Forstöðumaður fangelsis getur veitt fanga sem afplánar refsingu og er skráður í því fangelsi, leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 2. kafla og 5. kafla.
Fangelsismálastofnun ríkisins getur veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 3. kafla og 4. kafla.
Leyfi til dvalar utan fangelsis skal ekki veitt ef hætta er á að fangi muni misnota það.
Hafi fangi verið dæmdur í síðasta refsidómi eða áður fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiri háttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, auðgunarbrot framið með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, eða önnur afbrot sem eru sérlega gróf, skal sýna sérstaka gát við mat á því hvort hætta sé á að fangi muni misnota leyfi. Hið sama gildir ef mál, þar sem viðkomandi fangi er grunaður um eða ákærður fyrir slíkt brot, er til meðferðar hjá lögreglu, dómstólum eða ákværuvaldi.
Hafi fangi strokið úr afplánun eða gæsluvarðhaldi eða framið refsiverðan verknað í fyrra leyfi til dvalar utan fangelsis eða að öðru leyti misnotað slíkt leyfi, skal sýna sérstaka gát við mat á því hvort hætta sé á að fangi muni misnota leyfi. Hið sama gildir ef fangi er grunaður um að hafa framið afbrot, sem ekki er smávægilegt, í núverandi afplánun.
Strok og misnotkun leyfis til dvalar utan fangelsis í fyrri afplánun eða gæsluvarðhaldi skal einnig haft til hliðsjónar við mat á því hvort hætta sé á að fangi muni misnota leyfi.
Sýna skal sérstaka gát við mat á því hvort fangi muni misnota leyfi ef um er að ræða síbrotamann, og gildir það jafnt þó ekki sé af öðrum ástæðum hætta á að hann muni misnota leyfið.
Sýna skal sérstaka gát við mat á því hvort fangi muni misnota leyfi til að reyna að komast úr landi. Erlendir ríkisborgarar skulu jafnan ekki fá leyfi án fylgdar.
Áður en forstöðumaður fangelsis veitir fanga leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 2. kafla skal hann leita samþykkis fangelsismálastofnunar í eftirfarandi tilvikum:
a) Ef fangi hefur ekki fengið slíkt leyfi áður í þeirri afplánun.
b) Ef ákvæði 3. mgr. 3. gr. eiga við um fangann, og hann hefur ekki fengið slíkt leyfi eftir að fangelsisyfirvöld fengu vitneskju um þau atvik sem greinir í 3. mgr. 3. gr.
c) Ef aðrar ástæður gefa tilefni til.
Áður en fangelsismálastofnun veitir fanga leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 3.-4. kafla skal hún leita umsagnar forstöðumanns þess fangelsis sem fanginn er skráður í, og jafnframt forstöðumanns þess fangelsis sem fanginn mun verða skráður í meðan leyfið gildir ef það er ekki sama fangelsið.
Vilji forstöðumaður fangelsis veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 5. kafla, án fylgdar, skal hann áður leita samþykkis fangelsismálastofnunar.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis til að fara til útlanda.
Leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 2.-4. kafla skal almennt veitt án fylgdar.
Leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 5. kafla skal almennt ekki veitt án fylgdar, nema sérstakar ástæður mæli með.
Leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 2. kafla skal vera 14 klukkustundir að hámarki og veitist á tímabilinu frá kl. 8.00 til 22.00 að kvöldi þess sama dags.
Leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 3.-4. kafla skal ekki vera lengra en nauðsynlegt er til að leyfið þjóni tilgangi sínum, og aldrei lengra en 12 klukkustundir.
Leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 5. kafla skal ekki vera lengra en nauðsynlegt er til að leyfið þjóni tilgangi sínum, og ekki lengra en 6 klukkustundir, nema mjög sérstakar ástæður mæli með, og er slíkt leyfi háð fyrirfram veittu samþykki fangelsismálastofnunar. Leyfi til dvalar utan fangelsis skal ekki vera um nætursakir, en þó er heimilt að leyfa slíkt ef mjög sérstakar ástæður mæla með, enda gisti fanginn í næsta fangelsi eða á næstu lögreglustöð og skal fyrirfram gengið frá slíkri gistingu, og er slíkt leyfi háð fyrirfram veittu samþykki fangelsismálastofnunar.
Verði fangi uppvís að fíkniefnaneyslu eða alvarlegu agabroti í fangelsi eða utan þess, hefur það í för með sér að leyfi til dvalar utan fangelsis kemur eigi til greina fyrr en að sex mánuðum liðnum frá slíku broti.
Strok fanga eða tilraun til stroks úr refsivist hefur í för með sér að leyfi til dvalar utan fangelsis kemur eigi til greina fyrr en að liðnu einu ári frá slíkum atburði.
Fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis skal setja eftirfarandi skilyrði:
a) Fanganum skal hvorki heimilt að neyta áfengis eða deyfilyfja í leyfinu.
b) Fanganum skal hvorki heimilt að hafa undir höndum eða neyta ólöglegra ávana- eða fíkniefna í leyfinu.
c) Fanginn skal ekki fremja refsiverðan verknað í leyfinu.
d) Fanginn skal ekki fara til útlanda í leyfinu.
e) Fanginn skal tilkynna það til fangelsisins ef slys, sjúkdómur eða önnur atvik gera honum ókleift að koma úr leyfinu á tilsettum tíma.
f) Fanganum er óheimilt að koma með í fangelsið hluti sem óheimilt er að hafa í fangelsinu samkvæmt reglum þess.
g) Hvenær fanganum er heimilt að yfirgefa fangelsið og hvenær hann skal vera kominn aftur í fangelsið.
h) Um leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 3.-5. kafla skal setja það skilyrði að fanganum sé óheimilt að gera eða fara nokkuð í leyfinu annað en það sem samræmist tilgangi leyfisins.
Fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis er heimilt að setja eftirfarandi skilyrði:
a) Að fanginn skuli láta í té öndunarsýni við endurkomu í fangelsið.
b) Að fanginn skuli gangast undir töku þvag- og/eða blóðsýnis fyrir og/eða eftir leyfið.
c) Að fanginn skuli gangast undir líkamsleit við endurkomu í fangelsið.
d) Að fanginn skuli ekki, ef tillit til brotaþola eða nánustu aðstandenda eða eðli eða grófleiki brotsins mæla með, koma á ákveðna staði eða hafa samband við ákveðna menn í leyfinu.
e) Að fanginn hefur ekki heimild til að koma fram í fjölmiðlum.
Sá aðili sem ákveður að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis ákveður hvaða skilyrði eru sett fyrir leyfinu samkvæmt 11. gr.
Starfsfólk fangelsis skal fylgjast með því að fangi misnoti ekki leyfi til dvalar utan fangelsis sem honum hefur verið veitt.
Þó að ekki séu sett skilyrði um öndunarsýni, töku þvag- og/eða blóðsýnis eða líkamsleit við endurkomu í fangelsið, er heimilt að framkvæma slíkt ef aðstæður mæla með. Líkamsleit innvortis skal ekki ákveðin nema að fengnu áliti læknis.
Taka blóðsýnis og innvortis leit skal gerð af hjúkrunarfræðingi eða lækni.
Leit á fanga innan klæða skal gerð af starfsmanni sama kyns og fanginn.
Ákvarðanir samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. skal bóka og tilgreina ástæður.
Fangi ber sjálfur kostnað vegna leyfis til dvalar utan fangelsis.
Í sérstökum tilvikum er þó forstöðumanni fangelsis heimilt að veita fanganum fjárhagslega aðstoð vegna leyfis, ef kostnaður er óvenjulega mikill eða sérstakur, eða ef hann var ófyrirsjáanlegur.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal þó fangi almennt ekki sjálfur bera kostnað vegna fylgdar þegar honum er veitt leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 5. kafla.
Greiða skal fanga dagvinnulaun eða dagpeninga, eins og venjulega, fyrir þann tíma sem hann er utan fangelsis vegna leyfis.
Þó skal hvorki greiða fanga laun né dagpeninga vegna þess tíma sem hann er utan fangelsis vegna leyfis, ef hann hefur rofið skilyrði leyfisins eða að öðru leyti þær reglur sem um það giltu eða misnotað það að öðru leyti.
