Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1240/2016

Reglugerð um almennan stuðning við landbúnað. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um stuðningsgreiðslur sem falla undir rammasamning um almenn starfs­skilyrði landbúnaðarins dags. 19. febrúar 2016.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð þá merkingu sem hér segir:

  1. Bústofn: Miðlægur gagnagrunnur Matvælastofnunar til að halda utan um dýraeftirlit og forðagæslu í samræmi við lög um búfjárhald nr. 38/2013.
  2. Heiðrún: Tölvukerfi og gagnagrunnur í eigu Bændasamtaka Íslands, sem heldur utan um afurðaskýrsluhald í geitfjárrækt. Gögn sem verða til vegna skylduskráninga í samræmi við reglugerð þessa eru í umsjón og á ábyrgð Matvælastofnunar.
  3. Jörð: Tölvukerfi og gagnagrunnur Bændasamtaka Íslands sem heldur utan um skýrslu­halds­kerfi og skýrsluhaldsgögn í jarðrækt. Tölvukerfið tengist túnkortagrunni með staf­rænum túnkortum frá Loftmyndum ehf.
  4. Lífræn framleiðsla: Landbúnaður sem stundaður er í samræmi við reglugerð nr. 74/2002 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar, með síðari breytingum.

3. gr.

Handhafar greiðslna.

Greiðslur samkvæmt reglugerð þessari fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. eru skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis/garðyrkjubýlis og
  2. stunda landbúnað á lögbýli/garðyrkjubýli með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.

Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslum samkvæmt reglugerð þessari sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.

4. gr.

Opinbert eftirlit.

Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun fer með fram­kvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

5. gr.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga skv. 31. gr. búvörulaga nr. 99/1993 er samráðsvettvangur samningsaðila rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga aflar upplýsinga um þróun framleiðslu og sölu á land­bún­aðar­afurðum, afurðaverð, inn- og útflutning landbúnaðarafurða, afkomuþróun í landbúnaði auk annarra upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir framkvæmd samnings þessa, sem og framkvæmd samninga um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju.

Á grundvelli upplýsinga skv. 2. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir rammasamning um almenn starfsskilyrði land­búnaðarins, sbr. töflu í viðauka I við samninginn. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirra fjárhæða sem ætlaðar eru til hvers verkefnis. Nefndin skal tilkynna Matvælastofnun um tilfærslur sem taka eiga gildi um áramót eigi síðar en 1. desember árið á undan.

Matvælastofnun ráðstafar framlögum samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga.

II. KAFLI

Kynbótaverkefni.

6. gr.

Ráðstöfun framlaga.

Framlög til kynbótaverkefna skiptast annars vegar í framlög til ræktunarverkefna og ein­angrunar­stöðva og hins vegar kynbótaskýrsluhalds. Jafnframt eru veitt framlög til stofn­útsæðis­ræktunar á kartöflum í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 455/2006 um kartöflu­útsæði og úrvalsathugana garðplantna.

Bændasamtök Íslands ráðstafa framlögum samkvæmt 1. mgr. Samtökin skulu árlega skila yfirliti yfir ráðstöfun fjármunanna til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

III. KAFLI

Jarðræktarstyrkur og landgreiðslur.

7. gr.

Umsókn.

Matvælastofnun annast úthlutun jarðræktarstyrkja og landgreiðslna. Ár hvert auglýsir Matvæla­stofnun eftir umsækjendum um framlög. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvæla­stofnunar, eigi síðar en 20. október ár hvert vegna framkvæmda á yfirstandandi ári.

Skilyrði fyrir veitingu stuðnings skv. III. kafla eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi skv. 12. gr.

8. gr.

Jarðræktarstyrkur.

Framlögum skal varið til jarðræktar, þ.e. nýræktar og endurræktunar á túnum, kornræktar og ræktunar annarra fóðurjurta sem og útiræktunar á grænmeti og kartöflum. Uppskera er forsenda fyrir jarðræktarstyrk. Heimilt er að greiða stuðning vegna ágangs álfta og gæsa á ræktunarlöndum bænda.

Styrkhæf ræktun er ræktun grass, korntegunda til dýrafóðurs og manneldis, útiræktun grænmetis, ræktun olíujurta, þar með talin ræktun jurta til framleiðslu á lífdísel enda sé hratið nýtt til fóðurs, ræktun grænfóðurs til beitar og uppskeru á því ári sem uppskorið er. Beit búpenings telst vera uppskera sem og nýting kornhálms. Ræktun vetraryrkja sem sáð er um mitt sumar og endurræktun túna er tekin út á uppskeruári. Ekki telst styrkhæf ræktun ef kornrækt er eingöngu ætluð til að draga að gæsir til skotveiði, nema ef kornhálmur er nýttur og önnur ræktun sem ekki er nytjuð til búskapar, þar með talin sáning í golfvelli, tjaldstæði o.s.frv.

Í umsókn bús um framlög skulu koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda, búsnúmer og landnúmer jarðar sem ræktað er á ásamt tengingu við spildur í Jörð, þar sem liggur til grundvallar fullnægjandi túnkort af ræktunarspildu sem sótt er um styrk fyrir. Þegar ræktað er aðeins í hluta af spildu, sem sækja á um styrk út á, skal hnita þann hluta og skrá sérstaklega í túnkortagrunn sem nýja spildu.

Framlag á hvern hektara (ha) fyrir hvert bú tekur mið af heildarfjölda ha sem sótt er um. Fjöldi ha sem sótt er um skerðist í samræmi við eftirfarandi:

  Fjöldi ha sem sótt er um   Stuðull umsóttra ha
  1-30 ha   1,0
  31-60 ha   0,7
  61> ha   0,4

Framangreind stærðarmörk eru 2,5 sinnum hærri á svínabúum. Með svínabúi er átt við bú, þar sem stunduð er starfsleyfisskyld ræktun, eldi eða sala á svínum, haldnar eru að jafnaði a.m.k. 10 fengnar eða mjólkandi gyltur ásamt grísum eða þar sem er sambærileg ræktun eða eldi.

Í þeim tilfellum sem grasfræi er skjólsáð með grænfóðri eða korni er veittur jarðræktarstyrkur fyrsta árið. Þó svo að uppistaða uppskeru fyrsta árs sé grænfóður eða korn og uppskera annars árs sé gras, er veittur aðeins einn jarðræktarstyrkur vegna framkvæmdarinnar.

Greitt er út á heila ha og venjulegar reglur um upphækkanir gilda.

9. gr.

Landgreiðslur.

Framlögum skal ráðstafa á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar. Framlög eru ekki greidd út á land sem eingöngu er nýtt til beitar.

Í umsókn um framlög skulu koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang umsækj­anda, búsnúmer, landnúmer þess lands sem uppskorið er til fóðuröflunar ásamt tengingu við spildur í Jörð, þar sem liggur til grundvallar fullnægjandi túnkort af landi sem sótt er um styrk fyrir. Þegar uppskorinn er hluti lands, sem sækja á um styrk út á, skal skrá sérstaklega þann fjölda hektara sem er uppskorinn.

Framlög taka mið af heildarfjölda ha sem sótt er um og deilast jafnt út á þá ha sem sótt er um stuðning fyrir.

10. gr.

Takmörkun framlaga.

Framleiðandi getur ekki fengið framlög samkvæmt 8. gr. um jarðræktarstyrki og 9. gr. um land­greiðslur fyrir sömu spildur á sama ári.

11. gr.

Ágangur álfta og gæsa.

Heimilt er að greiða stuðning skv. 8. gr. vegna ágangs álfta og gæsa á ræktunarlandi bænda. Framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveður hvort nota eigi heimild til þessa stuðnings. Verði heimildin nýtt skal ákvörðun þess efnis liggja fyrir eigi síðar en 20. september ár hvert.

Framleiðendur skuli skila inn rafrænni tjónaskýrslu í umsóknarkerfi Matvælastofnunar og er frestur til þess 20. október á því ári sem tjón verður.

Sé ákveðið að nýta heimild til að veita stuðning vegna ágangs álfta og gæsa skal stuðningur reikn­aður með eftirfarandi hætti:

  Hlutfallslegt tjón á uppskeru
  vegna ágangs álfta og gæsa
  Umfang tjóns á
  tjónaskýrslu
  Álag á stuðul
  umsóknar
  Yfir 75%   Meiriháttar 76-100%   76%
  Milli 50-75%   Verulegt 51-75%   51%
  Milli 26-50%   Umtalsvert 26-50%   26%
  Milli 11-25%   Nokkuð 11-25%   11%

12. gr.

Fullnægjandi skil á skýrsluhaldi.

Til þess að uppfylla skilyrði um fullnægjandi skýrsluhald í jarðrækt þarf að uppfylla skráningar í Jörð og skrá eftirfarandi:

  1. Nafn, kennitala og heimilisfang framleiðanda, búsnúmer og landnúmer jarðar sem ræktað er á. ÍSAT-númer búrekstrar samkvæmt skráningu á RSK.
  2. Virkt virðisaukaskattsnúmer búrekstrar.
  3. Eftirfarandi upplýsingar um hverja ræktunarspildu úr Jörð:
    1. Nafn og/eða númer spildu.
    2. Hnitsetning spildu byggð á landupplýsingakerfi (LUK) sem byggir á stafrænu túnkorti. Túnkortið á að sýna nákvæmlega þær ræktunarspildur sem eru grundvöllur að styrkjum.
    3. Ræktun, þ.e. gras, grænfóður, korn, olíujurtir eða útiræktað grænmeti.
    4. Tegund og yrki, þegar sótt er um jarðræktarstyrk.
    5. Stærð spildu í hekturum.
    6. Ræktunarár, ef ræktað síðastliðin 5 ár.
  4. Heildaruppskera í kg þurrefnis fyrir hverja spildu.
  5. Heildaruppskeru í kg í útiræktuðu grænmeti.

Þegar metið er hvort túnkort er fullnægjandi skal Matvælastofnun byggja það mat á því hvort fag­aðili hafi teiknað og mælt viðkomandi ræktun með viðurkenndum aðferðum.

13. gr.

Úttektir.

Skilyrði þess að verkefni njóti framlags er að fram hafi farið úttekt.

Til að standast úttekt vegna jarðræktar og landgreiðslna þarf að liggja fyrir fullnægjandi stafrænt túnkort af ræktarlandinu í Jörð.

