Brottfallnar reglugerðir

805/1999

Reglugerð um úrgang - Brottfallin

Felld brott með:

REGLUGERÐ

um úrgang.

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

Markmið.

1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum neikvæðum breytingum á umhverfinu.  Jafnframt er það markmið að úrgangur verði meðhöndlaður samkvæmt eftirfarandi forgangsröð: að dregið verði með skipulögðum hætti úr myndun úrgangsefna eins og mögulegt er, úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun, endurnýtingu, þ.m.t. endurvinnslu og orkuvinnslu, og förgun úrgangs verði með skipulögðum hætti þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma, enda verði mengun ekki óhófleg.

 

Gildissvið.

2. gr.

2.1 Reglugerð þessi er um úrgang og meðhöndlun úrgangs og gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin gildir um úrgang frá landbúnaði. Ákvæði reglugerðarinnar gilda um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.

2.2 Reglugerðin gildir hvorki um lofttegundir sem hleypt er út í andrúmsloftið né geislavirkan úrgang.

 

Skilgreiningar.

3. gr.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.3 Eftirlit er athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

3.4 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.5 Meðhöndlun úrgangs (sorphirða) er söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.

Böggun er þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans.

Flokkun er aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.

Flutningur er það ferli þegar úrgangur er fluttur í atvinnuskyni til endurnotkunar, endurnýtingar eða förgunar.

Endurnotkun er notkun úrgangs sem ekki hefur verið beittur aðferðum sem fram koma í V. viðauka í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Endurnýting er hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, sjá nánar V. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Förgun er aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og komið fyrir varanlega, sjá nánar aðferðir í IV. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Pökkun er þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.

3.6 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.7 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.8 Móttökustöð er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangur til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum.

Undir móttökustöð falla:

Flokkunarmiðstöðvar sem eru staðir þar sem tekið er við úrgangi sem er safnað saman kerfisbundið til flokkunar til endurnýtingar og/eða til förgunar. Staðurinn þjónar að jafnaði fleiri en einu sveitarfélagi.

Urðunarstaðir og eru þeir þrenns konar:

a. urðun heimilis- og rekstrarúrgangs,

b. urðun spilliefna,

c. urðun óvirks úrgangs.

Brennslustöðvar fyrir úrgang í samræmi við reglugerðir þar að lútandi.

3.9 Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.

3.10 Ruslabiður eru ílát sem komið er fyrir á almannafæri í því skyni að auðvelda fólki að losa sig við úrgang.

3.11 Sorpgeymsla er aðstaða í eða við fasteign, fyrirtæki eða stofnun þar sem úrgangi er safnað áður en hann er fluttur til söfnunarstöðva eða móttökustöðva.

3.12 Sorpílát eru ílát til að safna úrgangi, s.s. tunnur og gámar af ýmsum stærðum.

3.13 Spilliefni er úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, og einnig annar úrgangur sem hefur einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka þeirrar reglugerðar.

3.14 Söfnunarstöð (gámastöð) er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.

3.15 Úrgangur er hvers kyns efni eða hlutir, sbr. I. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.

Tegundir úrgangs eru t.d.:

Eftir uppruna:

Heimilisúrgangur (sorp) er úrgangur frá heimilum, til dæmis matarleifar, pappír, plast, gler og hverskyns tæki sem safnað er með sorphreinsun sveitarfélaga.

Rekstrarúrgangur er úrgangur frá framleiðslu, þjónustu og verslun, til dæmis matarleifar, pappír, pappi, plast, gler, timbur, málmar, leifar framleiðslu o.þ.h.

Landbúnaðarúrgangur er úrgangur frá landbúnaði, til dæmis húsdýraskítur, gamalt hey, landbúnaðarplast.

Byggingarúrgangur er úrgangur frá byggingarframkvæmdum, niðurrifi húsa, gatnagerð, virkjanaframkvæmdum, til dæmis múrbrot, timbur, málmar, gifs, jarðvegur, steinefni.

Hreinsunarúrgangur er úrgangur vegna hreinsunar vatns eða lofts, til dæmis síu- og ristarúrgangur, seyra, ryk frá rykhreinsivirkjum.

Eftir gerð:

Umbúðir (pappír, pappi, plast, timbur, gler, málmar), lífrænn úrgangur (matarleifar, seyra), plast, gúmmí, málmar, timbur, steinefni og gler.

Eftir eiginleikum:

Spilliefni, sbr. skilgreiningu í 13. mgr., t.d. sóttmengaður úrgangur og olíuúrgangur.

Úrgangur án spilliefna er úrgangur frá heimilum og atvinnurekstri, til dæmis matarleifar, umbúðir og úrgangur sem fellur til við framleiðslu, verslun og þjónustu svo sem pappír timbur og fleira.

Óvirkur úrgangur er úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.

 

II. KAFLI

Umsjón.

Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4. gr.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

 

Verkefni sveitarfélaga.

5. gr.

5.1 Verkefni sveitarfélaga er meðhöndlun úrgangs í samræmi við reglur þar að lútandi nema annað sé sérstaklega tekið fram.

 

III. KAFLI

Meginreglur.

Meðhöndlun úrgangs.

6. gr.

6.1 Meðhöndlun úrgangs skal vera með þeim hætti að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af.

6.2 Draga skal eins og unnt er úr myndun úrgangs. Stefnt skal að endurnotkun og endurnýtingu hans svo sem kostur er. Beita skal bestu fáanlegri tækni við meðhöndlun úrgangs.

6.3 Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.  Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum.

6.4 Opin brennsla úrgangs er óheimil. Þetta á þó ekki við um brennur, t.d. áramótabrennur o.þ.h., sem starfsleyfi hefur verið veitt fyrir, sbr. ákvæði 17. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, enda sé í leyfinu kveðið á um að brennslutími miðist við tilefnið og að efni og magn sem fari í brennuna sé tilgreint.

6.5 Heilbrigðisnefnd getur krafist þess að sá sem brotið hefur ákvæði þessarar greinar hreinsi upp eða greiði kostnað þeim sem verkið vinna. Þessu ákvæði má einnig beita gagnvart þeim sem sjá um að tæma ruslabiður og sorpílát, hafi ófullnægjandi tæming leitt til þess að úrgangur hafi dreifst.

6.6 Atvinnurekstur sem fer með tiltekna þætti meðhöndlunar úrgangs eða stundar einhverja þá starfsemi sem tilgreind er í IV. og V. viðauka reglugerðar um skrá um spilliefni og annan úrgang skal hafa starfsleyfi.

6.7 Meðhöndlun úrgangs má einungis heimila í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, og aðrar reglugerðir er varða úrgang og reglugerð um starfsleyfi.

 

Um almennan þrifnað utanhúss.

7. gr.

7.1 Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni.

7.2 Nefndin getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið.

7.3 Ennfremur er nefndinni heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna á kostnað eigenda, ennfremur niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu og ef sérstök ástæða er til.

 

Um þrifnað lóða.

8. gr.

8.1 Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.

8.2 Heilbrigðisnefnd getur, ef þurfa þykir krafist að lóðir séu girtar og lagfærðar á viðunandi hátt.  Sveitarstjórn skal sjá um að hreinsun fari fram á opinberum stöðum, t.d. görðum og torgum.  Sveitarstjórn og/eða heilbrigðisnefnd getur látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda gerist þess þörf, sbr. 5. mgr. 6. gr.

 

IV. KAFLI.

Geymsla og flutningur úrgangs.

Skyldur einstaklinga - fasteignareigenda.

9. gr.

9.1 Fasteignareigandi skal sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum.

9.2 Sorpílát sem geymd eru utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu og vera þannig staðsett að aðgangur að þeim sé greiður og af þeim geti ekki stafað óþægindi eða óþrifnaður fyrir umhverfið. Fasteignareigandi skal ganga þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að þær valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Þeim skal haldið við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega. Sorpgeymslur má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

9.3 Viðkomandi heilbrigðisnefnd getur gefið fyrirmæli um fjölda, staðsetningu og gerð sorpíláta. Sjá að öðru leyti byggingarreglugerð.

 

Skyldur rekstraraðila og fasteignareigenda.

10. gr.

10.1 Meðhöndlun úrgangs sem fellur til vegna atvinnurekstrar skal vera í samræmi við reglugerð þessa.  Það á við hvort sem hann er rekinn í lengri eða skemmri tíma í þéttbýli eða dreifbýli, þar með taldir ferðamannastaðir og aðrir staðir þar sem fólk kemur saman.

10.2 Úrgangi sem fellur til við atvinnurekstur skal safna saman og flytja brott þegar í stað eða geyma með þeim hætti að óhollusta eða óþrifnaður stafi ekki af. Úrgang skal geyma í hentugum og heilum sorpílátum þannig gerðum að auðvelt sé að tæma þau. Rekstraraðili ber einnig ábyrgð á nauðsynlegri hreinsun nálægs umhverfis.

10.3 Rekstraraðili skal sjá til þess að rekstri hans fylgi nægilega mörg sorpílát, þ.m.t. ruslabiður, og að þau séu lagfærð og endurnýjuð eftir þörfum. Óheimilt er að veita atvinnurekstri starfsleyfi nema fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi til þess að geyma úrgang.

10.4 Sorpílát sem geymd eru utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu og vera þannig staðsett að aðgangur að þeim sé greiður og af þeim geti ekki stafað óþægindi eða óþrifnaður fyrir umhverfið. Fasteignareigandi skal ganga þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að þær valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega. Sorpgeymslur má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

10.5 Viðkomandi heilbrigðisnefnd getur gefið fyrirmæli um fjölda, staðsetningu og gerð sorpíláta. Sjá að öðru leyti byggingarreglugerð.

10.6 Þar sem gámar eru notaðir undir úrgang skal hlíta fyrirmælum heilbrigðisnefndar um allt er varðar gerð þeirra, staðsetningu og þrif.

10.7 Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá (framleiðsluúrgangur, spilliefni) sjá um flutning og bera kostnað vegna endurnýtingar eða förgunar.

10.8 Rekstraraðilar húsnæðis eða svæða þar sem salernisúrgangur, ristarúrgangur eða seyra fellur til sjá um alla meðferð og flutning úrgangsins, svo fremi ekki sé í gildi sérstök heilbrigðissamþykkt sem kveður á um annað.

 

Verkefni sveitarstjórna - tæming og flutningur.

11. gr.

11.1 Sveitarstjórn skal ákvarða með hvaða hætti söfnun heimilisúrgangs er háttað í sveitarfélaginu.  Sveitarstjórn sér um tæmingu sorpíláta og flutning heimilisúrgangs sé það ekki falið öðrum með samningi. Sveitarstjórn getur að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd ákveðið flokkun á úrgangi jafnt á heimilum, stofnunum og vinnustöðum sem og á söfnunar- og móttökustöð og skil á flokkuðum úrgangi til söfnunar- og móttökustöðva.

11.2 Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs frá öllum íbúum á viðkomandi svæðum. Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp sorpílát (gáma) í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili.  Staðsetning sorpíláts (gáms) skal vera þannig að aðgengi að gámnum sé gott.

11.3 Flutningur úrgangs skal fara fram með þeim hætti að óþrifnaður stafi ekki af.

11.4 Heimilisúrgang skal flytja til söfnunar- eða móttökustöðva sem sveitarstjórn kemur fyrir í samráði við heilbrigðisnefnd. Rekstur söfnunar- og móttökustöðva er háður starfsleyfi í samræmi við reglugerð þar að lútandi.

 

12. gr.

12.1 Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm og úrgangi úr öðrum hreinsivirkjum þar sem til fellur lífrænn, mengandi eða sóttmengaður úrgangur, sbr. þó 8. mgr. 10. gr. og ákvæði einstakra starfsleyfa.

 

Ferðamannastaðir o.fl.

13. gr.

13.1 Sveitarstjórn og yfirvöld fólkvanga og þjóðgarða skulu í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp ruslabiður á ferðamannastöðum og öðrum stöðum þar sem reikna má með mannsöfnuði og sjá um viðhald og tæmingu þeirra sé það ekki falið öðrum rekstraraðila.

13.2 Förgun úrgangs í óbyggðum, þ.m.t. urðun, er óheimil. Allan úrgang sem verður til í óbyggðum skal flytja í söfnunar- eða móttökustöð sem hefur starfsleyfi.

13.3 Sveitarstjórn skal í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp sorpílát (gáma) í nánd við sumarhúsahverfi. Séu fleiri en 20 sumarhús í hverfinu skal staðsetning sorpíláts (gáms) vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu. Gæta skal að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs. 

 

V. KAFLI

Endurnotkun og endurnýting úrgangs.

Meginreglur.

14. gr.

14.1 Ávallt skal leita leiða til að endurnota eða endurnýta úrgang. Þann hluta sem ekki verður nýttur skal flytja til söfnunar- eða móttökustöðva sem hafa starfsleyfi.

14.2 Hreinsaður úrgangur sem fellur til við hreinsun fráveituvatns, s.s. salernisúrgangur, síu- eða ristarúrgangur og seyra sem ekki verður nýtt, skal flytja til móttökustöðvar sem hefur starfsleyfi. Þetta gildir einnig um úrgang frá landbúnaði nema reglugerð kveði á um annað. Taka skal mið af ákvæðum reglugerðar um seyru þegar seyra er nýtt til uppgræðslu, í landbúnaði eða til annarra nota.

 

VI. KAFLI

Förgun úrgangs o.fl.

Ábyrgð sveitarstjórna.

15. gr.

15.1 Sveitarstjórn eða sveitarstjórnir leggja til og sjá um að rekin sé móttökustöð fyrir förgun úrgangs, t.d. urðunarstaður eða sorpbrennslustöð. Urðun og brennsla úrgangs er starfsleyfisskyldur atvinnurekstur.

 

Staðsetning söfnunar- og móttökustöðva.

16. gr.

