Velferðarráðuneyti

966/2016

Reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.

I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um lyftur sem ætlaðar eru til varanlegrar notkunar í byggingum og mann­virkjum og er ætlað að flytja:

  1. fólk,
  2. fólk og vörur,
  3. einungis vörur ef burðarstóllinn er aðgengilegur, þ.e. ef fólk getur auðveldlega farið inn í hann, og hann er með stjórntækjum innan í eða innan seilingar fyrir þann sem stendur inni í burðarstólnum.

Reglugerð þessi gildir jafnframt um öryggisíhluti fyrir lyftur skv. 1. mgr. sem taldir eru upp í við­auka III.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

  1. lyftibúnað þar sem hámarkshraðinn er ekki meiri en 0,15 m/sek.,
  2. lyftur á byggingarstöðum,
  3. togbrautir, að meðtöldum togbrautum á teinum,
  4. sérhannaðar og sérsmíðaðar lyftur fyrir her eða lögreglu,
  5. lyftibúnað sem unnt er að framkvæma vinnu úr,
  6. vindubúnað í námum,
  7. lyftibúnað sem ætlaður er til að lyfta flytjendum listrænna atriða,
  8. lyftibúnað sem komið er fyrir í flutningatækjum,
  9. lyftibúnað tengdan vélum, sem er einungis ætlaður fyrir aðgengi að vinnustöð, að með­töldum viðhalds- og skoðunarstöðum á vélinni,
  10. tannhjólabrautir,
  11. rennistiga og rennigangvegi.

Sérreglur þær er gilda að hluta eða öllu leyti um hættur sem fylgja lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur, sem um getur í þessari reglugerð, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar. Ennfremur ganga nýjar sérreglur sem settar eru að hluta eða öllu leyti um hættur er fylgja lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur, sem um getur í þessari reglugerð, framar ákvæðum þessarar reglu­gerðar.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að samræma reglur aðildarríkjanna innan Evrópska efnahags­svæðis­ins um lyftur skv. 1. mgr. 1. gr. í því skyni að auka öryggi að því er varðar slíkar lyftur.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari og viðaukum, sem birtir eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 23, 23. apríl 2015, bls. 732-768, við hana er merking eftirfarandi orða sem hér segir:

Að bjóða fram á markaði: Öll afhending öryggisíhlutar fyrir lyftur til dreifingar eða notkunar innan Evrópska efnahagssvæðisins í tengslum við viðskiptastarfsemi, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Að setja á markað (markaðssetning):

  1. að bjóða öryggisíhlut fyrir lyftur fram á markaði í fyrsta sinn eða
  2. afhending lyftu til notkunar innan Evrópska efnahagssvæðisins í tengslum við viðskipta­starfsemi, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Afturköllun: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að öryggisíhlutur fyrir lyftur í aðfangakeðjunni sé boðinn fram á markaði.

Burðarstóll: Sá hluti lyftunnar sem fólk og/eða vörur eru í þegar því er lyft eða látið síga og skal vera lyftustóll.

CE-merkið: Merki þar sem sá sem annast uppsetningu eða framleiðandinn tilgreinir að lyfta eða öryggisíhlutur fyrir lyftur sé í samræmi við gildandi kröfur sem settar eru fram í samhæfingarlöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins þar sem kveðið er á um áfestingu merkisins.

Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður öryggisíhlut fyrir lyftur fram á markaði.

Framkvæmdastjórn: Eftirlitsstofnun EFTA.

Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir öryggisíhlut fyrir lyftur eða lætur framleiða eða hanna öryggisíhlut fyrir lyftur og markaðssetur hann undir sínu nafni eða vörumerki, merkir hann með CE-merki og semur ESB-samræmisyfirlýsingu um samræmi.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem setur öryggisíhlut fyrir lyftur frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins á markað innan svæðisins.

Innköllun: Að því er varðar lyftu, allar ráðstafanir sem miða að því að hluta í sundur og farga lyftu á öruggan hátt, og að því er varðar öryggisíhlut fyrir lyftur, allar ráðstafanir sem miða að því að skila öryggisíhlut fyrir lyftur, sem hefur þegar verið boðinn fram á markaði, til þess sem annast upp­setningu eða endanlegs notanda.

Landsyfirvöld: Velferðarráðuneytið eða Vinnueftirlit ríkisins eftir því sem við á.

Lyfta: Lyftibúnaður sem þjónar tilteknum hæðum, með burðarstól sem fer eftir föstum brautum sem halla meira en 15 gráður frá láréttum fleti, eða lyftibúnaður sem fer ákveðna leið jafnvel þótt hann fari ekki eftir föstum brautum.

Markaðsaðili: Sá sem annast uppsetningu, framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi og dreif­ingar­aðili.

Rekstraraðili: Sá sem rekur lyftu eftir að hún hefur verið sett á markað og tekin í notkun.

Samhæfður staðall: Samhæfður staðall eins og hann er skilgreindur í c-lið 1. mgr. 2. gr. reglu­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1025/2012 sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 798/2014.

Samhæfingarlöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins: Öll löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins þar sem skilyrði fyrir markaðssetningu á vörum eru samræmd.

Samræmismat: Ferli sem sýnir fram á hvort grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka í tengslum við lyftu eða öryggisíhlut fyrir lyftur hafi verið uppfylltar.

Samræmismatsstofa: Stofa sem annast samræmismat, þ.m.t. kvörðun, prófun, vottun og eftirlit.

Sá sem annast uppsetningu: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á hönnun, framleiðslu, uppsetningu og markaðssetningu lyftu, merkir hana með CE-merki og semur ESB-samræmis­yfirlýs­ingu um samræmi.

Sýniseintak lyftu: Dæmigert eintak af lyftu og skulu tækniskjöl þess sýna á hvern hátt grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka verður fullnægt í lyftum sem eru eins og sýniseintakið, skilgreint með hlutlægum viðmiðunum, og í eru notaðir nákvæmlega eins öryggisíhlutir. Ennfremur skal tilgreina í tækniskjali allan leyfilegan mismun, m.a. hámarks- og lágmarksgildi, milli sýnis­eintaks og þeirra lyfta sem framleiddar eru með sýniseintakið að fyrirmynd. Í því skyni að full­nægja grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka er heimilt að sýna fram á sam­ræmi við búnað með útreikningi og/eða hönnunaráætlun.

Tilkynningaryfirvald: Velferðarráðuneytið.

Tækniforskrift: Skjal þar sem mælt er fyrir um tæknikröfur sem lyfta eða öryggisíhlutur fyrir lyftur þarf að uppfylla.

Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur skriflegt umboð frá þeim sem annast uppsetningu eða frá framleiðanda til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tiltekin verkefni.

II. KAFLI

Markaðssetning, notkun, öryggiskröfur o.fl.

4. gr.

Markaðssetning og notkun.

Einungis er heimilt að setja á markað eða taka í notkun hérlendis lyftur sem fullnægja ákvæðum reglugerðar þessarar þegar þær eru settar rétt upp, haldið við sem skyldi og notaðar í fyrir­huguðum tilgangi.

Öryggisíhlutir fyrir lyftur skulu einungis settir á markað, boðnir fram á markaði og teknir í notkun fullnægi þeir ákvæðum reglugerðar þessarar þegar þeir eru settir í á réttan hátt, haldið við sem skyldi og notaðir í fyrirhuguðum tilgangi.

5. gr.

Undanþága vegna vörusýninga.

Heimilt er á kaupstefnum, sýningum, kynningum eða á sambærilegum vettvangi að sýna lyftu eða öryggisíhlut fyrir lyftur sem fellur undir reglugerð þessa en fullnægir ekki ákvæðum hennar, svo fremi að það sé tekið skýrt fram á áberandi skilti að lyftan eða öryggisíhluturinn fullnægi ekki ákvæðum þessarar reglugerðar og verði hvorki settur á markað né boðinn fram á markaði fyrr en lyftan eða öryggisíhluturinn fullnægir ákvæðum þessarar reglugerðar. Gera skal nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggi fólks þegar lyftan eða öryggisíhluturinn er kynntur.

6. gr.

Öryggiskröfur.

Óheimilt er að markaðssetja og taka í notkun lyftur eða öryggisíhluti fyrir lyftur sem falla undir reglugerð þessa nema að tryggt sé að heilsu og öryggi manna, og þar sem við á, öryggi húsdýra og eigna stafi ekki hætta af þeim lyftum eða lyftum sem öryggisíhlutirnir eru settir í.

Lyftur og öryggisíhlutir fyrir lyftur sem falla undir reglugerð þessa skulu fullnægja grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka.

7. gr.

Áhætta sem fólk er í utan lyftustóls.

Hanna skal lyftu og smíða með því að hafa nægjanlegt autt rými eða afdrep í lyftugöngum utan ystu marka þannig að engin hætta sé á að fólk klemmist þegar lyftustóllinn er á ystu mörkum.

Sé ekki mögulegt að koma þessari lausn við í byggingum sem þegar hafa verið reistar er heimilt að grípa til annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að hætta skapist að fengnu fyrirfram­samþykki Vinnueftirlits ríkisins.

8. gr.

Breytingar á lyftum.

Þegar fyrirhugað er að gera meiri háttar breytingar á lyftu skal tilkynna það Vinnueftirliti ríkisins áður en framkvæmdir hefjast. Vinnueftirlit ríkisins skal meta í samræmi við ákvæði gildandi reglna og staðla hvort breytingarnar séu svo miklar að um sé að ræða uppsetningu á nýrri lyftu. Þegar Vinnueftirlit ríkisins metur að fara skuli með lyftuna sem nýja lyftu gilda ákvæði reglugerðar þessarar. Að öðrum kosti gilda áfram þær reglur sem giltu um lyftuna fyrir breytingarnar.

9. gr.

Lyftuhús.

Óheimilt er að nota aðgang að vélarrúmi, tækjabúnaði, strengjahjólum og lyftugöngum sem aðgang að öðru rými sem er lyftunni óviðkomandi. Í það rými sem ætlað er lyftunni og búnaði hennar er óheimilt að setja annan búnað en þann sem tilheyrir henni. Ennfremur er óheimilt að nota það rými sem geymslu fyrir annað en það sem telst tilheyra lyftunni.

Við inngang í lyftuhús skal vera skilti þar sem stendur: "Vélarrúm lyftu. Óviðkomandi stranglega bannaður aðgangur." Skiltið skal vera með greinilegri og varanlegri áletrun.

10. gr.

Skyldur byggingarverktaka og þeirra sem annast uppsetningu lyftu.

Byggingarverktaki sem ber ábyrgð á vinnu við byggingu eða mannvirki og sá sem annast upp­setningu lyftu skulu veita hvor öðrum nauðsynlegar upplýsingar um eðlilega starfsemi lyftunnar og örugga notkun hennar. Ennfremur ber þeim að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að lyftan starfi eðlilega og að hún sé örugg. Þeir skulu einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að í lyftustokkum séu ekki önnur rör, leiðslur eða útbúnaður en þörf er á vegna starfrækslu og öryggis lyftunnar.

11. gr.

Skyldur eigenda og rekstraraðila.

Eigandi eða rekstraraðili skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við notkun lyftunnar og að hún sé einungis notuð þegar búnaður hennar er í lagi.

Ennfremur skal eigandi eða rekstraraðili sjá til þess að lyftan sé hvorki notuð í öðrum tilgangi en framleiðandi hennar ráðgerði né hlaðin meiri byrðum en henni er ætlað að lyfta. Þá er óheimilt að flytja fólk eða vörur utan þess rýmis sem ætlað er til flutninga nema það teljist nauðsynlegt við skoðanir, eftirlit eða viðgerðir á lyftum.

III. KAFLI.

Skyldur markaðsaðila.

12. gr.

Skyldur þeirra sem annast uppsetningu.

Þegar sá sem annast uppsetningu setur lyftu á markað skal hann sjá til þess að hún hafi verið hönnuð, framleidd, sett upp og prófuð í samræmi við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka.

Sá sem annast uppsetningu skal annast gerð tæknigagna og framkvæma viðeigandi samræmis­mats­aðferð, sbr. 21. gr., eða sjá til þess að hún sé framkvæmd. Ef sýnt hefur verið fram á að lyftan uppfylli viðeigandi grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi með viðkomandi samræmis­mats­aðferð skal sá sem annast uppsetningu gera ESB-samræmisyfirlýsingu, tryggja að hún fylgi lyftunni og festa CE-merkið á.

Sá sem annast uppsetningu skal varðveita tæknigögnin, ESB-samræmisyfirlýsinguna og eftir atvikum ákvarðanir tilkynntrar samræmismatsstofu um samþykki. Tæknigögnin, ESB-samræmis­yfirlýsingin og eftir atvikum ákvarðanir tilkynntrar samræmismatsstofu um samþykki skulu vera aðgengilegar fyrir Vinnueftirlit ríkisins í tíu ár eftir að lyftan hefur verið sett á markað.

