I. KAFLI
Markmið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið og yfirstjórn.
Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerðin tekur til. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.
2. gr.
Skilgreiningar.
Garnaveikibær: Bær/jörð þar sem garnaveiki hefur greinst eða bólusetning hefur verið vanrækt á síðastliðnum 10 árum.
Umráðamaður: Aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu búfjár í samræmi við gildandi reglur.
II. KAFLI
Um takmarkanir á garnaveikibæjum.
3. gr.
Afhending líffjár.
Óheimilt er að láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi frá garnaveikibæjum í tíu ár frá síðustu greiningu á garnaveiki eða vanrækslu á bólusetningu. Bæir sem taka við jórturdýrum frá garnaveikibæjum í andstöðu við ákvæði þetta teljast garnaveikibæir jafn lengi og sá bær sem gripirnir eru frá.
Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. mgr. varðandi nautgripi séu gripirnir aðskildir frá sauðfé og geitum og annað mælir ekki gegn flutningi að mati Matvælastofnunar, enda hafi farið fram sérstök rannsókn á gripunum m.t.t. garnaveiki.
4. gr.
Aðrar takmarkanir.
Óheimilt er að hýsa, fóðra eða brynna aðkomufé með heimafé á garnaveikibæjum. Þá er óheimilt að hafa óbólusett lömb og kið með eldra fé í sömu fjárhúskró eða í þröngum beitarhólfum að hausti.
Óheimilt er að flytja af garnaveikibæjum búfjáráburð og hey, heyköggla, hálm, túnþökur og gróðurmold af landi sem húsdýraáburður hefur verið borinn á eða jórturdýr gengið á. Ull má ekki flytja óunna á aðra bæi.
Tæki sem hafa verið notuð til moksturs, flutnings, dreifingar eða niðurplægingar á húsdýraáburði á garnaveikibæjum skulu sótthreinsuð fyrir flutning á aðra bæi. Jarð- og heyvinnslutæki skal þrífa fyrir flutning á aðra bæi.
III. KAFLI
Bólusetningar.
5. gr.
Skylda til bólusetningar.
Eigandi/umráðamaður sauðfjár og/eða geita á svæðum sem tilgreind eru í viðauka I við þessa reglugerð skal láta bólusetja öll ásetningslömb/kið til varnar garnaveiki á tímabilinu frá 15. ágúst til 31. desember ár hvert. Matvælastofnun getur ákveðið hvenær bólusetning hefjist á bæjum þar sem mikil hætta er talin á því að garnaveiki leynist.
Eiganda/umráðamanni er skylt að smala fé sínu til bólusetningar og tilkynna Matvælastofnun svo fljótt sem auðið er um síðheimt óbólusett fé. Ásetningslömb og kið sem heimtast eftir áramót skal bólusetja svo fljótt sem unnt er.
Við framkvæmd bólusetningar skal fylgja reglum sem Matvælastofnun gefur út.
6. gr.
Undanþágur frá skyldu til bólusetningar.
Matvælastofnun getur leyft að bólusetningu hjarðar sé frestað um tiltekinn tíma, ef sérstaklega stendur á, s.s. vegna veikinda í hjörðinni.
Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá bólusetningarskyldu fyrir lömb sem ráðgert er að slátra á fyrstu fjórum mánuðum nýs árs, enda upplýsi bóndinn um númer þeirra gripa sem á að slátra.
7. gr.
Óbólusett búfé.
Þeir bæir þar sem eigandi/umráðamaður sauðfjár hefur ekki sinnt skyldu til bólusetningar skv. 5. gr. þessarar reglugerðar teljast garnaveikibæir.
Komi í ljós að bólusetningum í tiltekinni hjörð sé ábótavant skal Matvælastofnun banna allan flutning dýra frá hjörðinni, þ.m.t. flutning á afrétt.
Sinni umráðamaður sauðfjár ekki tilmælum Matvælastofnunar um að bólusetja fé í hans umsjá innan tímafrests sem Matvælastofnun setur honum getur stofnunin fyrirskipað bólusetningu fjárins og ber þá eigandi allan kostnað af aðgerðum.
8. gr.
Bólusetningarmenn.
Matvælastofnun er heimilt að útnefna leikmenn sem bólusetningarmenn, fáist dýralæknir ekki til verksins, skv. heimild í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum.
9. gr.
Kostnaður af bólusetningu.
Kostnað af framkvæmd bólusetningar og endurbólusetningar, s.s. af kaupum á bóluefni og vinnu bólusetningarmanna bera eigendur/umráðamenn hins bólusetta fjárstofns.
IV. KAFLI
Stjórnsýsla.
10. gr.
Tilkynningarskylda.
Matvælastofnun skal þegar í stað tilkynnt um sauðfé, geitur, nautgripi eða hreindýr sem sýna einkenni garnaveiki. Matvælastofnun skal gera ráðstafanir til þess að tekin séu sýni til þess að greina hvort um garnaveiki sé að ræða. Sýnataka og rannsókn er á kostnað Matvælastofnunar.
11. gr.
Eftirlit á búum.
Matvælastofnun er heimilt að framkvæma eftirlitsskoðun á bólusettu sauðfé og geitfé til að kanna árangur bólusetningar þegar liðinn er mánuður frá bólusetningu. Komi í ljós, að eigi séu finnanleg merki eftir bólusetningu, er eiganda/umráðamanni skylt að láta bólusetja svo fljótt sem verða má.
Öllum sem framkvæma bólusetningu er skylt að skila til Matvælastofnunar bólusetningarskýrslum fyrir 20. janúar hvert ár.
12. gr.
Eftirlit í sláturhúsum.
Matvælastofnun skal sjá til þess að í sláturhúsum séu garnir og garnaeitlar úr fullorðnu fé og nautgripum skoðuð. Matvælastofnun gefur út fyrirmæli um framkvæmd eftirlits og sýnatöku. Sláturleyfishafar skulu útvega hentuga aðstöðu til þessa.
Sýni skulu merkt búsnúmeri og einstaklingsnúmeri gripanna og send til greiningar á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Greiningarniðurstöður skal senda Matvælastofnun sem tilkynnir eiganda dýrsins um niðurstöðuna.
13. gr.
Skrá yfir garnaveikibæi.
Matvælastofnun skal taka saman skrá yfir alla garnaveikibæi og birta opinberlega á heimasíðu sinni.
14. gr.
Garnaveiki útrýmt.
Hafi garnaveiki ekki greinst í jórturdýrum í 10 ár í tilteknu varnarhólfi er Matvælastofnun heimilt að leggja til við ráðherra að bólusetningu verði hætt enda álíti stofnunin að garnaveiki hafi verið útrýmt í hólfinu. Stofnunin skal kanna heilsufar og vanhöld í jórturdýrum í hólfinu og viðhorf eigenda/umráðamanna til þess að bólusetningu verði hætt áður en tillaga er gerð.
Finnist garnaveiki á nýju svæði eða á ný þar sem bólusetning hefur verið aflögð er eigendum/umráðamönnum skylt að láta bólusetja eldra fé auk lamba samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar.
15. gr.
Viðurlög, gildistaka o.fl.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 29. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um sama efni nr. 933/2007.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 21. september 2011.
F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.
Kristinn Hugason.
VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)