Úttektaraðili sannreynir stærð ræktunar og hvort skilyrði til styrkveitinga eru að öðru leyti uppfyllt þar með talin styrkveiting vegna ágangs álfta og gæsa ef heimild til slíks er nýtt. Heimilt er að vettvangsúttekt fari einungis fram með tilviljunarkenndu úrtaki, óháð umfangi ræktunar.

Úttektaraðili skal vera starfsmaður búnaðarsambands eða leiðbeiningarmiðstöðvar sem hefur almenna þekkingu á viðkomandi sviði og Matvælastofnun viðurkennir. Um fyrirkomulag úttekta og kostnað við þær skal kveðið á um í samningnum Matvælastofnunar við úttektaraðila.

Úttektir á framkvæmdum skulu berast Matvælastofnun fyrir 15. nóvember á sama ári eftir að umsókn berst og skulu styrkir greiddir fyrir árslok.

Úttektir skulu skráðar með hnitsetningu í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar.

IV. KAFLI

Nýliðunarstuðningur.

14. gr.

Stuðningur.

Matvælastofnun ráðstafar fjármunum til nýliðunarstuðnings. Markmið stuðningsins er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði.

15. gr.

Rétthafar stuðnings.

Framlög til nýliðunarstuðnings beinast að einstaklingum í eigin nafni eða til lögaðila sem nýliði á a.m.k. 25% hlut í.

Þeir einstaklingar einir geta sótt um nýliðunarstuðning sem uppfylla neðangreindar kröfur:

  1. Skilyrði skv. 3. gr.
  2. Eru á aldrinum 18-40 ára á því ári sem óskað er eftir stuðningi.
  3. Eru að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti og/eða hafa leigt búrekstur skemur en fimm ár frá 1. janúar á umsóknarári.
  4. Hafa ekki verið skráðir handhafar beingreiðslna í sauðfé, mjólk eða garðyrkju síðastliðin 8 ár frá 1. janúar á umsóknarári.

16. gr.

Auglýsing og umsókn.

Matvælastofnun auglýsir árlega nýliðunarstuðning. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknar­kerfi Matvælastofnunar, eigi síðar en 1. maí ár hvert.

Umsókn skal innihalda:

  1. Lýsingu á búrekstrinum og fjárfestingunni sem óskað er stuðnings við.
  2. Markmið fjárfestingarinnar.
  3. Framkvæmda- eða verkáætlun vegna fjárfestingar.

Umsókn skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

  1. Gögn sem staðfesta að umsækjandi sé nýliði skv. 15. gr.
  2. Upplýsingar um eignarhald lögaðila, sé um hann að ræða.
  3. Rekstraráætlun unnin af fagaðila, svo sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
  4. Afrit af kaupsamningi vegna fjárfestingar sem óskað er stuðnings við.

Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir öðrum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á umsókn og gildir heimildin í fimm ár frá því nýliðunarstuðningur var síðast veittur.

Matvælastofnun er heimilt að forgangsraða umsóknum um nýliðunarstuðning með vísan til:

  1. Menntunar umsækjanda á sviði landbúnaðar.
  2. Jafnréttissjónarmiða.
  3. Stærð eignarhlutar nýliða í búrekstri sem fjárfesting nær til.

17. gr.

Hámark stuðnings.

Nýliðunarstuðningur er veittur til fjárfestinga í búrekstri. Stuðningur getur að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingakostnaði á ári og skulu framlög til einstakra nýliða ekki vera hærri en níu milljónir króna í heildarstuðning.

Stuðningur til nýliða sem á hlut í lögaðila skal taka mið af eignarhlut nýliða í lögaðilanum.

Sé áætlað að framkvæmdartími við fjárfestinguna sem sótt er um stuðning fyrir sé lengri en eitt ár skal umsækjandi gera grein fyrir áfangaskiptingu hennar í framkvæmda- og verkáætlun skv. c-lið 2. mgr. 16. gr. Heimilt er að veita stuðning við sömu fjárfestingu í allt að þrjú ár, þó aldrei umfram hámark skv. 1. mgr.

18. gr.

Úthlutun.

Matvælastofnun staðfestir ákvörðun um veitingu nýliðunarstuðnings með bréfi til umsækjanda.

19. gr.

Endurgreiðsla.

Matvælastofnun er heimilt að krefjast endurgreiðslu nýliðunarstuðnings ef í ljós kemur að umsækj­andi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem áhrif höfðu á veitingu stuðnings.

Hafi nýliði hætt búrekstri innan fimm ára frá því að nýliðunarstuðningur var síðast veittur er Matvæla­stofnun heimilt að krefjast endurgreiðslu á greiddum stuðningi, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.

V. KAFLI

Lífræn framleiðsla.

20. gr.

Stuðningur.

Matvælastofnun ráðstafar þeim fjármunum sem ætlaðir eru til að styðja við aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum.

21. gr.

Rétthafar stuðnings.

Framleiðendur sem uppfylla skilyrði 3. gr. og hafa byrjað lífræna aðlögun í landbúnaði undir eftirliti faggildrar vottunarstofu og í samræmi við reglugerð nr. 74/2002 um lífræna framleiðslu land­bún­aðar­afurða og merkingar, með síðari breytingum, geta sótt um aðlögunarstuðning.

Skilyrði fyrir stuðningi eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi í þeim búgreinum sem við á hverju sinni.

22. gr.

Auglýsing og umsókn.

Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar, eigi síðar en 15. maí ár hvert.

Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Upplýsingar um nafn, kennitölu, og lögheimili framleiðanda sem sækir um stuðning.
  2. Upplýsingar um búsnúmer lögbýlis sem verið er að aðlaga að lífrænni framleiðslu.
  3. Lýsingu á búrekstrinum sem verið er að aðlaga að lífrænni framleiðslu, þar með talið upp­lýsingar um gripafjölda eftir tegundum búfjár, flatarmál lands eftir tegund nytja og aðstæður í gripahúsum sem breyta þarf til að mæta kröfum um aðbúnað lífræns búfjár.
  4. Áætlaður aðlögunarkostnaður á umsóknarári samkvæmt kostnaðaráætlun.
  5. Upplýsingar um áður fenginn aðlögunarstuðning ef við á.

Fylgiskjöl með fyrstu umsókn:

  1. Kostnaðaráætlun unnin af fagaðila, svo sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Í kostn­aðar­áætlun skal meðal annars leggja mat á þann kostnað vegna lífrænnar aðlögunar sem fram­leiðandi þarf að bera frá því að lífræn aðlögun hefst og þar til lífræn vottun fæst. Kostnað­inn skal áætla fyrir hvert ár aðlögunarinnar og skal líta til eftirfarandi þátta:
    1. Fjárfestingar: Breytingar á húsakosti til að uppfylla viðbótarkröfur um aðbúnað og gólfrými, tækjabúnað og aðstöðu, námskeið og fræðsluefni til að byggja upp þekk­ingu framleiðanda.
    2. Rekstrarútgjöld sem tengjast sérstaklega aðlögunarferlinu: Gerð aðlögunaráætlunar; greiningar jarðvegssýna og fóðursýna, gerð jarðakorta, ráðgjöf búnaðarráðunauta; og fyrstu úttektir vottunarstofu.
    3. Lækkun tekna vegna minni framleiðslu á hverja flatar- og búfjáreiningu: ræðst m.a. af þekkingu og hæfni framleiðanda, jarðvegsgerðar, landsháttum, veðurfari og fyrir­komu­lagi búreksturs árin áður en aðlögun hefst.
  2. Afrit af áætlun um aðlögun að lífrænni landbúnaðarframleiðslu, staðfest af faggildri vott­unar­stofu.
  3. Staðfesting faggildrar vottunarstofu um að umsækjandi hafi undirritað samning við hana um reglubundið eftirlit með framleiðslunni samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu. Einnig skal fylgja staðfesting faggildrar vottunarstofu um að umsækjandi hafi lokið a.m.k. átta klukku­stunda námskeiði fagaðila, eins eða fleiri, um lífræna aðlögun landbúnaðarframleiðslu, þar sem fjallað er um aðlögunarferlið, lífrænar aðferðir í þeim búgreinum sem aðlaga á að kröfum, skráningar og skýrsluhald í lífrænum búskap, fyrir­komu­lag eftirlits og vottunar og fyrirkomulag ráðgjafar og stuðnings við lífræna aðlögun. Matvælastofnun skal staðfesta fyrirkomu­lag og skipulag námskeiðsins.

23. gr.

Hámarksframlög.

Matvælastofnun annast úthlutun aðlögunarstuðnings. Stuðningur við hvern framleiðanda getur að hámarki numið 50% af árlegum aðlögunarkostnaði skv. 4. tl. 1. mgr. 22. gr. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag árlega en 20% af heildarframlögum stuðningsins samkvæmt fjárlögum.

Heimilt er að veita framleiðanda árlegan aðlögunarstuðning á meðan aðlögun undir eftirliti fag­gildrar vottunarstofu stendur yfir. Umsækjandi skal þá sækja um að nýju skv. 22. gr. Ný umsókn skal vera með uppfærðum upplýsingum og fylgiskjölum auk þess skal fylgja með umsókn stað­fest­ing faggildrar vottunarstofu á að aðlögun standi yfir samkvæmt áætlun.

24. gr.

Eftirlit og úttektir.

Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum frá framleiðanda telji hún þess þörf til að meta umsókn.

Hætti framleiðandi lífrænni aðlögun innan tveggja ára frá því aðlögunarstuðningur var síðast veittur er Matvælastofnun heimilt að krefjast endurgreiðslu á greiddum stuðningi, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.

VI. KAFLI

Geitfjárrækt.

25. gr.

Gripagreiðslur.

Matvælastofnun ráðstafar gripagreiðslum til eigenda sem uppfylla skilyrði 3. gr. fyrir það geitfé sem skráð er í Heiðrúnu. Matvælastofnun tekur ákvörðun um það hvaða framleiðendur uppfylla skilyrði reglugerðarinnar til að eiga rétt á gripagreiðslum og hver er fjárhæð greiðslna til hvers fram­leiðanda. Skýrslum skal skilað í Heiðrúnu eigi síðar en 12. desember ár hvert og gripagreiðsla skal greidd 1. mars árið á eftir.

Hlutdeild hvers framleiðanda í heildarframlagi til gripagreiðslna geitfjárræktar fer eftir fjölda geita samkvæmt afurðaskýrsluhaldi.

Matvælastofnun er heimilt að stöðva gripagreiðslur til framleiðanda vegna ófullnægjandi skila á haustskýrslu í Bústofni, ófullnægjandi merkingum geitfjár samkvæmt reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár eða ef stofnunin telur að ráða megi af gögnum, eða ástæða er til þess af öðrum sökum að véfengja upplýsingar úr afurðaskýrsluhaldi framleiðanda. Matvælastofnun skal þá gera opinbera talningu á gripum framleiðanda.

Heimilt er að ráðstafa allt að 60% árlegs framlags til geitfjárræktar samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til gripagreiðslna.

26. gr.

Sláturálag.

Matvælastofnun skal ráðstafa framlögum til stuðnings við framleiðslu geitakjöts. Sláturálag er greitt á kiðakjöt og kjöt af fullorðnu sem er skráð í Heiðrúnu. Framlög skiptast jafnt á þá skrokka sem uppfylla gæðakröfur og skal Matvælastofnun greiða sláturálag til framleiðenda eigi síðar en 10. desember ár hvert.

Sláturálag skal reiknað með eftirfarandi stuðlum:

  Tegund kjöts   Stuðull
  Kiðakjöt   1,0
  Kjöt af fullorðnu   0,3

Heimilt er að ráðstafa allt að 17% árlegs framlags til geitfjárræktar samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til greiðslu sláturálags á geitakjöt.

27. gr.

Álag á mjólkurframleiðslu.

Matvælastofnun skal ráðstafa framlögum til álags á framleiðslu geitamjólkur. Álag á framleiðslu geitamjólkur er greitt fyrir þá lítra mjólkur sem eru innvigtaðir af aðilum sem hafa leyfi til að vinna úr geitamjólk. Sá aðili skal skila gögnum til Matvælastofnunar um magn innvigtaðrar mjólkur einstakra framleiðenda. Matvælastofnun skal greiða álag á framleiðslu geitamjólkur til framleiðanda eigi síðar en 10. desember ár hvert.

Heimilt er að ráðstafa allt að 8% árlegs framlags til geitfjárræktar samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til greiðslu álags á mjólkurframleiðslu.

Ef heimild 2. mgr. er ekki nýtt skal framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafa framlaginu til annarra verkefna skv. VI. kafla.

28. gr.

Sæðistaka, geymsla og fleira.

Matvælastofnun skal greiða framlög samkvæmt framlögðum reikningi og samningi Geitfjár­ræktar­félags Íslands við sæðingastöð um geymslu á sæði, töku á sæði og tækjabúnað.

Matvælastofnun ráðstafar allt að 15% af árlegum framlögum til geitfjárræktar samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til geymslu sæðis, töku á sæði og tækjabúnað.

Ef heimild 2. mgr. er ekki nýtt skal framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafa framlaginu til annarra verkefna skv. VI. kafla.

VII. KAFLI

Fjárfestingastuðningur í svínarækt.

29. gr.

Markmið.

Greidd eru framlög til fjárfestingastuðnings í svínarækt. Markmið stuðningsins er að auðvelda sérstaklega smærri svínabúum að hraða því að standast kröfur samkvæmt reglugerð um velferð svína nr. 1276/2014, með síðari breytingum.

Heimilt er að ráðstafa allt að 60% árlegs framlags til fjárfestingastyrkja í svínarækt samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til greiðslu fjárfestingastuðnings.

30. gr.

Auglýsing og umsókn.

Matvælastofnun annast umsýslu vegna fjárfestingastuðnings. Ár hvert auglýsir Matvælastofnun eftir umsækjendum um framlög til fjárfestingastuðnings. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknar­kerfi Matvælastofnunar, eigi síðar en 31. mars ár hvert vegna framkvæmda á árinu.

Framleiðandi í svínarækt sem heldur gyltur á búi sínu og uppfyllir eftirfarandi skilyrði, getur sótt um stuðning til fjárfestinga:

  1. Uppfyllir skilyrði 3 gr.
  2. Fullnægjandi skil á haustskýrslu í Bústofn skv. 10. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.
  3. Fullnægjandi skil á hjarðbók og heilsukorti og tryggir rétta framkvæmd á merkingum svína, í samræmi við reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár, með síðari breytingum.

Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda.
  2. Búsnúmer lögbýlis.
  3. Tegund stuðnings sem óskað er eftir.
    1. Nýframkvæmdir.
    2. Endurbætur á eldri byggingum.
    3. Kaup á innréttingum og búnaði.
  4. Heildarkostnaður vegna fjárfestingar.
  5. Rökstuðningur fyrir framkvæmd.
  6. Þegar greiddan fjárfestingastuðning ef við á.

Fylgiskjöl með umsókn, eftir því sem við á:

  1. Framkvæmdaáætlun með verklýsingu og tímasettri verkáætlun.
  2. Úrbótaáætlun samkvæmt reglugerð um velferð svína.
  3. Sundurliðuð kostnaðaráætlun.
  4. Byggingarleyfi, ef við á.
  5. Leyfi þinglýsts eiganda jarðar vegna framkvæmda.

Sé fyrirhugað að framkvæmdir sem sótt er um stuðning fyrir dreifist á fleiri en eitt ár skal umsækjandi gera grein fyrir áfangaskiptingu við framkvæmdirnar í heild sinni í verklýsingu og verk- og kostnaðaráætlun. Heimilt er að styðja sömu framkvæmdir í allt að þrú ár í senn.

31. gr.

Skilyrði stuðnings.

Fjárfestingastuðningur er veittur framleiðanda skv. 4. mgr. 30. gr. sem hyggst fara í framkvæmdir til að hraða því að standast kröfur samkvæmt reglugerð um velferð svína nr. 1276/2014, með síðari breytingum. Hafi framleiðandi fengið úreldingarbætur skulu þær dregnar frá þeim fjár­fest­inga­stuðningi sem honum er veittur.

Stuðningur er veittur vegna eftirfarandi framkvæmda:

  1. Vegna nýbygginga eða viðbygginga.
  2. Endurbóta á eldri byggingum, þar sem skipt er út meira en 50% af innréttingum.
  3. Kaupa á innréttingum og búnaði.

32. gr.

Útreikningur fjárfestingastuðnings.

Matvælastofnun annast úthlutun fjárfestingastuðnings og leggur mat á hvort umsóknir uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Matvælastofnun skal tilkynna framleiðanda um afgreiðslu umsóknar eigi síðar en 15. maí ár hvert.

Fjárfestingastuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40% af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna.

Kostnaður sem liggur að baki framkvæmdum sem óskað er stuðnings fyrir skal miðaður við staðal­verð fyrir hverja einingu, svo sem gotbása, gólfgerð og fleira. Staðalverð eininganna skal staðfest af fagaðila, svo sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Fjárfestingastuðningur skiptist hlutfallslega milli samþykktra umsókna. Hámarksstuðningur miðast við að meðalfjöldi gyltna hafi verið allt að 200 á árunum 2014-2016. Stuðningur skerðist í samræmi við neðangreinda töflu:

Gyltufjöldi Stuðull skerðingar
200 > 1,00
175 - 199 0,94
150 - 174 0,81
125 - 149 0,69
100 - 124 0,56
75 - 99 0,44
50 - 74 0,31
25 - 49 0,19
0 - 24 0,06

Framlög skerðast hlutfallslega á allar samþykktar umsóknir ef fjármunir hrökkva ekki til.

Við upphaf framkvæmdar sem telst styrkhæf greiðast 50% af samþykktri stuðningsupphæð og 50% í framhaldi af skilum á lokaskýrslu. Matvælastofnun er heimilt að óska eftir afriti af reikningum vegna framkvæmda sem nutu fjárfestingastuðnings.

33. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun hefur eftirlit með því að stuðningur sem veittur hefur verið hafi verið notaður til þeirra fjárfestinga sem getið er um í umsókn skv. 30. gr.

Matvælastofnun getur framkvæmt úttekt á framkvæmd stuðningsþega telji hún þess þörf. Ef Matvælastofnun telur að framkvæmdakostnaður eða einstaka kostnaðarliðir hafi farið fram úr því sem eðlilegt getur talist skal taka tillit til þess við útreikning á endanlegri styrkupphæð. Matvæla­stofnun skal upplýsa stuðningsþega um allar slíkar breytingar og gefa honum hæfilegan frest til and­mæla.

Matvælastofnun getur krafist endurgreiðslu á stuðningi sem greiddur hefur verið ef stuðningsþegi hefur ekki nýtt stuðninginn til framkvæmda sem sótt var um stuðning fyrir eða vísvitandi vikið frá upplýsingum samkvæmt umsókn. Komi í ljós að stuðningur sem greiddur hefur verið hafi ekki verið nýttur til framkvæmda sem sótt var um stuðning fyrir eða vikið hafi verið frá upplýsingum sam­kvæmt umsókn, skal framleiðandi endurgreiða þegar greiddan stuðning. 

VIII. KAFLI

Úreldingarbætur í svínarækt.

34. gr.

Markmið.

Greidd eru framlög til úreldingar gyltuhúsa á árunum 2017-2021 í þeim tilgangi að hraða endur­bótum í svínarækt til samræmis við kröfur í reglugerð um velferð svína nr. 1276/2014, með síðari breytingum.

Heimilt er að ráðstafa allt að 40% árlegs framlags til fjárfestingastyrkja í svínarækt samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins til greiðslu úreldingarbóta.

35. gr.

Rétthafar úreldingarbóta.

Framleiðendur sem uppfylla skilyrði 3. gr. og hafa haldið gyltur á árunum 2014-2016 geta sótt um úreldingarbætur í svínarækt.

36. gr.

Auglýsing og umsóknir.

Matvælastofnun skal auglýsa eftir umsóknum um úreldingu gyltuhúsa eigi síðar en 1. september 2017. Framleiðandi skv. 35. gr. skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar, umsókn um úreldingarbætur, eigi síðar en 25. september 2017.

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda eða lögaðila í hans eigu.
  2. Fastanúmer fasteignar sem óskað er að úrelda og matshlutanúmer ef við á.
  3. Upplýsingar um kvaðir og önnur eignarhöft.
  4. Samþykki leigusala, ef við á.
  5. Samþykki sameigenda, ef við á.
  6. Samþykki veðhafa, ef við á.
  7. Staðfesting löggilts endurskoðanda á fjárhæðum skulda.
  8. Staðfesting Matvælastofnunar um notkun hússins.

37. gr.

Greiðsla úreldingarbóta.

Matvælastofnun skal greiða framleiðanda úreldingarbætur þegar samningi um úreldingu hefur verið þinglýst skv. 38. gr.

Úreldingarbætur skiptast hlutfallslega milli samþykktra umsókna. Hámarksbætur miðast við að meðalfjöldi gyltna hafi verið allt að 200 á árunum 2014-2016. Matvælastofnun skal staðfesta fjölda gyltna samkvæmt skráningum sem skylt er að skrá skv. reglugerð um merkingar búfjár nr. 916/2012. Bætur skerðast í samræmi við neðangreinda töflu:

Gyltufjöldi Stuðull skerðingar
200 > 1,00
175 - 199 0,94
150 - 174 0,81
125 - 149 0,69
100 - 124 0,56
75 - 99 0,44
50 - 74 0,31
25 - 49 0,19
0 - 24 0,06

Matvælastofnun hefur eftirlit með því að úreldingarbótum sem veittar hafa verið sé ráðstafað í samræmi við samning skv. 38. gr.

Gangi framlög til úreldingarbóta ekki út, skiptist fjárhæðin hlutfallslega á umsækjendur fjár­fest­inga­stuðnings skv. VIII. kafla.

Komi í ljós að úreldingarbætur hafi ekki verið nýttar í samræmi við samning skv. 38. gr. eða vikið hafi verið frá upplýsingum samkvæmt umsókn, er Matvælastofnun heimilt að stöðva greiðslur samkvæmt samningi, sbr. 38. gr.

38. gr.

Samningur um úreldingu.

Matvælastofnun annast úthlutun úreldingarbóta og fer hún fram með samningi um úreldingu á milli Matvælastofnunar og framleiðanda. Í samningnum skal tilgreina eftirfarandi:

  1. Nafn og kennitölu framleiðanda.
  2. Heimilisfang og fasteign sem úrelding nær til.
  3. Fastanúmer og matshlutanúmer, ef við á.
  4. Áætlun um úreldingu fasteignar.
  5. Fjárhæð og útreikning úreldingarbóta.
  6. Yfirlýsingu eiganda fasteignarinnar um að hann skuldbindi sig til að nota eignina ekki fyrir gyltudeildir.

Samningurinn skal gerður í þremur eintökum, skal eitt afhent viðkomandi sýslumanni til þing­lýsingar, eitt framleiðanda og eitt skal vera í vörslu Matvælastofnunar.

Samningi um úreldingu gyltuhúsa skal þinglýsa sem ótímabundinni kvöð á þá fasteign sem úreldingin nær til. Um aflýsingu kvaðarinnar fer eftir ákvæðum þinglýsingalaga nr. 39/1978.

39. gr.

Réttaráhrif úreldingar.

Úrelding tekur gildi frá 1. nóvember 2017. Úrelding nær til þeirra fasteigna sem nýttar hafa verið sem gyltudeildir á árunum 2014 - 2016.

Óheimilt er að nota fasteign sem úreldingin nær til fyrir gyltur eftir að úrelding hefur farið fram og gildir kvöðin í ótakmarkaðan tíma sbr. 3. mgr. 38. gr. Aðrar takmarkanir eru ekki gerðar á notkun fasteignarinnar.

IX. KAFLI

Þróunarfjármunir búgreina.

40. gr.

Þróunarverkefni í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins annast vörslu fjármuna vegna þróunarverkefna í garðyrkju, naut­gripa­rækt og sauðfjárrækt en fjármunum er ætlað að styðja við kennslu, rannsóknir, leið­beiningar og þróun í framangreindum búgreinum. Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum 1. apríl og 1. október ár hvert og úthlutar styrkjum eftir umsóknum og samkvæmt reglu­gerð þessari.

41. gr.

Umsagnir fagráða.

Fagráð í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt skulu gefa umsagnir um allar umsóknir sem sjóðnum berast, eftir því sem við á. Framleiðnisjóður skal taka ákvörðun um úthlutun styrkja með hliðsjón af umsögnum fagráðanna. Fagráðin skulu leggja faglegt mat á umsóknir um styrki. Meðmæli fagráðs er forsenda styrkveitingar. Sé fagráð vanhæft til að fjalla um umsókn skal það tilkynna stjórn Framleiðnisjóðs um vanhæfi sitt. Stjórn Framleiðnisjóðs er þá heimilt að afgreiða umsókn án umsagnar fagráðs. Stjórn Framleiðnisjóðs er heimilt í slíkum tilvikum, telji hún þess þörf, að leita til sérfræðinga eða fagaðila til að leggja mat á umsóknina.

Fagráðum er heimilt að setja nánari verklagsreglur um mat á umsóknum um þróunarfé í við­kom­andi búgrein.

42. gr.

Skipting heildarframlaga milli búgreina.

Heildarframlög til þróunarverkefna skiptast á milli búgreina með eftirfarandi hætti:

  1. Garðyrkja 38%.
  2. Nautgriparækt 14%.
  3. Sauðfjárrækt 48%.

Í garðyrkju eru styrkhæf ráðgjafarverkefni, kynningarverkefni, rannsókna- eða tilraunaverkefni, vöruþróunarverkefni og endurmenntunarverkefni.

Í nautgriparækt eru þau verkefni styrkhæf sem talin eru styrkja íslenska nautgriparækt og fela í sér rannsóknir og þróunarverkefni.

Í sauðfjárrækt eru hver þau verkefni styrkhæf sem talin eru styrkja íslenska sauðfjárrækt og falla undir það að vera kennsla, rannsóknir, leiðbeiningar og/eða þróun í sauðfjárrækt.

43. gr.

Styrkþegar og umsókn.

Þrátt fyrir 3. gr. geta styrkþegar verið einstaklingar, rannsóknarhópar, háskólar, rann­sóknar­stofnanir, félög og fyrirtæki.

Umsóknum skal skila til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á sérstökum eyðublöðum sem sjóðurinn lætur í té.

Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn, eftir því sem við á:

  1. Listi yfir alla sem aðild eiga að verkefninu.
  2. Yfirlit um tilgang og markmið verkefnis, þ.m.t. rökstuðningur fyrir því hvernig það fellur að þeim markmiðum sem tilgreind eru í 40. gr. og hvernig það gagnast viðkomandi búgrein að öðru leyti.
  3. Tímaáætlun verkefnisins og upplýsingar um helstu áfanga þess.
  4. Fjárhagsáætlun verkefnisins í heild.
  5. Upplýsingar um hvernig niðurstöður verkefnisins verða kynntar.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins og fagráð geta óskað eftir frekari gögnum sé þess talin þörf til að leggja mat á umsókn.

44. gr.

Greiðsla.

Áður en styrkur er greiddur skal umsækjandi staðfesta að fjármögnun verkefnisins í heild hafi verið tryggð, sbr. d-lið 43. gr.

Greiða má allt að 40% af samþykktum styrk til styrkþega þegar verkefni er sannarlega hafið. 20% af styrk má svo greiða þegar áfangaskýrslu hefur verið skilað sem gefur til kynna að framvinda verkefnisins sé a.m.k. 60% af heildarverkefninu. Eftirstöðvar framlagsins 40%, má þá greiða þegar lokaskýrslu hefur verið skilað og hún samþykkt í viðkomandi fagráði. Framleiðnisjóði land­búnaðar­ins er þó heimilt að víkja frá þessu ef eðli verkefnisins eða aðrar veigamiklar ástæður krefjast þess.

45. gr.

Lokaskýrsla.

Styrkþegar skulu skila skýrslu um verkefnið til viðkomandi fagráðs eigi síðar en 6 mánuðum eftir að því lýkur. Sé verkefnið til lengri tíma en eins árs skal skila árlegri áfangaskýrslu. Í skýrslunni skal lagt mat á framgang verkefnisins og hverju það hafi skilað fyrir viðkomandi búgrein.

Framleiðnisjóði landbúnaðarins er heimilt að leita umsagna viðkomandi fagráðs um verkefna­skýrslur sem styrkþegum er gert að skila til sjóðsins. Allar lokaskýrslur skulu kynntar viðkom­andi fagráði.

46. gr.

Styrkur fellur niður.

Styrkveitingar til verkefna þar sem ekki tekst að uppfylla skilyrði þessara reglna um skýrsluskil og lok verkefnis, skv. 43. og 44. gr., innan 12 mánaða frá því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins samþykkir fyrirheit um styrk, falla niður. Framleiðnisjóði landbúnaðarins er heimilt, vegna sérstakra aðstæðna, að veita frest til ráðstöfunar framlaga á næsta ári eftir úthlutun, enda hafi borist formleg beiðni þess efnis frá styrkþega fyrir lok úthlutunarárs.

Framleiðnisjóði landbúnaðarins er heimilt að krefjast endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni ásamt kostnaði við innheimtu, ef verkefni sem veittur hefur verið styrkur fyrir er ekki unnið í samræmi við áætlanir.

X. KAFLI

Kæruheimild o.fl.

47. gr.

Kæruheimild.

Ágreiningi um ákvörðun Matvælastofnunar samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að skjóta til úrskurðar ráðherra innan þriggja mánaða, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga.

48. gr.

Endurgreiðsla ofgreiddra greiðslna.

Ef greiðslur samkvæmt reglugerð þessari hafa verið ofgreiddar ber handhafa greiðslna að endur­greiða ríkinu hið ofgreidda fé. Beri að endurgreiða greiðslur skal handhafi endurgreiða greiðslur með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Auk almennra vaxta skal handhafi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að greiðsla var greidd út.

49. gr.

Skerðing og niðurfelling greiðslna.

Matvælastofnun er heimilt að skerða eða fella niður greiðslur samkvæmt reglugerð þessari ef framleiðandi gefur vísvitandi rangar upplýsingar eða brýtur á annan hátt skilyrði reglugerðarinnar.

50. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt búvörulögum nr. 99/1993 og búnaðarlögum nr. 70/1998, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið skv. lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

51. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búnaðarlögum nr. 70/1998, með síðari breytingum og búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi frá og með 1. janúar 2017.

Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi auglýsing nr. 606/2011 um staðfestingu á reglum Bændasamtaka Íslands um framlög úr ríkissjóði til stuðnings við lífræna aðlögun í landbúnaði á árinu 2011.

Ákvæði til bráðabirgða.

Einstaklingum sem uppfylltu skilyrði 15. gr. um nýliðunarstuðning frá 1. mars 2016 til 31. desember 2016 er heimilt að óska eftir nýliðunarstuðningi samkvæmt IV. kafla á árinu 2017.

Þrátt fyrir 25. gr. er framleiðendum heimilt að skila skýrslum í Heiðrúnu eftir 12. desember 2016 vegna gripagreiðslna 1. mars 2017.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 28. desember 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica