1. gr.
Skipun nefndarinnar.
Efnahags- og viðskiptaráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd er hafa skal eftirlit með sértækum aðgerðum um aðlögun og fjárhagslega endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja sbr. 4. gr. laga nr. 107/2009. Í nefndinni skulu eiga sæti hagfræðingur, endurskoðandi og einstaklingur sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefndin skal starfa til 31. desember 2012.
Ráðherra er heimilt að skipa nefndinni starfsmenn sem starfa á ábyrgð og undir handleiðslu nefndarinnar.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Lánastofnanir, skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skulu endurgreiða kostnað af störfum nefndarinnar, samkvæmt ákvörðun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, í hlutfalli við þann tíma sem eftirlitsnefndin hefur varið til eftirlits hjá hverri lánastofnun. Uppgjör skal fara fram á 6 mánaða fresti.
2. gr.
Hlutverk eftirlitsnefndarinnar.
Eftirlitsnefndin skal hafa eftirlit með sértækum aðgerðum um aðlögun og fjárhagslega endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja, sbr. I. kafla laga nr. 107/2009.
Eftirlitshlutverk nefndarinnar nær eingöngu til eftirlitsskyldra aðila á grundvelli laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Eftirlitsnefndin skal að eigin frumkvæði fylgjast með og kanna hvort eftirlitsskyldir aðilar framfylgja verklagsreglum um aðlögun og fjárhagslega endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja, og að sanngirni og jafnræðis sé gætt við framkvæmd reglnanna, þannig að sambærileg mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti hjá hverjum eftirlitsskyldum aðila fyrir sig.
3. gr.
Almennt um framkvæmd eftirlits.
Eftirlitsnefndin getur hvenær sem er á starfstíma sínum kannað framkvæmd aðlögunar og fjárhagslegrar endurskipulagningar skulda einstaklinga og fyrirtækja hjá eftirlitsskyldum aðilum.
Við eftirlit sitt getur nefndin kallað eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að nefndin geti sinnt eftirliti sínu sbr. 1. mgr. 2. gr.
4. gr.
Eftirlit með endurskipulagningu fyrirtækja á vegum fjármálafyrirtækja.
Fjármálafyrirtæki sem standa að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja skulu, þegar eftir því er kallað, gera eftirlitsnefndinni grein fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu allra fyrirtækja þar sem eftirgjöf skuldar nemur hærri fjárhæð en 1 milljarði króna.
Með eftirgjöf skuldar samkvæmt þessari grein er m.a. átt við beina lækkun höfuðstóls skuldar eða lækkun höfuðstóls innan tiltekins tímafrests, breytingu skuldar í víkjandi lán eða breytingu víkjandi láns í hlutafé eða annað eigið fé.
Með fjármálafyrirtæki skv. þessari grein er átt við fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Í upplýsingum fjármálafyrirtækja til nefndarinnar, skv. 1. mgr., skal gera grein fyrir niðurstöðu og forsendum endurskipulagningar, þ.m.t. fjárhæð eftirgjafar, áframhaldandi þátttöku eigenda og stjórnenda í rekstri fyrirtækis eftir fjárhagslega endurskipulagningu og skilyrðum og kvöðum sem kunna að hafa verið settar á fyrirtækið, eigendur þess og/eða stjórnendur.
5. gr.
Þagnarskylda.
Ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki kemur ekki í veg fyrir að nefndin fái afhent gögn sbr. 3. og 4. gr. Nefndin skal bundin þagnarskyldu um gögn og upplýsingar sem hún kann að fá vitneskju um við starf sitt. Nefndin skal einnig gæta þagnarskyldu við gerð álita og gæta þess að ekki séu gefnar upplýsingar sem varpa ljósi á hvaða viðskiptamenn eiga í hlut.
6. gr.
Álit, tilkynningar og greinargerðir nefndarinnar.
Telji nefndin að eftirlitsskyldir aðilar framfylgi ekki verklagsreglum um aðlögun og endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja eða sanngirni og jafnræðis sé ekki gætt skal hún greina ráðherra frá því í sérstöku áliti.
Telji nefndin að verklagsreglum um aðlögun og endurskipulagningu skulda fyrirtækja sé ekki framfylgt hjá eftirlitsskyldum aðilum, eða sanngirni og jafnræðis ekki gætt, skal hún skila áliti til Fjármálaeftirlitsins.
Vakni grunur hjá nefndinni um að við framkvæmd reglnanna sé gengið að lögbundu eigin fé eftirlitsskyldra aðila eða rekstri þeirra að öðru leyti, skal hún tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.
Verði nefndin þess áskynja við störf sín að um hugsanleg brot á samkeppnislögum sé að ræða skal hún gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir því.
Eftirlitsnefndin skal ársfjórðungslega birta greinargerð með tölfræðilegum upplýsingum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja skv. 4. gr. reglugerðar þessarar. Greinargerð þessi skal tiltaka upplýsingar vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar sem ráðist var í á næstliðnum ársfjórðungi. Skal greint frá fjölda fyrirtækja sem sætt hafa fjárhagslegri endurskipulagningu, hvers konar fyrirtæki eiga í hlut og á hvaða sviðum atvinnulífsins þau starfa. Jafnframt skal veita upplýsingar um heildarfjárhæð eftirgjafar skuldar í hverjum flokki. Séu mjög fá fyrirtæki í tilteknum flokkum skal flokkun vera með þeim hætti að ekki sé hægt að rekja upplýsingar til einstakra fyrirtækja, sbr. 5. gr.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 4. gr. laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, öðlast þegar gildi og gildir til 31. desember 2012.
Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 19. janúar 2012.
Steingrímur J. Sigfússon.
Helga Jónsdóttir.