skýrslu þessarar.

Uppgjörstímabil bráðabirgðaskýrslu skal vera ein vika (mánudagur til sunnudags). Við upphaf og lok hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, skal þó lengja eða stytta uppgjörstímabil bráðabirgðaskýrslu til að það falli saman við mánaðamót, þannig að einn, tveir eða þrír síðustu dagar tveggja mánaða uppgjörstímabils bætist við undanfarandi uppgjörsviku, en fjórir, fimm eða sex dagar teljist sjálfstæð uppgjörsvika.

Skattstjóri skal afgreiða bráðabirgðaskýrslu án ástæðulauss dráttar.

Við reglulegt uppgjör skal fiskvinnslufyrirtæki færa á skýrslu annan innskatt en bráðabirgðaskýrsla tekur til.

Fiskvinnslufyrirtæki, sem ekki óskar eftir bráðabirgðauppgjöri skv. 1. mgr., getur í samræmi við almenn ákvæði 4. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. gr. reglug. nr. 529/1989, um framtal og skil virðisaukaskatts, fengið heimild skattstjóra til að nota skemmra uppgjörstímabil en tvo mánuði.

5. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 47. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og öðlast gildi 1. janúar 1990.

Fjármálaráðuneytið, 4. desember 1989.
Ólafur Ragnar Grímsson
Snorri Olsen


Þetta vefsvæði byggir á Eplica