I. KAFLI
Heildarfjárhæð beingreiðslna, framkvæmd og skipting milli afurða.
1. gr.
Heildarfjárhæð og framkvæmd beingreiðslna.
Árið 2016 skal greiða beingreiðslur að fjárhæð 277 milljónir kr. úr ríkissjóði til framleiðenda á gúrkum, tómötum og papriku eftir nánari ákvæðum í þessari reglugerð. Fjárhæðin skiptist upp eftir áðurnefndum tegundum og greiðist til framleiðenda miðað við selt magn af þessum afurðum.
Matvælastofnun hefur umsjón með og annast framkvæmd beingreiðslna á árinu 2016.
2. gr.
Skipting beingreiðslna milli afurða.
Heildarfjárhæð beingreiðslna skiptist á afurðir sem hér segir:
Ef í ljós kemur að framleiðsluáætlanir gefa til kynna umtalsverða breytingu á framleiðslumagni milli tegunda er heimilt að endurskoða ofangreinda skiptingu.
3. gr.
Útreikningur beingreiðslna á afurðaeiningar.
Heildarfjárhæð beingreiðslna sem er til ráðstöfunar fyrir hverja afurð skv. 2. gr. skal deilt á selt magn innan ársins, frá og með 1. janúar 2016 að telja. Flokka skal gúrkur, tómata og papriku eftir flokkunarreglum Sambands garðyrkjubænda um gæðaflokkun þessara afurða og skulu beingreiðslur einungis greiddar út á selt magn afurða sem fara í fyrsta flokk.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga gerir áætlun að fengnum upplýsingum frá Matvælastofnun um sölumagn þessara afurða yfir árið. Áætla skal beingreiðslur pr. kg miðað við áætlað sölumagn og greiða 80% af áætluðum beingreiðslum pr. kg sem fyrstu greiðslu eftir sölu hvers mánaðar.
Við lokauppgjör skv. 12. gr. skal finna út beingreiðslur á hvert kg afurðar miðað við heildarfjárhæð beingreiðslna skv. 2. gr. með því að deila þeim á það magn, sem staðfest er að selt hafi verið á árinu og skulu þær greiddar framleiðendum að frádregnum þeim greiðslum sem fram hafa farið. Ef upp kemur ágreiningur um rétt til beingreiðslna skulu þeir fjármunir sem um er deilt ekki koma til greiðslu við lokauppgjör fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningnum.
4. gr.
Endurskoðun á einingaverði beingreiðslna.
Matvælastofnun skal tvisvar á árinu 2016, fyrir 1. júlí og fyrir 1. október endurskoða spár um framleiðslumagn ársins og á grundvelli þess gera tillögur til framkvæmdanefndar búvörusamninga um breytingar á fyrirframgreiðslu á selda einingu, sbr. 3. gr. Ef til lækkunar kemur á beingreiðslum á einingu afurðar til hvers handhafa, skulu þær endurreiknaðar frá upphafi árs í samræmi við breytingar á einingaverðum, á þann hátt að til útborgunar á árinu komi að hámarki 88% af áætluðum beingreiðslum á einingu við endurskoðun 1. júlí. Við endurskoðun 1. október skal breyta fyrirframgreiðslum í 93% af áætluðum beingreiðslum á einingu. Matvælastofnun tilkynnir handhöfum beingreiðslna þessar ákvarðanir hverju sinni.
II. KAFLI
Réttur til beingreiðslna, umsóknir, gjalddagar, ofgreiddar beingreiðslur o.fl.
5. gr.
Réttur til beingreiðslna.
Réttur til beingreiðslna árið 2016 er bundinn því skilyrði að framleiddar séu gúrkur, tómatar eða paprika á hlutaðeigandi garðyrkjubýli. Þessi réttur er bundinn við framleiðslustað en ekki framleiðanda. Með garðyrkjubýli er hér átt við lögaðila eða býli með virðisaukaskattskylda veltu, sem framleiðir grænmeti (útirækt/ylrækt), skrautjurtir, garðplöntur eða tré og runna.
Framleiðendur, sem tóku við beingreiðslum á árinu 2015 þurfa ekki að sækja sérstaklega um fyrir árið 2016, en þeir skulu skila áætlun til Matvælastofnunar fyrir 15. febrúar 2016, þar sem fram kemur flatarmál gróðurhúsa, sem ætlað er til framleiðslu fyrir hverja tegund svo og áætluð framleiðsla af hverri tegund á árinu 2016. Feli áætlun í sér meira en 10% frávik frá framleiðslu síðasta árs skal gera sérstaka grein fyrir henni. Einnig skal liggja fyrir fullnaðaruppgjör vegna ársins 2015 áður en beingreiðslur fást greiddar vegna ársins 2016.
6. gr.
Umsóknir.
Þeir aðilar sem ekki tóku við beingreiðslum á árinu 2015 en vilja öðlast rétt til þeirra að uppfylltum skilyrðum, sbr. 5. gr., skulu senda umsókn til Matvælastofnunar fyrir 15. febrúar 2016. Þá skulu umsækjendur skila áætlunum skv. 5. gr.
Ef fullnægjandi gögnum skv. 1. mgr. er ekki skilað á réttum tíma verða beingreiðslur ekki greiddar fyrr en framleiðendur hafa gert úrbætur.
7. gr.
Handhafar beingreiðslna.
Handhafi beingreiðslna er ábúandi lögbýlis eða einstaklingur/lögaðili sem stendur að rekstri garðyrkjubýlis. Á hverju garðyrkjubýli skal einungis vera einn handhafi beingreiðslna. Þó er heimilt þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör.
Tilkynna skal Matvælastofnun án tafar um breytingar á handhöfum beingreiðslna.
Réttur til beingreiðslna er bundinn við handhafa. Honum er óheimilt að framvísa þeim beingreiðslum sem honum ber til annars aðila.
Matvælastofnun skal halda skrá yfir handhafa beingreiðslna.
8. gr.
Gjalddagar beingreiðslna.
Fyrsti gjalddagi er 1. apríl 2016 og síðan 1. hvers mánaðar vegna sölu næstsíðasta mánaðar að því tilskildu að gögnum vegna sölu sé skilað á réttum tíma, sbr. 11. gr. Berist gögn síðar frestast afgreiðsla beingreiðslna til næsta gjalddaga.
9. gr.
Ofgreiddar beingreiðslur.
Framleiðendur sem hafa tekið við beingreiðslum á grundvelli vísvitandi rangrar upplýsingagjafar skulu endurgreiða ofteknar beingreiðslur með 50% álagi. Ef til þess kemur að úrskurða þurfi um rétt til beingreiðslna skal Matvælastofnun halda eftir af beingreiðslum til framleiðandans þeirri fjárhæð sem ágreiningur er um að viðbættu 50% álagi.
10. gr.
Viðskipti sem réttur til beingreiðslna takmarkast við.
Sala afurða veitir aðeins rétt til beingreiðslna sé kaupandi bókhaldsskyldur hvort sem um er að ræða kaup til eigin rekstrar eða til endursölu. Sömu reglur gilda um umboðssölu. Framleiðandi getur einungis öðlast rétt til beingreiðslna með sölu eigin framleiðsluafurða en ekki með sölu á afurðum sem hann hefur keypt af öðrum. Réttur framleiðanda til beingreiðslna fellur niður annist hann kaup á gúrkum, tómötum eða papriku til eigin rekstrar, endursölu eða umboðssölu.
III. KAFLI
Upplýsingar og gögn um sölu afurða o.fl.
11. gr.
Upplýsingar og gögn sem skila ber mánaðarlega.
Handhafar beingreiðslna skulu senda Matvælastofnun mánaðarlega eftirfarandi upplýsingar og gögn eigi síðar en 12. næsta mánaðar eftir að sala fer fram:
Þau gögn sem þannig eru frágengin skulu staðfest með undirritun eða á annan fullnægjandi hátt, af eða fyrir hönd viðkomandi handhafa beingreiðslna eftir umboði. Matvælastofnun getur hvenær sem er óskað eftir aðgangi að frumgögnum til staðfestingar. Handhafa beingreiðslna er skylt að halda eftir afriti af gögnum sendum Matvælastofnun til að vinna lokauppgjör ársins eftir, sbr. 4. mgr. 3. gr. og 12. gr.
12. gr.
Staðfesting lokauppgjörs fyrir árið.
Matvælastofnun skal fyrir 1. mars 2017 ljúka uppgjöri fyrir árið 2016. Hver framleiðandi, sem hlotið hefur beingreiðslur á árinu skal senda Matvælastofnun fyrir 10. febrúar 2017 heildaruppgjör fyrir árið staðfest af löggiltum endurskoðanda. Uppgjörið skal sýna selt magn af gúrkum, tómötum og/eða papriku eftir tegundum, afbrigðum og gæðaflokkum eigin framleiðslu skv. 5. gr. Komi fram misræmi frá áður innsendum gögnum (afreikningum og sölunótum) skal leggja fram afrit af þeim bókhaldsgögnum sem standa þar að baki og gera grein fyrir leiðréttingum. Við lokauppgjör reiknar Matvælastofnun út og gerir upp beingreiðslur á kg af gúrkum, tómötum og papriku, eftir seldu magni á árinu 2016. Þessir útreikningar skulu hljóta staðfestingu framkvæmdanefndar búvörusamninga áður en lokauppgjör fer fram.
Við lokauppgjör skal halda eftir fjárhæðum er svara til krafna vegna ágreinings sem vísað hefur verið til úrskurðar skv. 13. gr.
IV. KAFLI
Málskot o.fl.
13. gr.
Málskot.
Ágreiningi um rétt til beingreiðslna er heimilt að skjóta til úrskurðar ráðherra.
14. gr.
Ráðstöfun fjármuna í búvörusamningi.
Fjármunum sem ráðstafað skal samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands/Sambands garðyrkjubænda frá 12. mars 2002, með síðari breytingum skal ráðstafað með eftirfarandi hætti:
15. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu.
Reglugerð nr. 1178/2014 um beingreiðslur í garðyrkju árið 2015 fellur úr gildi 1. mars 2016.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. desember 2015.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Ólafur Friðriksson.
Rebekka Hilmarsdóttir.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)