Allar veiðar á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Aðeins koma til greina skip, sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands við lok umsóknarfrests og skip sem samið hefur verið um kaup á fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, enda hafi þau fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. maí 2001. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni innan fiskveiðilandhelginnar fellur jafnframt úr gildi leyfi þess til síldveiða.
Heimilt er að hefja síldveiðar 5. maí 2001.
Umsóknarfrestur um leyfi til síldveiða er til og með 26. apríl 2001. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.
Leyfi til veiða tekur til veiða á síld í lögsögu Íslands, Færeyja og Jan Mayen og á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs. Við veiðar í lögsögu Færeyja og Jan Mayen skal farið að reglum sem stjórnvöld í viðkomandi landi setja um veiðarnar.
Á árinu 2001 skal þeim skipum sem veiðileyfi hljóta heimilt að veiða samtals 132.080 lestir af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Skal þessu magni skipt þannig að a.m.k. 90% komi í hlut skipa sem stundað hafa síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1995, 1996 og 1997, en allt að 10% í hlut annarra skipa.
Þeim heimildum, sem koma í hlut skipa sem síldveiðar hafa áður stundað sbr. 1. mgr. skal skipt milli einstakra skipa þannig að 40% sé skipt jafnt milli þeirra en 60% skal skipt miðað við burðargetu þeirra. Burðargeta nótaskipa reiknast í þessu sambandi sem meðaltal tveggja aflahæstu veiðiferðanna við síldveiðar eða loðnuveiðar frá 1. maí 1997 að telja, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Burðargeta annarra skipa miðast við meðaltal tveggja aflahæstu veiðiferðanna frá 1. maí 1997 að telja. Hafi burðargeta skips aukist skal hún áætluð miðað við rúmmál lesta, liggi hún ekki fyrir. Sama gildir hafi skip sem rétt á til síldveiða samkvæmt reglum þessum verið endurnýjað með nýju skipi liggi ekki fyrir burðargeta þess, samkvæmt þessari málsgrein.
Úthlutun aflahámarks samkvæmt þessari grein skal bundin því skipi sem aflann veiddi, án tillits til þess hvort eigendaskipti hafi orðið á því innan viðmiðunartímans eða síðar. Hafi skip komið í stað annars skips, sem stundað hefur síldveiðar á viðmiðunarárunum, er eiganda þess heimilt að flytja réttindin til síldveiða milli skipa, enda tilkynni hann um flutninginn til Fiskistofu fyrir lok umsóknarfrests, sbr. 2. gr.
Skipta skal allt að 10% heildaraflans, sbr. 1. mgr., milli skipa á grundvelli burðargetu þeirra, sbr. 2. mgr. Þó skal aldrei meira magn koma í hlut hvers skips en sem nemur 25% af meðaltalsaflahámarki samkvæmt 2. mgr.
Hafi skip, sem leyfi hefur fengið til síldveiða, ekki hafið veiðar fyrir ákveðinn tíma eða ekki veitt ákveðið lágmark og ástæða er til að ætla, að mati ráðherra, að heildarveiðiheimildir síldarskipanna nýtist ekki að fullu, er ráðherra heimilt að fela Fiskistofu að endurúthluta óframseljanlegum aflaheimildum þeirra skipa, sem ekki hafa veitt umfram ákveðið lágmark, til þeirra skipa, sem veitt hafa yfir ákveðið hlutfall af veiðiheimildum sínum.
Ráðherra skal með a.m.k. viku fyrirvara auglýsa hvaða viðmiðanir skuli gilda við ákvarðanir samkvæmt 1. mgr. Heimilt er að endurúthluta oftar en einu sinni með þessum hætti sé þess talin þörf.
Aðeins er heimilt að færa milli skipa aflahámark sem úthlutað er samkvæmt reglum fyrsta málsliðar 2. mgr. 4. gr. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning aflahámarks og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn.
Megi ætla að veiðimöguleikar séu ekki lengur fyrir hendi í lögsögu Færeyja, Íslands eða Jan Mayen eða á opna hafsvæðinu milli Íslands og Noregs, er ráðherra heimilt að setja sérstakar reglur um heimildir til veiða á þeim 6.800 lestum af síld, sem íslenskum skipum er heimilt að veiða í lögsögu Noregs norðan 62°N. Úthlutun óveidds aflahámarks samkvæmt 4. og 5. gr. skerðist hlutfallslega. Um úthlutun leyfa og skilyrði í þeim fer samkvæmt reglum ráðherra.
Um tilkynningar við síldveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 447/1999, um veiðieftirlit á samningssvæði (NEAFC) Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan lögsögunnar. Um tilkynningar vegna veiða innan lögsögu Færeyja og Noregs fer samkvæmt reglum hlutaðeigandi stjórnvalda.
Síldarafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Þó er heimilt, að fengnu leyfi Fiskistofu, að landa síldarafla til bræðslu í fiskimjölsverksmiðju í erlendri höfn, enda liggi fyrir að eftirlit með löndun og vigtun sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Þá er heimilt að landa síld til manneldis í erlendri höfn, enda sé síldin seld á opinberum fiskmörkuðum þar sem vigtunaraðferðir og eftirlit er viðurkennt af Fiskistofu.
Heimilt er að landa óvigtaðri síld um borð í vinnsluskip enda tilkynni skipstjóri veiðiskips Fiskistofu fyrirfram hvaða vinnsluskip taki aflann og áætlað löndunarmagn. Strax að lokinni löndun síldarinnnar um borð í vinnsluskip, skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlega tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda síldarinnar. Þá er og heimilt er að miðla afla úr nót til skips, sem leyfi hefur til síldveiða í því skyni að koma í veg fyrir að síld sé sleppt dauðri úr nótum.
Um vigtun á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 522/1998, um vigtun sjávarafla.
Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.
Vegna afla umfram leyfilegt hámark skal beita ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til síldveiða vegna brota á reglugerð þessari.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.