Í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi neytenda skal sá sem annast uppsetningu lyftu, eftir því sem við á með tilliti til þeirrar hættu sem stafar af lyftu, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir og þær lyftur sem fullnægja ekki ákvæðum reglugerðar þessarar.

Sá sem annast uppsetningu skal tryggja að á lyftum sé gerðar-, lotu- eða raðnúmer eða annað sem gerir kleift að auðkenna þær.

Sá sem annast uppsetningu skal tilgreina á lyftunni nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem unnt er að hafa samband við hann. Heimilisfangið skal tilgreina þann stað þar sem unnt er að hafa samband við þann sem annast uppsetningu. Upplýsingarnar skulu vera á íslensku.

Sá sem annast uppsetningu skal tryggja að lyftunni fylgi leiðbeiningar samkvæmt lið 6.2 í I. viðauka á íslensku. Slíkar leiðbeiningar sem og hvers kyns merkingar skulu vera skýrar, skiljanlegar og greinilegar.

Sá sem annast uppsetningu og telur eða hefur ástæðu til að ætla að lyfta sem hann hefur sett á markað fullnægi ekki ákvæðum reglugerðar þessarar skal tafarlaust grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að lyftan fullnægi ákvæðum reglugerðarinnar. Ef hætta stafar af lyftunni skal hann ennfremur tafarlaust upplýsa Vinnueftirlit ríkisins þar um, einkum um tilvik þar sem öryggis­íhlutur fyrir lyftur fullnægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Sá sem annast uppsetningu skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Vinnueftirliti ríkisins, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að lyftan fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku. Hann skal jafnframt vinna með Vinnueftirlitinu, að beiðni þess, að því er varðar allar ráð­stafanir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir hættu sem stafar af lyftum sem hann hefur sett á markað.

13. gr.

Skyldur framleiðenda.

Þegar framleiðandi setur öryggisíhluti fyrir lyftur á markað skal hann tryggja að þeir hafi verið hannaðir og framleiddir í samræmi við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka.

Framleiðandi skal annast gerð tæknigagna sem krafist er og framkvæma viðeigandi samræmis­mats­aðferð, sbr. 20. gr., eða sjá til þess að hún sé framkvæmd. Ef sýnt hefur verið fram á að öryggis­íhlutur fyrir lyftu uppfyllir viðeigandi grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi með viðkom­andi samræmismatsaðferð skal framleiðandi gera ESB-samræmisyfirlýsingu, tryggja að hún fylgi öryggis­íhlutnum og festa CE-merkið á.

Framleiðandinn skal varðveita tæknigögnin, ESB-samræmisyfirlýsinguna og eftir atvikum ákvarð­anir tilkynntrar samræmismatsstofu um samþykki. Tæknigögnin, ESB-samræmisyfirlýsingin og eftir atvikum ákvarðanir tilkynntrar samræmismatsstofu um samþykki skulu vera aðgengilegar fyrir Vinnu­eftirlit ríkisins í tíu ár eftir að öryggisíhluturinn fyrir lyftur hefur verið settur á markað.

Framleiðandi skal hafa ferli sem tryggir að raðframleiðsla haldist í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar að teknu tilliti til breytinga á hönnun eða eiginleikum vöru og breytinga á samhæfðum stöðlum eða öðrum tækniforskriftum sem lýst er yfir að samræmi öryggisíhlutar fyrir lyftur miðist við.

Í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi neytenda skal framleiðandi, eftir því sem við á með tilliti til þeirrar hættu sem stafar af öryggisíhlut fyrir lyftur, framkvæma úrtaksprófun á öryggisíhlut fyrir lyftur sem boðinn er fram á markaði, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir, yfir öryggisíhluti fyrir lyftur sem fullnægja ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og yfir innkallanir öryggisíhluta fyrir lyftur. Framleiðandi skal veita dreifingaraðilum og þeim sem annast uppsetningu upplýsingar um alla slíka vöktun.

Framleiðandi skal tryggja að á öryggisíhlutum fyrir lyftur sem hann hefur sett á markað sé gerðar-, lotu- eða raðnúmer eða annað sem gerir kleift að auðkenna þá eða, ef það er ekki mögulegt vegna stærðar eða eðlis öryggisíhlutarins, skal framleiðandi tryggja að tilskildar upplýsingar séu veittar á merki skv. 3. málsl. 2. mgr. 23. gr.

Framleiðandi skal tilgreina á öryggisíhlutnum fyrir lyftur nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem unnt er að hafa samband við hann eða, ef það er ekki mögulegt, á merki skv. 3. málsl. 2. mgr. 23. gr. Heimilisfangið skal tilgreina þann stað þar sem unnt er að hafa samband við framleiðandann. Upplýsingarnar skulu vera á íslensku.

Framleiðandi skal tryggja að öryggisíhlutnum fyrir lyftur fylgi leiðbeiningar sem um getur í lið 6.1 í I. viðauka. Slíkar leiðbeiningar sem og hvers kyns merkingar skulu vera skýrar, skiljanlegar og greini­legar. Allar upplýsingar skulu vera á íslensku.

Framleiðandi sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að öryggisíhlutur fyrir lyftur sem hann hefur sett á markað fullnægi ekki ákvæðum reglugerðar þessarar skal tafarlaust grípa til þeirra ráð­staf­ana sem nauðsynlegar eru til að öryggisíhluturinn fullnægi ákvæðum reglugerðarinnar eða, ef við á, afturkalla hann eða innkalla. Stafi hætta af öryggisíhlut fyrir lyftur skal hann ennfremur tafar­laust upplýsa Vinnueftirlit ríkisins þar um, einkum um tilvik þar sem öryggisíhlutur fyrir lyftur full­nægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Framleiðandi skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Vinnueftirliti ríkisins, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að öryggisíhlutir fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku. Hann skal jafnframt vinna með Vinnueftirlitinu, að beiðni þess, að því er varðar allar ráðstafanir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir hættu sem stafar af öryggisíhlutum fyrir lyftur sem hann hefur sett á markað.

14. gr.

Viðurkenndir fulltrúar.

Framleiðanda eða þeim sem annast uppsetningu er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði. Óheimilt er að fela viðurkenndum fulltrúa þær skyldur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 12. gr., í 1. mgr. 13. gr. og skyldu til að annast gerð tæknigagna, sbr. 2. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 13. gr.

Viðurkenndur fulltrúi skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu frá fram­leið­andanum eða þeim sem annast uppsetningu. Umboðið skal a.m.k. veita viðurkennda full­trúanum heimild til:

  1. að varðveita ESB-samræmisyfirlýsinguna og eftir atvikum ákvarðanir tilkynntrar samræmis­mats­stofu um samþykki að því er varðar gæðakerfi framleiðandans eða þess sem annast uppsetningu og tæknigögnin svo að þau séu aðgengileg fyrir Vinnueftirlit ríkisins í tíu ár eftir að öryggisíhluturinn fyrir lyftur eða lyftan hafa verið sett á markað,
  2. að afhenda Vinnueftirliti ríkisins, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá stofnuninni, allar upp­lýsingar og skjöl, á pappír eða rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að öryggis­íhlutur fyrir lyftur eða lyftan fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar,
  3. að vinna með Vinnueftirliti ríkisins, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar ráð­staf­anir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir hættu sem stafar af öryggis­íhlutnum fyrir lyftur eða lyftunni sem umboð viðurkennda fulltrúans á við um.

15. gr.

Skyldur innflytjenda.

Innflytjandi skal aðeins setja á markað öryggisíhluti fyrir lyftur sem fullnægja ákvæðum reglugerðar þessarar.

Áður en öryggisíhlutur fyrir lyftur er settur á markað skal innflytjandi tryggja að framleiðandi hafi unnið samræmismat með viðeigandi aðferð, sbr. 20. gr. Hann skal jafnframt tryggja að fram­leiðandinn hafi annast gerð tæknigagna og uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 6. og 7. mgr. 13. gr. ásamt því að öryggisíhluturinn fyrir lyftur beri CE-merki og að honum fylgi ESB-samræmis­yfirlýsing sem og þau skjöl sem krafist er. Ef innflytjandi telur, eða hefur ástæðu til að ætla, að öryggisíhlutur fyrir lyftur sé ekki í samræmi við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka er honum óheimilt að setja öryggisíhlutinn á markað fyrr en hann hefur verið færður til samræmis við kröfur. Stafi hætta af öryggisíhlutnum fyrir lyftur skal innflytjandi ennfremur upplýsa fram­leiðand­ann og Vinnueftirlit ríkisins þar um.

Nafn innflytjanda, skráð viðskiptaheiti hans eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem unnt er að hafa samband við hann, skal koma fram á öryggisíhlutnum fyrir lyftur eða, ef það er ekki mögu­legt, á umbúðunum eða í skjali sem fylgir öryggisíhlutnum. Upplýsingarnar skulu vera á íslensku.

Innflytjandi skal tryggja að öryggisíhlutnum fyrir lyftur fylgi leiðbeiningar samkvæmt lið 6.1 í I. viðauka. Allar upplýsingar skulu vera á íslensku.

Á meðan öryggisíhlutur fyrir lyftur er á ábyrgð innflytjanda skal hann sjá til þess að geymsla eða flutningur á honum hafi ekki áhrif á samræmi hans við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka.

Í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi neytenda skal innflytjandi, eftir því sem við á með tilliti til þeirrar hættu sem stafar af öryggisíhlut fyrir lyftur, framkvæma úrtaksprófun á öryggisíhlutum fyrir lyftur sem boðnir eru fram á markaði, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir, yfir öryggisíhluti fyrir lyftur sem fullnægja ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og yfir innköllun öryggis­íhluta fyrir lyftur. Innflytjandi skal veita dreifingaraðilum og þeim sem annast uppsetningu upp­lýsingar um alla slíka vöktun.

Innflytjandi sem telur, eða hefur ástæðu til að ætla, að öryggisíhlutur fyrir lyftur sem hann hefur sett á markað fullnægi ekki ákvæðum reglugerðar þessarar skal tafarlaust grípa til þeirra ráð­stafana sem nauðsynlegar eru til að öryggisíhluturinn fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglu­gerðar­innar, eða ef við á, afturkalla hann eða innkalla. Stafi hætta af öryggisíhlut fyrir lyftur skal innflytjandi ennfremur tafarlaust upplýsa Vinnueftirlit ríkisins þar um, einkum um tilvik þar sem öryggis­íhluturinn fullnægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Innflytjandi skal varðveita afrit af ESB-samræmisyfirlýsingunni í tíu ár eftir að öryggisíhlutur fyrir lyftur hefur verið settur á markað og, eftir atvikum, hafa ákvarðanir tilkynntrar samræmismatsstofu um samþykki tiltækar fyrir Vinnueftirlit ríkisins og tryggja að stofnunin hafi aðgengi að tækni­gögn­unum, sé þess óskað.

Innflytjandi skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Vinnueftirliti ríkisins, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að öryggisíhlutur fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku. Hann skal jafnframt vinna með Vinnueftirlitinu, að beiðni þess, að því er varðar allar ráðstafanir sem gripið er til svo koma megi í veg fyrir hættu sem stafar af öryggisíhlutum fyrir lyftur sem hann hefur sett á markað.

16. gr.

Skyldur dreifingaraðila.

Dreifingaraðili skal aðeins bjóða öryggisíhlut fyrir lyftur fram á markaði ef hann fullnægir ákvæðum reglugerðar þessarar.

Áður en öryggisíhlutur fyrir lyftur er boðinn fram á markaði skal dreifingaraðili ganga úr skugga um að öryggisíhluturinn beri CE-merkið, að honum fylgi ESB-samræmisyfirlýsing, þau skjöl sem krafist er og leiðbeiningar samkvæmt lið 6.1 í I. viðauka á íslensku, ásamt því að ganga úr skugga um að framleiðandinn og innflytjandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 6. og 7. mgr. 13. gr. annars vegar og 3. mgr. 15. gr. hins vegar. Ef dreifingaraðili telur eða hefur ástæðu til að ætla að öryggisíhlutur fyrir lyftur sé ekki í samræmi við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka er honum óheimilt að bjóða öryggisíhlutinn fram á markaði fyrr en hann hefur verið færður til samræmis við kröfur. Stafi hætta af öryggisíhlut fyrir lyftur skal dreifingaraðilinn ennfremur upplýsa framleiðandann eða innflytjandann og Vinnueftirlit ríkisins þar um.

Á meðan öryggisíhlutur fyrir lyftur er á ábyrgð dreifingaraðila skal hann sjá til þess að geymsla eða flutningur á honum hafi ekki áhrif á samræmi hans við grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka.

Dreifingaraðili sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að öryggisíhlutur fyrir lyftur sem hann hefur boðið fram á markaði fullnægi ekki ákvæðum reglugerðar þessarar skal ganga úr skugga um að gripið sé til ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að öryggisíhluturinn fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglugerðarinnar, eða ef við á, afturkalla hann eða innkalla. Ef hætta stafar af öryggisíhlut fyrir lyftur skal dreifingaraðili ennfremur tafarlaust upplýsa Vinnueftirlit ríkisins þar um, einkum um tilvik þar sem öryggisíhlutur fyrir lyftur fullnægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráð­stafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Dreifingaraðili skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Vinnueftirliti ríkisins, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að öryggisíhlutur fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku. Hann skal jafnframt vinna með Vinnueftirlitinu, að beiðni þess, að því er varðar allar ráðstafanir sem gripið er til svo koma megi í veg fyrir hættu sem stafar af öryggisíhlutum fyrir lyftur sem hann hefur boðið fram á markaði.

17. gr.

Tilvik þar sem skyldur framleiðenda gilda um innflytjendur eða dreifingaraðila.

Þegar innflytjandi eða dreifingaraðili setur öryggisíhlut fyrir lyftur á markað undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða gerir breytingar á öryggisíhlut fyrir lyftur, sem þegar hefur verið settur á markað, þannig að breytingarnar kunna að hafa áhrif á það hvort öryggisíhluturinn fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar, telst hann vera framleiðandi í skilningi reglugerðarinnar og skal gegna sömu skyldum og framleiðandi skv. 13. gr.

18. gr.

Markaðsaðilar tilgreindir.

Markaðsaðili skal, að beiðni Vinnueftirlits ríkisins, greina því frá eftirfarandi aðilum:

  1. öllum markaðsaðilum sem hafa afhent honum öryggisíhlut fyrir lyftur og
  2. öllum markaðsaðilum sem hann hefur afhent öryggisíhlut fyrir lyftur.

Markaðsaðili skal geta lagt fram upplýsingar skv. 1. mgr. í tíu ár eftir að honum hefur verið afhentur öryggisíhlutur fyrir lyftur og í tíu ár eftir að hann hefur afhent öryggisíhlut fyrir lyftur.

IV. KAFLI

Samræmi lyfta og öryggisíhluta fyrir lyftur.

19. gr.

Fyrirframætlað samræmi lyfta og öryggisíhluta fyrir lyftur.

Lyftur og öryggisíhlutir fyrir lyftur, sem eru í samræmi við samhæfða staðla eða hluta þeirra og tilvísunarnúmer í þá hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, teljast samræmast grunn­kröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka og jafnframt er að finna í viðkomandi stöðlum eða hluta þeirra.

20. gr.

Samræmismatsaðferðir fyrir öryggisíhluti fyrir lyftur.

Öryggisíhlutir fyrir lyftur skulu gangast undir eina af eftirtöldum samræmismatsaðferðum:

  1. sýniseintakið af öryggisíhlutnum fyrir lyftur skal lagt fram til ESB-gerðarprófunar samkvæmt A-hluta IV. viðauka og gerðarsamræmið skal tryggt með slembiathugun á öryggisíhlutnum skv. IX. viðauka,
  2. sýniseintakið af öryggisíhlutnum skal lagt fram til ESB-gerðarprófunar samkvæmt A-hluta IV. viðauka og tekur til athugunar á gerðarsamræmi sem byggist á gæðatryggingu vöru í samræmi við VI. viðauka eða
  3. samræmi byggt á fullri gæðatryggingu skv. VII. viðauka.

21. gr.

Samræmismatsaðferðir fyrir lyftur.

Þegar um er að ræða lyftu sem hefur verið hönnuð í samræmi við sýniseintak lyftu sem er ESB-gerðarprófað samkvæmt B-hluta IV. viðauka skal hún gangast undir eina af eftirtöldum sam­ræmis­mats­aðferðum:

  1. lokaskoðun skv. V. viðauka,
  2. gerðarsamræmi byggt á gæðatryggingu vöru skv. X. viðauka eða
  3. gerðarsamræmi byggt á gæðatryggingu í framleiðslu skv. XII. viðauka.

Þegar um er að ræða lyftu sem hefur verið hönnuð og framleidd samkvæmt gæðakerfi sem er sam­þykkt skv. XI. viðauka skal hún gangast undir eina af eftirtöldum samræmismatsaðferðum:

  1. lokaskoðun skv. V. viðauka eða
  2. gerðarsamræmi byggt á gæðatryggingu vöru skv. X. viðauka eða
  3. gerðarsamræmi byggt á gæðatryggingu í framleiðslu skv. XII. viðauka.

Þegar ekki er um að ræða lyftur sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. skal samræmi lyftu annaðhvort:

  1. byggt á einingarsannprófun skv. VIII. viðauka eða
  2. byggt á fullri gæðatryggingu og hönnunarprófun skv. XI. viðauka.

Þegar um er að ræða lyftur skv. 1. og 2. mgr. skal sá sem ber ábyrgð á hönnun og framleiðslu lyftu útvega þeim sem ber ábyrgð á uppsetningu og prófun öll nauðsynleg skjöl og upplýsingar til að hinn síðarnefndi geti tryggt rétta og örugga uppsetningu og prófun á lyftunni.

Í tæknigögnunum skal tilgreina skýrt allan leyfilegan mismun, m.a. með hámarks- og lágmarks­gildum, milli sýniseintaks og þeirra lyfta sem eru framleiddar með sýniseintakið að fyrir­mynd. Í því skyni að fullnægja grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka er heimilt að sýna fram á samræmi við búnað með útreikningi og/eða hönnunaráætlun.

22. gr.

ESB-samræmisyfirlýsing.

ESB-samræmisyfirlýsing er yfirlýsing um að sýnt hafi verið fram á að grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka hafi verið uppfylltar.

ESB-samræmisyfirlýsing skal byggð upp eins og fyrirmyndin skv. II. viðauka og í henni skulu tilgreindir þeir þættir skv. V. til XII. viðauka sem við eiga. Yfirlýsingin skal stöðugt uppfærð og vera aðgengileg á íslensku.

Falli lyfta eða öryggisíhlutur fyrir lyftur undir fleiri en eina gerð Evrópska efnahagssvæðisins þar sem krafist er ESB-samræmisyfirlýsingar skal gera eina ESB-samræmisyfirlýsingu varðandi allar slíkar gerðir. Í þeirri yfirlýsingu skal tilgreina viðkomandi gerðir, þ.m.t. númer þeirra og ártal.

Með útgáfu ESB-samræmisyfirlýsingar ábyrgist framleiðandinn að öryggisíhluturinn fyrir lyftur fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar og sá sem annast uppsetningu ábyrgist að lyftan fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar.

23. gr.

CE-merkið.

Um CE-merkið gildir reglugerð nr. 566/2013, um markaðseftirlit, faggildingu o.fl., sem innleiðir reglu­gerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008, um kröfur varðandi faggildingu og mark­aðs­eftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum og um niðurfellingu reglugerðar (EBE) nr. 339/93, hér á landi.

Hver lyftustóll skal einkenndur með CE-merkinu á sýnilegan, læsilegan og óafmáanlegan hátt. Ennfremur skal hver öryggisíhlutur fyrir lyftur vera á sama hátt einkenndur með CE-merki. Þegar ekki er unnt að einkenna öryggisíhlutinn sjálfan með CE-merki skal það gert með merkingu sem er óaðskiljanlegur hluti af honum.

CE-merkið skal fest á áður en lyftan eða öryggisíhluturinn fyrir lyftur eru sett á markað.

Á eftir CE-merkinu á lyftu skal koma kenninúmer tilkynntu samræmismatsstofunnar sem tók þátt í einhverjum af eftirtöldum samræmismatsaðferðum:

  1. lokaskoðun skv. V. viðauka,
  2. einingarsannprófun skv. VIII. viðauka eða,
  3. gæðatryggingu skv. X., XI. eða XII. viðauka.

Á eftir CE-merkinu á öryggisíhlutum fyrir lyftur skal koma kenninúmer tilkynntu samræmis­mats­stofunnar sem tók þátt í einhverjum af eftirtöldum samræmismatsaðferðum:

  1. gæðatryggingu vöru skv. VI. viðauka,
  2. fullri gæðatryggingu skv. VII. viðauka eða
  3. gerðarsamræmi með slembiathugun á öryggisíhlutum fyrir lyftur skv. IX. viðauka.

Tilkynnta samræmismatsstofan skal sjálf sjá um að festa kenninúmer sitt á, að öðrum kosti skal framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans eða sá sem annast uppsetningu eða viðurkenndur fulltrúi hans sjá um það samkvæmt fyrirmælum samræmismatsstofunnar.

Á eftir CE-merkinu og kenninúmeri tilkynntu samræmismatsstofunnar getur fylgt önnur merking sem gefur til kynna sérstaka hættu eða notkun.

Óheimilt er að einkenna lyftu eða öryggisíhlut fyrir lyftur með merki sem er til þess fallið að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu, útlit og lögun CE-merkisins. Setja má hvers konar aðrar merkingar á lyftu eða öryggisíhlut að því tilskildu að þær hindri ekki að CE-merkið sjáist vel og sé vel læsilegt.

V. KAFLI

Tilkynning um samræmismatsstofur.

24. gr.

Tilkynning, mat og vöktun samræmismatsstofa.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofu annast mat og vöktun tilkynntra samræmismatsstofa, þ.m.t. hvort farið sé að ákvæðum 26. gr. Velferðarráðuneytið tilkynnir um samræmismatsstofur til Eftirlits­stofn­unar EFTA og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofu annast mat á samræmismatsstofum sem óska eftir að sjá um samræmismat samkvæmt reglugerð þessari. Samræmismatsstofur skulu uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 25. og 26. gr. Samræmismatsstofur sem uppfylla skilyrði viðeigandi samhæfðra staðla eða hluta þeirra og tilvísun í þá hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins teljast enn­fremur uppfylla skilyrði 25. gr.

Velferðarráðuneytið tilkynnir um samræmismatsstofur sem faggildingarsvið Einkaleyfastofu hefur faggilt skv. 2. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Uppfylli samræmismatsstofa ekki lengur skilyrði þau sem eru sett fram í 25. og 26. gr. afturkallar faggildingarsvið Einkaleyfastofu faggildingu hennar skv. 2. mgr. Velferðarráðuneytinu ber að til­kynna Eftirlitsstofnun EFTA og öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins um það án tafar.

25. gr.

Kröfur sem gerðar eru til tilkynntra samræmismatsstofa.

Samræmismatsstofa skal hafa réttarstöðu lögaðila.

Samræmismatsstofa skal vera óháð þeim aðilum, lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur sem verið er að meta. Stofa sem tilheyrir viðskiptasamtökum eða fagfélögum, er koma fram fyrir hönd félaga sem starfa við hönnun, framleiðslu, útvegun, samsetningu, notkun eða viðhald á lyftum eða öryggis­íhlutum fyrir lyftur, getur talist slík stofa að því gefnu að sýnt sé fram á að hún sé sjálfstæð og að óviðkomandi hagsmunir hafi ekki áhrif á matið.

Samræmismatsstofa, stjórnendur hennar og starfsfólk sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmis­mats­verkefna skulu:

  1. hvorki vera hönnuðir, framleiðendur, birgjar, uppsetningaraðilar, innkaupsaðilar, eigendur, notendur eða viðhaldsaðilar á lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur sem stofan metur né vera fulltrúar einhvers þessara aðila. Þrátt fyrir 1. málsl. er samræmismatsstofu heimilt að nota lyftur eða öryggisíhluti fyrir lyftur, sem hafa verið metin, að því marki sem það er nauðsynlegt fyrir starfsemi samræmismatsstofunnar ásamt persónulegri notkun á slíkum lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur. Þrátt fyrir 1. málsl. er samræmismatsstofu heimilt að skiptast á tæknilegum upplýsingum við framleiðanda eða þann sem annast uppsetningu,
  2. hvorki taka með beinum hætti þátt í hönnun, framleiðslu eða smíði, markaðssetningu, uppsetningu, notkun eða viðhaldi lyfta eða öryggisíhluta fyrir lyftur sem stofan metur né vera fulltrúar þeirra aðila sem fást við slíka starfsemi,
  3. ekki taka þátt í einhverri þeirri starfsemi sem gæti haft áhrif á sjálfstætt mat sam­ræmis­mats­stofunnar og heilindi að því er varðar þá samræmismatsstarfsemi sem til­kynn­ing stofunnar skv. 3. mgr. 24. gr. tekur til. Þetta gildir einkum um ráðgjafarþjónustu.

Samræmismatsstofa skal tryggja að starfsemi dótturfyrirtækja hennar eða undirverktaka hafi ekki áhrif á trúnað, hlutlægni eða óhlutdrægni í samræmismatsstarfsemi hennar.

Samræmismatsstofa og starfsfólk hennar skal starfa af fagmennsku og sjá til þess að nauðsynleg tæknikunnátta sé ávallt til staðar á viðkomandi sviði. Ennfremur skal samræmismatsstofa og starfs­fólk hennar vera sjálfstætt í störfum sínum og koma í veg fyrir að þær aðstæður séu fyrir hendi sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þess í efa með réttu við matið eða starfsemi tengda því, hvort sem er vegna fjárhagslegra eða persónulegra tengsla við einstaklinga eða hópa ein­stak­linga sem eiga hagmuna að gæta í tengslum við samræmismatsstarfsemina.

Samræmismatsstofa skal vera fær um að framkvæma þau samræmismatsverkefni sem henni hafa verið falin skv. IV. til XII. viðauka og sem tilkynning stofunnar skv. 3. mgr. 24. gr. tekur til, hvort sem hún framkvæmir verkefnin sjálf eða þau eru framkvæmd fyrir hönd hennar og á ábyrgð hennar.

Samræmismatsstofa skal ávallt og fyrir hverja samræmismatsaðferð og hverja tegund eða flokk af lyftum eða öryggisíhlutum fyrir lyftur sem tilkynning stofunnar skv. 3. mgr. 24. gr. tekur til hafa eftirfarandi til umráða:

  1. starfsfólk sem býr yfir tækniþekkingu ásamt nægilegri og viðeigandi reynslu til að fram­kvæma samræmismatsverkefnin,
  2. lýsingar á aðferðunum sem er beitt við samræmismat til að tryggja gagnsæi og að unnt sé að endurtaka þessar aðferðir. Samræmismatsstofa skal hafa í gildi viðeigandi stefnur og verklag til að greina á milli verkefna sem hún framkvæmir sem tilkynnt stofa, og annarrar starfsemi hennar,
  3. starfsaðferðir þannig að unnt sé að taka tilhlýðilegt tillit til stærðar þess fyrirtækis sem í hlut á, þeirrar starfsgreinar sem það starfar innan, skipulags þess, hversu flókna fram­leiðslu­tækni er um að ræða og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða.

Samræmismatsstofa skal hafa yfir að ráða öllum þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til að geta framkvæmt á réttan hátt þau störf sem eru tæknileg í eðli sínu og þau er lúta að stjórnun sem tengjast samræmismatsstarfsemi. Ennfremur skal samræmismatsstofan hafa aðgang að öllum nauðsynlegum búnaði eða aðstöðu.

Starfsfólk samræmismatsstofu sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna skal búa yfir eftirfarandi:

  1. traustri tækni- og starfsþjálfun sem nær til allrar starfsemi sem tengist samræmismatinu og samræmismatsstofan er tilkynnt stofa fyrir,
  2. viðunandi þekkingu á kröfum varðandi samræmismatið sem það annast og fullnægjandi heimild til að annast slíkt mat,
  3. viðeigandi þekkingu og skilningi á grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka, á viðeigandi samhæfðum stöðlum og á viðkomandi ákvæðum samhæfingarlöggjafar Evrópska efnahagssvæðisins og íslenskum lögum, og
  4. getu til þess að annast gerð vottorða, skráa og skýrslna sem sýna að mat hafi verið unnið.

Tryggja skal óhlutdrægni samræmismatsstofunnar, stjórnenda hennar og starfsfólks sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna.

Laun stjórnenda og starfsfólks sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna samræmis­mats­stof­unnar mega hvorki vera háð fjölda matsgerða sem unnar eru né niðurstöðum matsgerð­anna.

Samræmismatsstofur skulu hafa ábyrgðartryggingu.

Starfsfólk samræmismatsstofu er bundið þagnarskyldu um allar upplýsingar sem það kemst yfir við framkvæmd verkefna skv. IV. til XII. viðauka nema gagnvart velferðarráðuneytinu, faggild­ingar­sviði Einkaleyfastofu og Vinnueftirliti ríkisins.

Samræmismatsstofur skulu taka þátt í eða tryggja að það starfsfólk sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna sé upplýst um viðeigandi starfsemi við gerð staðla, sem og starfsemi sam­ræmingarhóps tilkynntra samræmismatsstofa fyrir lyftur, sbr. 32. gr., í því skyni að nýta sér upp­lýs­ingarnar til almennrar leiðbeiningar.

26. gr.

Dótturfyrirtæki og undirverktakar tilkynntra samræmismatsstofa.

Feli tilkynnt samræmismatsstofa undirverktaka eða dótturfyrirtæki sínu sérstök verkefni í tengslum við samræmismat, skal hún tryggja að undirverktakinn eða dótturfyrirtækið uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 25. gr. og upplýsa velferðarráðuneytið þar um.

Tilkynntri samræmismatsstofu er aðeins heimilt að fela undirverktaka eða dótturfyrirtæki verkefni í tengslum við samræmismat með samþykki viðskiptavinarins.

Tilkynntar samræmismatsstofur bera fulla ábyrgð á þeim verkefnum sem undirverktakar eða dóttur­fyrirtæki framkvæma, án tillits til staðsetningar. Þá skulu tilkynntar samræmismatsstofur hafa tiltæk fyrir velferðarráðuneytið öll skjöl sem skipta máli varðandi mat á réttindum og hæfi undir­verktakans eða dótturfyrirtækisins og þau verkefni sem unnin eru skv. IV. til XII. viðauka.

27. gr.

Umsókn um tilkynningu.

Samræmismatsstofa leggur fram umsókn um tilkynningu hjá velferðarráðuneytinu.

Með umsókn um tilkynningu skal fylgja lýsing á samræmismatsstarfseminni, samræmis­mats­aðferðinni eða -aðferðunum og lyftunum eða öryggisíhlutunum fyrir lyftur sem stofan fullyrðir að hæfi hennar nái til, ásamt afriti af faggildingu faggildingarsviðs Einkaleyfastofu þar sem staðfest er að samræmismatsstofan uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í 25. gr.

28. gr.

Málsmeðferð við tilkynningu.

Velferðarráðuneytinu er einungis heimilt að tilkynna þær samræmismatsstofur sem uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 25. gr.

Í tilkynningunni skulu vera ítarlegar upplýsingar um starfsemina í tengslum við samræmismatið, samræmismatsaðferðina eða -aðferðirnar og lyfturnar eða öryggisíhlutina fyrir lyftur sem um er að ræða ásamt afriti af faggildingu faggildingarsviðs Einkaleyfastofu þar sem staðfest er að sam­ræmis­mats­stofan uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í 25. gr.

Hlutaðeigandi samræmismatsstofu er einungis heimilt að annast starfsemi tilkynntrar samræmis­mats­stofu hreyfi Eftirlitsstofnun EFTA eða önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins ekki andmælum innan tveggja mánaða frá tilkynningu. Einungis slík stofa telst tilkynnt samræmis­mats­stofa í skilningi reglugerðar þessarar.

Velferðarráðuneytið skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og öðrum aðildarríkjum Evrópska efna­hags­svæðisins um allar síðari breytingar á tilkynningunni, sbr. 29. gr., sem máli skipta.

29. gr.

Breytingar á tilkynningum.

Komist velferðarráðuneytið að raun um eða hefur verið upplýst um að tilkynnt samræmismatsstofa uppfylli ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 25. gr., eða ræki ekki skyldur sínar, skal ráðuneytið, eftir því hversu alvarlegur misbresturinn er, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla tilkynningu skv. 3. mgr. 24. gr. Ráðuneytið skal tafarlaust tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins um það.

VI. KAFLI

Tilkynntar samræmismatsstofur.

30. gr.

Skyldur er varða starfsemi tilkynntra samræmismatsstofa.

Tilkynntar samræmismatsstofur skulu framkvæma samræmismat í samræmi við samræmis­mats­aðferðirnar sem kveðið er á um í 20. og 21. gr.

Við framkvæmd samræmismats skal gæta meðalhófs til að forðast að leggja óþarfa byrðar á markaðsaðila. Tilkynntar samræmismatsstofur skulu í starfsemi sinni taka tilhlýðilegt tillit til stærðar fyrirtækis, þeirrar starfsgreinar sem það starfar innan, skipulags þess, hversu flókna framleiðslutækni er um að ræða og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða. Komist tilkynnt samræmismatsstofa að þeirri niðurstöðu að sá sem annast uppsetningu eða framleiðandi hafi ekki uppfyllt grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka, eða samkvæmt samsvarandi samhæfðum stöðlum eða öðrum tækniforskriftum, skal hún krefjast þess að sá sem annast upp­setningu eða framleiðandinn grípi til viðeigandi ráðstafana til úrbóta áður en unnt er að gefa út vott­orð eða ákvarðanir um samþykki, eftir því sem við á.

Komist tilkynnt samræmismatsstofa að þeirri niðurstöðu, við eftirlit með því að samræmis sé gætt í kjölfar útgáfu á vottorði eða ákvörðunum um samþykki, eftir því sem við á, að lyfta eða öryggis­íhlutur fyrir lyftur fullnægi ekki lengur ákvæðum reglugerðar þessarar skal hún krefjast þess að sá sem annast uppsetningu eða framleiðandinn grípi til viðeigandi ráðstafana til úrbóta. Skal þá fella vottorðið eða ákvarðanirnar um samþykki tímabundið úr gildi eða afturkalla ef nauðsyn krefur.

Sé ekki gripið til ráðstafana til úrbóta eða þær hafi ekki tilskilin áhrif skal tilkynnta samræmis­mats­stofan takmarka vottorðið eða ákvarðanir um samþykki, eða eftir því sem við á, fella þær tíma­bundið úr gildi eða afturkalla þær.

31. gr.

Upplýsingaskylda tilkynntra samræmismatsstofa.

Tilkynntar samræmismatsstofur skulu upplýsa velferðarráðuneytið um:

  1. tilvik þar sem synjað er um vottorð eða ákvarðanir um samþykki eða ef vottorð eða ákvarðanir um samþykki eru takmarkaðar, felldar tímabundið úr gildi eða afturkallaðar,
  2. aðstæður sem hafa áhrif á gildissvið tilkynningar þeirra skv. 3. mgr. 24. gr. eða skilyrði fyrir henni,
  3. beiðnir sem þeim hafa borist frá Vinnueftirliti ríkisins um upplýsingar varðandi sam­ræmis­mats­starfsemi,
  4. starfsemi sem tengist samræmismatinu sem hefur farið fram á grundvelli tilkynningar þeirra skv. 3. mgr. 24. gr. og alla aðra starfsemi sem hefur farið fram, þ.m.t. starfsemi sem nær yfir landamæri og undirverktakastarfsemi, sé þess óskað.

Tilkynntar samræmismatsstofur skulu veita öðrum stofum, sem eru tilkynntar samkvæmt þessari reglugerð og annast sambærilega samræmismatsstarfsemi á sömu tegund af lyftum eða sömu öryggisíhlutum fyrir lyftur, viðeigandi upplýsingar um mál er varða neikvæðar og, sé þess óskað, jákvæðar niðurstöður samræmismats.

32. gr.

Samræming tilkynntra samræmismatsstofa.

Tilkynntar samræmismatsstofur skulu taka þátt í vinnu samræmingarhóps tilkynntra sam­ræmis­mats­stofa fyrir lyftur annaðhvort með beinum hætti eða í gegnum tilnefnda fulltrúa.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

33. gr.

Eftirlit Vinnueftirlits ríkisins.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með þeim lyftum sem falla undir reglugerð þessa, sbr. einnig sér­reglur um reglubundið eftirlit. Ráðherra getur þó ákveðið að eftirlitsverkefnið verði falið annarri opin­berri stofnun eða faggiltum skoðunarstofum, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breyt­ingum.

34. gr.

Tilkynning um slys.

Eigandi eða rekstraraðili lyftu skal án ástæðulauss dráttar tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um öll slys eða óhöpp sem kunna að verða vegna notkunar hennar.

35. gr.

Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða ákvæði 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

36. gr.

Kæruheimild.

Um kæruheimildir á grundvelli þessarar reglugerðar fer skv. 98. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.

VIII. KAFLI

Gildistaka.

37. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. og 34., 35., 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnu­eftirlits ríkisins og að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fag­gildingar­svið Einkaleyfastofu hvað varðar þátt faggildingarsviðs Einkaleyfastofu, sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., til innleiðingar á tilskipun 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildar­ríkjanna varðandi lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur, sem vísað er til í 6. lið III. kafla II. viðauka samn­ings­ins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameigin­legu EES-nefndarinnar, nr. 43/2015.

Viðaukar við tilskipun 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi lyftur og öryggis­íhluti fyrir lyftur, sem vísað er til í reglugerð þessari, skulu öðlast gildi hér á landi. Um birt­ingu þeirra vísast til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23, 23. apríl 2015 bls. 712.

38. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 341/2003, um fólkslyftur og fólks- og vörulyftur, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 1003/2009, um breytingu á reglu­gerð nr. 341/2003, um fólkslyftur og fólks- og vörulyftur.

Ákvæði til bráðabirgða.

Um þær lyftur sem þegar hafa verið teknar í notkun gilda reglugerðir sem í gildi voru þegar þær voru teknar í notkun nema að annað leiði af ákvæðum reglugerðar þessarar.

Velferðarráðuneytinu, 28. október 2016.

Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica