REGLUGERÐ
um vigtun sjávarafla
1. gr.
Í reglugerð þessari merkir:
Heimavigtunarleyfi: Leyfi til að endanleg vigtun afla fari fram í fiskvinnslustöð eða á fiskmarkaði, án þess að aflinn hafi áður verið vigtaður á hafnarvog.
Endurvigtunarleyfi: Leyfi til að endanleg vigtun afla fari fram í fiskvinnslustöð eða á fiskmarkaði, enda hafi aflinn áður verið vigtaður á hafnarvog.
Flutningsnóta: Nóta, gefin út af löggiltum vigtarmanni sem jafnframt er starfsmaður hafnar. Flutningsnóta skal afhent ökumanni flutningstækis sem flytur aflann til endurvigtunar.
Vigtarnóta: Nóta, gefin út af löggiltum vigtarmanni sem jafnframt er starfsmaður hafnar. Á vigtarnótu komi fram lokaniðurstaða vigtunar.
Úrtaksvigtarnóta: Nóta, gefin út af löggiltum vigtarmanni samkvæmt leyfi til endurvigtunar eða heimavigtunar.
I. KAFLI
Vigtun á hafnarvog.
Endanleg vigtun.
2. gr.
Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki viðkomið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Skipstjóra fiskiskips er skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
Skipstjóri vinnslu-, loðnu- og síldarskips svo og skipstjóri veiðiskips sem landar afla erlendis skal strax þegar veiðum er hætt, tilkynna Fiskistofu með símskeyti (telexi, telefaxi) um áætlað aflamagn hverrar fisktegundar eins nákvæmlega og unnt er ásamt fyrirhuguðum löndunarstað og löndunardegi.
3. gr.
Allur afli skal veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Skal við vigtunina nota löggilta vog í eigu viðkomandi hafnar. Vigtun skal framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hefur til þess löggildingu. Sé hafnarvog ekki í viðkomandi verstöð eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur Fiskistofa leyft vigtun með öðrum hætti, sbr. III. kafla og 31. gr.
4. gr.
Allur afli skal veginn ásamt ílátum og ís. Löggiltur vigtarmaður á hafnarvog skal skrá á vigtarnótu tegund, fjölda og áætlaða þyngd íláta og draga frá vegnum afla. Vigtarmanni er einnig heimilt að draga allt að 3% frá vegnum afla vegna áætlaðs íss í afla eftir að hafa gengið úr skugga um að ís sé til staðar. Frádráttur vegna íss skal tilgreindur á vigtarnótu.
5. gr.
Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar og vigtar aflann, gefur út og undirritar vigtarnótu með eftirfarandi upplýsingum:
1. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
2. Löndunarhöfn og löndunardagur.
3. Viðtakandi afla.
4. Vegið aflamagn, sundurliðað eftir tegundum.
5. Undirmálsafli.
6. Tegundir íláta (t.d. kör, kassar, tunnur).
7. Veiðarfæri.
8. Skrásetningarnúmer flutningstækis.
Ökumaður flutningstækis skal kynna sér aflasamsetningu farmsins, og gefa vigtarmanni réttar upplýsingar þar um og gæta þess að upplýsingar á vigtarnótu gefi rétta mynd af farminum.
Ökumaður flutningstækis skal fá afrit af vigtarnótu og afhenda viðtakanda afla. Ökumanni er óheimilt að flytja afla frá löndunarhöfn fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta.
6. gr.
Fari endanleg vigtun afla fram á hafnarvog skal hafnarstjóri eða starfsmaður hans skrá, án ástæðulauss dráttar, upplýsingar af vigtarnótum í aflaskráningarkerfið Lóðs. Sé afli hins vegar vigtaður samkvæmt endurvigtunar- eða heimavigtunarleyfi, skal skrá upplýsingar af úrtaksvigtarnótum í Lóðsinn.
II. KAFLI
Endurvigtun afla í fiskvinnsluhúsum eða á fiskmörkuðum.
Endurvigtunarleyfi.
7. gr.
Fiskvinnsluhúsi eða fiskmarkaði er heimilt að sjá um endanlega vigtun afla, hafi viðkomandi aðili fengið til þess endurvigtunarleyfi sem Fiskistofa gefur út. Einungis er heimilt að endurvigta afla, hafi hann áður verið vigtaður á hafnarvog.
Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar getur ennfremur annast endurvigtun afla, enda sé löggilt vog notuð.
Fiskistofa skal tilkynna hafnaryfirvöldum þegar fyrirtæki fá eða missa leyfi til endurvigtunar.
8. gr.
Aðili er óskar eftir leyfi til að endurvigta afla skal senda skriflega umsókn til Fiskistofu, sem tekur ákvörðun um leyfisveitingu eftir að hafa leitað álits viðkomandi hafnaryfirvalda.
Í umsókninni skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
1. Rök fyrir beiðni um endurvigtunarleyfi.
2. Starfsemi umsækjanda.
3. Nákvæm greinargerð um hvernig verði staðið að vigtun afla, hvers konar vogir verði notaðar og hvenær þær voru löggiltar.
4. Nöfn þeirra löggiltu vigtarmanna sem munu vigta aflann og hvenær þeir hlutu löggildingu. Þá komi fram hjá hverjum hinn löggilti vigtarmaður starfi.
5. Rekstrarform fyrirtækisins og nöfn aðaleiganda.
6. Vinnsluleyfisnúmer.
Vanhæfur telst vigtarmaður ef tengsl hans við hlutaðeigandi fyrirtæki eða forsvarsmenn þess eru til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þó telst löggiltur vigtarmaður ekki vanhæfur þótt hann sé starfsmaður fiskvinnslu eða fiskmarkaðar þar sem vigtun fer fram, enda eigi hann ekki eignaraðild að rekstrinum. Minniháttar hlutafjáreign í almenningshlutafélagi telst ekki eignaraðild í þessu sambandi.
9. gr.
Fari afli til vinnslu í fiskvinnsluhúsi eða á fiskmarkað sem hefur leyfi til endurvigtunar, skal löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar gefa út flutningsnótu þar sem fram kemur eftirfarandi:
1. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
2. Löndunarhöfn og löndunardagur.
3. Viðtakandi afla.
4. Fjöldi íláta og gerð, sundurliðað eftir tegundum afla.
5. Heildarþungi afla og íláta.
6. Sé um að ræða bretti eða palla sem ílátin eru flutt á skal gera grein fyrir fjölda þeirra.
7. Skrásetningarnúmer flutningstækis.
Ökumaður flutningstækis skal kynna sér aflasamsetningu farmsins, og gefa vigtarmanni réttar upplýsingar þar um og gæta þess að upplýsingar á flutningsnótu gefi rétta mynd af farminum.
Ökumaður flutningstækis skal fá afrit af flutningsnótu og afhenda viðtakanda afla. Ökumanni er óheimilt flytja afla frá löndunarhöfn fyrr en hann hefur fengið flutningsnótu afhenta.
10. gr.
Þegar afli er endurvigtaður í fiskvinnsluhúsi eða á fiskmarkaði skal það gert svo fljótt sem verða má. Eftirfarandi reglur gilda um lágmarksúrtak:
1. Kassar |
|
Fjöldi |
Lágmarksúrtak |
1-10 |
allt |
11-100 |
a.m.k. 15%, minnst 10 kassar. |
101-350 |
a.m.k. 6%, minnst 15 kassar. |
351 + |
a.m.k. 2%, minnst 21 kassi. |
2. Kör |
|
Fjöldi |
Lágmarksúrtak |
1-10 |
a.m.k. 50%, minnst 4 kör. |
11-50 |
a.m.k. 20%, minnst 6 kör. |
51 + |
a.m.k. 5%, minnst 10 kör. |
3. Rækjukassar |
|
Fjöldi |
Lágmarksúrtak |
1-10 |
allt |
11-100 |
a.m.k. 15%, minnst 10 kassar. |
101 + |
a.m.k. 2%, minnst 15 kassar. |
Úrtak skal valið af handahófi þannig að það gefi sem réttasta mynd af aflanum.
11. gr.
Löggiltur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita úrtaksvigtarnótu þar sem, auk þess sem segir í 5. gr., skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar fyrir hverja tegund:
1. Fjöldi og gerð íláta sem valin eru í úrtak.
2. Fyrir hvert ílát sem valið er í úrtak skal tilgreina:
a) þunga fisks í hverju íláti
b) þunga íss í hverju íláti
c) þunga íláts.
III. KAFLI
Undanþágur frá vigtun á hafnarvog.
Heimavigtunarleyfi.
12. gr.
Fiskistofa getur veitt undanþágu frá vigtun á hafnarvog, þ.e. heimavigtunarleyfi, að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á viðkomandi löndunarstað. Heimavigtunarleyfi skal þó því aðeins veitt að veruleg vandkvæði séu á því að vega aflann á hafnarvog, eftirlit hafnar sé nægilegt og innra eftirlit fyrirtækisins traust auk þess sem vigtunarbúnaður sé löggiltur og vigtun framkvæmd af löggiltum vigtarmanni.
Um umsókn um heimavigtunarleyfi vísast til ákvæða 8. gr.
Heimavigtunarleyfi má einnig veita í þeim tilvikum þegar loðnu, síld eða öðrum fisktegundum er landað beint úr veiðiskipi í hráefnisgeymslu fiskimjölsverksmiðja.
Loðnu, síld og annan fisk sem landað er á flutningstæki skal vigta á hafnarvog.
13. gr.
Löggiltur vigtarmaður sem annast heimavigtun skal velja úrtak, vigta afla og ganga frá úrtaksvigtarnótum skv. ákvæðum 10.-11. gr.
IV KAFLI
Vigtun á humri.
14. gr.
Um vigtun á humri gilda ákvæði 3. gr.
Heimilt er að veita leyfi til endurvigtunar á humri. Um umsókn um endurvigtunarleyfi á humri vísast til ákvæða 8. gr.
Um vigtun á humri sem er vigtaður samkvæmt endurvigtunarleyfi gilda eftirfarandi ákvæði:
1. Humri, sem kemur slitinn í land, skal hellt í sérbúna ísskilju, ísinn skal fleyttur ofan af og vatn látið síga af humarhölum áður en afli er veginn.
2. Humar sem slitinn er í landi, skal veginn að lokinni afísun áður en honum er pakkað.
3. Heimilt er að vigta heilan humar í umbúðum þegar að lokinni pökkun. Einungis skal draga þyngd umbúða frá heildarþyngd.
Á vigtarnótu skulu koma fram þau atriði sem tilgreind eru í 5. gr.
15. gr.
Þegar umreikna skal slitinn humar yfir í óslitinn skal margfalda vegið magn humarhala með 3,25. Þegar umreikna skal óslitinn humar yfir í slitinn humar skal margfalda vegið magn óslitins humars með stuðlinum 0,308.
V KAFLI
Vigtun á rækju.
16. gr.
Um vigtun á rækju gilda ákvæði 3. gr.
Heimilt er að veita leyfi til endurvigtunar á ísaðri rækju. Um umsókn um endurvigtunarleyfi á ísaðri rækju vísast til ákvæða 8. gr.
Um ísaða rækju sem vigtuð er samkvæmt endurvigtunarleyfi gildir eftirfarandi: Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtunina skal velja úrtak skv. ákvæðum 10. gr. og láta það í sérbúna ísskilju. Hitastig vatns í ísskilju skal ekki vera yfir 15°C. Ísinn skal fleyttur ofan af og vatn látið síga af rækjunni í allt að tvær klukkustundir áður en rækjan er vegin.
Rækjufrystiskip.
17. gr.
Skylt er að landa frystri rækju á Íslandi. Þá skal skipstjóri strax og veiðum er hætt, tilkynna Fiskistofu í símskeyti (telefaxi eða telexi) um áætlað aflamagn eins nákvæmlega og unnt er ásamt fyrirhuguðum löndunarstað.
Rækju sem veidd er vestan 26°00'V og norðan 65°30'N (á Dohrnbanka) skal haldið aðgreindri frá annarri rækju og skal hún vegin sérstaklega.
18. gr.
Lausfryst rækja í pokum og blokkfryst rækja skal vegin skv. ákvæðum 3. gr.
Heimilt er að veita leyfi til endurvigtunar á frystri rækju. Um umsókn um endurvigtunarleyfi á frystri rækju vísast til ákvæða 8. gr.
Um frysta rækju sem vigtuð er samkvæmt endurvigtunarleyfi gildir eftirfarandi:
Endurvigtun fari fram þannig að löggiltur vigtarmaður eða starfsmaður Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins vigtar aflann. Staðið skal að endurvigtun í samræmi við reglur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins frá 1. janúar 1990, um aðferð til ákvörðunar á nettóþyngd sjófrystrar rækju.
19. gr.
Hrárækja og forsoðin rækja sem fryst er í öskjur skal vegin skv. ákvæðum 3. gr. Vigtarmaður á hafnarvog skal draga þyngd umbúða frá vegnu aflamagni. Frá þannig vegnu aflamagni frystrar hrárækju skal síðan draga 10% vegna vatns í afla. Á vigtarnótu sem vigtarmaður gengur frá og undirritar skal koma fram upphafleg vigtun, þyngd umbúða og frádráttur vegna vatns í hrárækju.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að vigta einungis hluta framleiðslunnar enda skal staðið að vigtun, vali á úrtaki og upplýsingaskilum til hafnaryfirvalda skv. ákvæðum 2. og 3. mgr. 22. gr. Um útreikning á afla vísast að öðru leyti til 1. mgr. þessarar greinar.
VI. KAFLI
Vigtun á hörpudiski.
20. gr.
Um vigtun á hörpudiski gilda ákvæði 3. gr.
Vigtarmanni á hafnarvog er þó heimilt að draga allt að 4% frá vegnum afla vegna áætlaðra aðskotahluta í afla. Þessi frádráttur skal koma fram á vigtarnótu og er því aðeins leyfður að vigtarmaður á hafnarvog staðfesti með áritun á vigtarnótu að aðskotahlutir hafi verið í afla við löndun.
VII. KAFLI
Vinnsluskip.
21. gr.
Skipstjórar frystiskipa og skipa er vinna afla í salt, skulu strax þegar veiðum er hætt tilkynna Fiskistofu í símskeyti (telefaxi eða telexi) um áætlað aflamagn hverrar fisktegundar eins nákvæmlega og unnt er ásamt fyrirhuguðum löndunardegi og löndunarstað. Er þeim skylt að landa afurðum sínum á Íslandi.
Frystiskip.
22. gr.
Við löndun úr frystiskipum skal vega hverja framleiðslutegund sérstaklega skv. ákvæðum 3. gr. Heildarþungi á hafnarvog, að frádregnum umbúðum og pöllum, skal lagður til grundvallar útreiknings á afla skipsins skv. reglum sem ráðuneytið gefur út, um nýtingarstuðla og ís í umbúðum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að vigta einungis hluta framleiðslunnar, enda hafi Fiskistofa samþykkt hvernig staðið skuli að vali á úrtaki hjá viðkomandi aðila. Aðili er óskar eftir slíku leyfi skal senda skriflega umsókn til Fiskistofu, sem tekur ákvörðun um leyfisveitingu eftir að hafa leitað álits viðkomandi hafnaryfirvalda, sbr. ákvæði 8. gr.
Löggiltur vigtarmaður skal af handahófi velja það úrtak sem vigta skal þannig að það gefi sem réttasta mynd af framleiðslunni. Vigta skal a.m.k. 20/100 hluta hverrar afurðar sem framleidd er, en þó getur vigtarmaður ákveðið, þegar um er að ræða framleiðslu af sömu tegund úr einni veiðiferð sem er meiri en 20 tonn, að einungis 10/100 hlutar framleiðslunnar verði vegnir og 5/100 hlutar ef framleiðslan er meiri en 100 tonn. Vigtarmaður skal síðan telja fjölda þeirra eininga (t.d. kassa og pakkningar) sem framleiddar voru af hverri afurð og landað úr viðkomandi skipi. Jafnframt skal hann undirrita og ganga frá yfirliti yfir fjölda eininga af hverri afurð sem landað var og skila því til hafnarstjórnar eigi síðar en næsta vinnudag eftir að framleiðslu hefur verið landað. Vega skal úrtakið skv. ákvæðum 3. gr. og draga frá umbúðir og palla. Þungi hverrar tegundar í farmi skal fundinn með því að margfalda fjölda eininga með meðalþunga sýna þeirrar afurðar. Um útreikning á afla vísast að öðru leyti til 1. mgr. þessarar greinar.
Saltfiskskip.
23. gr.
Afli saltfiskskipa skal veginn skv. ákvæðum 3. gr.
Heimilt er að veita leyfi til endurvigtunar á saltfiski. Um umsókn um endurvigtunarleyfi á saltfiski vísast til ákvæða 8. gr.
Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar getur ennfremur annast endurvigtun á afla vinnsluskipa sem verka afla í salt, enda sé löggilt vog notuð.
24. gr.
Endurvigtun á saltfiski skv. ákvæðum 23. gr. skal framkvæmd þannig að afli sem hefur legið minnst fjóra daga í pækli og telst full pækilsaltaður (vatnsinnihald minna en 60%) skal tekinn úr pæklinum, allt laust salt skal slegið af fiskinum og hann veginn af löggiltum vigtarmanni á löggilta vog. Heildarþungi sem er niðurstaða þeirrar vigtunar, skal lagður til grundvallar útreikningi á afla skips þannig:
1. Flattur saltfiskur: Heildarþunginn skal margfaldaður með 1,931 til að reikna út afla skips miðað við slægðan fisk með haus.
2. Söltuð flök: Heildarþunginn skal margfaldaður með 1,428. Síðan skal við útreikning á afla skipsins, miðað við slægðan fisk með haus, leggja til grundvallar afurðastuðla skv. 3. gr. reglugerðar nr. 481/1990, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í vinnsluskipum eða afurðastuðla sem fengist hafa með nýtingarmælingum um borð í veiðiskipinu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 481/1990.
Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun skv. þessari grein skal ganga frá og undirrita vigtarnótu í samræmi við ákvæði 5. gr. Nótunni skal skilað til hafnarstjóra í síðasta lagi næsta virka vinnudag eftir að afli hefur verið veginn.
VIII. KAFLI
Vigtun afla sem fluttur er óunninn á markað erlendis.
25. gr.
Sé fyrirhugað að flytja út til sölu erlendis, óunninn afla í gámum eða með öðru flutningsfari en veiðiskipi, skal skipstjóri veiðiskips tryggja að tilkynnt sé um útflutt aflamagn sundurliðað eftir tegundum til Fiskistofu áður en afli er settur um borð í flutningsfarið. Tilkynning skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té. Sé afli skips fluttur út í fleiri en einum gámi skal skila eyðublaði fyrir hvern gám.
Allur óunninn afli sem ætlaður er til útflutnings skal veginn á hafnarvog í heild sinni enda hafi hann ekki áður verið veginn skv. öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar. Ef ekki er unnt að vega gám á hafnarvog þar sem afla er landað skal vega ílátin á hafnarvog áður en þau eru sett í gáminn. Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar skal gefa út flutningsnótu sbr. 9. gr., sem fylgja skal farmi uns hann er kominn um borð í flutningsfar sem flytur hann á markað erlendis.
26. gr.
Sigli veiðiskip með eigin afla til sölu á markað erlendis, skal skipstjóri, strax þegar skipið hættir veiðum, senda Fiskistofu upplýsingar í símskeyti (telexi eða telefaxi) þar sem tilgreint er magn hverrar fisktegundar, eins nákvæmlega og unnt er. Jafnframt skal tilgreina umboðsmann, sölustað og áætlaðan söludag. Dreifist afli til fleiri söluaðila erlendis skal þess getið sérstaklega. Sama á við ef veiðiskip siglir með loðnu eða síld til löndunar í erlendri fiskimjölsverkmiðju. Landi veiðiskip afla í erlendri fiskimjölsverksmiðju skal við það miðað að veiðiskipið hafi siglt með fullfermi til löndunar þar. Skal í því sambandi leggja burðargetu veiðiskipsins til grundvallar þegar landaður afli (loðna, síld) verður dreginn frá aflamarki skips, enda verði aflamagn ekki sannreynt með öðrum hætti svo fullnægjandi sé að mati Fiskistofu.
27. gr.
Skipstjóri veiðiskips, sem landar afla erlendis og skipstjóri veiðiskips sem flytur óunninn afla úr landi skulu tryggja að umboðsmaður, kaupandi eða uppboðsmarkaður erlendis sendi samdægurs skýrslur með skeyti (telexi eða telefaxi) eða á því formi sem Fiskistofa ákveður, til Fiskistofu eða þess aðila sem hún felur að taka á móti skýrslunum um sölu viðkomandi skips erlendis, þar sem tilgreint er endanlegt magn hverrar fisktegundar, söluverð og skipaskrárnúmer veiðiskips.
Flutningafyrirtækjum sem annast flutning á afla á erlendan markað er skylt að senda Fiskistofu farmskýrslur á því formi sem Fiskistofa óskar og eigi síðar en 24 klst. eftir að flutningsfar lætur úr höfn.
28. gr.
Fiskistofa viðurkennir, að fengnu samþykki sjávarútvegsráðuneytis, erlenda uppboðsmarkaði á grundvelli athugana á vigtunaraðferðum, frágangi á vigtarnótum, uppboðsaðferðum og verðmyndun svo og á stærð markaðarins. Ef afli er seldur á viðurkenndum erlendum uppboðsmarkaði, er heimilt að endurvigta hann þar, enda hafi aflinn verið ísaður og frágenginn til útflutnings um borð í veiðiskipi.
IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
29. gr.
Teljist undirmálsafli að hluta utan aflamarks skal honum haldið aðgreindum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega. Löggiltur vigtarmaður staðfesti á vigtarnótu hversu mikill undirmálsafli er í hverri veiðiferð.
Allur undirmálsafli seldur óunninn erlendis reiknast að fullu til aflamarks.
30. gr.
Hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað skulu hafa umsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla. Hafnaryfirvöld skulu senda Fiskistofu án ástæðulauss dráttar upplýsingar um landaðan afla á hverjum löndunarstað og nota til þess aflaskráningarkerfið Lóðsinn. Hafnaryfirvöld skulu hafa umsjón með að þeim reglum sem settar hafa verið um vigtun á hverjum löndunarstað sé framfylgt. Verði þau vör við að brotið sé gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skulu þau tilkynna það til Fiskistofu.
31. gr.
Leyfi til vigtunar afla, sem ráðuneytið hefur gefið út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu breytast til samræmis við ákvæði reglugerðar þessarar. Fiskistofa skal fyrir 1. maí 1995 hafa lokið endurskoðun leyfa til vigtunar sjávarafla.
Fiskistofa getur að fenginni umsögn viðkomandi hafnarstjórnar, veitt tímabundna undanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar um kröfur til vigtunarbúnaðar eða vigtarmanns, enda séu aðstæður þess eðlis að ekki sé unnt að vigta afla nema slík undanþága sé veitt, s.s. bilun í hafnarvog eða forföll löggilts vigtarmanns.
32. gr.
Fiskistofa getur ákveðið í hvaða formi vigtarnótur, flutningsnótur og úrtaksvigtarnótur skuli vera. Óheimilt er að nota nótur sem eru í öðru formi en Fiskistofa ákveður.
Reglur um meðferð og varðveislu bókhaldsgagna gilda um flutningsnótur, úrtaksvigtarnótur og vigtarnótur.
33. gr.
Úrtaksvigtarnótur skal senda til löndunarhafnar undirritaðar af þeim löggilta vigtarmanni sem sá um vigtunina, eigi síðar en næsta virkan dag eftir að afli var veginn. Berist upplýsingar um endurvigtun ekki til löndunarhafnar innan fjögurra daga frá því afli var fyrst vigtaður, er heimilt að láta upphaflega vigtun aflans gilda.
34. gr.
Telji hafnaryfirvöld upplýsingar sem koma fram á úrtaksvigtarnótu ótrúverðugar skulu þau tilkynna það Fiskistofu.
35. gr.
Eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum hafnaryfirvalda er heimill aðgangur að fiskiskipum, flutningsförum, fiskverkunum og birgðageymslum sem nauðsynlegur er til að vigta afla eða hafa eftirlit með vigtun hans.
36. gr.
Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hafnarsambandi sveitarfélaga, einum tilnefndum af Fiskistofu og einum tilnefndum af samgönguráðherra, auk formanns sem skipaður er af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi vigtun afla. Skal nefndin gera tillögur um fyrirkomulag vigtunar þar sem almennum reglum verður ekki við komið.
37. gr.
Reglugerð þessi gildir um vigtun á afla íslenskra fiskiskipa án tillits til hvar hann er veiddur. Fiskistofu er þó heimilt að víkja frá ákvæðum hennar vegna afla sem veiddur er utan efnahagslögsögu Íslands.
Allur afli er erlend veiðiskip landa til vinnslu hér á landi skal, eftir því sem við verður komið, veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
38. gr.
Skipstjóri fiskiskips ber ábyrgð á að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
39. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum, samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.
Ráðuneytinu er ennfremur heimilt vegna brota á ákvæðum reglugerðar þessarar, að svipta skip leyfi til veiða í tiltekinn tíma, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990.
Þá er Fiskistofu heimilt að svipta vinnslustöðvar, sem fengið hafa leyfi til heimavigtunar eða endurvigtunar á afla, viðkomandi leyfi sé ekki af þeirra hálfu farið að ákvæðum reglugerðar þessarar.
40. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða til þess að öðlast gildi 1. febrúar 1995 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 427, um vigtun sjávarafla frá 26. október 1993, ásamt síðari breytingum.
Sjávarútvegsráðuneytið, 25. nóvember 1994.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.