16.1 Söfnunar- og móttökustöðvar skulu vera þannig staðsettar og reknar að óþrifnaður og mengun hljótist ekki af.

16.2 Til að vernda heilsu fólks skal tryggja nægjanlega fjarlægð söfnunar- og móttökustöðva fyrir úrgang frá íbúðarhverfum, skólum, matvælaframleiðslu- og sölustöðum, heilbrigðisstofnunum og öðrum dvalarstöðum fólks. Móttökustöðvar skulu vera í a.m.k. 500 m fjarlægð frá íbúðarhverfum, skólum, matvælaframleiðslu- og sölustöðum, heilbrigðisstofnunum og öðrum dvalarstöðum fólks.

 

Urðun úrgangs.

17. gr.

17.1 Hollustuvernd ríkisins setur skilyrði og upplýsingar um urðun úrgangs sem fara skal eftir. Í þeim skal m.a. koma fram ákvæði um staðarval fyrir urðunarstaði, forsendur fyrir urðun úrgangs m.t.t. grunnvatns- og jarðvegsverndar, hávaða, meindýra, tæknilegar kröfur sem gera skal til urðunarstaða, mengunarvarnir og endanlegan frágang urðunarstaða.

17.2 Þegar starfsleyfi fyrir urðunarstaði eru undirbúin skal gæta sérstaklega að ákvæðum reglugerðar um losun efna í grunnvatn.

 

VII. KAFLI

Starfsleyfisskylda.

Meðhöndlun úrgangs.

18. gr.

18.1 Meðhöndlun úrgangs er háð starfsleyfi eins og nánar segir í reglugerð þessari og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í starfsleyfi skulu vera ákvæði sem miða að því að vernda umhverfi og heilsu manna. Jafnframt skal tekið tillit til aðstæðna á viðkomandi stað.

18.2 Í starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. skulu vera ákvæði um skrásetningu, magn, eðli, uppruna og, þar sem við á, áfangastað, söfnunartíðni, flutningsaðferð og aðra þætti meðhöndlunar úrgangs. Enn fremur skulu vera ákvæði í starfsleyfi sem varða tegund og magn úrgangs, tæknikröfur, varúðarráðstafanir, förgunarstað og aðra þætti úrgangsmeðhöndlunar úrgangs í samræmi við ákvæði IV. og V. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Áður en starfsleyfi er veitt fyrir förgun úrgangs er skylt að láta fara fram rannsókn eins og við á hverju sinni á styrk tiltekinna efna, þ.m.t. eiturefna og hættulegra efna í vatni og grunnvatni, sem hætta er á að geti mengast.

 

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

Sorphirðuáætlanir.

19. gr.

19.1 Hollustuvernd ríkisins semur almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt. Gera skal grein fyrir efni áætlunarinnar opinberlega. Endurskoða skal áætlunina reglulega.

19.2 Sveitarstjórnir skulu semja áætlanir, sbr. 1. mgr., sem gilda fyrir viðkomandi svæði og skulu þær byggjast á markmiðum landsáætlunar. Heimilt er að gera sameiginlegar áætlanir fyrir svæði einstakra sorpsamlaga og geta sveitarstjórnir falið hlutaðeigandi, t.d. byggðasamlagi eða heilbrigðisnefnd, að semja áætlunina.

 

Skýrslugerð um meðhöndlun úrgangs.

20. gr.

20.1 Hollustuvernd ríkisins skal sjá um að þriðja hvert ár verði tekið saman yfirlit yfir meðhöndlun úrgangs á landinu og skal yfirlitið byggt á upplýsingum frá heilbrigðisnefndum. Í yfirlitinu skal a.m.k. koma fram eftirfarandi:

a) magn, tegundir og uppruni úrgangs,

b) endurnýting og endurvinnsla úrgangs,

c) tæknilegar kröfur til förgunar úrgangs,

d) yfirlit yfir hentug svæði þar sem úrgangur kann að verða urðaður.

 

Samþykktir og gjaldskrár sveitarfélaga.

21. gr.

21.1 Sveitarfélögum er heimilt að setja nánari ákvæði um meðhöndlun úrgangs í samþykktir samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

21.2 Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu sorphirðugjalda samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

IX. KAFLI

Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

Aðgangur að upplýsingum.

22. gr.

22.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þagnarskylda eftirlitsaðila.

23. gr.

23.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

23.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

 

Valdsvið og þvingunarúrræði.

24. gr.

24.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á.  Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

 

Viðurlög.

25. gr.

25.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

25.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

 

 

X. KAFLI

Lagastoð, gildistaka o.fl.

26. gr.

26.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna.

26.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 27 og 2aa XX. viðauka EES-samningsins, (tilskipun 75/442/EBE, sbr. 91/156/EBE, og ákvörðunum 94/3/EB, 96/350/EB og 94/741/EB).

26.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi 13., 14., 15., 16., 17., 18. og 19. gr. og V. kafli heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 með síðari breytingum.

 

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

 

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica