REGLUGERÐ
um sektargerðir lögreglumanna.
1. gr.
Lögreglumenn hafa heimild til að sekta vegfarendur, sem gerst hafa sekir um brot á umferðarlögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, enda megi telja, að refsing fyrir brotið muni ekki fara fram úr kr. 15.000. Sama gildir um brot á ákvæðum lögreglusamþykkta.
2. gr.
Ríkissaksóknari lætur lögreglustjórum í té skrá yfir brot þau, sem sektarheimild samkvæmt 1. gr. nær til. Í skránni skal tilgreind sektarfjárhæð fyrir hverja tegund brots. Sökunautur skal eiga þess kost að kynna sér skrána, áður en hann fellst á að ljúka máli með þessum hætti. Prenta má skrána eða hluta af henni á tilkynningareyðublað, sbr. 3. gr.
3. gr.
Þegar lögreglumaður verður þess áskynja, að vegfarandi hafi framið brot samkvæmt 1. gr. og hann ákveður að nota heimild sína til sektargerðar, skal hann afhenda sakborningi eða festa á ökutæki hans tilkynningu um brot. Í stað tilkynningar er heimilt að afhenda sakborningi gíróseðil. Á tilkynningareyðublaðinu eða gíróseðlinum skal koma fram í stuttu máli lýsing á broti, hvenær það var framið, hvaða refsiákvæði brot varðar við og sakborningi greint frá því að hann eigi þess kost að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar innan viku frá dagsetningu sektarboðs. Þegar gíróseðill er ekki notaður og greiðsla er ekki innt af hendi þegar í stað skal tilgreina greiðslustað á sektargerð.
Greiði sakborningur ekki sekt innan viku er heimilt að ítreka sektarboð og framlengja frestinn um tvær vikur. Fallist sökunautur á þessi málalok og greiði sektina fellur málsókn niður. Að öðrum kosti fellur ákvörðun lögreglumanns úr gildi og tekur þá lögreglustjóri ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála.
4. gr.
Fallist sakborningur á sektargerð lögreglumanns, undirritar hann tilkynningareyðublaðið með nafni sínu og afhendir það lögreglumanni eða á skrifstofu lögreglustjóra ásamt sektargreiðslu. Þegar gíróseðill er notaður skal hann jafnframt undirritaður um samþykki.
5. gr.
Dómsmálaráðuneyti lætur lögreglustjórum í té tilkynningareyðublöð samkvæmt 3. gr. Skulu þau vera tölusett í framhaldandi númeraröð. Þegar gíróseðlar eru notaðir skulu þeir útbúnir í samræmi við fyrirmynd sem ráðuneytið lætur í té.
6. gr.
Lögreglustjórar halda skrá yfir eyðublöð og gíróseðla sem lögreglumönnum eru afhentir. Sektargerðir lögreglumanna skulu færðar í kæruskrá. Þar skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang kærða eða númer ökutækis ef kærði er ekki þekktur, dagsetning og númer ákvörðunar, síðasti greiðsludagur samkvæmt ákvörðun eða ítrekun og niðurstaða máls.
7. gr.
Nú telur ríkissaksóknari að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir sekt eða að málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti og getur hann þá, innan mánaðar frá því að honum barst vitneskja um þau, fellt gerðina úr gildi, enda sé þá ekki liðið ár frá málalokum.
8. gr.
Sektargerðir samkvæmt reglugerð þessari skulu ekki færðar í sakaskrá ríkisins.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. og 5. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 26. mars 1991, öðlast þegar gildi.
Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sektargerðir lögreglumanna nr. 248 29. júní 1992.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 12. maí 1993.
Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn A. Jónsson.