Brottfallnar reglugerðir

26/1989

Reglugerð um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur - Brottfallin

REGLUGERÐ

um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur.

 

1. gr.

Þeir sem vilja öðlast rétt til að vera dómtúlkar og skjalþýðendur samkvæmt lögum nr. 32 frá 2. nóvember 1914 um heimild fyrir stjórnarráðið til að veita mönnum rétt til að vera dómtúlkar og skjalþýðendur skulu, samkvæmt ákvæðum 2. gr. nefndra laga, sanna kunnáttu sína f tungu þeirri sem þeir vilja öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og þýða skjöl úr og á með því að ganga undir löggildingarpróf sem dómsmálaráðuneytið efnir til. Með umsókn um heimild til að fara í slíkt próf skulu fylgja upplýsingar um námsferil, próf og fyrri störf. Einnig skal fylgja vottorð um óflekkað mannorð.

 

2. gr.

Próf skulu að jafnaði haldin annað hvert ár á tímabilinu janúar til maí ef þátttaka er næg. Skal þeim hagað sem hér segir:

 

I.

Skrifleg próf.

a. Fyrri hluti prófsins fer fram undir eftirliti prófstjórnar og er þannig að haldin eru tvö fjögurra tíma skrifleg próf. Þýða skal kafla úr tveimur af eftirfarandi sérmálum: verslunarmáli, lagamáli, sjó- og loftsiglingamáli og tæknimáli. Prófstjórn ákveður f hvaða sérmálum skuli prófað hverju sinni og fær próftaki ekki að vita um þá ákvörðun fyrr en próf hefjast. Verkefni í hvoru prófi er einn kafli til að þýða úr íslensku á hið erlenda mál og annar kafli til að þýða á íslensku úr hinu erlenda máli. Hvor kafli skal vera um 1 blaðsíða sem eru 27-28 línur á DIN A-4 örk vélritaðar eða prentaðar með leturstærðinni 10 stafir á 25 mm. Lína byrjar í 16. sæti. Á prófi má nota orðabækur og önnur hjálpargögn sem tiltæk eru. Við mat á úrlausnum skal áhersla lögð á að merking frumtextans komist til skila, málfar sé gott og að próftaki ráði við stílsérkenni þess sérmáls sem þýtt er á.

b. Annar hluti prófsins er raunhæft heimaverkefni. Próftaki fær tvo kafla til þýðingar, annan á íslensku og hinn á hinu erlenda máli. Skal hvor kafli vera um það bil tvær blaðsíður á lengd og valinn þannig að hann reyni á færni próftaka til að þýða erfiða texta á gott mál og til að leita fanga um lausn á þýðingarvanda sem skjalþýðendur geta þurft að glíma við. Skal próftaki skila heimaverkefni þessu innan viku. Miklar kröfur skulu gerðar um gott mál, viðeigandi stíl og vandaðan frágang. Þegar prófnefnd hefur farið yfir úrlausnir og lagt mat sitt á þær, getur hún krafist þess að próftaki geri grein fyrir þeim munnlega.

 

II.

Munnlegt próf.

Próftaki skal túlka talað mál svo til viðstöðulaust úr íslensku á hið erlenda mál og úr því á íslensku. Skal prófnefnd einkum taka mið af nákvæmni, minni og glöggum skilningi próftaka á því sem mestu máli skiptir. Lengd munnlega prófsins skal vera 20-30 mínútur. Verkefnin skulu vera á segulbandi og vera á raunhæfu en eðlilegu máli, til dæmis vitnaleiðsla fyrir rétti. Skal próftaki túlka verkefnið í stuttum lotum, þ.e., hæfilega langa efnisbúta í einu, eins og tíðkast við réttarhöld.

 

3. gr.

Prófstjórn skal halda námskeið fyrir þá sem hyggjast þreyta próf. Skal þar leiðbeint um frágang skjala, þýðingartækni og notkun hjálpargagna. Námskeiðið skal eigi vera skemmra en 4 kennslustundir.

Þeir sem óska þátttöku í slíku námskeiði skulu greiða fyrir það gjald sem dómsmálaráð­herra ákveður.

 

4. gr.

Þeir sem óska eftir að ganga undir próf skulu við innritun til prófs greiða prófgjald sem dómsmálaráðherra ákveður og skal það miðað við að það nægi fyrir kostnaði við prófun. Gjaldið er óendurkræft þótt próftaki standist ekki prófið eða mæti ekki til prófs.

 

5. gr.

Dómsmálaráðherra tilnefnir í hvert sinn prófnefnd sem skal skipuð oddamanni og tveimur meðprófdómendum fyrir hvert það mál sem prófað er í. Skulu prófdómendur þessir vera úr röðum löggiltra skjalþýðenda ef kostur er. Skulu þeir í sameiningu taka til verkefni, dæma úrlausnir og gera ráðuneytinu grein fyrir úrskurði sínum. Við mat úrlausna skulu prófdómendur hafa í huga að tryggja hag þeirra sem notfæra sér þjónustu löggiltra dómtúlka og skjalþýðenda.

Ráðherra skipar til 4 ára í senn þriggja manna prófstjórn til að sjá um undirbúningsnám­skeið skv. 3. gr. framkvæmd prófs og samræmingu starfa prófnefnda.

 

6. gr.

Að prófi loknu skal oddamaður hverrar prófnefndar senda ráðuneytinu sundurliðaða greinargerð undirritaða af öllum prófnefndarmönnum, um niðurstöður prófsins. Skal hún taka fram hvort próftaki hafi kunnáttu og leikni til að öðlast löggildingu sem dómtúlkur og skjalþýðandi, bæði úr íslensku á hið erlenda mál og úr hinu erlenda máli á íslensku. Þó skal heimilt að veita próftaka réttindi sem takmarkast við þýðingar úr einu máli á annað, t.d. af íslensku á erlent tungumál en ekki úr hinu erlenda máli á íslensku. Dómsmálaráðherra veitir löggildingu að fenginni greinargerð prófnefndar.

 

7. gr.

Eigi skal veita löggildingu án prófs. Þó má taka erlenda löggildingu til greina af annað þeirra tungumála sem hún nær til er íslenska. Nú er ekki kostur á prófdómendum í tungumáli sem sótt er um löggildingu í og má þá, ef sérstaklega stendur á, veita hana á grundvelli háskólaprófs og verulegrar reynslu í þýðingum, enda leggi umsækjandi fram fullnægjandi gögn þar um.

 

8. gr.

Heimilt er að veita löggildingu til starfa sem dómtúlkur fyrir heyrnarlausa. Þeir sem óska slíkrar löggildingar skulu sanna hæfni sína fyrir prófnefnd sem dómsmálaráðherra skipar. Gilda ákvæði reglugerðar þessarar um slíkt próf eftir því sem við á.

 

9. gr.

Löggiltir dómtúlkar og skjalþýðendur skulu taka fram í stimpli sínum og upplýsingum um starf sitt, t.d. í símaskrá og auglýsingum, hver réttindi þeirra eru og til hvaða tungumála þau taka.

 

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. gr. laga nr. 32 2. nóvember 1914, um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalþýðendur, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi numin reglugerð um sama efni nr. 4 frá 9. janúar 1980.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 16. janúar 1989.

 

F. h. r.

Þorsteinn Geirsson.

Jón Thors.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica