Fjármálaráðuneyti

577/1989

Reglugerð um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.

I. KAFLI 

Um sérstaka skráningu.

1. gr.

Aðili, sem byggir fasteign á eigin lóð eða leigulóð og selur hana til skattskylds aðila samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, getur sótt um sérstaka skráningu til skattstjóra. Sérstök skráning getur tekið til hluta fasteignar. Sérstök skráning nær ekki til íbúðarhúsnæðis.

Í umsókn um sérstaka skráningu skal tilgreina þá fasteign sem skráningunni er ætlað að ná til. Eftirtalin gögn skulu fylgja umsókn:

1. Skriflegur og fullgildur kaupsamningur byggingaraðila og skattskylds aðila um fasteignina.

2. Yfirlýsing kaupanda um ætluð not hans á fasteigninni.

3. Skuldbinding kaupanda um yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, verði breyting á notkun fasteignar sem hafi í för með sér breytingu á frádráttarrétti.

2. gr.

Fái byggingaraðili heimild skattstjóra til sérstakrar skráningar skal hann tilgreina útskatt vegna þeirrar byggingar sem skráning nær til á sérstakri virðisaukaskattsskýrslu. Útskattur reiknast samkvæmt ákvæðum reglug. nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Skila skal skýrslu fyrir hverja einstaka eign sem skráning nær til. Skýrslur þessar skal senda skattstjóra án greiðslu.

Til innskatts á skýrslu skv. 1. mgr. getur aðili talið þann virðisaukaskatt sem um ræðir í 1. mgr. 3. gr. reglug. nr. 576/1989. Jafnframt getur hann fært á skýrsluna innskatt skv. 2. mgr. sömu greinar.

Skattstjóri skal rannsaka skýrslu skv. 1. mgr. sérstaklega. Fallist hann á skýrsluna tilkynnir hann innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu þess innskatts sem fram kemur á skyrslunni, en innheimta útskatts fellur niður.

Virðisaukaskattur, sbr. 2. gr. reglug. nr. 576/1989, sem byggingaraðili hefur skilað vegna þeirrar byggingar sem sérstök skráning nær til, svo og innskattur skv. 2. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar, skal endurgreiddur honum eigi síðar en 30 dögum eftir að skattstjóri hefur samþykkt skráninguna.

3. gr.

Hafi byggingaraðili, sem um ræðir í 1. gr., ekki gert samning um sölu atvinnurekstrarhúsnæðis í lok fyrsta uppgjörstímabils eftir að byggingarframkvæmdir hófust, getur hann fengið heimild skattstjóra til sérstakrar skráningar, enda fallist skattstjóri á skýrslu aðila um að viðkomandi eign sé ætluð til nota fyrir atvinnurekstur skattskylds aðila. Skilyrði fyrir skráningu í þessu tilviki er að aðili leggi fram tryggingu, sem fullnægjandi er að mati skattstjóra, fyrir útskatti skv. 1. mgr. 2. gr. og innskatti skv. 2. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Trygging þessi skal bundin byggingarvísitölu.

Trygging skv. 1. mgr. fellur úr gildi;

a) selji byggingaraðili skattskyldum aðila þá eign sem skráning tekur til og uppfylli í því sambandi ákvæði 2. mgr. 1. gr. eða

b) fái byggingaraðili heimild til frjálsrar skráningar skv. ákvæðum II. kafla reglugerðar þessarar.

II. KAFLI 

 Um frjálsa skráningu.

4. gr.

Sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar til skattskylds aðila samkvæmt lögum nr. 50/1988 getur sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra.

Í umsókn um frjálsa skráningu skal tilgreina þá fasteign eða hluta fasteignar sem skráningunni er ætlað að taka til. Eftirtalin gögn skulu fylgja umsókn:

1. Fullgildur leigusamningur.

2. Samþykki leigutaka fyrir frjálsri skráningu leigusala.

Frjáls skráning getur ekki tekið til húsnæðis sem notað er að öllu leyti eða hluta sem íbúðarhúsnæði.

5. gr.

Frjáls skráning getur aldrei verið til skemmri tíma en tveggja ára. Varði frjáls skráning fasteign sem er í byggingu eða hefur ekki verið tekin í notkun af öðrum ástæðum, reiknast tveggja ára fresturinn frá þeim tíma þegar leigutaki tekur eignina í notkun.

6. gr.

Leigusali, sem fær heimild til frjálsrar skráningar, skal innheimta útskatt af leigugjaldinu, þ.m.t. tryggingarfé sem hann kann að krefja leigutaka um. Samsvari leigugjaldið ekki endurgjaldi fyrir venjulega leigu sambærilegs húsnæðis skal skattverðið ákvarðað skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1988.

Virðisaukaskattsskyldur leigutaki má telja skattinn af leigugjaldinu til innskatts samkvæmt almennum reglum laga nr. 50/1988.

7. gr.

Leigusali getur samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988 og reglugerða, sem settar eru samkvæmt þeim, talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur eftir skráninguna á kaup hans á vörum og þjónustu vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds þeirrar fasteignar sem frjáls skráning tekur til, svo og vegna reksturs- og stjórnunarkostnaðar sem varðar eignina.

8. gr.

Verði breyting á notkun eignar sem frjáls skráning tekur til þannig að skilyrði fyrir skráningunni eru ekki lengur fyrir hendi skal leiðrétta innskattsfrádrátt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.

Aðili, sem fengið hefur heimild til frjálsrar skráningar, skal tilkynna skattstjóra um breytingar skv. 1. mgr. eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.

III. KAFLI

Önnur ákvæði.

9. gr.

Umsóknir um frjálsa eða sérstaka skráningu skal senda skattstjóra á þar til gerðum eyðublöðum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa á þessum eyðublöðum.

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og öðlast gildi 1. janúar 1990.

Fjármálaráðuneytið, 10. desember 1989.

Ólafur Ragnar Grímsson

Snorri Olsen


Þetta vefsvæði byggir á Eplica