REGLUGERÐ
um samvinnunefnd um málefni norðurslóða.
1. gr.
Samvinnunefnd um málefni norðurslóða skal stuðla að og efla samstarf um rannsóknir á norðurslóðum og málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar skv. lögum nr. 81/1997.
2. gr.
Umhverfisráðherra skipar samvinnunefndina til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti 11 fulltrúar. Þrír skulu skipaðir án tilnefningar, bæði formaður og varaformaður.
Eftirtaldar stofnanir tilnefna einn fulltrúa hver:
Hafrannsóknarstofnun,
Háskólinn á Akureyri,
Háskóli Íslands,
Hollustuvernd ríkisins,
Náttúrufræðistofnun Íslands,
Rannsóknarráð Íslands,
Rannsóknarstofnun landbúnaðarins og
Veðurstofa Íslands.
3. gr.
Formaður nefndarinnar skal jafnframt vera formaður stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og varaformaður nefndarinnar skal vera varaformaður stjórnarinnar. Samvinnunefndin tilnefnir einn fulltrúa í stjórn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og annan til vara til fjögurra ára í senn.
4. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. gr. laga nr. 81/1997, um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, öðlast gildi þegar við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 1. ágúst 1997.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.