REGLUGERÐ
um sakaskrá ríkisins.
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir allt landið og nefnist hún: Sakaskrá ríkisins.
2. gr.
Sakaskrá ríkisins skal færð í tölvu, sem einungis er notuð í þessum tilgangi. Ekki er heimilt að tengja tölvu þá sem notuð er fyrir sakaskrá við aðrar tölvur eða tölvukerfi.
3. gr.
Tilgangur sakaskrár er:
a. að skrá niðurstöður í opinberum málum til notkunar fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla vegna rannsóknar og meðferðar opinberra mála,
b. að veita lögreglu og öðrum sem í III. kafla greinir upplýsingar um sakarferil sem þeim eru nauðsynlegar vegna viðkomandi starfsemi,
c. að vera grundvöllur sakfræðilegra rannsókna og til úrvinnslu á tölfræðilegum upplýsingum um opinber mál.
II. KAFLI
Efni sakaskrár.
4. gr.
Í sakaskrá skal skrá niðurstöður þeirra mála sem ákærendur höfða fyrir dómstólum, ásamt málanúmeri. Í sakaskrá skal þó ekki skrá sýknudóma, nema þegar beitt er öryggisráðstöfunum samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga, eða úrskurði þar sem máli er með öllu vísað frá dómi.
5. gr.
Í sakaskrá skal skrá niðurstöður mála sem lokið er samkvæmt heimild í 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála (lögreglustjórasátt) þegar eitthvað af eftirtöldum atriðum er til staðar:
a. sekt er 20 000 krónur eða hærri,
b. sakborningur er sviptur ökuleyfi,
c. brot varðar við 45. gr. umferðarlaga (ölvunarakstur),
d. sakborningur hefur ekið sviptur ökuleyfi,
e. niðurstaða máls hefur samkvæmt heimild í viðkomandi lögum ítrekunaráhrif á síðari brot,
f. brot varðar við lög um ávana- og fíkniefni,
g. brot varðar við lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda,
h. brot varðar við almenn hegningarlög.
Í sakaskrá skal einnig skrá lögregluáminningar samkvæmt 232. gr. almennra hegningarlaga.
6. gr.
Í sakaskrá skal skrá ákærufrestanir samkvæmt 56. gr. almennra hegningarlaga.
7. gr.
Í sakaskrá skal skrá sömu eða sambærilegar niðurstöður og greinir í 4. - 6. gr. í málum þar sem íslenskir ríkisborgarar eða erlendir menn búsettir hér á landi hafa verið dæmdir til viðurlaga erlendis eða undirgengist viðurlög hjá erlendum stjórnvöldum, enda berist sakaskrá upplýsingar um slíkar niðurstöður.
Með sama hætti skal skrá erlendar ákvarðanir um viðurlög þegar fullnusta þeirra fer fram hér á landi.
8. gr.
Í sakaskrá skal einnig skrá:
a. uppgjöf sakar í málum, sem lokið hefur verið fyrir dómstólum,
b. uppreist æru,
c. náðun og breytingar á skilorðstíma,
d. reynslulausn og breytingar á skilorðstíma,
e. ákvörðun stjórnvalds um að afplána skuli refsingu eða eftirstöðvar refsingar sem gefin hefur verið eftir með skilorðsbundinni náðun eða reynslulausn,
f. endurveitingu réttinda, sem sakborningur hefur verið sviptur með dómi,
g. ákvörðun um niðurfellingu öryggisráðstafana samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga.
9. gr.
Hafi áfellisdómi verið áfrýjað til Hæstaréttar og sakborningur er þar sýknaður skal afmá úr sakaskrá niðurstöður héraðsdóms. Það sama gildir þegar Hæstiréttur ónýtir ákvörðun um viðurlög sem sakborningur hefur undirgengist samkvæmt 124. gr. laga um meðferð opinberra mála, vísar máli frá héraðsdómi eða ómerkir málsmeðferð héraðsdóms.
Þegar áfellisdómar Hæstaréttar eru skráðir í sakaskrá, skal jafnframt afmá innfærslu í skrána um niðurstöðu héraðsdóms.
Þegar mál, sem dæmt hefur verið að sakborningi fjarstöddum, er endurupptekið og dæmt að nýju, skal héraðsdómur tilkynna sakaskrá um þann dóm og skal þá afmá úr sakaskrá fyrri innfærslu um niðurstöður þess máls. Í tilkynningu héraðsdóms til sakaskrár skal koma fram að málið hafi áður verið dæmt.
Þegar ríkissaksóknari fellir úr gildi ákvörðun um viðurlög sem sakborningur hefur undirgengist samkvæmt boði lögreglustjóra afmáir hann jafnframt viðkomandi ákvörðun úr sakaskrá hafi hún verið skráð þar.
10. gr.
Héraðsdómstólar skulu tilkynna sakaskrá um niðurstöður þeirra mála sem skrá á í sakaskrá samkvæmt 4. gr. og g lið 8. gr.
Lögreglustjórar skulu tilkynna sakaskrá um niðurstöður þeirra mála sem skrá á í sakaskrá samkvæmt 5. gr.
Ríkissaksóknari sér um að niðurstöður Hæstaréttar og mál samkvæmt 6. og 7. gr. verði færð í sakaskrá.
Viðkomandi stjórnvöld tilkynna sakaskrá um þau atriði sem skrá á í sakaskrá samkvæmt a-f lið 8. gr.
Ríkissaksóknari ákveður í hvaða formi tilkynningar til sakaskrár skulu vera.
III. KAFLI
Sakavottorð og upplýsingar úr sakaskrá.
11. gr.
Auk þess sem ríkissaksóknari gefur út vottorð úr sakaskrá, sér til afnota, skulu sakavottorð gefin út til eftirtalinna að beiðni þeirra:
a. Hæstaréttar,
b. dómsmálaráðuneytis,
c. umboðsmanns Alþingis,
d. héraðsdómstóla,
e. lögreglustjóra,
f. fangelsismálastofnunar,
g. erlendra lögregluyfirvalda, ákæruvaldshafa og dómstóla vegna meðferðar opinberra mála,
h. til viðkomandi erlendra yfirvalda vegna öflunar ríkisfangs eða ökuleyfis,
i. manns sjálfs enda framvísi viðkomandi fullnægjandi persónuskilríkjum sem sanni að hann sé sá sem óskað er sakavottorðs fyrir. Beiðni skal vera skrifleg og með eiginhandarundirritun. Óski annar en maður sjálfur eftir sakavottorði skal tryggt að viðkomandi hafi heimild til þess. Lögreglustjórum er heimilt að hafa milligöngu um að útvega sakavottorð samkvæmt þessum lið.
Þegar lögreglustjóri óskar eftir sakavottorði til þess að ljúka máli samkvæmt 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála (lögreglustjórasátt) eða vegna útgáfu ökuréttinda og engin innfærsla er í sakaskrá eða ekkert er þar skráð sem hindrar viðkomandi afgreiðslu, er heimilt að staðfesta slíkt, án útgáfu sérstaks vottorðs með áritun á beiðni um sakavottorð.
12. gr.
Ríkissaksóknari getur ákveðið að aðrir opinberir aðilar en þeir sem taldir eru upp í 1. mgr. 11. gr. fái útgefið sakavottorð eða upplýsingar án skriflegs vottorðs, enda hafi þeir lögmæta hagsmuni af því að fá upplýsingar um atriði sem skráð eru í sakaskrá, svo sem vegna starfsráðninga, stöðuveitinga eða sifjamálefna.
Með sama hætti getur ríkissaksóknari ákveðið að sakavottorð eða upplýsingar án vottorðs séu gefin út til stofnana eða fyrirtækja sem stunda starfsemi sem opinbert leyfi eða löggildingu þarf til að reka.
Beiðni um sakavottorð eða upplýsingar án vottorðs samkvæmt þessari grein skal vera skrifleg og skulu þar koma fram upplýsingar um hver sé tilgangur með beiðninni.
Sakavottorð sem gefið er út samkvæmt heimild í 2. mgr. skal sent nafngreindum manni í viðkomandi stofnun eða fyrirtæki og skal tekið fram að hann skuli fara með þær upplýsingar sem tilgreindar eru í vottorðinu sem trúnaðarmál.
13. gr.
Samkvæmt beiðni er ríkissaksóknara heimilt, til notkunar í tilgreindu réttarsambandi, að gefa einstaka upplýsingar úr sakaskrá til einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja, enda sé sýnt fram á lögmæta hagsmuni af því að fá umbeðnar upplýsingar og að þeir hagsmunir séu ríkari en þær að upplýsingunum sé haldið leyndum.
14. gr.
Í sakavottorði skal greina þær upplýsingar sem skráðar hafa verið um viðkomandi mann. Þegar 10 ár eru liðin frá síðustu tímamörkum samkvæmt a-e lið þessarar málsgreinar getur ríkissaksóknari ákveðið að skráðar upplýsingar komi ekki fram á sakavottorði telji hann slíkt ekki nauðsynlegt:
a. lokum afplánunar varðhalds- eða fangelsisrefsingar,
b. lokum reynslutíma reynslulausnar eða náðunar,
c. úrskurði um niðurfellingu öryggisráðstafana samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga,
d. lokum réttindasviptingar eða endurveitingu réttinda,
e. endanlegum dómi eða ákvörðun sem fellur ekki undir liði a-d hér að framan.
IV. KAFLI
Öryggisreglur.
15. gr.
Ríkissaksóknari ákveður hverjir hafi aðgang að sakaskrá og gefur út persónulegt og leynilegt auðkennisorð sem viðkomandi verður að nota til að geta tengst skránni. Auðkennisorð skulu endurnýjuð ekki sjaldnar en einu sinni á ári.
Auðkennisorð skulu ekki vera lesanleg á skjá. Í hvert sinn sem sá, sem aðgang hefur að sakaskrá, víkur frá skjá, skulu gerðar þær ráðstafanir, að áframhaldandi aðgangur krefjist þess að auðkennisorð sé skráð á ný.
16. gr.
Aðgangur að sakaskrá er þrenns konar:
a. til að gera fyrirspurn,
b. til að skrá upplýsingar og til að prenta út sakavottorð,
c. til að leiðrétta og breyta skráðum upplýsingum og til að afmá skráðar upplýsingar. Þegar auðkennisorð er gefið út skal jafnframt ákveðið hvers konar aðgang viðkomandi hefur að sakaskránni.
17. gr.
Í lok hvers vinnudags skal taka öryggisafrit af sakaskránni og það varðveitt í læstri eldtraustri hirslu.
Ekki sjaldnar en með fjögurra vikna millibili skal taka öryggisafrit af sakaskránni og það varðveitt í eldtraustri læstri hirslu í öðru húsnæði en þar sem sakaskráin er varðveitt.
V. KAFLI
Gildistaka ofl.
18. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 26. mars 1991, öðlast gildi 1. júlí 1992.
Frá sama tíma falla úr gildi fyrirmæli um sakaskrá ríkisins og sakavottorð nr. 69 26. mars 1971 og auglýsing um breyting á þeim nr. 151 16. mars 1979.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 29. júní 1992.
Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn A. Jónsson.