Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

234/2020

Reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi með matvælum, fóðri o.fl.

1. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2019, frá 27. september 2019, öðlast eftirtalin ESB-gerð gildi hér á landi:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 frá 15. mars 2017 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt og um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 999/2001, (EB) nr. 396/2005, (EB) nr. 1069/2009, (EB) nr. 1107/2009, (ESB) nr. 1151/2012, (ESB) nr. 652/2014, (ESB) 2016/429 og (ESB) 2016/2031, reglugerðum ráðsins (EB) nr. 1/2005, og (EB) nr. 1099/2009 og til­skipunum ráðsins 98/58/EB, 1999/74/EB, 2007/49/EB, 2008/119/EB og 2008/120/EB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 og (EB) nr. 882/2004, tilskipunum ráðsins 89/608/EBE, 89/662/EBE, 90/425/EBE, 91/496/EBE, 96/23/EB, 96/96/EB og 97/78/EB og ákvörðun ráðsins 92/438/EBE (reglugerð um opinbert eftirlit). Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 86, frá 24. október 2019, bls. 62.

 

2. gr.

Viðbætur.

  1. Eftirfarandi bætist við á eftir orðunum "þeirrar reglugerðar" í 5. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 76. gr.: eða í samræmi við tollafgreiðslu á Íslandi eða í Noregi.
  2. Eftirfarandi bætist við á eftir orðunum "reglugerðar (ESB) nr. 952/2013" í 1. mgr. 64. gr.: eða í samræmi við tollafgreiðslu á Íslandi eða í Noregi.
  3. Á eftir orðunum "fram­kvæmdastjórnina", "framkvæmdastjórninni" í 1. og 2. mgr. 108. gr. bætast við orðin: og Eftirlitsstofnun EFTA ef þær varða EFTA-ríki.
  4. Ákvæði 124. gr. gildir ekki um Ísland.
  5. Á eftir orðinu "fram­kvæmda­stjórnin" í 1. mgr. 141. gr. bætast við orðin: eða Eftirlitsstofnun EFTA hvað varðar EFTA-ríkin.
  6. Eftirfarandi er bætt við I. viðauka:
    1. Yfirráðasvæði Íslands.
    2. Yfirráðasvæði Konungsríkisins Noregs að Svalbarða undanskildum.

 

3. gr.

Orðskýringar.

Kímefni er sæði, eggfrumur og fósturvísar sem eru ætluð til tæknifrjóvgunar, sem og útung­unar­egg.

 

4. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar þessarar vegna matvælaeftirlits sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar þessarar vegna fóðureftirlits sé framfylgt í samræmi við lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.

 

5. gr.

Framkvæmd eftirlits og niðurstöður.

Eftirlit opinberra eftirlitsaðila skal framkvæmt með samræmdum hætti og skulu heilbrigðis­nefndir sveitarfélaganna framkvæma opinbert eftirlit með matvælum samkvæmt fyrirmælum og leið­beiningum Matvælastofnunar, samanber 8. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

Niðurstöður matvælaeftirlitsins skulu skráðar á samræmdan hátt í eftirlitsgagnagrunn sem Matvæla­stofnun skal láta heilbrigðisnefndum sveitarfélaga í té.

Matvælastofnun skal taka saman árlegar upplýsingar um niðurstöður eftirlits og skal stofnunin byggja annars vegar á skráningum í eftirlitsgrunn og hins vegar á gögnum sem heilbrigðisnefndum sveitarfélaga er skylt að senda Matvælastofnun fyrir 1. mars ár hvert.

Matvælastofnun skal útbúa eyðublöð þar sem fram kemur hvernig þessar upplýsingar skulu skráðar.

 

6. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, eða 9. gr. og 9. gr. a - 9. gr. e laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

 

7. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli, og 7. gr. laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Reglugerðin öðlast þegar gildi og á sama tíma falla brott reglugerð nr. 564/2010 um samstarf á sviði heilbrigðislöggjafar vegna dýra og dýraræktar og reglugerð nr. 606/2010 um gildistöku til­skipunar ráðsins 96/93/EB um vottun dýra og dýraafurða.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. mars 2020.

 

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Iðunn Guðjónsdóttir.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica