I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til allra líkkistna sem nota á við greftrun eða líkbrennslu í skilningi laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu svo og duftkerja. Jafnframt tekur hún til skilyrða fyrir framkvæmd líkbrennslu og annarra atriða þar að lútandi.
2. gr.
Markmið.
Markmiðið með reglugerð þessari er að tryggja að líkkistuframleiðendur og starfsmenn útfararstofa noti þær líkkistur og umbúnað sem getið er um í reglugerð þessari í tengslum við greftrun, líkbrennslu og flutning á líkum innan lands og utan. Þannig ætti mengun við niðurbrot kistu eða duftkers í jarðvegi og við líkbrennslu að verða í lágmarki, ásamt því að tryggja öryggi við líkbrennslu. Enn fremur miðar hún að því að skýra ákvæði, er varða framkvæmd líkbrennslu, í lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, og vera þeim til fyllingar.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
Grafarkista: líkkista sem nota skal við greftrun.
Brennslukista: líkkista sem nota skal við líkbrennslu.
Flutningsumbúnaður: líkkista og annar búnaður, s.s. líkpoki, sem nota skal til flutnings á líki milli landshluta og landa.
Duftker: kerílát sem aska látins manns er varðveitt í eða jarðsett í.
II. KAFLI
Kistur.
4. gr.
Grafarkistur.
Grafarkistur skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
Gerð: Grafarkistur skulu ekki vera lengri að utanmáli en 230 sm, ekki hærri en 80 sm og ekki breiðari en 100 sm, þar með talin handföng og sökkull (fætur). Grafarkistur skulu vera úr efni sem samlagast jarðvegi í kirkjugarði á eðlilegum tíma og hindrar ekki náttúrulegt niðurbrot. Þær skulu enn fremur vera loft- og vökvaheldar. Þegar þess er þörf skal kítta saman undir- og yfirkistu.
Efniviður: Allt óvatnsvarið efni, s.s. gegnheill viður, spónaplötur (E1) og MDF (Medium Density Fiberboard).
Handföng: Handföng skulu vera úr tré eða plasti, sem hefur eðlilegt niðurbrot og samlagast jarðvegi og valda ekki mengun. Sé um reipi að ræða skulu þau vera gerð úr trefjum sem tilheyrir plönturíkinu, s.s. pappa, hampi, sísal eða öðrum ómengandi efnum. Aðrar tegundir handfanga eru ekki leyfðar.
Áfastar kistuskreytingar: Áfastar kistuskreytingar, s.s. krossar og skrautmunstur (lassínur), skulu unnar úr niðurbrjótanlegu efni sem samlagast jarðvegi. Skreytingar úr öðrum efnum ber að fjarlægja af kistu fyrir jarðsetningu. Efni sem nota má eru: MDF, maísmassi, spónaplötumassi, masonit og viðurkennt niðurbrjótanlegt plast.
Lausar kistuskreytingar: Lausar kistuskreytingar, s.s. burðarvirki og festingar blóma og kransa, skulu vera úr vistvænu og viðurkenndu niðurbrjótanlegu efni. Vottun þar um skal liggja fyrir hjá viðkomandi blómasala.
Yfirborðsmeðhöndlun: Efni í málningu eða annarri yfirborðsmeðhöndlun á grafarkistu má ekki geyma þungmálma eða önnur mengandi efni. Enn fremur mega kistur ekki vera plastklæddar.
Kistuloksskrúfur: Kistuloksskrúfur mega hvorki vera gerðar úr óniðurbrjótanlegu plasti né skreyttar með með sink- eða blýskrauti. Vottun frá framleiðanda um efnisgerð skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu.
Samsetningarefni: Málmefni, s.s. vinklar, skrúfur, naglar og hefti mega ekki vega meira en 200 grömm í hverri kistu.
Límefni: Lím verður að vera niðurbrjótanlegt og hafa vistvænan stimpil.
