REGLUGERÐ
um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga.
I. KAFLI
Bréfaskipti.
A. Almennar reglur um bréfaskipti.
1. gr.
Fanga er heimilt að senda bréf og taka við bréfum.
Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið takmarkanir á bréfaskiptum fanga við tilgreinda aðila ef það í einstökum tilvikum telst nauðsynlegt:
a. Til að halda góðri reglu í fangelsinu eða vegna öryggis. b. Til að fyrirbyggja refsiverðan verknað.
c. Í þeim tilgangi að verja þann er afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á. Ákvarðanir um takmarkanir á bréfaskiptum samkvæmt þessari grein skulu bókaðar og ástæður tilgreindar.
2. gr.
Þegar fangelsi útvegar bréfsefni eða umslög má það ekki bera með sér stimpil eða önnur einkenni sem af má ráða að sendandi sé vistaður í fangelsi.
3. gr.
Bréf til og frá fanga skulu afhent eða send án ástæðulauss dráttar. Ef bréf tilgreinds fanga eru almennt lesin skal honum skýrt frá því að umfangsmikil bréfaskipti geti haft í för með sér seinkun á afgreiðslu á bréfum hans.
4. gr.
Fangi skal sjálfur bera kostnað af bréfum er hann sendir.
5. gr.
Bréf til eða frá fanga skulu ekki lesin nema forstöðumaður fangelsis telji það nauðsynlegt í einstökum tilvikum til að halda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur forstöðumaður fangelsis þó ákveðið tilviljunarkenndan lestur á bréfum til að hafa eftirlit með að óskoðaður póstur sé ekki misnotaður.
Ákvörðun um lestur á bréfi skal bókuð og ástæða tilgreind.
Til að koma í veg fyrir að bréf séu ekki notuð til að fá eða senda efni, muni eða annað sem fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skulu eftirfarandi reglur gilda um þau bréf sem ekki eru lesin:
a. Bréf til fanga skal opnað að honum viðstöddum.
b. Bréf frá fanga skal afhent starfsmanni fangelsis opið og því lokað í hans augsýn eftir að innihald umslags hefur verið athugað.
Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að bréf skuli ekki opnað eða heimilað að sent sé bréf er afhent hefur verið lokað.
6. gr.
Þegar er bréf er lesið gilda eftirfarandi reglur:
a. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að lagt sé hald á bréf ef það er talið óhæft til sendingar vegna þess að efni þess geti haft áhrif á góða reglu og öryggi í fangelsinu, að það sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir eða upplýsa refsiverðan verknað, til þess að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hefur bitnað á eða að bréfið innihaldi upplýsingar um aðra fanga.
b. Aðsent bréf sem vegna sambærilegra ástæðna telst óhæft til afhendingar skal endursent. Ef það er talið nauðsynlegt vegna öryggis eða til að fyrirbyggja eða upplýsa refsiverðan verknað skal lagt hald á aðsent bréf.
c. Ef nauðsynlegt er talið að leggja hald á bréf til eða frá gæsluvarðhaldsfanga sem vistaður er í afplánunarfangelsi, vegna þess að innihald þess geti haft áhrif á góða reglu eða öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað skal bréfið þegar afhent lögreglu eða ríkissaksóknara. Þessir aðilar skulu svo fljótt sem unnt er ákveða hvort bréf skuli afhent gæsluvarðhaldsfanga eða það endursent. Ef innihald þess er talið geta skaðað rannsókn á broti gæsluvarðhaldsfangans eða haft áhrif á að góð regla og öryggi haldist í fangelsinu skal bréf ekki afhent eða endursent, en um ákvörðun um að leggja hald á það skal farið samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
Bréf sem lagt er hald á samkvæmt a eða b lið 1. mgr. skal varðveitt í fangelsinu. Ef ætla má að innihald bréfs, sem lagt hefur verið hald á, gefi lögreglu eða öðrum aðilum réttarvörslukerfisins tilefni til aðgerða skal það afhent hlutaðeigandi yfirvaldi.
Ef lagt er hald á bréf skal það skráð og ástæða tilgreind. Sendanda skal tilkynnt um að hald hafi verið lagt á bréf og ástæðu þess nema það spilli tilgangi haldsins.
7. gr.
Bréf sem afhent hefur verið fanga eða annað bréf er kann hefur undir höndum, er heimilt að lesa og leggja hald á, ef forstöðumaður fangelsis telur það nauðsynlegt í einstökum tilvikum til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að fyrirbyggja eða upplýsa refsiverðan verknað.
Ef bréf er lesið eða hald lagt á það samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal ákvörðun um það bókuð og ástæða tilgreind. Þegar hald er lagt á bréfið skal fanga gerð grein fyrir ástæðu þess.
B. Sérreglur um bréfaskipti við yfirvöld og lögmenn.
8. gr.
Bréf til og frá þeim aðilum er taldir eru upp í 9. og 10. gr. mega fangelsisyfirvöld ekki lesa.
9. gr.
Með bréf til og frá eftirtöldum aðilum skal farið eftir ákvæðum 2. og 3. gr.:
1. Dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneyti.
2. Fangelsismálastofnun ríkisins.
3. Dómstólum.
4. Ríkissaksóknara.
5. Lögreglu.
6. Umboðsmanni Alþingis.
7. Mannréttindanefnd Evrópu.
8. Verjanda vegna sakamáls sem er til meðferðar.
9. Verjanda í því sakamáli sem leiddi til þess dóms sem fangi afplánar.
Fanga er heimilt að afhenda bréf til framangreindra aðila lokuð og þau mega starfsmenn fangelsis ekki opna.
Bréf sem skýrt ber með sér að það sé frá framangreindum aðilum má ekki opna, ef telja má öruggt að það sé frá hinum tilgreinda sendanda. Ef opna þarf slíkt bréf skal það gert í augsýn viðkomandi fanga.
10. gr.
Með bréf til og frá eftirtöldum aðilum skal farið eftir ákvæðum 2. og 3. gr.:
1. Öðrum yfirvöldum en talin eru upp í 9. gr.
2. Alþingismönnum.
3. Stjórnarerindrekum eða ræðismönnum ef fangi er ríkisborgari viðkomandi ríkis. Bréf til framangreindra aðila skal fangi afhenda opið og skal því lokað í augsýn hans eftir að umslag hefur verið athugað. Bréf sem skýrt ber með sér að það sé frá framangreindum aðilum má ekki opna, ef telja má öruggt að það sé frá hinum tilgreinda sendanda. Ef opna þarf slíkt bréf skal það gert í augsýn viðkomandi fanga.
Forstöðumanni fangelsis er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. og taka við lokuðu bréfi til sendingar.
11. gr.
Viðkomandi fangelsi greiðir póstkostnað bréfa til þeirra aðila sem taldir eru upp í 9. gr. Ef sérstakar ástæður mæla með getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að fangelsið greiði póstkostnað í öðrum tilfellum.
II. KAFLI
Heimsóknir. C. Almennar reglur um heimsóknir.
12. gr.
Fangi hefur rétt til að þiggja heimsókn af nánustu vandamönnum sínum. Forstöðumaður fangelsis getur leyft frekari heimsóknir.
Forstöðumaður getur bannað tilteknum einstaklingum að heimsækja fanga ef tilgangur heimsóknar er að halda við sambandi er til hefur verið stofnað í kynnisferð viðkomandi í fangelsið eða í sambærilegum tilvikum. Forstöðumaður getur einnig bannað fyrrverandi fanga að koma í heimsókn.
Forstöðumaður getur að öðru leyti bannað tilteknum einstaklingum að koma í heimsókn, einnig vandamönnum fanga, ef það telst nauðsynlegt til að halda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
Ef einstaklingi er bannað að heimsækja fanga skal ákvörðun um það skráð og ástæða tilgreind.
13. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður hvenær heimsóknir eru leyfðar í viðkomandi fangelsi. Fangi hefur rétt til að fá heimsókn eigi sjaldnar en vikulega.
Forstöðumaður getur leyft frekari heimsóknir eða heimsóknir utan reglulegs heimsóknartíma, ef sérstakar ástæður mæla með. Hann ákveður jafnframt tímalengd og annað fyrirkomulag slíkra heimsókna.
14. gr.
Ef fangi óskar skal tímalengd heimsóknar vera eigi skemmri en ein klst. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að heimsóknartími sé lengri, bæði almennt og í einstökum tilfellum.
15. gr.
Fangi tekur á móti heimsóknum í klefa sínum eða herbergi.
Í sérstökum tilvikum getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að fangi hitti þann er kemur í heimsókn í öðrum vistarverum fangelsisins, en ákvörðun um það skal bókuð og ástæða tilgreind.
16. gr.
Í upphafi afplánunar skal fangi skýra starfsmönnum fangelsis frá því hverju séu nánustu vandamenn hans. Fangi skal tilkynna starfsmönnum fangelsisins um heimsókn slíkra aðila. Til að fá heimsókn frá öðrum en nánustu vandamönnum þarf leyfi viðkomandi fangelsis. Heimilt er að krefja þann er heimsækir fanga um persónuskilríki.
17. gr.
Til að hafa eftirlit með því að heimsóknir séu ekki notaðar til að afhenda eða flytja frá fanga efni, muni eða annað sem honum er óheimilt að hafa í fangelsinu er heimilt að leita á þeim er heimsækir fanga.
Heimilt er að leita á fanga og í klefa hans eða herbergi eftir að hann hefur fengið heimsókn, sem farið hefur fram án eftirlits.
Leit á fanga eða á þeim er heimsækir hann skal framkvæmd af fangaverði sama kyns og sá er, sem leitað er á.
18. gr.
Heimsóknir til fanga skulu almennt vera án eftirlits. Ef nauðsynlegt er talið, til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað er heimilt að ákveða að heimsókn fari fram undir eftirliti fangavarðar.
Heimsókn verjanda fanga vegna sakamáls sem er >r meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum skal ávallt vera án eftirlits.
19. gr.
Þegar heimsókn fer fram undir eftirliti fangavarðar er heimilt að setja það skilyrði að samtal fari fram á tungumáli er fangavörðurinn skilur. Ef aðstæður krefja skal fá túlk til aðstoðar.
20. gr.
Heimilt er að rjúfa heimsókn ef það er talið nauðsynlegt til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
21. gr.
Forstöðumaður fangelsis getur sett reglur um hvaða hluti sá, sem kemur í heimsókn til fanga, má hafa með sér. Heimilt er að setja það skilyrði að það sem farið er með til fanga sé skoðað. Hlutir sem sá, sem kemur í heimsókn, hefur með sér, en ekki er leyft að farið sé með til fanga, skulu varðveittir tryggilega á meðan á heimsókn stendur.
22. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður hvort fleiri en einn einstaklingur má heimsækja fanga hverju sinni.
Almennt skal ekki leyfa börnum eða ungmennum yngri en 16 ára að heimsækja fanga nema í fylgd forráðamanns eða annars aðstandanda.
23. gr.
Fangi getur neitað að þiggja heimsókn annarra en þeirra sem eiga við hann opinber erindi eða heimsækja hann að tilmælum forstöðumanns fangelsis.
24. gr.
Forstöðumaður fangelsis setur að öðru leyti nánari reglur um fyrirkomulag heimsókna. Upplýsa skal þann sem kemur í heimsókn til fanga um þær reglur er gilda um heimsóknir.
D. Sérreglur um reglubundnar heimsóknir.
25. gr.
Dómsmálaráðuneytið eða Fangelsismálastofnun ríkisins geta leyft reglubundnar heimsóknir tilgreindra einstaklinga til eins eða fleiri fanga án þess að það skerði rétt fanga til almennra heimsókna. Slíkar heimsóknir mega fara fram utan reglubundinna heimsóknartíma.
Sá sem heimild hefur til heimsóknar í fangelsi samkvæmt þessarri grein skal tilkynna fangelsinu um hvenær hann hyggst koma í heimsókn.
Forstöðumaður fangelsis getur bannað þeim, sem leyfi hefur til heimsóknar samkvæmt þessarri grein, að koma í fangelsi eða að heimsækja tilgreinda einstaklinga eða rofið heimsókn sem þegar er hafin, ef sérstakar ástæður mæla gegn heimsókn. Slíkt bann skal þegar tilkynnt þeim er leyfi hefur veitt til heimsóknar og ástæður tilgreindar.
26. gr.
Sá sem heimsækir fangelsi samkvæmt heimild sem veitt hefur verið samkvæmt 25. gr. má ekki án leyfis forstöðumanns fangelsis taka við nokkru frá fanga til að fara með út úr fangelsinu eða hafa milligöngu um kaup, sölu eða leigu eða hafa milligöngu í öðrum sambærilegum tilvikum.
Að öðru leyti gilda almennar reglur um heimsóknir í þessum tilfellum.
III. KAFLI.
Símtöl.
27. gr.
Fangi hefur rétt á að hringja a.m.k. þrjú símtöl í viku hverri til aðila utan fangelsis. Hann hefur jafnframt rétt til að hringt sé til hans þrisvar í viku. Ef fangi óskar má tímalengd hvers símtals vera allt að fimm mínútur.
Forstöðumaður getur leyft frekari símtöl og setur að öðru leyti nánari reglur um fyrirkomulag á símtölum fanga.
28. gr.
Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að hlustað sé á símtal fanga, ef það telst nauðsynlegt til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Til eftirlits getur hann jafnframt ákveðið að hlustað sé á símtöl fanga samkvæmt tilviljunarkenndu úrtaki.
Forstöðumaður getur bannað símtöl við fanga í öðrum fangelsum. Ef hlustað er á símtal fanga skal það gert með vitneskju hans.
Óheimilt er að hlusta á símtöl fanga við þá aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. 9. gr.
29. gr.
Fangi greiðir sjálfur kostnað vegna eigin símtala. IV. KAFLI Gildistaka o.fl.
30. gr.
Misnoti fangi rétt eða heimildir samkvæmt reglugerð þessari getur það varðað hann agaviðurlögum samkvæmt 26. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48 19. maí 1988.
31. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 30. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, og öðlast gildi 1. apríl 1990.
Jafnframt er felld brott reglugerð um fangavist nr. 206 9. september 1957, reglugerð um Vinnuhælið á Litla-Hrauni nr. 150 1. maí 1968 og reglugerð um Skilorðseftirlit ríkisins nr. 20 21. janúar 1974.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 9. mars 1990.
Óli Þ. Guðbjartsson.
Þorsteinn A. Jónsson.