Þeir einir mega reka útfararþjónustu (útfararstjórar) er til þess hafa fengið leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Útfararþjónusta getur verið í höndum einstaklinga, félaga, stofnana eða annarra lögaðila, þ. á m. sóknarnefnda og kirkjugarðsstjórna. Þar sem kirkjugarðsstjórnir reka útfararþjónustu skal sú starfsemi og fjárhagur henni tengdur vera algerlega aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar.
Í reglugerð þessari merkir orðið útfararþjónusta sölu á vöru og þjónustu í atvinnuskyni vegna útfara og undirbúnings þeirra.
Umsókn um leyfi til starfrækslu útfararþjónustu skal vera skrifleg. Í henni skal greina svo glöggt sem verða má eftirtalin atriði:
1. Fullt nafn, kennitölu og lögheimili leyfisbeiðanda svo og forstöðumanns, ef hann er annar en beiðandi.
2. Heiti væntanlegrar útfararþjónustu.
3. Aðalstarfsstöð og þjónustusvæði væntanlegrar útfararþjónustu.
4. Lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi.
Til starfrækslunnar skal útfararþjónusta hafa yfir að ráða fastri starfsstöð, bifreið til líkflutninga og annan búnað sem nauðsynlegur telst til boðlegrar þjónustu. Ennfremur skulu þeir sýna fram á að þeir geti útvegað þá þjónustu, sem þeir ráða ekki sjálfir yfir, s.s. aðstöðu í líkhúsum, o.fl.
Í fámennum sóknum er heimilt að víkja frá ofangreindum skilyrðum.
Útfararstjórar skulu kunna skil á mismunandi venjum og hefðum er ríkja samkvæmt helstu trúarbrögðum heims að því er varðar frágang líks og annan undirbúning og framkvæmd varðandi greftrun og kveðjuathöfn.
Einstaklingar er öðlast vilja leyfi þurfa að hafa fasta búsetu í landinu, vera lögráða og hafa forræði á búi sínu. Félög skulu vera skráð hér á landi og mega ekki vera bundin við nauðasamninga eða bú þeirra undir gjaldþrotaskiptum.
Áður en leyfi er veitt fyrir útfararþjónustu, skal leita umsagnar Skipulagsnefndar kirkjugarða.
Útfararþjónusta er bókhaldsskyld samkvæmt lögum þar að lútandi.
Forstöðumaður útfararþjónustu skal við leyfisveitingu undirrita trúmælskuheit um að þjónustan verði rækt af tillitssemi, virðingu og umhyggju svo og að í heiðri verði höfð lög og reglur sem um starfsemina gilda. Þá skal hann ennfremur sjá til þess að starfsmenn hennar undirriti þagnarheit, þar sem þeir heita því að skýra ekki óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara. Þagnarskylda þessi og ábyrgð hennar helst, þótt þessir starfsmenn láti af störfum.
Leyfishafa ber að tilkynna dóms- og kirkjumálaráðuneytinu svo fljótt sem verða má um allar breytingar sem verða á starfrækslu útfararþjónustunnar, sem varðað geta skilyrði reglugerðar þessarar, þ.m.t. um eigendaskipti og forstöðumannsskipti.
Nú missir útfararþjónusta eitthvert þeirra skilyrða sem sett eru fyrir starfseminni, vanrækir tilkynningaskyldu samkvæmt 8. gr. hér að framan eða ætla má að leyfishafi eða starfsmenn á hans vegum hafi gerst sekir um brot á þeim réttarreglum sem gilda um starfrækslu útfararþjónustunnar, þ. á m. ákvæðum reglugerðar þessarar, getur það varðað missi leyfisins tímabundið eða afturköllun leyfisins að fullu og öllu.
Leyfi skulu eigi gefin út til lengri tíma en 5 ára í senn, og til skemmri tíma ef sérstök ástæða þykir vera til þess.
Þess skal gætt í útfararþjónustu að starfið sé innt af hendi af alúð, með háttvísi og að það samræmist góðum viðskiptaháttum. Skulu auglýsingar um starfsemina vera látlausar þar sem viðskiptavinum sé gerð grein fyrir mismunandi þjónustu sem boðin er. Hafa ber fast verð og skal gert ljóst hvað einstakir þættir þjónustunnar kosta, ódýrir jafnt sem dýrir.
Útfararþjónusta skal unnin í góðri samvinnu við þá aðila sem tengjast henni, s.s. presta, hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn, bálstofur, í hverju einstöku tilviki, svo og aðstandendur hins látna eða þann er fyrir útför stendur.
Útfararstofnanir skulu í störfum sínum hafa til hliðsjónar siðareglur sem gilda fyrir útfararstofnanir í Evrópu ( Association Européenne de Thanatologie - AET ).
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 21. gr. laga nr. 36 4. maí 1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu til þess að öðlast gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 3. apríl 1994.
Þorsteinn Pálsson.
Hjalti Zóphóníasson.