Fjármálaráðuneyti

949/2003

Reglugerð um endurmenntun endurskoðenda. - Brottfallin

1. gr.

Allir þeir sem eru handhafar löggildingar til endurskoðunarstarfa skulu sækja endurmenntun eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

Endurskoðandi sem hefur ekki lagt inn réttindi sín, sbr. 6. mgr. 7. gr. laga nr. 18/1997, skal á hverju þriggja ára tímabili sækja endurmenntun sem svarar til 90 eininga. Endurmenntunin skiptist í tvo hluta, annars vegar faglegan hluta 54 einingar og hins vegar almennan hluta 36 einingar. Endurmenntunarnámskeið í faglegum hluta skulu skiptast þannig að 18 einingum sé varið til námskeiða tengdra endurskoðun, 18 einingum til námskeiða tengdra skatta- og félagarétti og 18 einingum til námskeiða tengdra reikningshaldi. Námskeið í almennum hluta skulu valin með hliðsjón af því að innihald þeirra nýtist endurskoðanda í starfi hans sem endurskoðandi.

Endurmenntunarnámskeið skulu háð fyrirfram samþykki menntunarnefndar Félags löggiltra endurskoðenda.

Óheimilt er að flytja endurmenntunareiningar milli endurmenntunartímabila.


2. gr.

Óski endurskoðandi eftir endurnýjun réttinda sinna, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 18/1997, skal hann sýna fram á að hann hafi lokið 1/3 hluta þeirrar endurmenntunar sem krafist er skv. 1. gr., á síðustu 12 mánuðum frá því að endurskoðandi óskar eftir endurnýjun.


3. gr.

Endurskoðandi skal skrá þátttöku sína í námskeiðum eða fyrirlestrum á eyðublað sem Félag löggiltra endurskoðenda útbýr til notkunar við framkvæmd þessarar reglugerðar og skila því til skrifstofu Félags löggiltra endurskoðenda fyrir 31. janúar ár hvert.

Félag löggiltra endurskoðenda heldur skrá yfir fjölda endurmenntunareininga hvers endurskoðanda og tilkynnir ráðherra um þá sem uppfylla ekki ákvæði reglugerðar þessarar um endurmenntun.

Endurskoðandi skal framvísa gögnum um þátttöku sína í námskeiðum, sem menntunarnefnd Félags löggiltra endurskoðenda hefur fyrirfram samþykkt, óski Félag löggiltra endurskoðenda eftir því. Verði endurskoðandi ekki við ósk félagsins um að framvísa umbeðnum gögnum falla viðkomandi einingar niður.

Endurskoðandi greiðir allan kostnað vegna endurmenntunar sinnar samkvæmt reglugerð þessari.


4. gr.

Þeir sem hljóta löggildingu til endurskoðunarstarfa eftir upphaf endurmenntunartímabils eru ekki krafðir um endurmenntun fyrr en í upphafi næsta þriggja ára endurmenntunartímabils eftir löggildingu þeirra. Þeir endurskoðendur sem fá endurnýjun réttinda sinna skv. 2. gr. þessarar reglugerðar skulu sækja endurmenntun í hlutfalli við réttindatíma sinn á endurmenntunartímabili.


5. gr.

Uppfylli endurskoðandi ekki þær kröfur um endurmenntun sem krafist er skv. reglugerð þessari skulu réttindi hans felld úr gildi. Ráðherra skal áður en slík ákvörðun er tekin leita álits endurskoðendaráðs og gefa endurskoðanda kost á að koma að andmælum og eftir atvikum að bæta úr ágalla áður en ákvörðun um niðurfellingu réttinda er tekin. Endurskoðandi sem þannig hefur misst réttindi sín getur öðlast þau síðar, sbr. 19. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, enda hafi hann áður lokið 90 einingum í endurmenntun á því endurmenntunartímabili sem í gildi er þegar sótt er um endurveitingu réttindanna sbr. 1. gr. reglugerðarinnar.


6. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í lögum nr. 18/1997, um endurskoðendur, öðlast gildi 1. janúar 2004 og hefst þá nýtt þriggja ára endurmenntunartímabil. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 673/1998, um endurmenntun endurskoðenda og lýkur endurmenntunartímabili samkvæmt þeirri reglugerð 31. desember 2003.


Fjármálaráðuneytinu, 3. desember 2003.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Elva Ósk S. Wiium.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica