R E G L U G E R Ð
um loðkanínurækt.
1. gr.
1.1 Loðkanínur (oryctolagus cuniculus) nefnast í reglugerð þessari kanínur, sem aldar eru vegna verðmætis ullar (angórakanínur).
1.2 Loðkanínubú nefnast hús og búr, þar sem loðkanínur eru hafðar í ræktun og vörslu.
2. gr.
2.1 Óheimilt er að flytja til landsins loðkanínur nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins, skv. 1. gr. laga nr. 11 frá 23. apríl 1928. Þeir sem óska eftir að flytja loðkanínur til landsins, skulu senda um það skriflega umsókn til landbúnaðarráðuneytisins ásamt upplýsingum um hvaðan dýrin verði keypt, fjölda þeirra, kyn, aldur og auðkenni. Ráðuneytið leitar umsagnar yfirdýralæknis og Búnaðarfélags Íslands um hverja umsókn.
2.2 Heimili landbúnaðarráðuneytið innflutning á loðkanínum, skulu eiganda dýranna sett sérstök fyrirmæli um hvaða varúðarráðstafanir séu nauðsynlegar til að varna því að smitsjúkdómar berist með dýrunum og önnur atriði, er lúta að framkvæmd innflutnings, þ.m.t. sóttkví.
3. gr.
3.1 Áður en loðkanínubú er tekið í notkun, skal héraðsráðunautur kanna aðstöðu alla og sannreyna, að búnaður sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Ráðunautur skal afhenda eiganda búsins vottorð um skoðun á búinu en afrit af vottorðinu skal sent Búnaðarfélagi Íslands og landbúnaðarráðuneytinu. Búnaðarmálastjóri setur nánari reglur um úttekt loðkanínubúa.
4. gr.
4.1 Hús, sem notuð eru fyrir loðkanínubú, skulu einangruð og þannig útbúin, að loftræsting sé góð án þess að dragsúgur myndist. Ef vélknúið loftræstikerfi er notað, skulu afköst þess geta náð 2 m3/klst. á kg. kanínu. Neyðarloftræsting verður að vera til staðar ef bilun verður.
4.2 Niðurfall, sem auðvelt er að hreinsa, skal vera í gólfi.
4.3 Hitastig skal vera á bilinu 10-20 °C og dagleg hitasveifla sem minnst.
4.4 Rakastig skal vera á bilinu 45-70%.
4.5 Ljósstyrkur skal vera á bilinu 10-20 lux, en 75-100 lux við gegningar. Ljós skulu vera slökkt í að minnsta kosti 8 stundir samfleytt á nóttu.
4.6 NH3-magnið í lofti má ekki fara yfir 15 ppm/m3.
4.7 Fóðurgeymslur skulu vera hreinar, þurrar og músa- og rottuheldar.
4.8 Á búum, sem halda fleiri en 1 000 loðkanínur, skal vera vararafstöð og eldsneyti á hana, sem dugar til eðlilegs rekstrar í a. m. k. 5 sólarhringa.
4.9 Viðvörunarkerfi skal vera tengt vélknúnum tækjum.
5. gr.
5.1 Búrasamstæður skulu ekki vera meira en 3 hæðir og auðvelt að fylgjast með kanínunum í þeim. Hæð frá gólfi að lægsta punkti á neðstu hæð búranna skal vera minnst 40 cm. Ekki skulu vera fleiri en 1 kanína á hvern rúmmetra hússins.
5.2 Einstaklingsbúr skulu hafa minnst 0,32 m2 gólfflöt og fyrir fleiri kanínur minnst 0,25 á
kanínu. Gotbúr skulu vera tvískipt og gólfflötur þá samtals 0,8 m2 hið minnsta. Í stað tvískiptra gotbúra má nota búr með áföstum hreiðurkassa. Gólfflötur slíkra búra skal þá vera 0,60 m2 hið minnsta og gólfflötur hreiðurkassans 0,12 m2 minnst, stysta hlið 30 cm og lágmarkshæð 35 cm. Öll búr skulu vera minnst 43 cm á hæð, engin hlið styttri en 45 cm og í þeim mega ekki vera fleiri en þrjár þéttar hliðar.
5.3 Búr skulu vera þannig að gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa og gólfnet þannig gerð að þau særi ekki fætur.
5.4 Ákvæði 5.2 um mál á búrum miðast við kanínur af kyni með meðalþungann 4 kg fullvaxnar. Málin breytast hlutfallslega, þegar um er að ræða kyn með öðrum meðalþunga.
6. gr.
6.1 Loðkanínur skal klippa á minnst 90 daga fresti.
6.2 Rottum, músum, flóm, flugum og fuglum skal útrýma úr loðkanínubúum, ef þeirra verður vart. Bannað er að hafa hunda og ketti í loðkanínubúum.
6.3 Saur og úrgang skal fjarlægja úr búrum það oft að ekki valdi raka eða ólofti. 6.4 Hræjum af loðkanínum skal eytt á þann hátt að frá þeim stafi ekki smithætta.
7. gr.
7.1 Komi upp smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm í loðkanínubúi skal umráðamaður eða eigandi þegar í stað gera viðkomandi héraðsdýralækni aðvart. Skal héraðsdýralæknir samstundis gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari útbreiðslu sjúkdómsins og tjón af hans völdum. Jafnframt skal hann hlutast til um að fá staðfesta sjúkdómagreiningu með því að senda nauðsynleg líffæri eða heil hræ til rannsóknar að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Ennfremur skal hann tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og hafa samráð við hann um frekari sóttvarnaraðgerðir.
7.2 Ef kanínupestar (mysomatosis) verður vart á loðkanínubúi, er hvers konar samgangur, svo sem flutningur dýra eða ferðir manna milli þess bús og annarra, bannaður. Heimilt er héraðsdýralækni, í samráði við yfirdýralækni, að grípa til annarra varúðarráðstafana.
8. gr.
Ákvæði X. kafla búfjárræktarlaganna nr. 31 24. apríl 1973, um forðagæslu gilda um loðkanínubú og skal forðagæslumaður telja kanínur í búunum, athuga húsakost þeirra, hirðingu og fóðrun dýranna.
9. gr.
Um byggingu loðkanínubúa og breytingar á eldri húsum fyrir slík bú, fer eftir gildandi reglum um skipulags- og byggingarmálefni.
10. gr.
Loðkanínur teljast ekki loðdýr í merkingu 1. gr. laga nr. 53 29. maí 1981 um loðdýrarækt og gilda þau lög eða reglugerð nr. 444/1982 um loðdýr og innflutning loðdýra ekki um loðkanínur eða loðkanínubú.
11. gr.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum til ríkissjóðs, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 11 frá 23. apríl 1928 um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins og lögum nr. 77 frá 1. október 1981 um dýralækna og öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi 8. mgr. 15. gr. reglugerðar um loðdýrarækt og innflutning loðdýra, nr. 444 frá 22. júlí 1982.
Ákvæði til bráðabirgða.
Héraðsráðunautar skulu hver á sínu starfssvæði skoða þau loðkanínubú, sem starfandi eru við gildistöku þessarar reglugerðar fyrir 1. júní 1985 og sannreyna að búnaður þeirra sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Fullnægi loðkanínubú sem hafið hefur starfsemi sína fyrir gildistöku reglugerðarinnar, ekki ákvæðum hennar getur landbúnaðarráðuneytið að fenginni umsögn héraðsráðunautar og Búnaðarfélags Íslands veitt tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar, þó ekki lengur en til 1. janúar 1987.
Landbúnaðarráðuneytið, 3. október 1984.
Jón Helgason.
Tryggvi Gunnarsson.