REGLUGERÐ
fyrir vatnsveitur sveitarfélaga.
I. KAFLI
Stjórn vatnsveitna.
1. gr.
Sveitarstjórn fer með stjórn vatnsveitu í sveitarfélaginu.
2. gr.
Sveitarstjórn getur kosið sérstaka stjórn til að hafa umsjón með framkvæmd vatnsveitumála sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar.
Ákveði sveitarstjórn að kjósa sérstaka stjórn skal það gert á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Kjörtímabilið skal vera hið sama og sveitarstjórnar, nema sveitarstjórn ákveði annað.
Sveitarstjórn skal ákveða fjölda stjórnarmanna. Um fundarsköp gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 svo og ákvæði í samþykkt um stjórn og fundarsköp hlutaðeigandi sveitarfélags. Sveitarstjórn skipar formann stjórnar nema samþykktir sveitarstjórnar kveði á um annað.
3. gr.
Helstu verkefni stjórnar vatnsveitu eru þessi:
Að ákveða framkvæmd vatnsveitumála á veitusvæði vatnsveitunnar í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar, sbr. sveitarstjórnarlög nr. 8/1986, lög nr. 81/1991 um vatnsveitur sveitarfélaga og vatnalög nr. 15/1923 eftir því sem við á hverju sinni. Að gera tillögu að gjaldskrá vatnsveitunnar varðandi fjárhæðir gjalda, skv. 6., 7. og 8. grein laga nr. 81/1991 og III. kafla reglugerðar þessarar og leggja fyrir sveitarstjórn til ákvörðunar.
Að semja drög að fjárhagsáætlun fyrir vatnsveituna og leggja fyrir sveitarstjórn.
Að gera tillögu um ráðningu vatnsveitustjóra til sveitarstjórnar. Um ráðningu annarra starfsmanna vatnsveitunnar skal fara eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags.
Að afgreiða beiðnir frá húseigendum, skv. 6. grein laga nr. 81/1991 svo og önnur þau erindi sem berast og varða vatnsveituna. Að setja nánari reglur um einstök framkvæmdaratriði reglugerðar þessarar eftir því sem þörf gerist og leggja fyrir sveitarstjórn.
4. gr.
Sveitarstjórn ræður vatnsveitustjóra að fengnum tillögum stjórnar vatnsveitunnar. Gera skal sérstakan ráðningarsamning við vatnsveitustjóra þar sem meðal annars er kveðið á um starfskjör hans. Vatnsveitustjóri skal annast daglegan rekstur vatnsveitunnar í umboði stjórnar vatnsveitunnar. Stjórn vatnsveitunnar skal setja honum erindisbréf, í samráði við sveitarstjórn, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Vatnsveitustjóri skal sitja fundi stjórnar vatnsveitunnar með málfrelsi og tillögurétt.
5. gr.
Sveitarstjórnum er heimilt að hafa samvinnu sín á milli um lagningu og rekstur vatnsveitu m.a. á vettvangi byggðasamlaga og skulu þá ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga gilda.
Í stofnsamningi sveitarstjórna um samvinnu í vatnsveitumálum skal m.a. kveða á um stjórn og kjör fulltrúa, fjölda þeirra, kjörtímabil o.fl., sbr. nánar 98. grein sveitarstjórnarlaga.
II. KAFLI
Skilgreining hugtaka.
6. gr.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og hugtök þessa merkingu:
a) Vatnsgjald: Gjald, sem sveitarstjórn leggur á fasteignaeigendur, er geta notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélagsins, í samræmi við 7. grein laga nr. 81/1991, og ætlað er að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu.
b) Aukavatnsgjald: Gjald, sem sveitarstjórn leggur á þá notendur vatns, er kaupa vatn til annarra þarfa en heimilis, samkvæmt mældri notkun í rúmmetrum.
c) Heimæðargjald: Gjald, sem felur í sér greiðslu fasteignareiganda til sveitarsjóðs/ vatnsveitu fyrir lagningu einnar heimæðar og uppsetningu á stofnkrana.
d) Vatnsæð: Samheiti yfir heimæð, götuæð og aðalæð.
e) Aðalæð: Vatnslögn, sem liggur frá vatnsbóli að miðlunarstað, þaðan sem stofnæðar dreifast til einstakra hverfa og götuæðar eru lagðar frá.
f) Götuæð: Vatnslögn, sem liggur frá stofnæð og ætlað er að flytja vatn um einstakar götur.
g) Heimæð: Vatnslögn, sem liggur frá götuæð og er ætlað að sjá einstökum notendum fyrir vatni.
h) Stofnkrani: Sá hluti heimæðar, sem vatnslagnir innan húss eru tengdar við.
i) Tengiloki: Loki, sem settur er á enda heimæðar við lóðarmörk.
j) Ídráttarrör: Hlífðarrör, sem heimæð er dregin inn í, þegar heimæð er lögð frá lóðarmörkum í hús.
