Fasteignaskatt skal leggja árlega á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári, sbr. þó 6. gr., og skal skattstofninn miðast við fasteignamatsverð eignarinnar þann dag.
Fyrir 1. desember ár hvert skal Fasteignamat ríkisins láta sveitarfélögum í té skrár yfir metnar fasteignir í viðkomandi sveitarfélagi. Fyrir 15. janúar ár hvert lætur Fasteignamat ríkisins sveitarfélögum í té slíka skrá endurskoðaða miðað við 31. desember.
Fasteignaskattur skal vera allt að 1/2% af álagningarstofni eftirgreindra fasteigna:
a. íbúða og íbúðarhúsa ásamt lóðarréttindum,
b. erfðafestulanda í dreifbýli, jarðeigna, og allra hlunninda,
c. útihúsa og mannvirkja á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði,
d. sumarbústaða ásamt lóðarréttindum.
Til landbúnaðar, sbr. c-lið 1. mgr., skal telja grasrækt, garðrækt, ylrækt, skógrækt og búfjárrækt aðra en fiskeldi, ef lögð er stund á þessar greinar í þeim mæli að talist geti búrekstur eða þáttur í búrekstri.
Fasteignaskattur skal vera allt að 1,32% af álagningarstofni allra annarra fasteigna, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæðis, fiskeldismannvirkja, veiðihúsa og mannvirkja sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu, að meðtöldum lóðum og lóðarréttindum.
Nú er afnotum einstakra hluta fasteignar, sem metin er sem ein heild, á þann veg háttað að greiða ber fasteignaskatt af henni samkvæmt báðum gjaldflokkum 2. og 3. gr. og skulu þá þeir sem annast mat nýbygginga og endurbóta fasteigna ákveða hlutfallslega skiptingu matsverðs slíkra eigna eftir afnotum.
Til grundvallar skiptingu matsverðs samkvæmt grein þessari skal leggja eignarhlutföll í eignaskiptayfirlýsingu eða rúmmál þess húsnæðis sem er tengt hvorum húshluta. Sveitarstjórn skal þó heimilt að ákvarða hámark lóðarverðs er fylgt geti íbúðarhúsnæði, þegar svo stendur á, að viðskiptaáhrifa gætir í lóðarverði.
Þegar fasteign sem skattskyld er skv. 2. gr. er notuð hluta úr ári með þeim hætti að skattskyld sé skv. 3. gr., er sveitarstjórn heimilt að hækka skattinn í réttu hlutfalli við slík afnot.
Sveitarstjórn er heimilt að hækka hundraðshluta þá sem tilgreindir eru í 2. og 3. gr. um allt að 25%.
Í sveitarfélagi þar sem bæði er þéttbýli og dreifbýli er sveitarstjórn heimilt að undanþiggja fasteignir í dreifbýli og sumarhús álagi á fasteignaskatt skv. 1. mgr.
Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur, skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús og hús annarra ríkja að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum. Sama gildir um lóðir slíkra húsa.
Ef fasteign, sem undanþegin er fasteignaskatti skv. 1. mgr., er notuð hluta úr ári til atvinnurekstrar, svo sem gistiþjónustu, ber sveitarstjórn að leggja fasteignaskatt skv. 3. gr. á þann hluta eignarinnar sem notaður er við starfsemina, í réttu hlutfalli við notkunartímann.
Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af heilsuhælum, endurhæfingarstöðvum og húsum sem einvörðungu eru notuð til tómstundaiðju sem viðurkennd er af hlutaðeigandi sveitarstjórn. Sama gildir um lóðir þessara húsa. Sveitarstjórn getur sett reglur um beitingu þessa ákvæðis.
Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.
Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð.
Heimilt er sveitarstjórn að fella niður fasteignaskatt af friðuðum húsum.
Þegar sveitarfélag í dreifbýli og sveitarfélag í þéttbýli sameinast er sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags heimilt að ákveða að um tiltekinn tíma, þó ekki lengur en 10 ár frá sameiningu, megi veita tiltekinn afslátt af fasteignaskatti af eignum í dreifbýli vegna mismunandi þjónustu við fasteignaeigendur í dreifbýli og þéttbýli.
Nú eru hús þau sem um ræðir í 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. jafnframt notuð til annars en að framan greinir, svo sem til íbúðar fyrir aðra en húsverði, og ber sveitarstjórn þá að leggja á fasteignaskatt í réttu hlutfalli við slík afnot.
Sveitarstjórn annast álagningu skattsins sem reiknast af heilum þúsundum álagningarstofns og skal sleppa því sem umfram er. Innheimtu skattsins getur sveitarstjórn falið sérstökum innheimtuaðila.
Sveitarstjórn leggur á skatt skv. 4., 6. og 8. gr. miðað við not undanfarandi árs. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sveitarstjórn telur ljóst að afnot fasteignar verður með öðrum hætti en á undanförnu ári.
Sveitarstjórn ákveður hvenær fasteignaskattur fellur í gjalddaga og er henni heimilt að kveða á um að skatturinn sé greiddur með sem næst jöfnum greiðslum á fleiri en einum gjalddaga.
Vangreiðsla að hluta veldur því að fasteignaskatturinn fellur allur í eindaga 15 dögum eftir gjalddaga.
Eigandi greiðir skattinn nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða. Þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda.
Fasteignaskattinum fylgir lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á og gengur hann, ásamt dráttarvöxtum, í tvö ár frá gjalddaga, fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla. Ef hús brennur eftir að skatturinn er fallinn í gjalddaga er sami forgangsréttur fyrir honum í brunabótafjárhæð hússins.
Verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 1. gr. skal vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins í samræmi við lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2001. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um fasteignaskatt nr. 320/1972.