REGLUGERÐ
um vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga.
1. gr.
Heimilt er Sambandi íslenskra berklasjúklinga (skammstafað SÍBS) að reka vöruhappdrætti. Ágóða af happdrættinu skal varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi SIBS, sem viðurkennd er af ríkisstjórninni.
Eignum happdrættisins skal, ef það verður lagt niður, verja á sama hátt.
2. gr.
Stjórn SÍBS fer með yfirstjórn happdrættisins og hefur á hendi reikningshald þess eða felur það framkvæmdastjóra. Hún skal færa ákvarðanir, er happdrættið varða, í gerðabók sína. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra happdrættisins.
3. gr.
Reikningsár happdrættisins er almanaksárið. Dómsmálaráðuneytið skipar tvo endurskoðendur reikninganna. Þóknun til þeirra greiðist af fé happdrættisins.
4. gr.
Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna happdrættisráð til þriggja ára í senn og; einn til vara og ákveður formann þess. Dómsmálaráðuneytið ákveður þóknun happdrættisráðsmanna, er greiðist af fé happdrættisins.
Happdrættisráð skal hafa aðgang að bókum og skjölum happdrættisins og skal því veitt sú vitneskja um starfsemina, sem það óskar. Það skal tafarlaust tilkynna dómsmálaráðuneytinu, ef það telur ákveði laga nr. 18 22. apríl 1959 og breytinga á þeim lögum, eða reglugerða settra samkvæmt þeim, brotin.
Happdrættisráð hefur eftirlit með og úrskurðarvald um drætti, svo sem siðar segir.
5. gr.
Happdrættið gefur árlega út 75 000 - sjötíu og fimm þúsund - hluti í 12 flokkum. Hver hlutamiði ber áprentað númer, frá 1-75 000 og auk þess merki SÍBS, verð, síðasta endurnýjunardag, dráttardag og innlausnarfrest. Á hann skal prenta eiginhandarnafn framkvæmdastjóra happdrættisins, og á honum skal vera undirskrift eða eiginhandarstimpill umboðsmannsins.
6, gr.
Vinningar í happdrættinu skulu eigi vera færri en svo, að að minnsta kosti fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali, og skal heildarverðmæti vinninga nema að minnsta kosti 60% af söluverði miða f öllum 12 flokkum.
Stjórn happdrættisins ákveður, að fengnu samþykki happdrættisráðs, vinningatölu og verðmæti vinninga f hverjum flokki. Skal vinningaskrá samin fyrirfram fyrir ár hvert.
7. gr.
Verð ársmiða er kr. 4 800 en endurnýjunarverð í hverjum flokki kr. 400 Ef menn vilja kaupa hlutamiða eftir að drættir eru byrjaðir á árinu, skal greiða fyrir hann, auk verðs hans í flokki þeim, sem næst á aðdraga f, samanlagt verð hlutarins i öllum þeim flokkum, sem dregið hefur verið í á árinu.
8. gr.
Hlutamiðar eru seldir á skrifstofu SÍBS í Reykjavík og hjá umboðsmönnum happdrættisins víðs vegar um landið.
Endurnýjun hlutamiða hefst að 15 dögum liðnum frá síðasta drætti og varir til kvölds síðasta endurnýjunardags, sem skráður er á hvern miða. Endurnýjun skal fara fram hjá þeim umboðsmanni, sem hefur selt miðann.
9. gr.
Um vinninga í 1. flokki skal dregið 10. janúar ár hvert, en í öðrum flokkum 5. hvers mánaðar. Ekki skal þó dregið á helgidögum eða laugardögum eða fyrsta virkan dag eftir helgidag eða almennan frídag. Fer dráttur þá fram næsta virkan dag þar á eftir. Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar greinar, ef því þykir ástæða til.
10. gr.
Útdráttur vinninga fer fram opinberlega hjá Reiknistofnun Háskólans undir eftirliti happdrættisráðs og að viðstöddum fulltrúum happdrættisins og Reiknistofnunar.
11. gr.
Við útdrátt vinninga skal nota eftirfarandi gögn og tæki:
a) Tölvu Reiknistofnunar Háskólans. Heimilt er þó með samþykki happdrættisráðs að nota aðra tölvu, ef nauðsyn krefur.
b) Dráttarforrit og annan hugbúnað, sem stýrir tölvunni við útdráttinn. Þessi hugbúnaður skal varðveittur á sérstökum seguldiski, segulbandi eða gataspjaldastokki.
c) Stokk til útdráttar á lykiltölu fyrir dráttarforritið. Stokkurinn skal vera með 8 hólfum og í hverju hólfi skal vera reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala er á tveimur flötum.
d) Nauðsynlegan tölvupappír, segulbönd og gataspjöld í samræmi við þarfir dráttarforritsins.
12. gr.
Dráttarforrit skal gert samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Dráttarforrit skal þannig gert, að fyrst er dregin út hæsti (hæstu) vinningur, síðan næsthæsti (næsthæstu) o.s.frv. Happdrættisráð fær tvo sérfróða menn til að yfirfara dráttarforritið í upphafi, svo og í hvert sinn, sem breytingar eru gerðar á því. Skulu hinir sérfróðu menn leggja skriflega greinargerð um gerð forritsins fyrir happdrættisráðið, sem síðan staðfestir það.
Dráttarforritið og annar hugbúnaður skal varðveittur milli drátta með öruggum hætti og undir innsigli happdrættisráðs.
13. gr.
Útdráttur vinninga í happdrættinu fer fram með eftirfarandi hætti:
a) Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með þeim hætti, að stokknum er snúið, en að því búnu er skráð sú 8 stafa tala, sem fram kemur. Er þetta síðan endurtekið, þar til fyrir liggur 48 stafa tala.
b) Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.
c) Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna.
d) Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og vinninga og vinningsupphæðir, eru færðar á gataspjöld, sem sett eru í tölvuna.
e) Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá, sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni
f) Sé óskað eftir afriti vinningaskrár á segulbandi eða gataspjöldum er það nú gert.
g) Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði. Happdrættisráð færir í gerðabók skýrslu um framkvæmd útdráttarins.
14. gr.
Bili tölvan eða útdráttur stöðvast af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, tekur happdrættisráð öll gögn vegna útdráttarins til varðveislu. Þessi sömu gögn, þ.á.m. lykiltalan, skulu notuð við endurtekningu útdráttarins.
15. gr.
Ef ágreiningur rís um lögmæti eða gildi dráttar meðan dráttur fer fram eða eftir að honum er lokið, skal skjóta honum til happdrættisráðs, sem leggur fullnaðarúrskurð á ágreininginn.
16. gr.
Vinningaskrá skal gefin út að loknum hverjum drætti og skal hún fást ókeypis hjá öllum umboðsmönnum happdrættisins.
17, gr.
Eigandi miða, sem hlotið hefur vinning, skal snúa sér til þess umboðsmanns, er seldi miðann. Umboðsmaðurinn stimplar þá vinningsmerki á miðann, ritar á hann hver vinningurinn er, dagsetningu og skrifar nafn sitt undir.
Í upphafi hvers árs eiga menn kost á því að kaupa hlutamiða með sama númeri, sem þeir hafa haft næsta ár á undan, ef þeir snúa sér til umboðsmanns happdrættisins á þeim tíma, sem stjórn happdrættisins auglýsir. Þetta gildir þó því aðeins að umboðsmaðurinn hafi fengið umrætt númer aftur frá skrifstofu happdrættisins.
18. gr.
Allir vinningar greiðast í vörum, og er vöruhappdrætti SÍBS óheimilt að greiða andvirði þeirra í peningum.
19. gr.
Vinninga afhenda einungis viðurkenndir birgðasalar happdrættisins. Ef vinningurinn er ekki ákveðin vörutegund er vinnanda í sjálfsvald sett hvaða vörutegund eða verðmæti hann kýs sér af því, er birgðasali hefur á boðstólum fyrir happdrættið. Vinning má ekki afhenda nema gegn stimpluðum og árituðum miða samkvæmt 17. gr. Umboðsmenn happdrættisins skulu láta viðskiptamönnum þess ókeypis í té skrá yfir birgðasalana.
Á vinningaskrá skal auglýst hvenær afhending vinninga hefst. Ef mótmæli koma fram gegn afhendingu vinninga til handhafa hlutamiða, áður en afhending hefst samkvæmt auglýsingunni, skal vinningur ekki afhentur fyrr en 8 vikur eru liðnar frá því að afhending átti að hefjast og skal hann þá afhentur handhafa miðans nema sannað sé, að mál sé þingfest til úrskurðar um eignarrétt vinningsins og skal þá vinningurinn ekki afhentur fyrr en dómsúrskurður er fallinn.
Ef miði, sem vinning hlýtur, hefur glatast, getur eigandi hans snúið sér til stjórnar happdrættisins með beiðni um að fá vinninginn afhentan, en fylgja skal vottorð umboðsmanns, sem seldi miðann, um það, að samkvæmt bókum hans hafi umsækjandi keypt miðann. Slík beiðni þarf að komast í hendur stjórnarinnar innan 6 mánaða frá drætti, en hafi vinningur samkvæmt miðanum þegar verið afhentur er beiðnin kom fram, er happdrættið laust allra mála.
20. gr.
Vinningar, sem enginn hefur vitjað innan eins árs frá drætti, verða eign happdrættisins.
21. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 18 22. apríl 1959, sbr. lög nr. 32 5. maí 1969, lög nr. 22 10. apríl 1974 og lög nr. 52 25. maí 1976, öðlast þegar gildi. Ákvæði 5. gr. kemur þó eigi til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1977. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 178 9. nóvember 1959, um vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga, sbr. reglugerðir nr. 291 26. september 1974, nr. 390 29. ágúst 1975 og nr. 550 31. desember 1975.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 25. október 1976.
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur W. Stefánsson.