Með EES - lögmanni er í reglugerð þessari átt við þann sem hefur, í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES-ríki), rétt til að stunda sérhæfð þjónustustörf á sviði lögfræði og til að kalla sig einhverju eftirtalinna starfsheita:
Austurríki:Rechtsanwalt
Belgía:Avocat - Advocaat
Danmörk:Advokat
Finnland:Asianajaja/Advokat
Frakkland:Avocat
Grikkland:Dikigoros
Holland:Advocaat
Írland:Barrister, Solicitor
Ítalía:Avvocato
Liechtenstein:Rechtsanwalt
Luxembourg:Avocat-avoué
Noregur:Advokat
Portúgal:Advogado
Spánn:Abogado
Stóra Bretland:Advocate, Barrister, Solicitor
Svíþjóð:Advokat
Þýskaland:Rechtsanwalt
Með heimalandi er í reglugerð þessari átt við það EES-ríki þar sem viðkomandi hefur rétt til að starfa sem sérfræðingur undir einhverju ofangreindra starfsheita.
Þegar EES-lögmaður starfar tímabundið hér á landi skal starfsemi hans vera í samræmi við ákvæði 3. gr. og 2. og 4. mgr. 4. gr tilskipunar ráðsins nr. 77/249EBE um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu.
Íslenskir dómstólar og stjórnsýsluaðilar geta krafið þann sem kynnir sig sem EES-lögmann um gögn sem sanna að hann hafi í heimaríki sínu rétt til að starfa undir einhverju af þeim starfsheitum sem greinir í 1. gr. Er honum þá ekki heimilt að sinna þjónustustarfi fyrr en hann hefur lagt fram tilskilin gögn.
Við þá dómstóla þar sem einkaréttur til málflutnings gildir má EES-lögmaður einungis starfa að málflutningi í samvinnu við héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmann.
Ef EES-lögmaður, sem hyggst annast málflytjendastarf við dómstól þar sem einkaréttur til málflutnings gildir ekki, hefur að mati dómara ekki nægjanlegt vald á íslenskri tungu, skal hann starfa að málflutningnum í samvinnu við aðila sem telst fullnægja skilyrðum til málflutnings fyrir dómstólnum samkvæmt IV. kafla laga um málflytjendur.
Dómstóll getur úrskurðað að EES-lögmanni sé óheimilt að annast málflytjandastarf ef það samrýmist ekki öryggi ríkisins.
EES-lögmenn skulu í störfum sínum hér á landi hlíta í hvívetna sömu starfsreglum og íslenskum lögmönnum og málflytjendum ber að fara eftir samkvæmt íslenskum lögum að undanskildum skilyrðum um búsetu eða skráningu í fagfélag.
Ákvæði laga um málflytjendur gilda um sviptingu leyfis EES-lögmanna til starfa hér á landi.
Dómsmálaráðuneytið skal tilkynna heimaríki viðkomandi EES-lögmanns um allar ákvarðanir varðandi leyfissviptingu hér á landi.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 5. gr. laga um málflytjendur nr. 61/1942, sbr. 5. gr. laga nr. 133/1993, svo og með hliðsjón af 2. tölul. VII. viðauka EES-samningsins (tilskipun 77/249/EBE), öðlast þegar gildi.
EBE tilskipunin, sem vísað er til, er birt í sérritinu EES gerðir S 34, bls. 9 - 10, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C - deild Stjórnartíðinda.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 6. desember 1995.
Þorsteinn Pálsson.
Jón Thors.