Innri umbúnaður: Innri umbúnaður, s.s. líkklæði, sæng, koddi og blæja, skal vera úr niðurbrjótanlegu efni sem samlagast jarðvegi. Óheimilt er að nota einangrunarefni, s.s. glerull, steinull og plast. Líkpoka eða blikkkistu (zink) ber að fjarlægja að fengnu leyfi héraðslæknis.
Vottun um efni í kistu, fasta fylgihluti og kistuloksskrúfur skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu. Uppfylli grafarkista ekki framangreind skilyrði skal umsjónarmaður viðkomandi kirkjugarðs gefa um það skýrslu til yfirstjórnar kirkjugarðsins, áður en umsókn um greftrun er afgreidd.
5. gr.
Brennslukistur.
Brennslukistur skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
Gerð: Brennslukistur skulu ekki vera lengri að utanmáli en 230 sm, ekki hærri en 80 sm og ekki breiðari en 80 sm, þar með talin handföng og sökkull (fætur). Brennslukistur skulu vera úr efni sem ekki valda mengun við brennslu eins og getið er um hér að neðan.
Efniviður: Kista skal vera úr gegnheilu timbri, óvatnsvörðu MDF og spónaplötum (E1). Efnisþykkt skal minnst vera 14 mm.
Handföng: Handföng skulu vera úr tré eða plasti, sem er sérstaklega ætlað til brennslu og valda ekki mengun. Sé um reipi að ræða skulu þau vera gerð úr efni sem tilheyrir plönturíkinu, s.s. pappa, hampi, sísal eða öðrum ómengandi efnum.
Kistuskreytingar: Kistuskreytingar skulu unnar úr tré, masoníti eða hreinum pappa.
Yfirborðsmeðhöndlun: Málning eða önnur yfirborðsmeðhöndlun má ekki innihalda þungmálma eða önnur mengandi efni. Enn fremur mega kistur ekki vera plastklæddar eða úr efnum sem valda sprengihættu eða ótímabærum eldi.
Kistuloksskrúfur: Skrúfur (skreytingar) úr sinki eða blýi, eða skrúfur sem geyma slík efni, má ekki nota til brennslu.
Samsetningarefni: Málmefni, s.s. vinklar, skrúfur, naglar og hefti mega ekki vega meira en 250 grömm í hverri kistu.
Límefni: Lím verður að vera niðurbrjótanlegt og hafa vistvænan stimpil.
Innri umbúnaður: Innri umbúnaður, s.s. líkklæði, sæng, koddi og blæja, skal vera úr efni sem valda ekki mengun við brennslu. Óheimilt er að nota einangrunarefni, s.s. glerull, steinull og plast. Ekki er leyfilegt að brenna kistu sem inniheldur líkpoka eða blikkkistu (zink).
Vottun um efni í kistu, fasta fylgihluti og kistuloksskrúfur skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu. Uppfylli brennslukista ekki framangreind skilyrði skal umsjónarmaður viðkomandi kirkjugarðs gefa um það skýrslu til stjórnar kirkjugarðsins, áður en umsókn um bálför er afgreidd.
6. gr.
Flutningsumbúnaður.
Þurfi að flytja lík á milli landshluta eða landa skal nota kistur og/eða líkpoka sem sérstaklega eru ætlaðir í því skyni og uppfylla skilyrði viðkomandi flutningsaðila.
7. gr.
Skyldur aðila er annast útfararþjónustu fyrir líkbrennslu.
Útfararstjórar svo og aðrir, er annast undirbúning og frágang hins látna í líkkistu fyrir líkbrennslu eða greftrun, skulu ganga úr skugga um að ekki séu lagðir í kistuna aðskotahlutir sem valdið geta sprengihættu eða mengun við líkbrennslu eða mengun við greftrun. Leiki vafi á í þessum efnum skal málið til lykta leitt í samráði við hlutaðeigandi bálstofu eða kirkjugarð.
Haga skal ofangreindum frágangi varðandi gangráða og önnur hjálpartæki sem komið hefur verið fyrir í hinum látna í samræmi við samkomulag er gildir milli landlæknis og bálstofunnar í Reykjavík.
III. KAFLI
Framkvæmd greftrunar.
8. gr.
Útfararstofu þeirri, sem annast undirbúning greftrunar, ber skylda til þess að sjá um að sótt sé um grafreit til viðkomandi kirkjugarðsstjórnar með a.m.k. þriggja daga fyrirvara.
Starfsmönnum kirkjugarðs, sem annast greftrun, er skylt að kanna tvisvar, með aðskildum hætti, umbeðna staðsetingu á þeim grafreit sem beðið er um og grafa skal í. Einnig skulu þeir tryggja að upplýsingar liggi fyrir um utanmál þeirrar kistu sem grafa skal. Við grafartökuna skal þess gætt að gott aðgengi sé jafnan að gröfinni og umhverfi snyrtilegt og jarðvegur fjarlægður sé því við komið. Grafstæði skal vera 2,50 x 1,20 metrar og grafstæði duftkera 0,75 x 0,75 metrar. Ganga skal þannig frá grafarbökkum að ekki hljótist hætta af. Til þess að verja grafarbakkana og auðvelda aðgengi getur verið heppilegt að leggja gönguplanka á bakkana. Notast skal við kaðla eða sigtæki til að láta kistu síga niður í gröf. Klæða má grafir að innan með grafardúk ef þurfa þykir, svo sem vegna hættu á jarðvegshruni. Þegar mokað er ofan í gröfina skal þess gætt að jarðvegur nái 20 - 30 sm upp fyrir grafarbakka til að mæta jarðvegssigi.
IV. KAFLI
Framkvæmd líkbrennslu.
9. gr.
Bálstofur.
Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í bálstofum, sem viðurkenndar hafa verið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sem hlotið hafa starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum.
Samþykki ráðuneytisins um staðsetningu og skipulag bálstofu í aðalatriðum er áskilið áður en bygging bálstofu hefst.
Ekki má hefja starfrækslu bálstofu fyrr en ráðuneytinu hefur verið tilkynnt um hverjir séu stjórnendur hennar og ábyrgir fyrir því, að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.
Bálstofum skal ávallt haldið í góðu lagi, tæki vel nothæf, starfslið vel þjálfað og nægjanlegt auk þess sem starfshættir skulu vera hreinlegir, skipulegir og viðeigandi.
Stjórnendur bálstofu skulu setja verklagsreglur fyrir starfsemina. Ráðuneytinu skal afhent eintak af reglunum auk þess sem tilkynna þarf breytingar á þeim til ráðuneytisins. Eftirlit með rekstri bálstofa skal vera í höndum ráðuneytisins og heilbrigðisyfirvalda eða annarra aðila sem ráðuneytið tilnefnir sérstaklega. Ávallt skal veita eftirlitsaðilum aðgang að bálstofum óski þeir þess.
10. gr.
Skilyrði líkbrennslu.
Við hverja bálstofu skal halda bálfarabók. Færa skal inn í hana í samfelldri töluröð, sérhvert lík sem brennt er, fullt nafn hins látna, dánarstað, dánardægur, bálfarardag og afdrif öskunnar.
11. gr.
Áður en líkbrennsla er framkvæmd skal sá aðili, sem sér um framkvæmd hennar, sjá til þess að fyrir liggi vottorð frá viðkomandi sýslumanni eða fulltrúa hans, að höfðu samráði við lögreglustjóra, þess efnis að ekkert sé því til fyrirstöðu, af hálfu embættisins, að líkið verði brennt.
12. gr.
Merkja skal vottorð það sem 11. gr. kveður á um með innfærslutölu líkbrennslu í bálfarabók og skulu slík vottorð geymd í skjalasafni bálstofu.
Beiðnir aðstandenda um líkbrennslu, sbr. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, skulu vera skriflegar og geymast einnig í skjalasafni bálstofu.
13. gr.
Um framkvæmd líkbrennslu og meðferð ösku.
Óheimilt er að hreyfa við líki úr kistu fyrir líkbrennslu nema kistan uppfylli ekki ákvæði reglugerðar þessarar. Þegar öll skilyrði fyrir framkvæmd líkbrennslu eru uppfyllt skal brennslukistan og innihald hennar flutt til líkbrennslu í því ástandi sem útfararstofa hefur afhent hana.
Hver brennslukista í umsjá bálstofu skal brennd ein og sér.
Gæta skal ýtrustu varúðar varðandi auðkenni hins látna frá móttöku í líkhús þar til ösku hins látna hefur verið komið fyrir í duftkeri. Auðkenna skal hverja kistu með númeraplötum úr eldföstum leir.
Stjórnendur og starfsmenn bálstofu skulu ávallt sýna virðingu við meðferð líks og framkvæmd líkbrennslu.
14. gr.
Þegar að lokinni líkbrennslu skal öskunni safnað vandlega saman og búa um hana í þar til gerðu duftkeri, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Duftker þessi skulu gerð úr niðurbrjótanlegu efni, s.s. léttbrenndum leir, tré, hertum pappa eða öðru jafngildu efni.
Þó má notast við ker úr haldmeira efni sem ekki veldur mengun í jarðvegi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku utan kirkjugarða skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu. Nota skal sérstök öskudreifingaker, þegar ösku er dreift á þar til gerða reiti innan kirkjugarðs.
Ef aska hins látna er ekki jarðsett, þegar að lokinni líkbrennslu, skal duftkeri komið fyrir í læstum traustum skáp við bálstofuna. Þurfi að senda öskuna til annarra staða skulu forráðamenn bálstofu búa um kerið á tilhlýðilegan og öruggan hátt. Viðtakendur duftkersins skulu staðfesta móttöku þess skriflega. Viðtakendur geta verið aðstandendur, hlutaðeigandi sóknarprestar, starfsmenn í útfararþjónustu, kirkjugarðsverðir eða eftir atvikum forráðamenn bálstofu, sem svo skulu sjá um jarðsetningu öskunnar.
15. gr.
Stjórnendur kirkjugarðs skulu hafa samráð við stjórnendur bálstofu, sem liggur að kirkjugarði, um efni þessarar reglugerðar, nema um sömu stjórn sé að ræða. Um duftreiti og kapellur innan kirkjugarða fer eftir þeim reglum sem settar hafa verið af stjórnendum viðkomandi kirkjugarðs.
16. gr.
Vilji stjórnendur bálstofu koma upp duftreitum eða geymsluhvelfingum utan kirkjugarða, en þó í sambandi við bálstofuna, er slíkt heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins, sem setur reglur um slíka starfsemi.
17. gr.
Ráðuneytið skal ávallt eiga aðgang að öllum bókum og skjölum bálstofu. Ef bálstofa er lögð niður skulu öll skjöl og bálfarabækur afhentar Þjóðskjalasafninu.
V. KAFLI
Almenn ákvæði.
18. gr.
Ef brotin eru fyrirmæli III. og IV. kafla reglugerðar þessarar, svo og fyrirmæli stjórnvalda sem byggð eru á þeim, getur ráðuneytið svipt bálstofu viðurkenningu skv. 9. gr. uns ráðuneytið telur tryggt að nægilegar úrbætur hafi átt sér stað.
19. gr.
Brot gegn reglugerð þessari varða að öðru leyti viðurlögum skv. 52. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.
20. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 50. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 4/1951 um framkvæmd líkbrennslu, reglugerð nr. 669/2005 um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu og reglugerð nr. 899/2005 um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu.
Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. júlí 2007.
Björn Bjarnason.
Bryndís Helgadóttir.