III. KAFLI
Fjármál vatnsveitna.
7. gr.
Þar sem vatnsveitur hafa sjálfstæðan fjárhag skal halda bókhald í samræmi við lög um bókhald nr. 51/1968 og reglugerð nr. 280/1989, um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga o.fl., eftir því sem við á. Semja skal ársreikning fyrir vatnsveituna, sbr. 82. grein sveitarstjórnarlaga. Endurskoðun ársreiknings skal framkvæmd með sama hætti og endurskoðun ársreiknings sveitarsjóðs.
Þar sem vatnsveitur eru deild innan ársreiknings sveitarsjóðs skal gert sérgreint yfirlit um tekjur og gjöld, sem tengjast rekstri og framkvæmdum á vegum vatnsveitunnar.
8. gr.
Fjárhagsáætlun fyrir vatnsveitu skal afgreidd af sveitarstjórn með sama hætti og fjárhagsáætlun sveitarsjóðs, sbr. 75. grein og 78. grein - 80. grein sveitarstjórnarlaga.
Þar sem sérstök stjórn vatnsveitu hefur verið kosin skal hún gera tillögu til sveitarstjórnar um áætlaðar tekjur, rekstrargjöld og framkvæmdir á vegum vatnsveitunnar. Einnig skal stjórn vatnsveitu leggja fyrir sveitarstjórn drög að þriggja ára áætlun, um rekstur, framkvæmdir og fjármál vatnsveitu, sbr. 76. grein sveitarstjórnarlaga. Að öðrum kosti ákveður sveitarstjórn þetta alfarið.
9. gr.
Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. grein laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 90/1990. Stofn til álagningar vatnsgjalds á lóðir og lendur skal vera fasteignamat þeirra.
Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds, að fenginni tillögu stjórnar vatnsveitu. Vatnsgjald má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna, enda verði álagningin aldrei hærri en sem nemur 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni.
Nú liggur matsverð fullfrágenginnar fasteignar eigi fyrir við álagningu vatnsgjalds, en fasteign getur notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr., og er þá sveitarstjórn heimilt að ákveða upphæð vatnsgjaldsins með hliðsjón af því hver verður líklegur álagningarstofn fullfrágenginnar eignar.
Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatts og innheimtu þess hagað á sama hátt í samræmi við 4. grein laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 90/1990.
10. gr.
Í fyrirtækjum og annars staðar þar sem vatn er notað til annars en venjulegra heimilisþarfa, vegna atvinnu, sem í þeim er rekin, eða af öðrum ástæðum, skal auk vatnsgjalds greiða sérstakt gjald, aukavatnsgjald. Aukavatnsgjald, skal notandi að jafnaði greiða, samkvæmt notkun vatns mældri í rúmmetrum. Sveitarstjórn ákveður, sbr. 3. grein, gjald þetta sem má fyrir hvern rúmmetra nema allt að 15 kr. Heimilt er sveitarstjórn að hækka gjaldið ársfjórðungslega en grunngjaldið miðast við vísitölu byggingarkostnaðar í október 1991, 187 stig. Verði mælingu vatnsins eigi komið við ákveður sveitarstjórn, að fengnum tillögum stjórnar vatnsveitu, aukavatnsgjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. Aukavatnsgjald skal innheimta eftirá en sveitarstjórn ákveður hvenær gjalddagi er.
Í undantekningartilvikum þegar stofnkostnaður og/eða reksturskostnaður vatnsveitu er óvenjulega hár, getur ráðherra veitt sveitarstjórn heimild til að ákveða hærra aukavatnsgjald en segir í 1. mgr.
11. gr.
Þar til aðstöðu hefur verið komið upp hér á landi til að löggilda vatnsmæla, er heimilt að nota mæla sem prófaðir hafa verið af framleiðanda mælanna. Gerð mælis skal jafnframt hafa fengið viðurkenningu erlendrar löggildingarstofu, sem Löggildingarstofa Íslands viðurkennir.
Sveitarstjórn/vatnsveitan lætur þeim, er greiða skulu aukavatnsgjald, í té viðurkennda vatnsmæla.
Sveitarstjórn/vatnsveitan er eigandi mælisins og ákveður stærð hans og gerð í samræmi við vatnsnotkun á hverjum stað. Sá er notar vatn samkvæmt mæli skal greiða árlegt leigugjald fyrir mælinn. Sveitarstjórn ákveður upphæð leigugjalds, sbr. 3. grein. Sveitarstjórn/vatnsveitan annast og kostar eðlilegt viðhald vatnsmælis, en allar skemmdir af mannavöldum og frosti ber fasteignareiganda að bæta.
Ef maður rífur innsigli vatnsmælis varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.
Vatnslagnir innan húss eiga jafnan að vera þannig lagðar, að hægt sé að nota einn mæli fyrir hvert innanhússkerfi. Verði vatnsmæli eigi komið fyrir án breytinga á vatnslögn, er fasteignareiganda skylt að láta breyta lögninni á eigin kostnað. Honum ber og að tilkynna sveitarstjórn/vatnsveitunni tafarlaust bilanir á vatnsmæli, er hann kann að verða var við.
12. gr.
Til þess að standa straum af kostnaði vatnsveitu við lagningu vatnsæðar, heimæðar, frá götuæð í stofnkrana húss og uppsetningu hans skal fasteignareigandi greiða heimæðargjald. Sveitarstjórn ákveður upphæð heimæðargjalds, sbr. 3. grein, og skal gjald fyrir eina heimæð taka mið af rúmmáli húss (m3), utanmáli.
13. gr.
Endurgjald hafnarsjóðs til sveitarsjóðs/vatnsveitu vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun og ákveður sveitarstjórn gjald fyrir hvern rúmmetra í gjaldskrá. Hafnarstjórn/sveitarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns, sem seldur er til skipa og báta.
14. gr.
Selji sveitarfélag öðru sveitarfélagi vatn skal endurgjald fyrir vatnið ákveðið með samkomulagi aðila eða mati dómkvaddra matsmanna náist ekki samkomulag. Við mat skal þess gætt að endurgjaldið verði aldrei minna en sannanlegur kostnaður sveitarstjórnar/ vatnsveitunnar af vatnsvinnslu og dreifingu vegna vatnssölunnar, ásamt allt að 5% álagi af bundnu fjármagni.
15. gr.
Heimilt er sveitarstjórn að binda vatnssölu til fyrirtækja, sem nota vatn í tengslum við framleiðslu sína, því skilyrði að gerður verði sérstakur vatnssölusamningur, er taki m.a. mið af kostnaði sveitarstjórnar/vatnsveitunnar af vatnsvinnslu og dreifingu vegna vatnssölunnar ásamt allt að 25% álagi af bundnu fjármagni.
16. gr.
Sveitarstjórn skal setja gjaldskrá, að fengnum tillögum stjórnar vatnsveitu, sbr. 3. grein, þar sem m.a. komi fram fjárhæð þeirra gjalda, sem heimilt er að innheimta samkvæmt þessum kafla, svo og gjalddagar þeirra. Sveitarstjórn er heimilt að binda gjöld þessi, önnur en vatnsgjald, við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.
IV. KAFLI
Lagning veitukerfis, viðhald o.fl.
17. gr.
Sveitarstjórn sér um alla uppbyggingu vatnsveitu sveitarfélagsins, þ.e. virkjun vatnsbóla, lagningu vatnsæða auk byggingu annarra mannvirkja, sem nauðsynleg kunna að vera til reksturs veitunnar, svo sem dælustöðva og miðlunargeyma. Sveitarstjórn annast og kostar viðhald þessa.
18. gr.
Um veitukerfi vatnsveitu gilda ákvæði íslensks staðals, eftir því sem við getur átt, en norrænir staðlar og ISO staðlar skulu vera leiðbeinandi að öðru leyti. Ákvæði laga um skipulags-, byggingar- og heilbrigðismál gilda einnig eftir því sem við á.
19. gr.
Þeir pípulagningameistarar einir mega hafa umsjón með og bera ábyrgð á framkvæmdum við lagningu vatnsæða innanhúss og viðhald þeirra, sem til þess hafa hlotið viðurkenningu byggingarnefndar, sbr. ákvæði 2.4.7. í byggingarreglugerð, og fullnægja að öðru leyti skilyrðum sem sett eru í lögum og reglugerðum. Lagning vatnsæða utanhúss skal vera í höndum sömu aðila eða þeirra, sem að dómi sveitarstjórnar hafa sambærilega reynslu og þekkingu til verksins.
20. gr.
Eigandi húss við veg eða opið svæði, þar sem götuæð liggur, á rétt á að fá heimæð lagða frá götuæð í húseignina.
Sá, sem óskar eftir því að heimæð vatnsveitu verði lögð í húseign eða breytingar gerðar á heimæð, vegna framkvæmda á hans vegum, skal sækja um það til sveitarstjórnar/stjórnar vatnsveitu. Umsókn skal undirrituð af eiganda eða fullgildum umboðsmanni hans.
Umsókn skulu fylgja teikningar af vatnslögnum innanhúss. Teikningar þessar skulu fylgja almennum reglum um hönnun vatnslagna, sbr. 18. grein, þessarar reglugerðar, og vera samþykktar af byggingaryfirvöldum sveitarfélagsins. Lega heimæðar frá lóðarmörkum að stofnkrana skal koma fram á afstöðumynd, sem fylgja skal framangreindum teikningum.
Húseigandi skal greiða gjald fyrir lagningu einnar heimæðar, sbr. 12. grein. Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum húseiganda skal hann kosta þær.
Dælur eða önnur tæki, sem geta valdið óeðlilegri notkun vatns, má ekki tengja við heimæð nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar/stjórnar vatnsveitu.
21. gr.
Við hönnun húsa skal gera ráð fyrir og staðsetja á uppdrætti, sem lagður er fyrir byggingarnefnd, rými fyrir stofnkrana heimæðar í samráði við byggingaryfirvöld sveitarfélags. Inntaksrými stofnkrana skal vera upphitað, með niðurfalli í gólfi og aðgengilegt starfsmönnum vatnsveitunnar.
Við nýbyggingu húss leggur vatnsveitan hluta heimæðar frá götuæð inn fyrir lóðarmörk og setur þar tengiloka, sem húseiganda er heimilt, í samvinnu við vatnsveitu að nota, meðan á byggingu hússins stendur. Frá þessum tengiloka ber húseiganda að leggja, á frostfríu dýpi, ídráttarrör að inntaksstað heimæðar samkvæmt samþykktri afstöðumynd. Til að unnt verði að ganga frá tengingu heimæðar við stofnkrana húss skal skilja eftir holu við báða enda ídráttarrörs. Við ákvörðun heimæðargjalds, sbr. 12. grein, skal gera ráð fyrir að ídráttarrör sé fyrir hendi.
Sé heimæð lögð inn í hús á þeim árstíma þegar frosthætta getur verið fyrir hendi, að dómi sveitarstjórnar/stjórnar vatnsveitu, er húseiganda skylt að koma hita á inntaksrými stofnkrana.
Ætíð er bannað að hylja vatnslagnir áður en gerð hefur verið úttekt á þeim á vegum eftirlitsaðila sveitarstjórnar.
Varðveisla samþykktra uppdrátta af vatnslögnum skal vera á hendi sveitarstjórnar eða þeirra aðila sem hún ákveður.
22. gr.
Réttur húseigenda til vatnsnota skuldbindur ekki vatnsveituna til þess að tryggja, að þrýstingur í götuæðum sé ávallt nægilegur.
Ef þannig stendur á að götuæðar eða heimæðar, sem fyrir eru, geta ekki séð atvinnufyrirtæki eða öðrum fyrir nægilegu vatni, getur sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu sett það sem skilyrði fyrir úrbótum, að húseigandi/notandi greiði þann kostnað sem til fellur vegna nauðsynlegra úrbóta.
Vatnsveitan skal, eftir því sem mögulegt er, sjá húseigendum fyrir fullnægjandi vatnsmagni og þrýstingi inn á sjálfvirk vatnsúðakerfi til slökkvistarfa. Ef þannig stendur á að götuæðar geta ekki séð fyrir því vatnsmagni, sem nauðsynlegt telst vegna vatnsúðakerfis eða sambærilegs búnaðar, og brunamálayfirvöld gera kröfu til að sé fyrir hendi, getur sveitarstjórn krafist þess að húseigandi komi fyrir vatnsmiðlunargeymi í húsinu eða öðrum viðeigandi búnaði.
Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar í götu, þar sem óskað er eftir vatnsnotkun, getur sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu sett það sem skilyrði fyrir lögn vatnsæðar, að húseigandi/ notandi taki þátt í kostnaði við lögnina.
23. gr.
Húseigandi á allar vatnslagnir innanhúss, fyrir innan stofnkrana, og er skylt að halda þeim vel við svo og vatnstækjum hússins. Sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu er þó heimilt að setja upp nauðsynlegan búnað við stofnkrana, svo sem síu, tengibút vegna uppsetningar rennslismælis, og einstreymisloka.
Verði notandi uppvís að óhóflegri vatnsnotkun eða vanræki viðhald á vatnslögnum og vatnstækjum innanhúss getur sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu krafist þess að úr því verði bætt. Verði eigandi ekki við kröfu um úrbætur getur sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu stöðvað sölu á vatni, sbr. 29. grein.
Sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu getur krafist þess, að fyrirtæki, er mikið vatn nota, afli sér sparneytnari véla eða setji upp geyma til söfnunar vatns að næturlagi.
24. gr.
Starfsmenn vatnsveitu skulu, í samráði við húseigendur, hafa aðgang að öllum vatnslögnum innanhúss til eftirlits. Húseigendum ber að gefa þeim upplýsingar um vatnslagnir og vatnsnotkun eftir því sem unnt er. Enn fremur skulu starfsmenn vatnsveitunnar hafa frjálsan aðgang að heimæð vatnsveitu á lóð, vegna framkvæmda við viðhald og eftirlit. Hið sama gildir um lönd þar sem aðalæðar liggja.
Við lagningu heimæðar og viðhald hennar, skulu starfsmenn vatnsveitunnar halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um. Sé nauðsynlegt vegna bilunar eða endurnýjunar á heimæð að grafa upp heimæðina er starfsmönnum vatnsveitu það heimilt, en færa skulu þeir lóð, að verki loknu, til fyrra horfs eins og unnt er. Starfsmönnum vatnsveitu er heimilt vegna endurnýjunar heimæðar að leggja hana á öðrum stað frá götu í hús, telji þeir það heppilegra til að forðast skemmdir. Enn fremur er starfsmönnum heimilt, að höfðu samráði við húseiganda, að fara með heimæð inn í hús á öðrum stað, ef ekki er unnt að nota þann stað sem fyrir er, nema valda miklu og/eða óbætanlegu tjóni. Hafi húseigandi gróðursett trjáplöntur, steypt veggi eða stæði yfir heimæð ellegar lagt yfir hana snjóbræðslukerfi ber sveitarstjórn ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að verða vegna nauðsynlegra aðgerða vatnsveitu, nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna vatnsveitu.
Eigandi fasteignar á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar og viðhalds heimæðar.
25. gr.
Sveitarstjórn/stjórn vatnsveitu skal koma fyrir brunahönum í samráði við slökkviliðsstjóra og annast iðhald þeirra og eftirlit.
Óheimilt er öðrum en slökkviliði við slökkvistörf og starfsmönnum vatnsveitunnar við störf þeirra, að opna brunahana, nema með sérstöku leyfi sveitarstjórnar/stjórnar vatnsveitu.
26. gr.
Ef eldsvoða ber að höndum hafa slökkvilið, lögregla og starfsmenn vatnsveitu heimild til þess að gera hverjar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar mega teljast, hvort heldur á vatnsæðum í eigu sveitarstjórnar/vatnsveitu eða einkaeign.
V. KAFLI
Um lokun fyrir vatn, innheimtu gjalda
og viðurlög gegn brotum.
27. gr.
Ef nauðsyn krefur, vegna viðgerða á dælustöðvum, vatnsgeymum, vatnsæðum og öðrum lögnum veitukerfis vatnsveitunnar eða af öðrum ástæðum, getur vatnsveitan fyrirskipað takmörkun á vatnsnotkun, takmarkað vatnsrennsli eða lokað fyrir vatn, eftir því sem þörf krefur hverju sinni, enda tilkynni vatnsveitan fyrirfram um slíkar takmarkanir, ef unnt er.
28. gr.
Fullt vatnsgjald ber að greiða, þótt lokun fari fram samkvæmt 27. grein, og vatnsveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, er leiða kann af rekstrartruflunum, er verða vegna vinnu við veitukerfi vatnsveitunnar, rafmagnstruflana eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum.
29. gr.
Vatnsgjald og heimæðargjald ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði eru tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald fellur í gjalddaga er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð eignarinnar.
Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim, sem vanrækja greiðslu aukavatnsgjalds og gjald fyrir mælaleigu, að undangenginni skriflegri aðvörun. Aukavatnsgjald og gjald fyrir mælaleigu má taka fjárnámi.
Heimilt er að stöðva vatnssölu til allra þeirra, er vanrækja viðhald vatnslagna innanhúss, eru staðnir að sóun vatns eða brjóta gegn ákvæðum reglugerðar þessarar.
30. gr.
Brot á reglugerð þessari varðar sektum, sem renna skulu í sveitarsjóð, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Mál varðandi brot á reglugerð þessari skal farið með að hætti opinberra mála.
VI. KAFLI
Gildistökuákvæði.
31. gr.
Reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga skal gilda fyrir allt landið.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli laga nr. 81/1991 um vatnsveitur sveitarfélaga, staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. janúar 1993. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 620/1991, sbr. reglugerð nr. 90/1992.
Félagsmálaráðuneytið, 23. nóvember 1992.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Þórhildur Líndal.