Brottfallnar reglugerðir

348/1983

Reglugerð um flutning hergagna með loftförum - Brottfallin

1. gr.

Hergögn má eigi flytja með loftförum skráðum á Íslandi eða erlendum loftförum sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir nema með leyfi ráðherra. Sama gildir um loftför er hefja sig til flugs, lenda á eða fljúga yfir íslenskt yfirráðasvæði. Ákvæði þetta á ekki við um Landhelgisgæslu Íslands og íslensk lögregluyfirvöld.

2. gr.

Með hergögnum er í reglugerð þessari átt við:

a) Skotvopn stærri en 5,6 mm að hlaupvídd (22 kaliber), eldvörpur, búnað til myrkvunar eða reykmyndunar, hvers konar skotpalla eða losunarbúnað fyrir sprengjur, eldflaugar, flugskeyti, tundurskeyti og tundurdufl.

b) Skotfæri og aðrar hleðslur í þær tegundir vopna og búnaðar er greinir í a-lið, sem og hand- og jarðsprengjur.

c) Sprengi- og tundurefni ásamt púðri og hvellhettum í búnað samkvæmt a- og b-lið.

d) Sérhvert það tæki sem ætlað er til dreifingar efna í kjarnorku-, lífrænum- eða efnahernaði, sem og hleðslu í þau.

Við skilgreiningu hergagna samkvæmt reglugerð þessari skiptir eigi máli hvort hergagnið er flutt saman sett eða í hlutum.

Til hergagna teljast þó ekki venjuleg veiði- og markskotvopn, sem og neyðar- og viðvörunarbúnaður loftfarsins og annað það sem nauðsynlegt má telja vegna öryggis flugsins, áhafnarinnar og farþeganna. Sama gildir um skotelda o. þ. h., sbr. 1. gr. laga nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda.

3. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 165. gr. laga um loftferðir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, auk þess sem heimilt er að svipta flugrekanda flugrekstrarleyfi, sbr. 86. gr. sömu laga.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 92. gr. og 186. gr. sbr. 188. gr. laga um loftferðir nr. 34 21. maí 1964, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 1. júní 1983.

Matthías Bjarnason.

Ragnhildur Hjaltadóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica