1. gr.
Reglugerð þessi gildir um úthlutun aflaheimilda samkvæmt ákvæði V til bráðabirgða í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
2. gr.
Heimilt er að úthluta allt að 200 lestum af óslægðum þorski á fiskveiðiárinu 2009/2010 sem skiptast jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Komi ekki til úthlutunar viðmiðunarafla hvers mánaðar bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta mánaðar. Heimildir sem ekki hefur verið úthlutað 31. ágúst 2010 falla niður. Gegn greiðslu gjalds er heimilt að úthluta aflaheimildum á skip sem leyfi hefur til frístundaveiða, sbr. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda samkvæmt reglugerð þessari og skal hverju skipi úthlutað að hámarki 2 lestum hverju sinni. Fiskistofa skal afgreiða umsóknir þannig að umsóknir sem berast fyrir kl. 16 hvern virkan dag skulu afgreiddar næsta virka dag. Berist umsókn eftir kl. 16 ber að telja hana til umsókna næsta dags. Ef aflaheimildir sem til ráðstöfunar eru nægja ekki til úthlutunar í samræmi við umsóknir þess dags skal umbeðið magn, sem fram kemur í umsóknum, lækkað hlutfallslega.
Verð á aflaheimildum skal vera meðalverð í viðskiptum með aflamark í þorski, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en umsókn berst Fiskistofu og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Hafi viðskipti með aflamark ekki átt sér stað síðasta virka dag áður en umsókn barst Fiskistofu skal miða við þann dag sem viðskipti fóru síðast fram fyrir þann tíma. Hafi gjald ekki verið greitt innan sjö daga frá því að umsókn barst Fiskistofu fellur réttur útgerðar til úthlutunar á grundvelli umsóknarinnar niður.
3. gr.
Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er einungis heimilt að nýta til frístundaveiða og eru þær framseljanlegar á milli frístundafiskiskipa.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 11. maí 2010.
F. h. r.
Hrefna Gísladóttir.
Kristján Freyr Helgason.