Rjúfi fangi skilyrði leyfis til dvalar utan fangelsis eða að öðru leyti þær reglur sem um leyfið gilda eða misnoti það að öðru leyti, getur það varðað afturköllun leyfisins, og agaviðurlögum samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist, og skal það koma skýrt fram í skírteini því er greinir í 1. mgr. 21. gr.
Einnig er heimilt að afturkalla leyfi til dvalar utan fangelsis sem ákveðið hefur verið að veita, en er ekki komið til framkvæmda, ef uppvíst verður um atvik sem valda því að hætta er á að fanginn muni misnota leyfið eða önnur atvik sem hefðu orðið til þess að synjað hefði verið um leyfið.
Ákvörðun um að afturkalla leyfi fanga til dvalar utan fangelsis skal tekin af þeim aðila sem ákvað að veita leyfið.
Slík ákvörðun skal tekin á grundvelli fyrirliggjandi skýrslna og annarra gagna, og skal fanganum gefinn kostur á að tala máli sínu fyrir forstöðumanni fangelsisins áður en ákvörðun er tekin. Þá skal einnig kynna fanganum fyrirliggjandi gögn og skýrslur í málinu áður en ákvörðun er tekin. Þó er heimilt að undanskilja upplýsingar ef slíkt telst nauðsynlegt vegna tillits til öryggis fangelsisins eða ríkisins, annarra manna, rannsóknar sakamáls eða aðrar sérstakar ástæður mæla með.
Sé synjað um leyfi til dvalar utan fangelsis vegna þess að hætta sé á að fangi muni misnota það eða það er afturkallað, er heimilt að ákveða, í synjun eða afturköllun, að síðari leyfisbeiðni skuli ekki tekin til meðferðar fyrr en eftir ákveðinn tíma, allt að 6 mánuðum.
Þó að ákvörðun samkvæmt 1. mgr. hafi verið tekin er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis eftir reglum 5. kafla, ef brýnar ástæður mæla með.
Þegar fanga er veitt leyfi til dvalar utan fangelsis skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir leyfisveitingunni og hvaða reglur gildi um leyfið að öðru leyti, og hverju varði að rjúfa skilyrði leyfisins og þær reglur sem gilda um það að öðru leyti.
Óheimilt er að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsisins nema fengin sé skrifleg yfirlýsing hans um að hann vilji hlíta þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.
Heimilt er, eftir beiðni fanga, að veita honum leyfi til dvalar utan fangelsis til að fara heim til sín eða heimsækja fjölskyldu sína eða vini, ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa hann undir að ljúka afplánun.
Í beiðni um leyfi samkvæmt þessum kafla skal fanginn upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu eða hvern hann hyggst heimsækja. Áður en leyfi skal veitt skal að öllu jöfnu leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að heimsókn geti átt sér stað. Fáist sú staðfesting ekki ber að synja um leyfi til slíkrar heimsóknar, og skal tilgreina slíkt í skírteini því er greinir í 21. gr. og setja það sem skilyrði fyrir leyfisveitingunni sbr. d-lið 11. gr.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla fyrr en fanginn hefur verið í samfelldri afplánun 1/3 hluta refsitímans, að meðtalinni gæsluvarðhaldsvist og verður afplánun að hafa staðið samfellt yfir í 1 ár að frátalinni gæsluvarðhaldsvistinni.
Hafi fanga verið heimiluð dvöl utan fangelsis samkvæmt þessum kafla, er ekki heimilt að veita honum slíkt leyfi aftur fyrr en fullir þrír mánuðir eru liðnir frá síðasta leyfi.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis ef hann hefur verið í samfelldri afplánun í tvö ár hið minnsta, og hefur áður verið heimiluð dvöl utan fangelsis samkvæmt þessum kafla, þrisvar sinnum hið minnsta, og hann hafi ekki misnotað það leyfi eða rofið skilyrði eða reglur þess, þegar fullir tveir mánuðir eru liðnir frá síðasta leyfi.
Leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla skulu vera 14 klukkustundir að hámarki og er fanganum heimilt að dvelja utan fangelsis samkvæmt leyfinu frá kl. 8.00 til kl. 22.00 að kvöldi þess sama dags, og skal taka þetta fram í skírteini því er greinir í 1. mgr. 21. gr.
Heimilt er eftir beiðni fanga að veita honum leyfi til dvalar utan fangelsis í þeim tilgangi að stunda vinnu, ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa hann undir að afplánun ljúki, og ákveður þá forstöðumaður fangelsis í samráði við fangelsismálastofnun hvernig gæslu skuli hagað.
Leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla skal markaður ákveðinn gildistími, sem tilgreina skal í skírteini því er greinir í 1. mgr. 21. gr.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla, nema fyrir liggi staðfesting vinnuveitanda á því að fanginn geti hafið störf, og að fanginn geti starfað hjá honum þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Fáist ekki sú staðfesting ber að synja um leyfið. Þá skal gengið úr skugga um að vinnuveitanda sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu, og skal jafnframt gera vinnuveitandanum grein fyrir þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla fyrr en fanginn hefur verið í samfelldri afplánun í 1 ár hið skemmsta, og ekki er heimilt að taka tillit til gæsluvarðhaldsvistar í því sambandi.
Almennt er ekki heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla ef meira en þrír mánuðir eru þar til fanginn lýkur afplánun.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla þó að lengra sé þar til fanginn lýkur afplánun, ef sérstakar aðstæður mæla með, þ.m.t. lengd dómsins.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla til að vinna hjá nánustu ættingjum eða fjölskyldumeðlimum hans, nema sérstakar aðstæður mæli með.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla til að vinna hjá aðila sem á eftir að afplána óskilorðsbundinn refsidóm eða er háður umsjón og eftirliti fangelsismálastofnunar.
Almennt skal ekki veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla fyrir kl. 8.00 og eftir kl. 19.00 eða á laugardegi eða sunnudegi, nema sérstakar aðstæður mæli með.
Heimilt er eftir beiðni fanga að veita honum leyfi til dvalar utan fangelsis í þeim tilgangi að stunda nám eða starfsþjálfun, ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa hann undir að afplánun ljúki, og ákveður þá forstöðumaður fangelsis í samráði við fangelsismálastofnun hvernig gæslu skuli hagað.
Leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla skal afmarkaður ákveðinn gildistími, sem tilgreina skal í skírteini því er greinir í 1. mgr. 21. gr.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla, nema fyrir liggi staðfest stundaskrá skóla og skrifleg staðfesting hans á því að fanginn geti hafið nám eða starfsþjálfun, og að fanginn geti stundað það þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Fáist sú staðfesting ekki ber að synja um leyfið. Þá skal gengið úr skugga um að skólanum sé ljóst að um sé að ræða fanga sem afplánar refsingu, og skal jafnframt gera skólanum grein fyrir þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.
Ekki er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla fyrr en fanginn hefur verið í samfelldri afplánun í eitt ár hið skemmsta, og ekki er heimilt að taka tillit til gæsluvarðhaldsvistar í því sambandi.
Almennt er ekki heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla ef meira en sex mánuðir eru þar til fanginn lýkur afplánun.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla þó að lengra sé þar til fanginn lýkur afplánun, ef sérstakar aðstæður mæla með, þ.m.t. lengd dómsins.
Almennt skal ekki veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla fyrir kl. 8.00 og eftir kl. 19.00 eða á laugardegi eða sunnudegi, nema sérstakar aðstæður mæli með.
Heimilt er eftir beiðni fanga að veita honum leyfi til dvalar utan fangelsis í eftirfarandi sérstökum tilvikum, ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa hann undir að afplánun ljúki:
a) Til að heimsækja náinn ættingja sem er alvarlega sjúkur.
b) Til að vera viðstaddur jarðarför eða kistulagningu náins ættingja.
c) Til að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns.
d) Til að gæta sérstaklega brýnna persónulegra hagsmuna sinna.
Með nánum ættingjum í þessu sambandi er einungis átt við: Maka, börn, foreldra, systkin, föður- eða móðurforeldra og barnabörn.
Ekki skal veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis samkvæmt þessum kafla nema fyrir liggi fullnægjandi gögn um að þær aðstæður séu til staðar að heimilt sé að veita leyfi samkvæmt þessum kafla.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 30. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48 19. maí 1988, öðlast gildi 1. janúar 1996. Frá sama tíma er fallin úr gildi reglugerð nr. 440 2. desember 1992.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 29. desember 1995.
F. h. r.
Þorsteinn Geirsson.
Hjalti Zóphóníasson.